Laugardagur 10.8.2019 - 07:55 - Rita ummæli

Tvær gátur Njáls sögu

Brennu-Njáls saga er ekki aðeins lengsta Íslendingasagan, heldur líka sú, sem leynir helst á sér. Ég hef lengi velt fyrir mér tveimur gátum sögunnar í ljósi þeirrar leiðarstjörnu hagfræðinnar, að óskynsamleg hegðun kann að verða skiljanleg, þegar gætt er að þeim skorðum, sem söguhetjum eru settar, valinu um vondan kost eða óþolandi.

Ein gátan er, hvers vegna Gunnar sneri aftur, rauf með því sátt við andstæðinga sína og kostaði til lífinu. Í kvæðinu Gunnarshólma skýrir Jónas Hallgrímsson þetta með ættjarðarást. Sú tilgáta er tímaskekkja, því að sú tilfinning var varla til á Þjóðveldisöld. Í formála Brennu-Njáls sögu skýrir Einar Ól. Sveinsson atvikið með metnaði Gunnars. Hann hafi ekki viljað auðmýkja sig. En sú tilgáta stríðir gegn eðli Gunnars samkvæmt sögunni. Sennilegast er, þegar honum varð litið að Hlíðarenda, þar sem Hallgerður sat eftir, að hann hafi ekki viljað skilja hana eina eftir. Sagan geymir vísbendingu: Í 41. kafla segir, að Hallgerður hafi þjónað Sigmundi Lambasyni „eigi verr en bónda sínum“. Hjónabandið var Gunnari og Hallgerði „báðum girndarráð“, en Gunnar hafði samt fulla ástæðu til að vantreysta Hallgerði.

Önnur gátan er, hvers vegna Njáll hörfaði inn í húsið á Bergþórshvoli, þótt hann vissi, að með því gæfi hann umsátursmönnum færi á brennu. Líklega fyrirgaf Njáll aldrei sonum sínum víg Höskuldar Hvítanessgoða, sem hann unni heitar en þeim. Hann taldi þá eiga refsingu skilið, þótt hann gæti sjálfur ekki framkvæmt hana, þar eð hann var faðir þeirra. Sagan geymir vísbendingu, þegar Njáll segir í 129. kafla, að Guð muni „oss eigi láta brenna bæði þessa heims og annars“. Brennan var öðrum þræði syndaaflausn Njáls fyrir hönd sona hans, þótt hann sæi ef til vill ekki fyrir, að Bergþóra og Þórður Kárason myndu vilja fylgja honum hinsta spölinn.

Við greiningu á aðstæðum verður óskynsamleg hegðun skyndilega skiljanleg. Hinn kosturinn var verri: Gunnar þoldi ekki tilhugsunina um, að Hallgerður lægi með öðrum mönnum. Njáll þoldi sonum sínum ekki að hafa vegið Höskuld Hvítanessgoða og vildi milda refsingu Guðs.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. ágúst 2019. Teikningar eru eftir Jón Hámund og skreyta útdrátt minn á ensku úr Njáls sögu, The Saga of Burnt Njal.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.8.2019 - 11:33 - Rita ummæli

Frá Gimli á Grynningum

Þegar Kristófer Kólumbus fann aftur Vesturheim 1492, eftir að Íslendingar höfðu týnt álfunni fimm hundruð árum áður, kom hann fyrst að einni eyjunni í eyjaklasa, sem hann nefndi Bahamas og merkir grunnsævi. Mætti því nefna eyjaklasann Grynningar á íslensku. Ein eyjan ber nafnið Paradise Island, og ætti því íslenska nafnið að vera Gimli. Bandarísku samtökin Association of Private Enterprise Education, Samtök um einkaframtaksfræði, héldu ársfund sinn í Gimli á Grynningum í apríl 2019, og flutti ég þar erindi 6. apríl um norræna frjálshyggju, eins og ég hef gert víðar á þessu ári.

