Fimmtudagur 25.01.2018 - 10:54 - 2 ummæli

Auðlind á silfurfati

Þorskstofninn hefur aldrei mælst stærri en við síðustu mælingar Hafrannsóknarstofnunar. Það verður því að teljast afar líklegt að tillaga um viðbótarkvóta komi fram fyrir næsta og næstu fiskveiðiár líkt og fyrir það síðasta, enda hefur kvótinn nærri tvöfaldast síðustu 10 fiskveiðiár með lakari þorskstofn að meðaltali en nú mælist, farið úr 130 þúsund tonnum í 258 þúsund tonn. Þorskkvótinn hefur verið aukinn á þremur síðustu fiskveiðiárum um samtals 40 þúsund tonn. Hann var aukinn á þar síðasta fiskveiðiári um 21 þús. tonn, á síðasta fiskveiðiári um 5 þús. tonn og á yfirstandandi fiskveiðiári um 14 þús. tonn. Mælingar Hafrannsóknastofnunar benda eindregið til að kvótinn verði enn aukinn á næstu fiskveiðiárum.

Gjöf frá þjóðinni?
Ef lögum um fiskveiðistjórnun verður ekki breytt á næstu vikum verður viðbótarkvótanum skipt á milli núverandi kvótaeigenda á næsta fiskveiðiári eins og þeim fyrri. Alþingi á að sjálfsögðu að stöðva þann gjafagjörning. Ég er fyrsti flutningsmaður frumvarps um það en meðflutningsmenn eru þingflokkar Samfylkingarinnar og Pírata. Alþingi ætti að lögleiða réttlátari meðferð fiskveiðiauðlindarinnar fyrir hönd eigenda hennar sem allra fyrst. Í það minnsta ætti að stöðva áform ríkisstjórnarinnar um að færa viðbótarkvóta útgerðinni á silfurfati.

Með útboði á viðbótarkvóta fengist verðmæt reynsla af útboðsleiðinni sem gæti nýst vel í ákvörðunum sem óhjákvæmilega þarf að taka um framtíðarskipan fiskveiðistjórnunarkerfisins. Með reglum um útboð væri mögulegt að auðvelda aðkomu útgerða frá viðkvæmari svæðum landsins, stuðla að nýliðun og vinna gegn samþjöppun aflaheimilda.

Ef tækifærið er ekki nýtt verður það útboð sem fyrir er á kvóta styrkt enn frekar, þ.e.a.s. útboð sem nú er í höndum útgerðarinnar sjálfrar. Á þeim útboðsmarkaði fór kílóið af þorski á 170 kr. í haust á meðan að aðeins 22,98 kr. renna til ríkissjóðs í formi veiðigjalds. Skólar og heilbrigðisstofnanir eru á sama tíma í rekstrarvanda vegna fjárskorts og vegirnir að molna undan okkur.

Almenningur hlýtur að krefja stjórnvöld svara við því hvers vegna þau vilja frekar færa útgerðinni viðbótarkvóta á spottprís heldur en að fá fyrir hann markaðsverð og láta tekjurnar renna til velferðarþjónustunnar í landinu.

Greinin birtist fyrst í landshlutablaðinu Suður og slóðin á blaðið er hér: http://fotspor.is/wordpress/wp-content/uploads/2018/01/sudur@_001-016_web.pdf

 

 

Flokkar: Óflokkað

«

Ummæli (2)

  • Árni Páll Árna­son, fyrr­ver­andi formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og ráðherra, tek­ur við stöðu í Brus­sel . Ef við værum í ESB þá væri hér engin útgerð. Þar að auki þá tekst stjórnmálamönnum alltaf að úthluta aurunum í eitthvað allt annan en velferðarþjónustu á ÍSLANDI

  • Sigurður

    Ekki sérlega trúverðugt

    Sami flokkur og gaf makrílinn þegar hann kom, og ansaði engum tillögum um uppboð eða sölu kvóta.

    Allt gefins.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur