Snorri Sturluson var frjálslyndur íhaldsmaður, eins og við myndum kalla það. Fimm helstu stjórnmálahugmyndir hans getur að líta í Heimskringlu og Eglu.
Hin fyrsta er, að konungsvald sé ekki af náð Guðs, heldur með samþykki alþýðu. Haraldur hárfagri lagði að vísu Noreg undir sig með hernaði og sló síðan eign sinni á allar jarðir, en sonur hans, Hákon Aðalsteinsfóstri, bað bændur að taka sig til konungs og hét þeim á móti að skila þeim jörðum. Síðari konungar þurftu að fara sama bónarveg að alþýðu.
Önnur hugmyndin er, að með samþykkinu sé kominn á sáttmáli konungs og alþýðu, og ef konungur rýfur hann, þá má alþýða rísa upp gegn honum. Þetta sést best á frægri ræðu Þórgnýs lögmanns gegn Svíakonungi, en einnig á lýsingu Snorra á sinnaskiptum Magnúsar góða.
Hin þriðja er, að konungar séu misjafnir. Góðu konungarnir eru friðsamir og virða landslög. Vondu konungarnir leggja á þunga skatta til að geta stundað hernað. Þetta sést ekki aðeins á samanburði Haraldar hárfagra og Hákonar Aðalsteinsfóstra, heldur líka á mannjöfnuði Sigurðar Jórsalafara og Eysteins og raunar miklu víðar í Heimskringlu og ekki síður í Eglu.
Af þeirri staðreynd, að konungar séu misjafnir, dregur Snorri þá ályktun, sem hann leggur í munn Einari Þveræingi, að best sé að hafa engan konung. Íslendingar miðalda deildu þeirri merkilegu hugmynd aðeins með einni annarri Evrópuþjóð, Svisslendingum.
Fimmta stjórnmálahugmundin er í rökréttu framhaldi af því. „En ef landsmenn vilja halda frelsi sínu, því er þeir hafa haft, síðan er land þetta byggðist, þá mun sá til vera að ljá konungi einskis fangstaðar á.“ Íslendingar skuli vera vinir Noregskonungs, flytja honum drápur og skrifa um hann sögur, en þeir skuli ekki vera þegnar hans í sama skilningi og Norðmenn.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. október 2019.)

Tveir fróðir menn hafa skrifað mér um síðasta pistil minn hér í blaðinu, en hann var um fræga sögu af orðaskiptum Kristjáns X., konungs Íslands og Danmerkur, og Jónasar Jónssonar frá Hriflu dómsmálaráðherra á steinbryggjunni í Reykjavík 25. júní 1930. Dóttursonur Jónasar, Sigurður Steinþórsson, segir afa sinn hafa sagt sér söguna svo: Konungur hafi spurt: „Så De er Islands lille Mussolini?“ Jónas hafi svarað: „I Deres rige behøves ingen Mussolini.“ Er sagan í þessari gerð mjög svipuð þeirri, sem við Guðjón Friðriksson höfum sagt í bókum okkar. Í pistli mínum rifjaði ég upp, að Morgunblaðið hefði véfengt söguna og sagt hið snjalla tilsvar Jónasar tilbúning hans. Sigurður bendir réttilega á, að Morgunblaðið fjandskapaðist mjög við Jónas um þær mundir, svo að það væri ekki áreiðanleg heimild.
Ætti að mega treysta einhverju, þá ætti það að vera vísindavefur Háskóla Íslands. En
Í gær voru rétt 80 ár liðin frá því, að Stalín og Hitler gerðu griðasáttmála. Þar skiptu þeir með sér Mið- og Austur-Evrópu. Stalín fékk í sinn hlut Eystrasaltsríkin, Finnland og austurhluta Póllands, en Hitler vesturhluta Póllands. Þegar Hitler réðst inn í Pólland að vestan 1. september 1939, sögðu Bretar og Frakkar honum stríð á hendur, en þegar Stalín réðst inn í Pólland að austan 17. september, höfðust ríkin tvö ekki að. Eystrasaltslöndin töldu sig ekki hafa afl til að hafna kröfu Stalíns um herstöðvar. En þegar hann krafðist hins sama af Finnum, neituðu þeir og börðust hetjulega í Vetrarstríðinu svokallaða fram á vor 1940, en urðu þá að lúta ofureflinu.
Brennu-Njáls saga er ekki aðeins lengsta Íslendingasagan, heldur líka sú, sem leynir helst á sér. Ég hef lengi velt fyrir mér tveimur gátum sögunnar í ljósi þeirrar leiðarstjörnu hagfræðinnar, að óskynsamleg hegðun kann að verða skiljanleg, þegar gætt er að þeim skorðum, sem söguhetjum eru settar, valinu um vondan kost eða óþolandi.
Önnur gátan er, hvers vegna Njáll hörfaði inn í húsið á Bergþórshvoli, þótt hann vissi, að með því gæfi hann umsátursmönnum færi á brennu. Líklega fyrirgaf Njáll aldrei sonum sínum víg Höskuldar Hvítanessgoða, sem hann unni heitar en þeim. Hann taldi þá eiga refsingu skilið, þótt hann gæti sjálfur ekki framkvæmt hana, þar eð hann var faðir þeirra. Sagan geymir vísbendingu, þegar Njáll segir í 129. kafla, að Guð muni „oss eigi láta brenna bæði þessa heims og annars“. Brennan var öðrum þræði syndaaflausn Njáls fyrir hönd sona hans, þótt hann sæi ef til vill ekki fyrir, að Bergþóra og Þórður Kárason myndu vilja fylgja honum hinsta spölinn.
Þegar Kristófer Kólumbus fann aftur Vesturheim 1492, eftir að Íslendingar höfðu týnt álfunni fimm hundruð árum áður, kom hann fyrst að einni eyjunni í eyjaklasa, sem hann nefndi Bahamas og merkir grunnsævi. Mætti því nefna eyjaklasann Grynningar á íslensku. Ein eyjan ber nafnið Paradise Island, og ætti því íslenska nafnið að vera Gimli. Bandarísku samtökin Association of Private Enterprise Education, Samtök um einkaframtaksfræði, héldu ársfund sinn í Gimli á Grynningum í apríl 2019, og flutti ég þar erindi 6. apríl um norræna frjálshyggju, eins og ég hef gert víðar á þessu ári.
Nýlegar athugasemdir