Norðurlandaþjóðirnar búa að langri og sterkri frjálshyggjuhefð. Til dæmis hafði sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius sett fram kenninguna um samband ávinningsvonar og almannahags í krafti frjálsrar samkeppni á undan Adam Smith, og frjálslyndir sænskir stjórnmálamenn nítjándu aldar beittu sér fyrir víðtækum umbótum, sem hleyptu af stað örum og samfelldum hagvexti í marga áratugi, og má kalla það fyrstu sænsku leiðina. Velgengni Svía á tuttugustu öld hvíldi eins og annarra Norðurlandaþjóða á öflugu réttarríki, opnu hagkerfi og samheldni og sáttarhug vegna samleitni þjóðarinnar. Það var ekki fyrr en árin 1970–1990, sem sænskir jafnaðarmenn lögðu inn á braut ofurskatta og stórfelldra afskipta af atvinnulífinu.

Önnur sænska leiðin, sem farin var 1970–1990, reyndist ófær. Svíar voru lentir öfugum megin á Laffer-boganum svonefnda, þar sem aukin skattheimta hafði ekki í för með sér auknar skatttekjur, heldur minnkandi. Sjá mátti í Svíþjóð þá sviðsmynd, sem Ayn Rand hafði brugðið upp í skáldsögunni Undirstöðunni (Atlas Shrugged), en hún hefur komið út á íslensku: Þeir, sem sköpuðu verðmæti, hurfu ýmist á brott, hættu að framleiða eða fitjuðu ekki upp á nýjungum. Í einkageiranum urðu nánast engin störf til á þessu tímabili, aðeins í opinbera geiranum. En nú reyndist Svíum vel samheldnin og sáttarhugurinn: Með þjóðinni myndaðist óskráð samkomulag frá 1990 og áfram um að fara þriðju sænsku leiðina, sem felst ekki síst í að efla einkaframtak og halda sköttum í hófi. Geta aðrar þjóðir lært margt af Svíum, eins og ég sagði áheyrendum mínum í Gimli á Grynningum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. ágúst 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 27.7.2019 - 05:46 - Rita ummæli

Blaa hagkerfið í Gdansk

Á fyrra helmingi ársins 2019 flutti ég átta fyrirlestra opinberlega, sex þeirra erlendis. Hinn fyrsti þeirra var á ráðstefnu í Gdansk í Póllandi 22. mars um „bláa hagkerfið“, en Anna Fotyga, þingmaður á Evrópuþinginu og fyrrverandi utanríkisráðherra Póllands, boðaði til ráðstefnunnar. Ég lýsti þar stuttlega kvótakerfinu íslenska, sem ég hef skrifað um tvær bækur á ensku, Overfishing: The Icelandic Solution, sem Institute of Economic Affairs gaf út í Lundúnum 2000, og The Icelandic fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út í Reykjavík 2015. Eru bæði ritin aðgengileg ókeypis á Netinu.

Eftir því sem árin hafa liðið, hef ég áttað mig betur á tveimur aðalatriðum kvótakerfisins, og reyndi ég að koma þeim til skila í þessum fyrirlestri. Annað er, hvaða munur er á ókeypis úthlutun seljanlegra aflaheimilda í upphafi eins og þeirri, sem framkvæmd var á Íslandi í áföngum 1979–1990, og opinberum leigumarkaði með aflaheimildir, eins og sumir hagfræðingar börðust fyrir á sínum tíma. Munurinn er, að fyrri aðferðin er hagfræðilega réttari, því að hún er Pareto-hagkvæm, sem kallað er. Breyting er Pareto-hagkvæm, ef enginn tapar og allir eða að minnsta kosti sumir græða á henni. Við ókeypis úthlutun græddi ríkið á hagkvæmari fiskveiðum. Þeir, sem héldu í aflaheimildir sínar og keyptu nýjar, græddu. Þeir, sem seldu aflaheimildir og hættu veiðum, græddu líka. En hefði fiskimiðunum verið lokað og aflaheimildir verið leigðar hæstbjóðendum, þá hefði ríkið að vísu grætt leigutekjurnar. Þeir, sem hefðu haft fjárhagslegt bolmagn til að leigja aflaheimildir, hefðu hvorki grætt né tapað, því að þeir hefðu notað það fé í að leigja aflaheimildir, sem þeir sóuðu áður í offjárfestingar. En þeir, sem hefðu ekki haft bolmagn til að leigja aflaheimildir, hefðu tapað, því að allar þeirra fjárfestingar hefðu í einni svipan orðið verðlausar.

Hitt aðalatriðið er, að enginn verðmætur réttur var tekinn af öðrum, þegar fiskimiðunum var lokað. Eini rétturinn, sem aðrir en kvótahafar voru þá sviptir, var rétturinn til að gera út á núlli, en fiskihagfræðin kennir okkur, að sú verður niðurstaðan, ef fiskimiðin eru opin öllum, því að þá aukast fiskveiðar að því marki, að kostnaður verður jafnmikill ávinningi. Þessi réttur er því eðli málsins samkvæmt verðlaus.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. júlí 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.7.2019 - 18:20 - Rita ummæli

Grænn kapítalismi í Las Vegas

Árlega halda frjálslyndir menn og íhaldssamir í Bandaríkjunum, andstæðingar vinstri stefnu, eins konar uppskeruhátíð, bera saman bækur sínar og sýna kvikmyndir, í Las Vegas undir heitinu „Freedomfest“, frelsisveisla. Er hún mjög fjölmenn og fjölbreytni mikil í vali fyrirlesara og umræðuefna. Mér var boðið að halda þar fyrirlestur 17. júlí 2019 um „grænan kapítalisma“, en um hann skrifaði ég bókarlanga skýrslu á ensku fyrir hugveituna New Direction í Brüssel 2017.

Í fyrirlestrinum gerði ég greinarmun á hófsamri umhverfisverndarstefnu (wise use environmentalism), þar sem stefnt er að sjálfbærri og arðbærri nýtingu náttúruauðlinda, og öfgaumhverfisstefnu (ecofundamentalism), þar sem náttúran er gerð að sjálfstæðum rétthafa æðri venjulegu fólki og stefnt að friðun frekar en verndun. Benti ég á, að öfgaumhverfisstefna bæri svip af ofsatrú og ætti sínar heilögu kýr eins og hindúasiður.

Ef markmiðið er hins vegar verndun, þá krefst hún raunverulegra verndara. Til dæmis er unnt að breyta veiðiþjófum í Afríku í veiðiverði með einu pennastriki: með því að gera þá að eigendum dýrastofna í útrýmingarhættu, svo sem fíla og nashyrninga, en bein fílanna og horn nashyrninganna eru eftirsótt. Raunhæfasta ráðið til að tryggja skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda er að skilgreina eigna- eða afnotaréttindi á þeim, koma þeim í umsjá. Í því sambandi lýsti ég stuttlega kvótakerfinu í íslenskum sjávarútvegi, en við Íslendingar búum ólíkt flestum öðrum þjóðum við sjálfbært og arðbært kerfi í fiskveiðum.

Úr því að ég var í Bandaríkjunum, gat ég ekki stillt mig um að gera hvalveiðar að umtalsefni, en Bandaríkjamenn hafa lengi krafist þess með nokkrum þjósti, að við hættum hvalveiðum. Virðast hvalir vera umhverfisöfgamönnum sem heilagar kýr. Ég minnti á, að á Íslandsmiðum veiðum við árlega um og yfir einni milljón lesta (tonna) af fiski, en hvalir éta á sama tíma um sex milljónir lesta af sjávarfangi og fiski. Krafa öfgaumhverfissinna er með öðrum orðum, að við fóðrum hvalina á eigin kostnað, en fáum ekki að veiða þá. Þeir verða þá eins og freki bóndinn, sem rekur sauði sína í bithaga annarra, en harðneitar grönnum sínum um nytjar af þeim.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. júlí 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 13.7.2019 - 08:23 - Rita ummæli

Ekki er allt sem sýnist

Eitt meginhlutverk vísindanna er að gera greinarmun á sýnd og reynd, skynveruleika og raunveruleika. Það er að endurskoða og leiðrétta þá mynd af veruleikanum, sem við fáum fyrir tilstilli skynfæranna. Jörðin sýnist til dæmis flöt, en er í raun hnöttótt. Annað dæmi er munurinn á nafnvöxtum og raunvöxtum: Ef maður tekur lán á 5% vöxtum í 3% verðbólgu, þá eru raunvextir 2%, þótt nafnvextir séu 5%.

Mér varð hugsað til þessa greinarmunar á sýnd og reynd, þegar Sjálfstæðisflokkurinn varð níræður á dögunum. Það er alveg rétt, sem jafnan er sagt, að hann varð til, þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust 25. maí 1929. Síðan er iðulega sagt með skírskotun til þess, að í flokknum takist á frjálslynd öfl og íhaldssöm.

Menn mega þó ekki láta nöfnin blekkja sig. Íhaldsflokkurinn var í raun frjálslyndur flokkur, en Frjálslyndi flokkurinn íhaldssamur. Þetta má sjá með því að kynna sér stefnuskrár flokkanna, starfsemi og verk. Jón Þorláksson stofnaði Íhaldsflokkinn 24. febrúar 1924, vegna þess að hann vildi halda í fengið frelsi, eins og hann skýrði út í snjallri grein í Eimreiðinni 1926. Hann vildi verja þetta frelsi gegn nýstofnuðum stéttarflokkum, Framsóknarflokki bænda og Alþýðuflokki verkalýðsrekenda. Ólíkt frjálslyndishugtakinu er íhaldshugtakið afstætt frekar en sjálfstætt: Öllu máli skiptir, í hvað er haldið. Þegar Jón var fjármálaráðherra 1924–1927, jók hann atvinnufrelsi með því að leggja niður ríkisfyrirtæki og lækka skuldir hins opinbera. Sigurður Eggerz, leiðtogi Frjálslynda flokksins, hafði hins vegar verið örlátur á almannafé, á meðan hann var fjármálaráðherra 1917–1920, og safnað skuldum.

Frjálslyndi flokkurinn, sem var að vísu losaralegur sína stuttu starfstíð, lagði megináherslu á ramma þjóðernisstefnu, en hún er auðvitað af ætt íhaldsstefnu frekar en frjálshyggju. Einn aðalmaður Frjálslynda flokksins, Bjarni Jónsson frá Vogi, hafði einmitt sett það skilyrði fyrir stuðningi við stjórn Íhaldsflokksins, að ný ættarnöfn yrðu bönnuð með lögum, því að hann taldi þau óíslenskuleg. Annar forystumaður Frjálslynda flokksins, Benedikt Sveinsson, hafði verið andvígur sambandslagasáttmálanum 1918, því að hann vildi ekki veita Dönum þau réttindi á Íslandi, sem kveðið var á um í sáttmálanum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. júlí 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 6.7.2019 - 08:01 - Rita ummæli

Ásgeir Pétursson

Þótt furðulegt sé, átti Josíf Stalín marga vini í Norðurálfunni um miðja tuttugustu öld. Hér á landi voru þeir raunar fleiri en víðast annars staðar. Flokkur þeirra, sem hafði kastað kommúnistanafninu og kenndi sig við sósíalisma, fékk nær fimmtung atkvæða í þingkosningum 1946 og 1949. Naut hann rausnarlegra, en leynilegra framlaga frá Moskvu, sem auðveldaði honum að reka voldug útgáfufyrirtæki og kosta verkföll í stjórnmálaskyni. Andstæðingarnir sættu ofsóknum og útskúfun, ef og þegar til þeirra náðist, ekki síst rithöfundar. Eins og Þór Whitehead prófessor lýsir í smáatriðum í bókinni Sovét-Íslandi, óskalandinu, beittu kommúnistar ekki aðeins ofbeldi í vinnudeilum, heldur reyndu líka með öllum ráðum að koma í veg fyrir Keflavíkursamninginn 1946. Þeir létu svívirðingar ekki duga, heldur veittust að ráðamönnum á götum úti og fóru að heimilum þeirra.

Það þurfti kjarkmenn til að skora þetta illvíga lið á hólm. Ásgeir Pétursson, sem lést í hárri elli 24. júní 2019, var slíkur kjarkmaður. Hann var laganemi, þegar hann birti árið 1948 tímamótagrein þess efnis, að lýðræðissinnar yrðu að sameinast um að tryggja lög og reglu í landinu. Það féll síðan í hlut hans að skipuleggja varalið til stuðnings lögreglu, þegar kommúnistar gerðu sig líklega til að ráðast á Alþingishúsið 30. mars 1949 og hindra afgreiðslu þingsályktunartillögu um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Tókst að hrinda þeirri árás, en ein áreiðanlegasta heimildin um atburðarásina þann örlagadag er rækilegur hæstaréttardómur frá 1950.

Sennilega er annað framtak Ásgeir síður kunnugt. Hann var aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar í menntamálaráðuneytinu 1953–1956, og er óhætt að segja, að þeir hafi í sameiningu skipulagt gagnsókn lýðræðissinna í menningarmálum. Þeir Guðmundur G. Hagalín og Kristmann Guðmundsson, sem kommúnistar höfðu lagt í einelti, fengu til dæmis störf, þar sem hæfileikar þeirra fengu að njóta sín, og Almenna bókafélagið var stofnað 17. júní 1955 til að búa borgaralegum rithöfundum skjól. Rek ég stuttlega þá sögu í formála bókarinnar Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958, sem Almenna bókafélagið gaf út 1. desember 2018 á 100 ára afmæli fullveldisins. Ásgeir Pétursson var einn þeirra manna, sem stóðu vörð um fullveldi Íslands, þegar á reyndi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. júlí 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.6.2019 - 13:18 - Rita ummæli

Söguleg epli

Á dögunum rakst ég á skopteikningu, þar sem þjónn gengur með epli á bakka að borði, og sitja þar ýmsar kunnar söguhetjur. Fyrst skal telja þau Adam, Evu og höggorminn. Þegar höggormurinn hafði vélað Adam og Evu til að eta af skilningstrénu, kallaði Drottinn til Adams: „Hvar ertu?“ Adam varð svo hræddur, að ávöxturinn stóð í honum og Adamseplið myndaðist. Önnur saga er um þrætueplið, sem falla átti í skaut fegurstu gyðjunni grísku, og Paris af Tróju veitti Afrodítu, eftir að honum hafði verið lofuð Helena hin fagra frá Spörtu. Samkvæmt norrænni goðafræði áttu epli Iðunnar að veita goðunum eilífa æsku, þótt ekki væri ásynjan raunar sýnd á skopteikningunni, kveikju þessa mola.

Í þýska miðaldaævintýrinu um Mjallhvíti segir, að hin illa stjúpa hennar hafi eitrað epli og gefið stúpdóttur sinni, og hafi hún þá fallið í dá. Walt Disney gerði fræga teiknimynd eftir ævintýrinu, en eins og ég hef áður bent hér á, var þar fyrirmynd Mjallhvítar íslensk stúlka, Kristín Sölvadóttir. Í svissneskri þjóðsögu er frá því hermt, að árið 1307 hafi fógeti Habsborgara í Uri-fylki reiðst bogaskyttunni Vilhjálmi Tell, sem vildi ekki beygja sig undir stöng með hatti fógetans. Gaf hann Vilhjálmi kost á því að bjarga lífi sínu og sonar síns, ef hann hitti á epli, sem sett var á höfuð drengsins í hundrað skrefa fjarlægð. Vann Vilhjálmur þetta afrek og gerðist einn af leiðtogum sjálfstæðisbaráttu Svisslendinga. Minnir sagan á þátt af Hemingi Áslákssyni, sem þreytti skotfimi við Harald harðráða. Þegar hann varð hlutskarpari, reiddist konungur og skipaði Hemingi að skjóta í hnot á höfði bróður hans, og tókst honum það.

Oft hefur verið sögð sagan af Ísaki Newton, þegar epli féll á höfuð hans árið 1666, þar sem hann lá upp við tré í garði móður sinnar í Lincoln-skíri, en eftir það uppgötvaði hann þyngdarlögmálið. Stórborgin Nýja Jórvík, New York, er stundum kölluð Stóra eplið, en uppruninn mun vera í ádeiluriti frá 1909, þar sem sagt var, að þetta stóra epli drægi til sín of mikið af hinum bandaríska þjóðarsafa. Nú þekkja margir epli aðallega af tölvufyrirtækinu Apple. Steve Jobs, stofnandi þess, kveðst hafa valið nafnið, eftir að hann hafði verið nokkurn tíma á ávaxtafæði einu saman. Sér hefði fundist nafnið skemmtilegt, óáleitið og andríkt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. júní 2010.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.6.2019 - 10:49 - Rita ummæli

Hvern hefði það skaðað?

Vasílíj Grossman var einn snjallasti rithöfundur Rússlands á valdadögum kommúnista, en fátt eitt hefur verið frá honum sagt á Íslandi. Hann var af gyðingaættum, fæddist í Úkraínu 1905 og varð efnaverkfræðingur. Á fjórða áratug tók hann að gefa sig að skrifum, en gat sér fyrst orð, þegar hann gerðist stríðsfréttaritari og lýsti meðal annars aðkomunni að útrýmingarbúðum nasista. Eftir stríð gældi Stalín við gyðingaandúð og bannaði útkomu svartbókar, sem Grossman og Ílja Erenbúrg höfðu tekið saman um gyðingaofsóknir nasista. Grossman fékk ekki heldur að gefa út tvær mestu skáldsögur sínar, Líf og örlög og Allt fram streymir, því að þær þóttu fjandsamlegar kommúnismanum.

Grossman lauk við Líf og örlög 1960, fjórum árum áður en hann féll frá, ekki orðinn sextugur. Sögusviðið er að nokkru leyti Stalínsgarður 1943, þar sem alræðisríkin tvö, Þýskaland Hitlers og Rússland Stalíns, börðust upp á líf og dauða. Höfundur lætur þá skoðun oftar en einu sinni í ljós, að nasismi og kommúnismi séu greinar af sama meiði. Hann veltir mjög fyrir sér því furðulega fyrirbæri tuttugustu aldar, að menn fremja hryllilega glæpi í nafni háleitra hugsjóna. Ein söguhetjan, rússneski stríðsfanginn Pavljúkov, átti sér hins vegar hversdagslegan draum:

„Frá því að ég var krakki, hefur mig langað að reka eigin búð, þar sem menn gætu keypt allt, sem þá vantaði. Með litlum veitingastað. „Jæja, núna hefurðu verslað nóg, nú skaltu fá þér bjór, smávegis af vodka, bita af grilluðu kjöti!“ Ég hefði boðið upp á sveitamat. Og ég hefði ekki sett upp hátt verð. Bakaðar kartöflur! Fitusprengt beikon með hvítlauk! Súrkál! Og veistu, hvað ég hefði látið fólk fá með drykkjunum? Merg úr beinum! Ég hefði látið þau malla í pottinum. „Jæja, nú hefurðu greitt fyrir vodkað þitt. Nú skaltu fá þér svart brauð og beinmerg!“ Og ég hefði verið með leðurstóla, svo að engin lús gæti komist að. „Þú skalt sitja þarna og láta þér líða vel, við sjáum um þig.“ Nú, ef ég hefði sagt eitt einasta orð um þetta, þá hefði ég verið sendur beina leið til Síberíu. En ég fæ ekki séð, hvernig þetta hefði skaðað nokkurn mann.“

Frjálshyggja snýst um að leyfa Pavljúkovum heimsins að reka búðirnar sínar. Hvern hefði það skaðað?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júní 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.6.2019 - 13:11 - Rita ummæli

Upp koma svik um síðir

Vorið 2003 var stutt í þingkosningar. Helsta kosningamál Samfylkingarinnar var, að Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, væri harðstjóri, sem sigaði lögreglunni á óvini sína. Fréttablaðið, sem þá var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, þótt leynt færi, birti frétt 1. mars um, að stjórn Baugs hefði á öndverðu ári 2002 óttast aðgerðir Davíðs, nokkrum mánuðum áður en lögregla gerði húsrannsókn hjá fyrirtækinu vegna kæru starfsmanns (en sannleiksgildi kærunnar var síðar staðfest af dómstólum). Hafði fundargerðum stjórnarinnar verið lekið í Fréttablaðið. Jón Ásgeir, aðaleigandi Baugs, birti þá yfirlýsingu um, að lekinn væri ekki frá sér. Ritstjóri blaðsins, Gunnar Smári Egilsson, staðfesti þá yfirlýsingu opinberlega. En fáir hafa veitt því athygli, að höfundur fréttarinnar hefur upplýst málið. Reynir Traustason segir beinlínis í bók sinni, Afhjúpun, sem kom út árið 2014, að þessi yfirlýsing sé ósönn (97. bls.). Það merkir auðvitað á mannamáli, að lekinn var frá Jóni Ásgeiri.
Vorið 2009 var aftur stutt í þingkosningar. Þá birti Stöð tvö, sem var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, frétt um það, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði tekið við 30 milljón króna styrk frá FL Group árið 2006, en það var síðasta ár án takmarkana á styrkjum til stjórnmálaflokka. Allir flokkar flýttu sér þá að upplýsa um styrki frá fyrirtækjum það ár. Samfylkingin sagðist (í Fréttablaðinu 11. apríl) hafa fengið 36 milljónir í styrki yfir 500 þúsund krónur frá fyrirtækjum, en Sjálfstæðisflokkurinn kvaðst hafa fengið 81 milljón í styrki yfir eina milljón. Kjósendur gengu með þessar upplýsingar inn í kjörklefann og veittu Sjálfstæðisflokknum ráðningu. En í janúar 2010 birtist skýrsla Ríkisendurskoðunar um styrki fyrirtækja til stjórnmálaflokka árið 2006. Í ljós kom, að Sjálfstæðisflokkurinn hafði þetta ár fengið samtals 104 milljónir króna, sem er í góðu samræmi við veittar upplýsingar, því að munurinn fólst í smærri styrkjum en einni milljón. En Samfylkingin, hafði þá fengið samtals 102 milljónir króna frá fyrirtækjum. Aldrei hefur verið veitt nein skýring á þessu hróplega misræmi. Í Morgunblaðinu 12. janúar 2006 hafði einn samkennari minn, Margrét S. Björnsdóttir, einmitt skrifað: „Það getur verið hætta á að orðtakið; æ sér gjöf til gjalda, eigi við í einhverjum tilvikum og því mikilvægt að öll stærri framlög séu opinber.“

Æ sér gjöf til gjalda, sagði Margrét. Upp koma svik um síðir, segjum við hin.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. júní 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.6.2019 - 12:53 - Rita ummæli

Talnameðferð Pikettys

Hið nýja átrúnaðargoð jafnaðarmanna, franski hagfræðingurinn Thomas Piketty, telur fjármagn hlaðast upp í höndum örfárra manna, svo að leggja verði á alþjóðlega ofurskatta, 80% hátekjuskatt og 5% stóreignaskatt. Máli sínu til stuðnings þylur hann í bókinni Fjármagni á 21. öld tölur um þróun eigna- og tekjudreifingar í mörgum vestrænum löndum, þar á meðal Frakklandi, Bretlandi, Bandaríkjunum og Svíþjóð. Að baki þeim liggja að hans sögn margra ára rannsóknir.
En sýna gögn, að eigna- og tekjudreifing hafi orðið miklu ójafnari síðustu áratugi? Um það má efast. Sumar tölur Pikettys virðast vera mælingaskekkjur frekar en niðurstöður áreiðanlegra mælinga. Til dæmis er eina ástæðan til þess, að eignadreifing mælist nú ójafnari í Frakklandi og víðar en áður, að fasteignaverð hefur rokið upp. Því veldur aðallega tvennt: Ríkið hefur haldið vöxtum óeðlilega langt niðri, og einstök bæjarfélög hafa skapað lóðaskort á margvíslegan hátt, meðal annars með ströngu bæjarskipulagi. (Við Íslendingar þekkjum þetta hvort tveggja.) Ef hins vegar er litið á arð af því fjármagni, sem bundið er í fasteignum, þá hefur hann ekki aukist að ráði síðustu áratugi. Þess vegna er hæpið að tala um, að eignadreifing hafi orðið til muna ójafnari.
Tölur Pikettys um ójafnari tekjudreifingu í Bandaríkjunum vegna skattalækkana Ronalds Reagans virðast líka helst vera mælingaskekkjur. Árið 1981 var jaðarskattur á fjármagnstekjur lækkaður úr 70% í 50%. Þá brugðust fjármagnseigendur við með því að selja skattfrjáls verðbréf á lágum vöxtum, til dæmis skuldabréf bæjarfélaga, og kaupa þess í stað arðbærari verðbréf og aðrar eignir. En þótt tekjudreifingin hefði því ekki breyst, svo að heitið gæti, mældist hún ójafnari. Árið 1986 var jaðarskattur á tekjur síðan lækkaður úr 50% í 28%. Þetta hvatti hátekjufólk eins og lækna og lögfræðinga til að vinna meira og greiða sér frekar laun beint í stað þess að taka tekjurnar út í fríðindum eins og kaupréttar- og lífeyrissamningum. Enn þarf ekki að vera, að tekjudreifingin hefði breyst verulega, þótt hún mældist ójafnari. Piketty notaði líka tölur um tekjur fyrir skatt, en tekjudreifingin var vitanlega miklu jafnari eftir skatt.
Margar fróðlegar greinar um gallana á talnameðferð Pikettys birtast í bókinni Anti-Piketty, sem Cato Institute í Washington gaf út árið 2017.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. júní 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir