Föstudagur 24.7.2015 - 22:43 - FB ummæli ()

Skömminni skilað

Ef enginn myndi nauðga þá myndi enginn þola. Allt of lengi hefur sjónarhornið í kynferðisbrotamálum beinst að þolandanum. Í samfélaginu hefur líka endurspeglast slík umræða. Var hún ekki bara of full? Af hverju var hún að klæða sig svona? Hvað hélt hún að myndi gerast? Þekkt er að þolandinn leiti einnig fyrst skýringa hjá sér. Hvað gerði ég rangt? Gaf ég eitthvað til kynna? Af hverju fór ég heim með honum/henni? Af hverju fór ég þangað? Ef ég hefði… og svo framvegis…

Við vinkona mín ræddum þessi mál í dag þar sem hún komst vel að orði. Ef brotist væri inn í skartgripabúð þá myndi sennilega fáum detta í hug að leita skýringa hjá búðareigandanum. Af hverju var hann með svona glitrandi útstillingar? Af hverju var hún með svona stóran glugga? Hvað hélt búðareigandinn eiginlega að myndi gerast með svona flott dót í glugganum eða allar þessar auglýsingar? Nei, þá leikur enginn vafi á því hver ber ábyrgð á glæpnum. Ábyrgðin og skömmin er innbrotsþjófsins.

Að nauðga annarri manneskju er einn skelfilegasti glæpur sem hægt er að fremja. Það er eins og innbrot í líkama og sálarlíf þolandans sem mun aldrei gleyma. Atburður sem skilur eftir sig flókin einkenni í fyrstu og sára minningu til lengri tíma. Sem betur fer erum við flest vel búin til að fást við áföll og erfiða lífsreynslu og flestir jafna sig smám saman á þeim miklu streitueinkennum sem koma í kjölfar meiriháttar áfalls. Það er alltaf ákveðinn hópur sem gerir það ekki nema með sérhæfðri meðferð.  Rannsóknir sýna að nauðgun er líklegri en önnur áföll til að leiða til áfallastreituröskunar og greinast 30-50% þeirra sem verða fyrir kynferðisbroti með PTSD.

Flest þekkjum við sennilega til fólks sem hefur verið nauðgað. Sumum sem börnum og sumum sem fullorðnum. Sumum oftar en einu sinni. Einhverjir sem lesa þetta munu því miður hafa upplifað þessa ömurlegu lífsreynslu sjálf og enginn atburður er eins. Við vitum líka hversu mikið slíkt brot tekur frá manneskju og hve mikilvægt er að hún fái strax alla þá aðstoð sem hægt er að veita til að jafna sig og byggja sig upp að nýju.

Það verður aldrei endurtekið nógu oft að skömminni á að skila. Hún á ekki heima hjá þér kæri þolandi. Þú gerðir ekkert rangt. Þú berð ekki ábyrgð á afbrotum annarra. Sá sem nauðgar og brýtur á annarri manneskju á að svara til saka fyrir það, rétt eins og innbrotsþjófurinn sem brýst inn í skartgripabúð. Það eina sem þú berð ábyrgð á er að taka stjórnina í þína hendur, leita réttar þíns og láta slíkan atburð ekki skilgreina þig heldur gera þig að sterkari manneskju.

Mætum öll í druslugönguna á morgun. Tökum á kynferðisbrotum, skilum skömminni og rjúfum þögnina. #drusluákall

 

 

Flokkar: Lífið og tilveran

Sunnudagur 28.6.2015 - 21:37 - FB ummæli ()

Vigdís

vigdis-finnbogadottir

 

Í dag eru 35 ár frá því að íslenska þjóðin tók þá kjarkmiklu og afdrifaríku ákvörðun að kjósa konu sem forseta landsins, fyrst allra þjóða. Frú Vigdís Finnbogadóttir hefur markað svo djúp spor að því verður ekki lýst í stuttri bloggfærslu. Vigdís hefur haft mikil áhrif á mig og hún er ein af þeim Íslendingum sem ég held allra mest upp á.

Ég var svo lánsöm að hitta frú Vigdísi í afmælisveislu forsætisráðherra í vor. Það var svo sannarlega einn af hápunktum veislunnar að ræða við hana í stutta stund. Mín upplifun af Vigdísi var sú að hún hefði svipaða nærveru og Dalai Lama en ég hlustaði á hann þegar hann kom til landsins 2009.  Bæði eru þau manneskjur sem eru það stórar að þau koma fram við alla af sömu alúð og virðingu. Þau reyna ekki að vera eitt eða neitt, þau bara eru. Eiginleiki sem marga skortir. Af þeim báðum geislar ólýsanleg orka góðvildar, kærleika og visku.

Það verður aldrei önnur Vigdís forseti Íslands. Helst myndi ég vilja að við gætum kosið hana bara aftur. Vonandi auðnast okkur að kjósa konu sem er í líkingu við Vigdísi. Það væri mikið heillaskref.

Ég vona líka að við getum öll reynt að finna Vigdísi í okkur. Ég hef trú á því að ef við gerum það þá muni okkur farnast betur sem þjóð. Ef við finnum hjá okkur gildi Vigdísar þá munum við græða í stað þess að „græða“, horfa til þess sem sameinar okkur í stað þess sem sundrar, reyna alltaf að læra, stefna á fullkomið jafnrétti, auðga líf okkar með menningu og listum og varðveita það sem skiptir okkur mestu máli sem er land okkar, tungumál, menning og þjóð.

Til hamingju með daginn frú Vígdís Finnbogadóttir og til hamingju með daginn Íslendingar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 31.3.2015 - 09:54 - FB ummæli ()

Dönsum eins og enginn sé að horfa

dance_like_no_one__s_watching_2_by_jklreece-d30tz7dÞennan fallega texta fékk ég á blaði frá frábærri konu sem dreifir gullmolum um allt, alla daga í tengslum við námskeið sem ég var á. Ég kannaðist við síðasta hluta textans sem ég held mikið upp á og fann hann svo í heild sinni á vefnum. Langaði að deila honum með ykkur.

Við sannfærum okkur sjálf um að lífið verði betra eftir að við giftum okkur, eignumst barn og síðan annað barn. Síðan pirrum við okkur á því að krakkarnir verði nógu gamlir og við erum sannfærð um að við verðum betur stödd þegar að því kemur. Næst erum við örg yfir því að við þurfum að eiga unglinga. Við munum svo sannarlega verða hamingjusöm þegar því skeiði verður lokið. Við teljum sjálfum okkur trú um að líf okkar verði fullkomið þegar maki okkar tekur til í sínum málum, þegar við fáum betri bíl, þegar við fáum tækifæri til að fara í gott frí eða þegar við setjumst í helgan stein. 

Sannleikurinn er sá að það er ekki og verður aldrei til betri tími til að vera hamingjusamur en einmitt núna. Ef ekki núna, hvenær þá. Lífið verður alltaf fullt af áskorunum og viðfangsefnum. Það er best að viðurkenna þetta fyrir sjálfum okkur og ákveða að vera hamingjusöm engu að síður, á hverjum degi.
Vinur minn sagði eitt sinn. Í langan tíma hafði mér virst sem líf mitt væri í þann mund að hefjast – hið raunverulega líf. En alltaf var einhver hindrun í veginum, eitthvað sem þurfti að eignast fyrst, einhver óútkljáð mál, mig vantaði tíma til að sinna hlutunum og alltaf voru einhverjar ógreiddar skuldir. Þá loks gæti ég byrjað að lifa lífinu. Að lokum rann upp fyrir mér ljós. Þessar „hindranir“ eru líf mitt. Þetta sjónarhorn hjálpar okkur að sjá að það er engin leið til að hamingjunni.

Hamingjan er leiðin.

Svo að varðveittu og lærðu að meta hvert augnablik sem þú átt. Lærðu að meta það meira vegna þess að þú deildir því með einhverjum sérstökum, nógu sérstökum til að eyða tíma þínum með..og mundu að tíminn bíður ekki eftir neinum!
Hættu að bíða, bíða eftir að þú klárir þetta eða hitt, eftir að þú missir nokkur kíló, eftir að þú náir á þig nokkrum kílóum, hættu að bíða eftir að þú eignist börn og barnabörn og eftir að börnin flytji að heiman, eftir að þú byrjir að vinna, að þú hættir að vinna, að þú giftist, að þú skiljir, eftir laugardagskvöldinu eða sunnudagsmorgninum, hættu að bíða eftir nýja bílnum, eftir að þú sért búinn að borga upp bílinn eða húsið, eftir vorinu, sumrinu, haustinu, vetrinum. Hættu að bíða eftir því að þú fáir þér drykk og svo að bíða eftir því að það renni af þér. Hættu að bíða eftir því að þú deyir.. Hættu að bíða eftir að ákveða að, Það er enginn tími betri en einmitt núna, til að vera hamingjusamur…..

Hamingjan er ferðalag, ekki áfangastaður.

Í dag er tími til að; vinna eins og
þú þurfir ekki á peningum að halda,
elska eins og enginn hafi nokkurn tíma sært þig,
og dansa eins og enginn sé að horfa…

(http://www.est.is/~gol/tolublad7_4_04.htm)

Flokkar: Lífið og tilveran

Miðvikudagur 18.3.2015 - 23:46 - FB ummæli ()

Getur þú svarað þessum tveimur mikilvægu spurningum?

Ég sótti áhugaverðan morgunverðarfund í morgun á vegum Náum áttum hópsins. Þar fór fram góð umræða um geðheilbrigðismál ungs fólks. Hér má sjá mjög góða frétt um fundinn.

Í máli Sigrúnar Daníelsdóttur sálfræðings og verkefnastjóra hjá Embætti landlæknis kom fram að 75% geðraskana hafa komið fram fyrir 25 ára aldur.

Á fundinum vaknaði forvitni mín á tveimur spurningum.

1. Hversu hátt hlutfall af útgjöldum til geðheilbrigðismála fara til fólks á aldrinum 0-25 ára?

2. Hvað kostar að bíða með nauðsynlega greiningu vegna langra biðlista og veita ekki viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu í kjölfarið?

Ég vonast til þess að áhugasamir aðilar geti hjálpað mér með þessi reikningsdæmi og það væri einnig vel þegið að áhugasamur þingmaður tæki að sér að leggja þessa spurningar fram á Alþingi.

Tilgáta mín er sú að það sé afar lágt hlutfall útgjalda til geðheilbrigðismála sem rennur til hópsins 0-25 ára sem þó er líklegastur til þess að geta náð bata fáist viðeigandi aðstoð. Tilgáta mín er sú að með því að leggja áherslu á þennan hóp megi afstýra miklum framtíðarvanda og kostnaði.

Ég hef einnig grun um að þessi dæmi hafi ekki verið reiknuð hér á landi og við vitum ekki nákvæmlega hvað kostar að kasta krónunni fyrir aurinn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 28.2.2015 - 12:33 - FB ummæli ()

Lokaspretturinn

Framhald gestafærslu sem birtist á þessum vettvangi þann 22. desember síðastliðinn og er skrifaður af frænku minni Elínu Ósk Arnarsdóttur sem hefur verið að vinna að frábæru verkefni í tengslum við forvarnir við átröskun og eflingu líkamsvirðingar hjá börnum. Færsluna má einnig finna á þessu bloggi.

Nú er draumur minn að rætast. Verkefnið sem ég hef tekið þátt í síðastliðna mánuði er að verða að veruleika. Við erum á lokasprettinum og vantar síðustu krónurnar uppá. Ef þú kæri lesandi sérð þér fært að styrkja verkefnið um smá upphæð, þó það sé ekki nema 500 krónur, þá ert þú mikilvægur hluti af verkefninu. Án allra strykjanna yrði það ekki að möguleika.

Ef þú veist ekki um verkefnið sem ég er að tala um þá snýst þetta um að gefa leikskólum landsins bók um líkamsvirðingu. Sjálf er ég með átröskun og er að berjast gegn því helvíti. Mig langar því að gera allt í mínu valdi til að sem fæstir þurfa að ganga í gegnum þessa erfiðleika. Við lifum í átröskunarsamfélagi þar sem ytra útlit líkama segir til um heilbrigði og fegurð. En í rauninni segir það okkur ekkert! Það er innri starfsemi og líðan sem lýsir heilsu einstaklings ásamt dagvenjum hans. Margir grannir einstaklingar í ,,kjörþyngd” borða mikið unnin mat, hreyfa sig of lítið og eru með slæmar svefnvenjur. Er það hollara en manneskja rétt yfir ,,kjörþyngd” sem hlustar á sinn líkama og hreyfir sig vegna ánægju?

Það er margt í samfélaginu sem þarf að laga og gerist það ekki á einni nóttu. Sem betur fer, finn ég fyrir miklum breytingum á síðustu 5 árum. Fólk er orðið meðvitaðara en við þurfum að taka þetta skrefi lengra og bæta réttri hegðun inn í samfélagið. Og hvar er betra að rjúfa vítahringinn en hjá nýju kynslóðinni? Við erum með upplýsingarnar, fróðleikinn og við þurfum bara að kenna börnunum það. Ósk mín er því sú að leikskólar taki upp fræðslu um líkamsvirðingu og tali jákvætt í kringum mat og líkama. Öll eigum við mismunandi líkama og við þurfum að læra hlusta á hann og hætta að miða okkur við aðra. Líkaminn er snilldarvél sem við getum sko treyst.

Einföldum lífið! Það er sorglegt hvað margir kljást við þennan sjúkdóm, oftast vegna þess þau halda að hamingja felist í ,,fullkomnum” líkama. Heilbrigður og sáttur líkami er fullkominn! Ekki eitthvað mót sem við sjáum úr glansheiminum!

Ef að þið hafið áhuga að styrkja verkefnið þá er reikningsnúmerið 0701-26-15704 og kennitalan er 570412-1590. Ég er að vinna verkefnið með samtökum um líkamsvirðingu og er í sambandi við Sigrúnu Daníelsdóttur. Ef þið hafið einhverjar fyrirspurning um verkefnið megið þið senda mér línu á elinoskarnars@gmail.com

Eigið frábæran dag og hugsið vel um ,,vélina” ykkar. Við fáum jú bara eina 🙂

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 5.2.2015 - 23:53 - FB ummæli ()

Ferðaþjónusta fatlaðs fólks

Ferðaþjónusta fatlaðs fólks og eðlilegt líf

Mikil umræða hefur skapast í samfélaginu um ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Þjónustan er lykill margra að virkri þátttöku í samfélaginu. Mér þótti það alltaf stórmerkilegt þegar ég var mest að velta þessum málum fyrir mér í pólitíkinni á sama tíma og ég starfaði einnig að málefnum fatlaðs fólks hvað fólk var oft illa upplýst um þennan málaflokk og þarfirnar. Dæmi um það var að 12 ferðir til einkaerinda (sem var sá fjöldi sem var í boði hér í Mosfellsbæ á þeim tíma) ættu að geta uppfyllt skilyrði laganna um „eðlilegt líf til jafns við aðra“. Það þýddi að 6 sinnum í mánuði gat einstaklingur sem nýtti sér þjónustuna farið af heimili sínu í annað erindi en til skóla/vinnu eða læknis. Þannig að ef viðkomandi ætlaði að versla inn einu sinni í viku þá voru 8 ferðir búnar og tvö skipti eftir til þess að gera eitthvað annað. Einnig flokkaðist það undir eðlilegt líf að þurfa að panta ferðina sína fyrir kl. 16 daginn á undan og skipuleggja t.d. laugardagsdjammið fyrir kl. 16 á föstudegi eða að yfirgefa tónleikana þegar þeir stóðu hæst og drífa sig upp í sérmerkta bílinn með merki fatlaðra á hliðinni. Viljinn var fyrir hendi hjá flestum stjórnmálamönnum og embættismönnum en mikil vanþekking. Sumir áttuðu sig t.d. ekki á þessu með 12 ferðirnar hvað það var fjarri eðlilegu lífi og töldu slíkt bera vott um vel ásættanlega þjónustu. Það sem er líka alvarlegt varðandi lög um málefni fatlaðs fólks er að það er hreinlega alls ekki alltaf farið eftir þeim og engin refsiákvæði fyrir að gera það ekki.

Sem betur fer hefur orðið breyting á ferðaþjónustunni og mikill vilji til þess að bæta þjónustuna í takt við markmið laganna. Markmið hafa verið sett um að þjónustan sé sveigjanlegri og meiri þannig að fólk geti m.a. pantað ferð með stuttum fyrirvara og farið fleiri ferðir. Við þessar breytingar og yfirfærslu hefur þjónustan lent í stórkostlegum hrakförum svo ekki sé meira sagt.

Nýtt tækifæri

Í þeim ömurleika sem margir hafa þurft að lenda í felast tækifæri til þess að gera þjónustuna loksins virkilega góða. Það eru nokkur atriði sem ég velti fyrir mér í þessu samhengi og litast þau m.a. af reynslu minni af því að starfa í þessum málaflokki til nokkuð margra ára.

Það er mikilvægt að skilgreina mjög nákvæmlega þarfir þjónustunotendanna, skipuleggja þjónustuna í samræmi við það og horfa ætíð til þess möguleika hvort viðkomandi gæti mögulega nýtt hefðbundnari samgöngur t.d. strætisvagna eða leigubíla.

Ákveðinn hluti af þjónustunni getur kannski verið mjög sambærileg þjónustu strætó, ópersónuleg og rútíneruð. Ferðir sem viðkomandi pantar út af alls kyns erindum og þeir sem þurfa stuðning séu þá með stuðningsaðila með sér í þeim tilvikum.

Fastar ferðir

Hinn hluti þjónustunnar eru fastar ferðir. Farsæld fastra ferða þjónustunotenda með flóknar þarfir byggir að miklu leyti á mjög góðri skipulagningu, persónulegum tengslum og trausti. Þetta segi ég af reynslu þar sem ég var svo lánsöm að starfa fyrir fatlað fólk i tæplega 10 ár, lengst af í búsetu sem þurfti mjög þéttan stuðning í sínu daglega lífi. Þetta voru einstaklingar m.a. með þroskahömlun, einhverfu og geðsjúkdóma. Fyrir þennan hóp þarf að bjóða upp á þjónustu sem byggir á því að helst sami bílstjóri sæki þau á hverjum degi. Bílstjóri sem þekkir viðkomandi og er fær um að veita þann sveigjanleika sem þarf í samvinnu við viðkomandi og þjónustunotandinn getur treyst. Í þessum bílum ætti einnig í mörgum tilfellum að vera stuðningsaðili um borð sem getur veitt aðstoð þegar á þarf að halda og tryggt þjónustunotendum sem jafnvel geta ekki tjáð sig ákveðið öryggi. Fyrir hluta af þessum hópi þýðir ekki að bjóða upp á þá stífni að ef þú ert ekki sestur og tilbúinn löngu áður en ferðin kemur þá missir þú af henni. Stundum hefur manni fundist kröfurnar sem settar eru á fólk sem nýtir þjónustuna alveg óraunhæfar t.d. um hraða á að koma sér um borð og orðið vitni að því að bíll hafi mætt á undan áætlun en farið síðan þar sem viðkomandi stóð ekki tilbúinn í tröppunum.  Þessi pressa hentar líka kvíðnu fólki mjög illa sem þarf oft alúð til að ná að koma sér í bílinn.

Stebbi bílstjóri

Ég sá það vel á sínum tíma hvernig einstaka bílstjóri eins og Stebbi bílstjóri sem margir þekkja var órjúfanlegur hlekkur í lífi margra aðila að því að láta daginn ganga vel og farsællega upp. Fyrir þennan hóp nægir ekki að horfa bara á tölur eða hausa án andlits. Það þarf að skipuleggja þjónustuna á miklu persónulegri nótum. Til þess að svo megi verða þarf m.a. að tryggja mjög hæfa einstaklinga til starfans sem hafa mikla reynslu og þjálfun. Það þarf fullt af „Stebbum bílstjórum“ til þess að þjónustan gangi vel og smurt fyrir sig. Menn eins og Stebbi þekkja öll þessi smáatriði sem þarf að hafa í huga fyrir hvern einstakling persónulega til að hlutirnir gangi upp. Þessi persónulega þekking hefur orðið til á mörgum árum. Þeir þekkja líka stuðningsnet viðkomandi, aðstandendur, starfsfólk og aðra þegar á þarf að halda.

Þetta minnir auðvitað á þá mikilvægu staðreynd að í allri þjónustu er það mannauðurinn sem skiptir öllu máli. Miklu frekar en kerfin! Hann þarf að vera í lagi og vera stöðugur. Þetta eru kerfi fyrir fólk sem er haldið uppi af fólki. Fólk fyrir fólk.

Ekki bjóða öðrum það sem maður vill ekki fyrir sig eða sína

Ég hvet þá aðila sem sitja í neyðarstjórninni að taka nokkra rúnta sjálfir í bílunum til þess að geta betur sett sig í spor þeirra sem nota þjónustuna. Maður skyldi aldrei bjóða einhverjum öðrum það sem maður getur ekki hugsað sér eða sínum. Ég hef mikla trú á Stefáni Eiríkssyni og því fólki sem nú hefur brett upp ermar í málinu og vona að þessi sorgarsaga fái fljótt betri endi. Samborgarar okkar sem þurfa á ferðaþjónustu fatlaðra að halda í sínu daglega lífi eiga það skilið.

 

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 31.12.2014 - 16:26 - FB ummæli ()

Áramót

Það er við hæfi við slík tímamót sem nú eru framundan að staldra aðeins við í huga sér, fara yfir árið og horfa fram á veginn. Sól er hnigin til viðar í síðasta sinn á þessu ári og á morgun mun ný og vaxandi sól rísa.

Áramót 2014-2015Þetta ár hefur verið mér gott og ég er fyrst og fremst uppfull af þakklæti. Ég er þakklát fyrir heilsuna, fyrir fjölskylduna, manninn minn, vini mína, starfið, og allt það góða sem á vegi mínum hefur orðið undanfarið ár. Bara það að fá að lifa þessi áramót og fagna þeim er þakklætisefni og langt í frá sjálfsagt. Það vita þeir sem hafa misst.

Ég hvet þig lesandi góður til að fara yfir árið þitt í huganum. Hvað var gott? Hvað var erfitt? Hvað ætlar þú að taka með þér áfram í bakpokanum inn í nýtt ár sem góðar minningar eða lærdóm og hvað ætlar þú að skilja eftir við vegkantinn þegar þú heldur áfram? Hverjir eru draumar þínir? Hvert langar þig að stefna á nýju ári? Fyrir hvað viltu standa, hver eru gildi þín? Hver viltu vera? Hvernig myndir þú eyða síðasta degi lífs þíns? Það getur verið gott að leita svara við þessum spurningum. Þú getur lifað morgundaginn eins og þinn síðasta og þá ertu að gera það sem skiptir þig máli, er það ekki? Eins og sagt er: „Today is the first day of the rest of your life“. Hvað viltu sjá þegar þú lítur tilbaka að árinu 2015 loknu og hvað viltu sjá þegar þú lítur yfir lífsveg þinn? Þú getur strax byrjað að vinna að þeim markmiðum. Stundum er það sem við þráum mest nær okkur en okkur grunar og geta okkar til að öðlast það meiri en við teljum. Mundu líka að njóta þess að vera í núinu því sagt er að ef við erum við annan fótinn í fortíðinni en hinn í framtíðinni þá pissum við á núið. Núið sem er í raun það eina sem við eigum fyrir víst.

Ég hvet þig til að setja þér skrifleg markmið því markmið eru tímasettir draumar. Veltu því fyrir þér hvert þú vilt fara, hvernig, hvenær og hvernig þú veist að þú sért kominn á áfangastað (eins og þú sért í fjallgöngu). Til að markmið skili sem bestum árangri er gott að hafa þau skýr, mælanleg, aðgerðabundin, raunhæf og tímasett (SMART). Ég hvet þig líka til að byrja á einhverju sem þú ræður vel við og og setja þér nýtt markmið að því loknu. Það þarf ekki að klífa Everest í einum rykk heldur með einu skrefi til þess næsta.

Fyrst og fremst óska ég þér þess ágæti lesandi að þú farir sem betri manneskja inn í nýtt ár. Betri manneskja fyrir þig, fyrir fjölskyldu þína, vini og fyrir samfélagið okkar allt. Ekkert okkar er fullkomið og öll höfum við okkar styrkleika og veikleika en ef við reynum að læra af mistökum okkar og áttum okkur á því að við sjálf erum lykillinn að farsæld okkar og vellíðan þá erum við komin vel á veg.

Heillaríkt nýtt ár til þín og þinna.

Flokkar: Lífið og tilveran

Mánudagur 22.12.2014 - 13:07 - FB ummæli ()

Kroppurinn er kraftaverk – gestafærsla

Eftirfarandi pistill er skrifaður af Elínu Ósk Arnarsdóttur frænku minni. Hún er að vinna að ákaflega spennandi verkefni sem mig langar að kynna á þessum vettvangi með henni. Hvet ykkur eindregið til að lesa pistilinn og helst að leggja þessu frábæra verkefni lið :).

Hér kemur pistillinn.

Ég fékk mjög áhugavert verkefni í uppeldisfræði á þessari önn. Það var þannig sett upp að við áttum að hanna okkar eigin leikskóla sem uppfyllir skilyrði nýju aðalnámsskránnar. Mér fannst þetta virkilega skemmtilegt verkefni og var með fullt af hugmyndum sem gætu átt heima í leikskólum landsins.

Þar sem ég hef reynslu af átröskun hef ég mikinn áhuga á forvörnum gegn þeim og hvar er betra að byrja en í leikskóla? Að byrja með forvarnir áður en samfélagið nær að stimpla öllu þessu rugli inn í hausinn okkar. Með því að kenna börnum góðar matarvenjur, að matur er bara bensín fyrir líkama okkar, að matur er líka hlutur sem á að njóta, að maður elskar ekki mat né hatar en getur fundist matur góður. Það er líka nauðsynlegt að stuðla að líkamsvirðingu, að börnin læri um fjölbreytileika líkama, að þau dæmi ekki líkama og fólkið sem á þá, að virkni líkama sé það sem skiptir máli en ekki lögun hans.

mynd af bókinniSigrún Daníelsdóttir er ein af fyrirmyndum mínum, enda sálfræðingur með reynslu í þessum málum. Bókin Kroppurinn er kraftaverk sem hún gaf nýverið út er frábært tól í þessum málum! Þar er minnt okkur á að hugsa vel um líkama okkar, hlusta á hann og gefa honum það sem hann þarf hvort sem það er matur, hvíld, hreyfing eða eitthvað annað. Hún talar einnig um fjölbreytileika og hvað lífið sé miklu skemmtilegra þegar allir eru mismunandi, sem það er!

Við erum feit og mjó eins og við erum hávaxin og lávaxin og ætti ekkert að tengja skömm við að vera feitlaginn. Við eigum ekki að breyta líkamsstærð eins og við breytum ekki hæð okkar eða skóstærð. Sigrún kennir okkur að við eigum að elska okkur eins og við erum.

Svo ég tengi þetta nú við verkefnið sem ég er að vinna þá finnst mér að þessi bók ætti að eiga heima í öllum leikskólum landsins og að þetta sé lesið og skoðað með börnunum. Og þetta er eitthvað sem mig langar að framkvæma en ég þarf hjálp og byrjunin er að þú kæri lesandi lesir þessa færslu. Næsta skref er svo að safna pening fyrir verkefninu og síðan að framkvæma þetta. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi og þarf maður að vera þolinmóður og gefa sér tíma.

Ég hef sett mig í samband við Sigrúnu og er komin í samvinnu við hana ásamt Samtökum um Líkamsvirðingu. Verkefnið er því komið á skrið en það sem stendur núna í vegi fyrir okkur er kostnaðurinn. Ég hef sótt um styrki hjá ýmsum fyrirtækjum en geta þau ekki séð af pening til að styrkja verkefnið. Þess vegna ætla ég að láta reyna á samfélagið. Ég veit að það er desember. Ég veit að margir glíma við fjárhagserfiðleika. En ég er ekki að biðja um háar upphæðir. Og þetta er málefni sem við samfélagið verðum að takast saman á við. Börnin í leiksólum landsins eru framtíðin. Ef allir leggja smá í púkk er þetta fljótt að safnast upp.

Ef að þið hafið áhuga að styrkja verkefnið þá er reikningsnúmerið 0701-26-15704 og kennitalan er 570412-1590. Ef þið hafið einhverjar fyrirspurninr um verkefnið megið þið senda mér línu á elinoskarnars@gmail.com
– Elín Ósk

Flokkar: Lífið og tilveran · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 4.11.2014 - 00:19 - FB ummæli ()

Hverju mótmælir þú?

Í dag hélt fjöldi fólks á Austurvöll að mótmæla. Samkvæmt fréttaflutningi af viðburðinum virðist fólk hafa mætt í mjög fjölbreytilegum tilgangi. Sumir mótmæltu slökum kjörum, aðrir mótmæltu framkomu tiltekinna kjörinna fulltrúa, margir stöðunni í heilbrigðis- eða menntamálum og svona mætti telja áfram. Ég mætti ekki þrátt fyrir að hafa oft mætt á mótmæli.

Mótmæli

Ég hef minni trú en áður á að slíkt hjálpi okkur og tel tunnuslátt skila takmörkuðum árangri. Ég hef upplifað það að hugsjónafólk hefur komið saman og unnið mikið að umbótum á samfélaginu sem aldrei náðu í gegn. Mín upplifun var að reiðin og getuleysi til samstöðu hafi skolað burt góðu lausnunum. Ég myndi vilja sjá nýja nálgun. Í fyrsta lagi myndi ég vilja að við snérum þessu alveg á hvolf og myndum byrja á því að mæla með því sem er verið að gera vel og fólk er almennt ánægt með alveg óháð því hver það er sem er að gera eitthvað sem ánægja er með (stjórn, stjórnarandstaða, aðrir). Að því loknu myndi ég vilja sjá fólk forgangsraða allri þeirri hugarorku sem það býr yfir (og það er ekkert smáræði hjá jafn magnaðri þjóð) í það að vinna sameiginlega að raunhæfum lausnum á þeim krefjandi verkefnum sem við stöndum frammi fyrir og reyna að koma þeim í farveg.

Enginn getur allt en allir geta eitthvað. Ef við vinnum saman þá getum við í fyrsta skipti almennilega farið að vinda hruninu ofan af okkur. Við erum enn í sárum og sundurtætt á sumum sviðum og þurfum sameiginlega að græða sárin. Við þurfum líka að vita hvert við ætlum, hvað er í lagi og hvað ekki. Er það t.d. eðlilegt ef rétt er að launahækkanir séu komnar á fleygiferð á ný í bönkunum? Hvernig getum við haldið áfram inn í bjartari framtíð í stað þess að spóla í hjólförum hrunsins?

Hefur þú lesandi góður t.d. vel útfærða lausn á þeim vanda sem heilbrigðisráðherra stendur frammi fyrir með stöðu lækna og heilbrigðisþjónustunnar í landinu? Hvað myndir þú gera ef þú færir í hans skó á morgun? Ef þú hefur góða hugmynd, hvernig getur þú komið henni í farveg? Ert þú tilbúin/nn að láta eitthvað eftir af þínum kjörum til þess að hækka laun lækna? Getum við komist að einhverri þjóðarsátt um hvernig við getum stutt við grunnstoðirnar okkar undir því mikla álagi sem þær eru undir og í þeim þrönga stakki sem okkur er sniðinn núna? Getum við náð ákveðinni framþróun og nýjum gæðum í því öngstræti sem við erum í og þurfum að hugsa upp á nýtt? Hvernig getum við náð markmiðinu að á Íslandi geti allir haft það gott?

Ég fagna aukinni lýðræðisvitund almennings og tel að við eigum mikið inni á því sviði sem getur bætt samfélag okkar og hvernig því er stjórnað. Því má ekki gleyma að við fólkið höfum valdið, alltaf. Handhafar þess fara með það á milli kosninga og eru fulltrúar okkar. Það þýðir líka að við berum ábyrgð á okkar persónulegu og samfélagslegu velferð, alltaf. Það þýðir ekki að benda bara á ríkisstjórnina eða einhvern annan og telja ábyrgan fyrir öllu sem ómögulegt er því reynslan hefur kennt okkur að óánægjan sprettur upp aftur og aftur þó skipt sé um stjórnir. Það hlýtur því að vera eitthvað í kerfinu en ekki einstaka flokkum eða manneskjum sem þarf að lagfæra. Óánægjan byrjar einnig og endar hjá okkur sjálfum og við berum ábyrgð á því hvernig við hugsum, hvað við gerum og hvernig okkur líður. Viljum við breytingar þurfum við að leita allra leiða að raunhæfum leiðum í stað þess að benda á aðra. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við drögum fram allt það jákvæða sem við getum því það er samfélagi okkar ekki til framdráttar að ala sífellt á vonleysi, svartsýni og neikvæðni en vissulega að vera raunsæ.

Þannig að spurningin sem ég velti fyrir mér er þessi. Hverju mótmælir þú en ekki síður og enn frekar hverju meðmælir þú og hvað leggur þú til?

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 27.10.2014 - 21:11 - FB ummæli ()

Hamingjusama hóran

Ég er nýkomin heim úr ferð til Amsterdam. Þar sem ég hef lengi haft sterkar skoðanir á klámiðnaðinum, vændi og annarri misbeitingu á líkömum fólks tók ég meðvitaða ákvörðun um það að fara í Rauða hverfið til þess að finna á eigin skinni hvernig ég myndi upplifa þennan furðulega afkima mannlegrar tilveru. Ég get ekki lýst í smáatriðum því sem ég upplifði en ég ætla að reyna og get sagt að skoðun mín styrktist í sessi og ég verð ekki söm á eftir.

Það sem ég sá þarna voru alls konar líkamar kvenna og eins klæðskiptings til sölu á bakvið gler upplýstir í rauðu ljósi. Konurnar stóðu eins og gínur í fatabúð íklæddar engu nema mjög efnislitlum kynæsandi nærfötum og reyndu að mynda augnsamband við karlmenn sem gengu framhjá. Sumar sneru sér við og sýndu rassinn en aðrar hristu brjóstin. Reglulega fór einhver inn til þeirra. Þær voru mjög misjafnlega á sig komnar og sumar mjög ungar. Sumar báru sýnileg merki dapurlegs hlutskiptis síns. Hin ósýnilegu ör var ekki eins auðvelt að sjá.

Ég fór ásamt fleira fólki einnig á kynlífssýningu. Sýningin samanstóð af fimm atriðum. Í tveimur þeirra fóru fram samfarir og aðrar kynlífsathafnir konu og karls en í hinum þremur var kona á sviðinu að framkvæma ýmis atriði sem m.a. fóru þannig fram að þær fengu karlmann af áhorfendabekknum upp á svið til að taka þátt í atriði. Atriðin voru vélræn og í mínum huga var ekkert erótískt við þau. Eitt atriðið stóð sérstaklega upp úr minni ógeðfelldu upplifun. Fyrst kom kona í þröngum topp og pilsi og skömmu seinna kom maður klæddur eins og sjómaður. Það sást strax að eitthvað mikið var að konunni. Andlit hennar var alveg svipbrigðalaust, augun voru líflaus og hún virkaði dáin í eigin líkama. Lifandi dáin. Atriðið gekk út á ógeðslegar misbeitingar hans á konunni þar sem hann tróð m.a. öllum fingrum beggja handa upp í kynfæri hennar og lét hana snúast hringinn í kringum sig eins og hund í miðjum munnmökum. Þess á milli flengdi hann hana og sýndi þeim konum sem voru að horfa á einnig viðbjóðslega hegðun með því að reka út úr sér tunguna og fleira. Ég hef ýmislegt séð í lífinu og þekki það úr sálfræðinni og mínu starfi hvernig hugur fólks getur aftengt sig líkamanum í yfirþyrmandi áfallaaðstæðum (hugrof eða dissociation) þar sem það á enga undankomuleið t.d. við nauðgun. Kannski var það skýringin eða að hún hafi verið undir áhrifum mjög sterkra eiturlyfja (t.d. heróíns). Það sem ég og fleiri upplifði var að hún var eins og hún væri ekki á lífi og engan veginn þarna að eigin vilja. Ég hef hugsað mikið um þessa konu og þessa reynslu síðustu daga og á aldrei eftir að gleyma líflausum augum hennar. Sagt er að augun séu spegill sálarinnar. Í þessu tilfelli virtist konan svo illa farin að þegar maður reyndi að horfa í augu hennar speglaðist svo mikil eymd, þjáning og sársauki að það var ekkert eftir. Augun voru eins og svarthol. Afleiðing alls þess versta sem fyrirfinnst í ómannlegu samfélagi. Mannleg hörmung í sinni verstu mynd. Þegar við komum út af sýningunni var komið langt yfir miðnætti og þá voru nánast bara karlmenn eftir í hverfinu og þeir voru af öllum gerðum feitir, ljótir, venjulegir, fjölskyldufeður og myndarlegir menn í jakkafötum en flestir voru þeir á aldursbilinu 30-60.

Ég er að lýsa minni reynslu, ekki því hvernig ég held að þessi starfsemi sé alls staðar eða allir upplifi hana. Ég veit ekkert um það og veit að ég mun ekki breyta þessum heimi ofbeldis og misbeitingar með einum pistli en dropinn holar steininn. Ég geri mér líka grein fyrir því að með því að borga inn á þessa sýningu þá er ég sjálf þátttakandi í því að viðhalda þessari viðbjóðslegu starfsemi. Það er ákvörðun sem ég var og er meðvituð um en nú veit ég meira um við hvað er að etja.

Það er margt sem ég sit eftir með eftir þessa reynslu. Þakklæti til þeirra sem hafa barist gegn þessum iðnaði m.a. hér heima og hvöt til þess að læra meira um og beita mér gegn þessum hryllingi svo lengi sem ég lifi að því marki sem mér er í mannlegu valdi fært. Í þeim hóp sem ég var í barst í tal að opna þyrfti ráðgjafarmiðstöð í miðju hverfinu. Fyrst tók ég þetta ekki alvarlega en þegar ég fór að hugsa það þá kom upp í hugann, hvers vegna ekki? Fólk sem er í þeim sporum að selja aðgang að líkama sínum þarf aðstoð en ekki síður þeir sem taka þá ákvörðun að kaupa sér aðgang og misbjóða líkama og sál annarrar manneskju og greiða fyrir það. Ég veit ekki hvort einhver slík miðstöð sé þarna í kring?

Líkami okkar er sú gjöf sem við fengum við fæðingu og hver einasti líkami er jafn verðmætur. Það á ekki að vera hægt að selja aðgang að líkama sínum heldur einungis að njóta þess sem hann hefur upp á að bjóða einn eða með öðrum með fullu samþykki beggja aðila og gagnkvæmri ást og trausti. Við þurfum að leggja áherslu á þetta í uppeldi barnanna okkar að líkaminn sé eitthvað sem maður einn á og enginn geti komið nálægt nema með fullu samþykki okkar og gagnkvæmni.

Ég velti því líka fyrir mér þegar ég keyrði heim af flugvellinum hversu lánsöm ég sjálf væri. Ég gæti eins og þessi kona hafa fæðst í ömurlegar aðstæður sem hefðu endað á slíkri bjargbrún að ég væri uppi á sviði, dáin sál í líkama sem væri verið að misbeita fyrir framan fullt af ókunnugu fólki sem borgaði sig inn til að sjá það. Þessar aðstæður eiga ekki að geta skapast í siðuðu samfélagi. Hvað hefur einstaklingur gengið í gegnum sem er kominn á þennan stað? Manneskja sem er búin að missa tengsl við eðlileg mörk gagnvart sjálfri sér og líkama sínum. Hver er saga slíkrar konu? Hvernig er tilvera hennar? Hversu margar þeirra voru fórnarlömb mansals? Vissulega eru einhverjar jákvæðar hliðar við að umbera þennan iðnað en mjög margar neikvæðar og m.a hreinlega sú að væri þetta ekki í boði þá færi ekki forvitið fólk eins og ég á slíka sýningu og tæki þannig þátt í að viðhalda þessu ofbeldi.

Það á enginn að þurfa að lifa sínu einstaka lífi svona og sameiginlega berum við ábyrgð á því að reyna að styðja við hvert annað sem fæddumst á þessari jörð við að fá tækifæri til að njóta þess sem við eigum sem er líkami okkar og líf.

Ég hef því miður ekki töfralausnina en mikið vildi ég óska þess að ég hefði hana.

Hamingjusama hóran er ekki til, var það aldrei og verður aldrei en konan sem hefur verið rænd sál sinni með líflaus augun stendur í gluggum Rauða hverfisins, á götunni eða í heimahúsi böðuð í rauðu ljósi eða er misbeitt á meðan einhver getur eða vill borga fyrir það.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur