Laugardagur 8.1.2022 - 09:48 - Rita ummæli

Frelsiskvöldverðurinn 2021

Atlas Network eru regnhlífarsamtök rannsóknarstofnana um heim allan, sem kanna möguleika á sjálfsprottnu samstarfi í stað valdboðs að ofan, verðlagningar í stað skattlagningar. Breski athafnamaðurinn Sir Antony Fisher kom samtökunum á fót árið 1981, en hann hafði ungur hrifist af frelsisboðskap ensk-austurríska hagfræðingsins Friedrichs von Hayeks og stofnað hina áhrifamiklu Institute of Economic Affairs í Lundúnum árið 1955. Samtökin halda árlega uppskeruhátíð hugmynda, Freedom Dinner, og sat ég hann í Miami í Florida-ríki 14. desember.

Hinn heimsfrægi perúski rithöfundur Mario Vargas Llosa, Nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum 2010, afhenti verðlaun, sem ætluð eru ungum blaðamanni, og hlaut þau Carla Gloria Colomé fyrir skrif sín um fjöldamótmæli Kúbverja síðast liðið sumar gegn kúgunarstjórn kommúnista, sem hafa á hálfri öld breytt Kúbu í eitt fátækasta land Rómönsku Ameríku. Í frelsiskvöldverðinum söng kúbverski rapparinn Yotuel lagið „Patria y Vida“, sem er baráttusöngur mótmælendanna.

Atlas Network veitir árlega sérstaka viðurkenningu þeirri stofnun innan samtakanna, sem þykir hafa tekið merkilegast frumkvæði. Er þessi viðurkenning kennd við fjárfestinn Sir John Templeton og nemur 100 þúsund Bandaríkjadölum. Nú fékk hana Centre for Civil Society í Nýju Delí fyrir viðleitni við að tryggja og auka frelsi og starfsöryggi indverskra götusala, en þótt þeir veiti nauðsynlega þjónustu, hafa afskiptasöm yfirvöld iðulega torveldað starfsemi þeirra.

Þriðju verðlaunin, sem veitt voru í frelsiskvöldverðinum, voru Sir Antony Fisher Achievement Award, og hlaut þau að þessu sinni dr. Tom Palmer, sem sér um alþjóðatengsl hjá samtökunum. Tom er Íslendingum að góðu kunnur, því að hann hefur oft komið hingað til lands, en hann er áhugamaður um íslenskar fornbókmenntir. Í snjöllu þakkarávarpi sagði hann: „Sætasti sigur okkar í rökræðu er ekki að yfirbuga andstæðinginn, heldur að hlusta á hann sex mánuðum eða sex árum seinna endurtaka röksemdir okkar.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. janúar 2022.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.12.2021 - 09:47 - Rita ummæli

Málfrelsi og samfélagsmiðlar

Á ráðstefnu evrópskra íhalds- og umbótaflokka um netfrelsi í Róm 10.–12. desember rifjaði ég upp rökin fyrir mál- og hugsunarfrelsi. Bönnuð skoðun gæti verið rétt, og þá missir mannkynið mikils. Hún gæti verið röng, en þá er mönnum hollt að spreyta sig á því að hrekja hana. Og bönnuð skoðun gæti verið að sumu leyti rétt og að sumu leyti röng. En síðasta áratug hafa komið til sögu tveir öflugir samfélagsmiðlar, Facebook og Twitter, sem hafa skert málfrelsi notenda sinna verulega. Þeir takmörkuðu til dæmis mjög svigrúm til að segja fréttir af afritaðri tölvu Hunters Bidens forsetasonar og til að láta í ljós þá skoðun, að kórónuveiran væri upprunnin í kínverskri tilraunastofu. Nokkrum dögum áður en Donald Trump lét af forsetaembætti, lokuðu bæði fyrirtækin jafnvel reikningum hans.

Sagt er á móti, að þetta séu einkafyrirtæki og megi setja reglur um, hverjum þeir hleypi að. Réttur minn til að segja skoðun mína feli ekki í sér skyldu þína til að hlusta á mig eða hleypa mér að tækjum þínum. En í Róm hélt ég því fram, að vegna einokunaraðstöðu sinnar og eðlis væru þessi fyrirtæki almannamiðlar (common carriers) svipað og einkavegir, gistihús og símafyrirtæki. Þótt vegur sé í einkaeigu, má eigandinn ekki banna konum að aka um hann (eins og gert var í Sádi-Arabíu). Gistihús má ekki neita þeldökkum mönnum um afgreiðslu (eins og gert var í Suður-Afríku). Símafyrirtæki má ekki mismuna eftir trúar- eða stjórnmálaskoðunum. Samkvæmt bandarískum lögum bera Facebook og Twitter ekki ábyrgð á því, hvað menn segja á þeim. En ef þeir taka upp ritskoðun, eins og þeir eru að gera (og þá aðallega á hægri mönnum), þá er eðlilegt, að þeir taki á sig slíka ábyrgð. Annaðhvort verða þeir að vera opnir og ábyrgðarlausir eða lokaðir og ábyrgir þeirra orða, sem á þeim falla.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. desember 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.12.2021 - 09:46 - Rita ummæli

Eðlisréttur og vildarréttur

Í Úlfljóti 2007 birti Sigurður Líndal lagaprófessor 80 bls. ritgerð, í rauninni litla bók, um stjórnspeki Snorra Sturlusonar, eins og hún birtist í Heimskringlu, og hefur þessi merkilega ritsmíð ekki hlotið þá athygli, sem hún á skilið. Sigurður greinir þar á milli tveggja hugmynda um lög og rétt: að hann sé eðlisréttur (natural law) eða vildarréttur (legal positivism). Samkvæmt eðlisrétti eru lögin til ofar valdhöfum og óháð þeim. Heilagur Tómas Akvínas fann uppsprettu eðlisréttarins í mannlegri skynsemi, en Snorri Sturluson í venjum og fordæmi, hinum góðu, gömlu lögum, eins og það er stundum orðað.

Samkvæmt vildarrétti eru lögin hins vegar sett af valdhöfum og til marks um vilja þeirra. Á norðlægum slóðum kom vildarréttur til sögu, þegar ríkisvald efldist á miðöldum. Löggjafinn átti þá að vera konungurinn, einvaldurinn. Þessar tvær hugmyndir um lög og rétt rákust eftirminnilega á, þegar norskur sendimaður, Loðinn Leppur, reiddist því mjög á Alþingi 1281, „að búkarlar gerðu sig svo digra, að þeir huguðu að skipa lögum í landi, þeim sem kóngur einn saman átti að ráða“. Í lýðræðisríkjum nútímans er litið svo á, að lýðurinn sé löggjafinn, þótt í reynd fari kjörnir fulltrúar hans með löggjafarvaldið. En Sigurður benti á, að jafnbrýnt væri að setja löggjafanum skorður, þótt að baki hans stæði meiri hluti í kosningum, og að fornu, þegar hann ríkti sem konungur af Guðs náð.

Kenningin um stjórnarskrárbundið lýðræði hvílir í raun á hugmyndinni um eðlisrétt. Hún er, að til séu almenn sannindi eða lögmál, sem þurfi að vera óhult fyrir lýðræðinu, vildarréttinum, ef svo má segja, svo sem friðhelgi eignarréttarins, atvinnufrelsi, bann við ritskoðun og bann við skattheimtu án lagaheimildar. Þessi almennu sannindi geyma í sér reynsluvit kynslóðanna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. desember 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 4.12.2021 - 09:45 - Rita ummæli

Hver var Snorri?

Ég tók þátt í skemmtilegri málstofu Miðaldastofu í Háskóla Íslands 2. desember um Snorra Sturluson. Þar skýrði ég, hvers vegna ég skipaði Snorra fremst í nýlega bók mína um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn, ásamt heilögum Tómasi Akvínas. Ástæðan er sú, að þeir komu báðir orðum að kenningum, sem John Locke kerfisbatt síðar, þegar hann þurfti að færa rök fyrir byltingunni blóðlausu á Bretlandi 1688. Þessar kenningar voru, að konungar væru seldir undir sömu lög og aðrir og að setja mætti þá af, ef þeir virtu ekki þessi lög. Heimskringlu Snorra má lesa sem viðvörun við konungum, og kemur það skýrast fram í ræðu Þorgnýs lögmanns yfir Svíakonungi og ræðu Einars Þveræings á Alþingi. Raunar gengur Einar Þveræingur svo langt að segja, að Íslendingum sé best að hafa engan konung. Jafnframt benti ég á, að Egill Skallagrímsson væri einn fyrsti raunverulegi einstaklingurinn í mannkynssögunni, og á ég þá við, að hann stígur út úr móðu fjölskyldu, ættbálks og héraðs, reisir konungi níðstöng, steytir hnefa framan í goðin og á sér auðugt tilfinningalíf.

Sverrir Jakobsson sagnfræðiprófessor var andmælandi minn og flutti mál sitt með ágætum. Hann tók undir með mér um stjórnmálahugmyndirnar í Heimskringlu, en gerði aðallega ágreining um tvennt. Í fyrsta lagi væri alls óvíst, að Snorri hefði samið Egils sögu, eins og ég gengi að vísu. Í annan stað hefði Snorri í eigin lífi hegðað sér eins og konungsmaður frekar en andstæðingur konungs. Þótt ég telji sennilegt, að Snorri hafi samið Egils sögu (eins og flestir fornfræðingar), ætla ég ekki að hætta mér út í deilur um það. En ég lét hins vegar í ljós þá skoðun, að aðalheimildarmaðurinn um Snorra, frændi hans Sturla Þórðarson, væri hlutdrægur. Treysta ætti honum varlega.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. desember 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 27.11.2021 - 09:44 - Rita ummæli

Hengdur fyrir að selja okkur fisk!

Þegar ég átti leið um Prag á dögunum, var mér boðið á alþjóðlega kvikmyndahátíð, helgaðri alræðisstefnu, nasisma og kommúnisma. Þar horfði ég á nýja heimildarmynd eftir tékkneska kvikmyndagerðarmanninn Martin Vadas, Rudolf Slánský: Sér grefur gröf … Við gerð hennar notaði Vadas efni, sem fannst fyrir tilviljun vorið 2018, upptökur af hinum alræmdu Slánský-réttarhöldum í nóvember 1952, þegar fjórtán kommúnistaleiðtogar voru leiddir fyrir rétt í Prag og dæmdir fyrir njósnir, skemmdarverk og undirróður. Þeirra kunnastur var Slánský, sem verið hafði aðalritari kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu.

Tveir aðrir sakborningar höfðu nokkur tengsl við Ísland. Otto Katz, sem verið hafði ritstjóri kommúnistablaðs Tékkóslóvakíu, notaði dulnefnið André Simone, og Sverrir Kristjánsson þýddi eftir hann bók, sem kom út á íslensku 1943, Evrópa á glapstigum. Sjálfur hafði Katz þýtt úr tékknesku skáldsöguna Sveitastúlkuna Önnu, á þýsku Anna, das Mädchen vom Lande, eftir Ivan Olbracht. Ég hef bent á, að söguþræðir þeirrar bókar og Atómstöðvar Halldórs K. Laxness eru afar líkir, þótt sögusviðið sé annað, og ætti okkar óþreytandi bókmenntarýnir Helga Kress að skrifa um þetta rækilega ritgerð í Sögu, til dæmis undir heitinu Eftir hvern?

Rudolf Margolius var aðstoðarutanríkisviðskiptaráðherra Tékkóslóvakíu, og var honum meðal annars gefið að sök að hafa gert viðskiptasamninga við Ísland. Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins, spurði undrandi í leiðara, hvers vegna ætti að hengja mann fyrir að kaupa fisk af Íslendingum. Magnús Kjartansson, ritstjóri Þjóðviljans, svaraði með þjósti, að réttarhöldin hefðu verið opinber og sönnunargögnin svo sterk, að sakborningar hefðu ekki treyst sér til annars en játa.

Þeir Slánsky, Katz og Margolius voru dæmdir til dauða og hengdir ásamt átta öðrum sakborningum, en þrír hlutu ævilangt fangelsi. Síðar viðurkenndu yfirvöld, að sakargiftir hefðu verið spunnar upp og játningar knúðar fram með pyndingum og falsloforðum. Þetta voru sýndarréttarhöld.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. nóvember 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.11.2021 - 09:43 - Rita ummæli

Hvað er Thatcherismi?

Þegar ég átti leið um Búdapest á dögunum, fékk John O’Sullivan, forstöðumaður Danube Institute þar í borg, mig um að tala á hádegisverðarfundi 10. nóvember um, hvort Margrét Thatcher hefði verið raunverulegur íhaldsmaður. Efnið er honum hugleikið, enda var hann góður vinur Thatchers, skrifaði fyrir hana ræður og aðstoðaði hana við ritun endurminninga hennar.

Ég er sammála ýmum vinstri mönnum um, að Thatcherisma megi skilgreina með tveimur hugtökum, sterku ríki og frjálsum markaði. Í þessu er engin mótsögn fólgin, því að frjáls markaður krefst sterks ríkis, sem lætur sér hins vegar nægja að mynda umgjörð utan um frjáls samskipti einstaklinganna. Það tryggir, að þeir komist leiðar sinnar án árekstra, en rekur þá ekki alla í sömu átt.

Munurinn á Thatcher og ýmsum hörðum frjálshyggjumönnum var, að hún leit ekki á ríkið sem óvætt. Ríkið er nauðsynlegt til að sjá um, að ýmis svokölluð samgæði séu framleidd, til dæmis landvarnir, löggæsla, undirstöðumenntun og framfærsla þeirra, sem geta ekki bjargað sér sjálfir. Ríkið er líka óskráð samkomulag borgaranna um eina heild, ein lög. Þess vegna stofnuðu Íslendingar fullvalda ríki árið 1918: Þeir vildu vera sjálfstæð heild, ekki dönsk hjálenda.

Ég benti enn fremur á það í tölu minni, að frjáls markaður fæli vissulega í sér margvíslegt umrót, en um leið mikinn endurnýjunarmátt. Þótt gamlar heildir hyrfu, mynduðust nýjar. Þess vegna þyrftu íhaldsmenn ekki að óttast frjálsan markað. Nær væri að hafa áhyggjur af þeirri hugmynd, að ríkið ætti að breytast í umhyggjusama, ráðríka fóstru. Þá yrði fátt um þær dygðir, sem íhaldsmenn meta, til dæmis hugrekki, örlæti, vinnusemi, sparsemi og sjálfsbjargarviðleitni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. nóvember 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 13.11.2021 - 09:42 - Rita ummæli

Á Landtmann í Vínarborg

Vínarborg er kunn fyrir sín mörgu góðu kaffihús. Eitt hið frægasta er Landtmann, sem stofnað var 1873, en það er við Hringstræti, nálægt Vínarháskóla og ráðhúsinu. Á dögunum átti ég leið um borgina og leit þá inn á Landtmann. Rifjuðust þá upp fyrir mér sögur af fastagestum.

Einn þeirra var hagfræðingurinn Carl Menger, sem drakk þar jafnan kaffi með bræðrum sínum, Max og Anton. Menger gaf 1871 út bók um lögmál hagfræðinnar, þar sem hann setti fram jaðarnotagildiskenninguna. Hún er í rauninni einföld: Í stað þess að horfa á vöru í heild, brjótum við hana niður í einingar og finnum, hversu margar einingar af einni vöru fullnægja jafnvel mannlegum þörfum og einingar af annarri vöru. Við það mark er jaðarnotagildið hið sama. Verð sérhverrar vöru ætti að vera hið sama og jaðarnotagildi hennar, notagildi síðustu einingarinnar.

Bróðir Carls, Max, átti sæti í fulltrúadeild austurríska þingsins. Seint á áttunda áratug nítjándu aldar spjallaði Carl við einn vin hans, dr. Joachim Landau, sem líka var þingmaður, og sagði: „Eins og stórveldin í Evrópu hegða sér, hlýtur hræðilegt stríð að skella á, jafnframt því sem byltingar verða gerðar. Það mun marka endalok evrópskrar siðmenningar og hagsældar.“

Spá Mengers reyndist ekki vera út í bláinn. Heimsstyrjöld skall á, og kommúnistar hrifsuðu völd í Rússlandi. Snemma árs 1918 sátu þeir Max Weber og Joseph Schumpeter saman á Landtmann. Schumpeter fagnaði því, að nú fengju kommúnistar tækifæri til að prófa kenningar sínar í tilraunastofu. Weber svaraði, að þá yrði þetta tilraunastofa full af líkum. Eftir nokkur frekari orðaskipti rauk Weber á dyr. Schumpeter sat eftir og sagði við vin sinn: „Hvernig geta menn látið svona í kaffihúsi?“ En Weber hafði rétt fyrir sér. Tilraunastofan fylltist af líkum. Kommúnisminn kostaði um eitt hundrað milljón mannslíf á tuttugustu öld.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. nóvember 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 6.11.2021 - 09:40 - Rita ummæli

Balzac og kapítalisminn

Franski hagfræðingurinn Tómas Piketty, sem er nú orðinn einn helsti hugmyndafræðingur vinstri manna, vitnar óspart í ritum sínum í skáldverk landa síns, Honorés de Balzacs, enda telur hann, að tekjudreifing sé að verða eins ójöfn og á dögum Balzacs. Auðurinn sé nánast fastur við fjölskyldur, enda sé arður af stóreignum meiri en hagvöxtur. Hinir ríku séu sífellt að verða ríkari, þótt hinir fátæku séu ekki að verða fátækari.

Ég tók mig til og las þá bók Balzacs, sem Piketty vitnar mest í, Père Goriot, Föður Goriot, sem kom nýlega út í þýðingu Sigurjóns Björnssonar. Ég uppgötvaði, að boðskapur Balzacs er þveröfugur við það, sem Piketty segir. Balzac lýsir vel í þessari skáldsögu, hversu fallvaltur auðurinn er, hversu erfitt er að halda í hann. Ég skipulagði síðan málstofu um bókina í París 28.–31. október 2021, og tókst hún hið besta.

Saga Balzacs gerist á gistiheimili í París á nokkrum mánuðum árin 1819–1820. Einn vistmaðurinn er gamli Goriot, sem var vellauðugur kaupmaður, en hann hefur eytt nær öllum sínum eigum í vanþakklátar og heimtufrekar dætur sínar. Önnur þeirra, Anastasie de Restaud greifynja, á elskhuga, sem er spilafíkill, og hún selur ættargripi manns síns til að greiða skuldir hans. Hin dóttirin, Delphine de Nucingen barónessa, verður líka uppiskroppa með fé, en eiginmaður hennar hefur hætt fjármunum hennar í fjárfestingar, sem hugsanlega skila arði síðar, en gætu líka misheppnast. Hinn dularfulli Vautrin, sem býr ásamt Goriot á gistiheimilinu, hafði ungur tekið á sig sök fyrir ástmann sinn, sem hafði falsað skjöl, og verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir.

Þessar helstu söguhetjur hafa kostað öllu til fyrir ástríður sínar. Þær sátu ekki á eigum sínum eins og ormar á gulli. Þær eyddu ekki ævinni í að klippa arðmiða. Þær lifðu við óvissu. Auðvitað eru þær ýktar. En Piketty hefur rangt fyrir sér um þær og ekki síður um veruleika 21. aldar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. nóvember 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 30.10.2021 - 09:35 - Rita ummæli

Samhengið í íslenskum stjórnmálum

Í árslok 2020 gaf ég út bókina Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers í tveimur bindum. Fyrsti kaflinn er um Snorra Sturluson, enda kemur hann í Heimskringlu orðum að tveimur hugmyndum frjálslyndra íhaldsmanna, sem John Locke batt síðan í kerfi: að konungar ríktu aðeins með samþykki þegnanna og að þá mætti afhrópa, ef þeir skertu hefðbundin réttindi. Rauði þráðurinn í Heimskringlu er, að góðir konungar haldi friðinn og stilli sköttum í hóf, en vondir konungar fari með hernaði og kosti umsvif sín með auknum álögum á alþýðu. Í ræðu Einars Þveræings, sem á að hafa verið flutt á Alþingi árið 1024, gengur Snorri enn lengra og segir, að konungar séu misjafnir og Íslendingum fyrir bestu að hafa engan konung.

Sigurður Líndal prófessor hefur í merkri ritgerð í Úlfljóti 2007 sett fram svipaðan skilning á verki Snorra. En auðvitað stendur Snorri ekki einn. Því hefur ekki verið veitt næg athygli, að Ari fróði setur fram svipaða skoðun í ræðu þeirri, sem hann leggur Þorgeiri Ljósvetningagoða í munn á Alþingi árið 1000. Þorgeir hóf ræðu sína á því að vara við ósætti og barsmíðum manna í milli, eins og tíðkaðist í útlöndum: „Hann sagði frá því, að konungar úr Noregi og Danmörku hefðu haft ófrið og orrustur á milli sín langa tíð, til þess uns landsmenn gerðu frið á milli þeirra, þótt þeir vildu eigi.“

Ari sér konunga bersýnilega ekki sem virðulega umboðsmenn Guðs á jörðu, heldur sem ótínda ófriðarseggi, og þurfi þegnarnir að hafa á þeim taumhald. Hann gerir sér eins og Snorri glögga grein fyrir sérstöðu Íslendinga, sem höfðu lög í stað konunga. Íslendingabók Ara er fyrsta sjálfstæða íslenska bókmenntaverkið, því að áður höfðu aðeins verið færð í letur lögin, ættartölur og þýðingar helgirita. Vart er ofsagt, að með Ara vakni íslensk þjóðarvitund.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. október 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 23.10.2021 - 09:34 - Rita ummæli

Til varnar skattasniðgöngu

Það hefur vakið athygli, að á ráðstefnu um löggæslu og afbrotavarnir á Akureyri 6. október síðast liðinn hélt ég því fram, að skattasniðganga væri frekar dygð en löstur. Skal ég hér rökstyðja mál mitt. Gera verður greinarmun á skattsvikum (tax evasion) og skattasniðgöngu (tax avoidance). Skattsvik eru, þegar maður reynir að fela sumar skattskyldar tekjur sínar eða falsar kostnað á móti tekjum. Hún er ólögleg og siðferðilega röng. Skattasniðganga er hins vegar, þegar maður (eða fyrirtæki) gerir allt, sem hann getur löglega til að lækka skattgreiðslur sínar, þar á meðal að tína til allan kostnað á móti tekjum eða flytja starfsemi úr háskattalandi í lágskattaland. Það er auðvitað villandi að nota þetta gildishlaðna orð. Þegar maður kaupir vöru í Bónus frekar en Hagkaup, af því að hún er þar ódýrari, er hann ekki að sniðganga Hagkaup.

Skattar eru það verð, sem ríkið setur upp fyrir þjónustu sína, en hún er fólgin í að veita þá þjónustu, sem er ekki á færi einstaklinga, af því að um er að ræða svokölluð samgæði, til dæmis landvarnir og löggæslu. Ekki er unnt að takmarka framleiðslu þeirra við þá, sem greiða fyrir þau. Annaðhvort hafa allir þau eða enginn. En hvernig fáum við að vita, hversu mikið af samgæðum fólk vill? Besta ráðið er að skoða, hvert fólk fer, svaraði bandaríski hagfræðingurinn Charles Tiebout í frægri ritgerð. Samkeppni ólíkra svæða um skattgreiðendur leiðir í ljós, hvað fólk vill í raun og veru. Þeir, sem andmæla þessu um eitthvert svæði, eru í raun að segja, að þar sé framleiðsla samgæða ákjósanleg, eins mikil (eða lítil) og skattgreiðendur vilja. Það á sjaldnast við.

Auðvitað mega menn ekki sniðganga lögin. Þeir hafa skyldur við samborgara sína. En það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að þeir reyni að spara sér skattgreiðslur umfram það, sem þeim er skylt. Með því sýna þeir sparsemi, og sparsemi er dygð.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. október 2021.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir