Sunnudagur 25.06.2017 - 10:25 - 1 ummæli

Heilsa Suðurnesjamanna

Á Suðurnesjum búa um 24 þúsund manns. Auk þeirra búa á Ásbrú, þar sem áður voru vistaverur hersins, margir einstaklingar með lögheimili í öðrum landshlutum og ferðamönnum á svæðinu fjölgar jafnt og þétt. Íbúum á Suðurnesjum fjölgaði um 6,6% milli ára og allt þetta fólk þarf á opinberri þjónustu að halda, s.s. heilbrigðisþjónustu, menntun og góðum samgöngum. En fjárveitingarnar frá ríkinu til þessara mála taka ekki mið af fjölgun íbúa á svæðinu og eru enn af skammarlega skornum skammti.

Betri heilsugæsla

Embætti landlæknis lagði á dögunum mat á starfsemi heilsugæslunnar á Suðurnesjum. Þar eru settar fram ábendingar um hvað má betur fara. Heilbrigðisstofnunin er ein mikilvægasta stofnun Suðurnesjamanna og þar er unnið gott starf við erfiðar aðstæður. Það er brýnt að taka málefni stofnunarinnar föstum tökum og taka ábendingar landlæknis alvarlega.

Ein alvarlegasta ábendingin varðar vaktaskipulag heilsugæslulæknanna, um að vaktabyrði þeirra sé of þung og því myndist mikill frítökuréttur sem veldur því að töluvert rót sé á læknum og hugsanlega verði til hagsmunaárekstrar vegna verktöku læknanna á öðrum landssvæðum. Þetta verður að laga, ekki bara á Suðurnesjum heldur einnig á öðrum stöðum þar sem þetta skipulag er viðhaft. Ég er viss um að framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja vill fara eftir ábendingunum en hún gerir lítið ein og sér. Stofnunin verður að fá auknar fjárveitingar í fjárlögum næsta árs til að standa undir kröfunni um eðlilega og sjálfsagða heilbrigðisþjónustu. Þingmenn Suðurkjördæmis mega ekki láta heilbrigðisþjónustu við Suðurnesjamenn afskiptalausa. Við ættum að geta lagst saman á árarnar og staðið með Suðurnesjamönnum enda ríkisstjórnin aðeins með eins manns meiri hluta og stjórnarþingmenn kjördæmisins eru fimm talsins.

Fleiri með krabbamein

Nýlega var í fréttum að skoðuð hefði verið dreifing krabbameina á landinu öllu og Suðurnesin tekin til sérstakrar skoðunar. Þar kom fram að dreifingin sé svipuð á Suðurnesjum og á landsvísu en þó var tvennt sem skar sig úr með afgerandi hætti. Tíðni nýgengis lungnakrabbameins hjá báðum kynjum í Reykjanesbæ er um 40 prósentum hærri en landsmeðaltalið síðustu 10 ár. Þá sýndi sig að á þessum sama tíma var nýgengi leghálskrabbameins tvöfalt hærra í Reykjanesbæ en á landinu öllu. Þetta þarf að rannsaka betur og finna skýringar svo unnt sé að bregðast við. Við Suðurnesjamenn hljótum að krefjast þess. Þó að bent hafi verið á að fleiri reykingamenn séu á Suðurnesjum en annars staðar og að færri Suðurnesjakonur fari í krabbameinsskoðun, þarf að svara spurningum um þennan mikla mun svo sem þessum: Reykja 40% fleiri Suðurnesjabúar en íbúar annarra landssvæða eða reykja þeir sem reykja enn meira en hinir? Hvernig er hægt að sannreyna að fleiri reykingamenn skýri allan þennan mun? Fara helmingi færri Suðurnesjakonur í reglulega krabbabeinsskoðun en konur á öðrum landssvæðum? Ef svo er hvernig stendur á því og er það þá eina skýringin á því að tvisvar sinnum fleiri Suðurnesjakonur greinast með leghálskrabbamein en konur af öðrum landssvæðum? Er mengun eða umhverfisþættir ástæða þess að fleiri Suðurnesjamenn greinast með krabbamein en á öðrum landssvæðum?

Þá staðreynd að fleiri fái krabbamein sem búa á Suðurnesjum en á öðrum landssvæðum má ekki afgreiða með léttúð eða segja að Suðurnesjamenn geti sjálfum sér um kennt og ættu að reykja minna og hundskast í krabbameinsskoðun. Þetta verður að rannsaka og opinberir aðilar verða að bregðast við af ábyrgð og með virðingu fyrir Suðurnesjamönnum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. júní 2017

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Eftir sameiningu Heilsugæslunnar og Sjúkrahúsins í Keflavík, rétt upp úr aldarmótunum, voru aksturskjör heimilislæknanna sagt upp einhliða en sumir þeirra áttu heima í nágranasveitafélögunum, m.a. Reykjavík og Hafnarfirði. Þeir litu svo á að um uppsagnir á ráðningarkjörum þeirra væri að ræða og hættu flestir störfum. Þeir voru sérmenntaðir heilsugæslulæknar og sumir nýkomnir úr löngu sérfræðinámi erlendis. Um árabil hafði Heilsugæslan á Suðurnesjum þá verið rekin af miklum myndarbrag og gæðastjórnun höfð að leiðarljósi. Þar var t.d. orðinn til vísir að göngudeildarþjónustu fyrir sykursjúka og aldraða að frumkvæði heimilislæknanna sjálfra. Því sannaðist síðar þar hið forkveðna „enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“
    http://blog.pressan.is/vilhjalmurari/2010/02/10/er-heilsugaeslan-afgangsstaerd/

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur