Föstudagur 10.10.2014 - 21:56 - FB ummæli ()

Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn

Í dag er Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn og vil ég óska okkur öllum til hamingju með hann. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á geðheilbrigðismálum, fræða almenning um geðrækt og geðsjúkdóma og sporna gegn fordómum.

Ég tel að við getum gert margt betur til þess að byggja upp gott geðheilbrigðiskerfi. Við þurfum að leggja mikla áherslu á að tryggja öllum börnum sem best atlæti frá fyrsta degi því lengi býr að fyrstu gerð. Foreldrar sem eru að glíma við veikindi eins og þunglyndi þurfa sérstakan stuðning því fái þeir hann ekki er hætta á að barn fái ekki nauðsynlega örvun og glími sjálft við erfiðleika síðar meir. Ég tel að FMB teymið (Foreldrar-Meðganga-Barn) á Landspítalanum sé að vinna frábært starf til að hjálpa foreldrum og börnum sem eru í áhættu á að þróa með sér vanda. Við getum staðið okkur miklu betur í því að efla geðheilbrigðisþjónustuna þannig að börn á öllum aldri (leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla) fái strax viðeigandi þjónustu. Það er óásættanlegt að þau þurfi að bíða mánuðum, jafnvel árum saman áður en viðeigandi þjónusta fæst. Ár í lífi barns er sennilega eins og áratugur hjá okkur sem erum fullorðin. Svo mikið gerist hjá hverju barni á ári í þroska og því lengur sem barn er án þjónustu því alvarlegri verður vandinn. Við þurfum líka að efla okkur í að skima, finna þau sem eru í vanda og veita strax viðeigandi þjónustu. Þjónustan þarf að vera byggð upp með þrepaskiptum hætti þannig að sem minnst inngrip sé veitt sem fyrst og sem næst umhverfi barnsins. Að sama skapi þarf að stórefla aðgengi fullorðinna að bestu mögulegu meðferð. Hver einstaklingur sem við missum vegna veikinda er einum einstaklingi of mikið. Alvarlegasta afleiðing ómeðhöndlaðs geðræns vanda er sjálfsvíg. Aðrar alvarlegar afleiðingar eru tapaðir vinnudagar, glatað skattfé og kostnaður vegna bóta og heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Ekki er hægt að mæla í krónum þann sársauka sem fólk og aðstandendur glíma við í tengslum við alvarlegan geðrænan vanda og afleiðingar hans. Við eigum að fylgja leiðbeiningum um bestu mögulegu meðferð og setja okkur það markmið að draga úr geðlyfjanotkun okkar niður að meðaltali OECD landanna innan næstu 15 ára. Núna vermum við toppsætið í geðlyfjanotkun sem er ekkert til að státa sig af. Það gerum við með því að auka aðgengi að sálfræðimeðferð eins og leiðbeiningar mæla með ásamt öðrum umbótum á geðheilbrigðiskerfinu og samfélaginu öllu. Hér er verk að vinna en jákvæð teikn eru á lofti. 

Hin hliðin snýr að því sem við hvert og eitt okkar getum gert til að bæta eigin geðheilbrigði og hvernig við getum stuðlað að geðheilbrigðu samfélagi. Geðheilbrigði er rétt eins og líkamlegt heilbrigði eitthvað sem þarf að vinna að. Það kemur ekkert endilega að sjálfu sér þó við séum misvel í stakk búin. Heilbrigði okkar bæði andlegt og líkamlegt byggir á því að við hlúum að nokkrum mismunandi þáttum í einu og finnum jafnvægi, rétt eins og hjól í úravirki. Þessir þættir eru m.a.: Svefn, hreyfing, næring, félagsleg tengsl og hugsanir. Við þurfum að skoða hvernig við hugsum og hvaða áhrif það hefur á líðan okkar og hvort hugsanaskekkjur séu að valda okkur vanlíðan. Við þurfum að skoða hvernig við bregðumst við í ákveðnum aðstæðum og hvort það sé hjálplegt. Einnig þurfum við að hlúa að lykilþáttum eins og að sofa nóg og reglulega, hreyfa okkur reglulega, næra okkur vel og síðast en ekki síst vera í góðum tengslum við annað fólk. Þessir þættir eiga alltaf við. Hvert og eitt okkar er svo sérfræðingur í sér og veit hvernig best er að ná jafnvægi og njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Hver einasti einstaklingur er mikilvægur, einstakur og dýrmætur fyrir samfélagið allt.

balance-elephant

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 27.9.2014 - 15:23 - FB ummæli ()

Breiðholtsmódelið og þingsályktunartillaga um bætt geðheilbrigði barna og fjölskyldna

(DV, 19. sept. 2014).

Kvíði barna og unglinga sem ekki er meðhöndlaður getur þróast yfir í alvarlegt þunglyndi. Ómeðhöndlaður tilfinningavandi barna og unglinga getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar svo sem áhættuhegðun, brotthvarf úr skóla og þegar fram líða stundir erfiðleika við að taka þátt í samfélaginu sem einstaklingur á vinnumarkaði.

Hákon og Kristbjörg

Hákon Sigursteinsson og Kristbjörg Þórisdóttir sálfræðingar á Þjónustumiðstöð Breiðholts (mynd Sigtryggur Ari Jóhannson/DV)

Íslendingar nota meiri geðlyf en gengur og gerist í OECD-ríkjunum. Notkun geðlyfja er mest hér á landi meðal OECD-ríkjanna, eða 106 skilgreindir dagskammtar að meðaltali á móti 56. Þingmenn úr fjórum flokkum vilja að gripið sé til aðgerða og komið sé til móts við tilfinningavanda barna og unglinga til að sporna við þróuninni. Það vilja þeir að sé gert með sérstakri aðgerðaráætlun sem meðal annars er byggð á breskri áætlun sem og Breiðholtsmódelinu, verkefni sem þróað hefur verið vegna þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra á Þjónustumiðstöð Breiðholts um árabil.

Markmið tillögunnar er að bæta geðheilbrigði barna og unglinga með ýmsum úrræðum í samræmi við leiðbeiningar um bestu meðferð og stigskiptri þjónustu þar sem byrjað er á vægasta úrræðinu í nærumhverfi og þjónusta aukin í takt við þarfir. Áherslan er því lögð á að efla framlínuþjónustu sem veitt er af skólasálfræðingum og öðrum í góðu samstarfi í umhverfi barnsins. Aðgerðir beinast meðal annars að auknum forvörnum, fræðslu, skimun á vanda, námskeiðum, skýrari verkaskiptingu stofnana, bættu samráði, bættu aðgengi að viðtalsmeðferð og eflingu fjölskyldumeðferðar. Í greinargerð þingsályktunartillögunnar er bent á að „geðrænn vandi fullorðinna hefst oft í barnæsku og þeim vanda hefði mögulega mátt afstýra með góðri og markvissri geðheilbrigðisþjónustu á þeim tíma.“

Karl Garðarsson

Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokksins

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar sem lögð hefur verið fram á Alþingi, segist fullviss um að tillagan njóti víðtæks stuðnings. Hann segist líta á verkefnið sem mikla forvarnaraðgerð, enda sé mikill hagur í því að bregðast við tilfinningavanda snemma og stuðla þannig að betri líðan og bættri þátttöku fólks í samfélaginu til framtíðar.

Löng þróun

Breiðholtsmódelið hefur verið í þróun hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts til margra ára, eða frá 2007. Í meginatriðum byggir verkefnið á því að koma sem fyrst að málunum og veita viðeigandi úrræði í takt við þörf. Í Breiðholti eru allir grunnskólanemendur í níunda bekk skimaðir með sérstökum spurningalistum þar sem spurt er um kvíða og þunglyndiseinkenni. Haft er samband við foreldra þeirra unglinga sem fara yfir viðmið í skimun og boðið upp á þjónustu þar á meðal viðtöl, ráðgjöf eða námskeið í hugrænni atferlismeðferð (HAM) sem gengur undir nafninu „Mér líður eins og ég hugsa“. Námskeiðið er haldið reglulega í öllum hverfum borgarinnar og tvö önnur hverfi eru farin að skima fyrir vandanum. Námskeiðin voru innleidd í samstarfi við geðsvið Landspítala Háskólasjúkrahúss.

Hákon Sigursteinsson og Kristbjörg Þórisdóttir, sálfræðingar hjá þjónustumiðstöðinni, fóru yfir verkefnið með blaðamanni DV. Sálfræðingar Þjónustumiðstöðvar Breiðholts hafa átt veg og vanda af verkefninu og hafa haldið HAM-námskeið fyrir unglinga frá árinu 2008, alls tólf námskeið. Á þjónustumiðstöðinni er einnig boðið upp á ýmis önnur gagnreynd námskeið fyrir börn og fjölskyldur þeirra allt niður í þriggja ára aldur og sífelld þróun í gangi.

Námskeið

HAM-námskeiðið fer fram í hópi og byggist á fræðslu og heimaverkefnum, þar sem kenndar eru aðferðir til að takast á við kvíða- og depurðartilfinningar og er kennt í sex vikur. Þetta er gert í stað þess að byrja til dæmis á lyfjagjöf eða mjög sértækum úrræðum, en klínískar leiðbeiningar kveða á um að fyrst skuli reyna hugræna atferlismeðferð.

Eins og staðan er í dag á landsvísu er hins vegar fyrsta meðferð barna og unglinga oftar en ekki lyfjameðferð vegna skorts á úrræðum og takmörkuðu aðgengi að sálfræðimeðferð. Kristbjörg bendir á að langir biðlistar og skortur á aðgengi að sálfræðiþjónustu valdi því að í sumum tilfellum leiti foreldrar með börn sín beint í sértæk úrræði og því sé mikilvægt að skilgreina vel hverju eigi að sinna á hverjum stað með þrepaskiptum hætti og koma á meiri samvinnu milli stofnana og nærsamfélags barnanna.

Bregðast við strax

Hákon og Kristbjörg benda á að í mörgum tilfellum hefði verið hægt að bregðast við fyrr með vægum inngripum í nærumhverfinu áður en mál barnsins og líðan voru komin í óefni. „Kostnaður foreldra við lyfjagjöf er oftar en ekki lægri en kostnaður við sálfræðitíma, enda eru lyfin niðurgreidd en þjónusta sálfræðings á stofu ekki. Lyfjagjöf er stundum rétta skrefið, en ekki alltaf og klínískar leiðbeiningar segja okkur að það eigi að byrja á því að reyna hugræna atferlismeðferð,“ segir Hákon. Kristbjörg tekur undir þetta og bendir á að kostnaður foreldra við stakan sálfræðitíma hjá sálfræðingi á stofu sé oft tíu til fimmtán þúsund krónur. Tímabært er að niðurgreiða sálfræðiþjónustu.

Í Breiðholtsmódelinu svonefnda er lögð áhersla á að greina vandann eins fljótt og hægt er og veita síðan bestu mögulegu þjónustu á sem hagkvæmastan hátt.

„Okkar sýn er sú að það þurfi að færa þungann á framlínuna, það er að segja það þarf að grípa inn í áður en vandamálið er orðið of stórt. Eins og staðan er núna erum við oftar en ekki að vinna að málunum eftir að tilfinningavandinn er orðinn að stóru vandamáli hjá fólki, í stað þess að byrja vinnuna þegar það þarf ekki mjög sértæk úrræði. En til þess þurfum við mannafla og fjármagn. Það þarf að vera með fjölbreytta þjónustu og grípa strax inn í,“ segir Kristbjörg. „Þetta er gríðarlegur samfélagslegur kostnaður. Ef við náum að veita einu barni viðeigandi þjónustu, áður en það þróar alvarlegan tilfinningavanda sem hefur í för með sér skerta samfélagsþátttöku og örorku, þá sparar það samfélaginu mikla peninga og hefur mikinn samfélagslegan ávinning,“ segir hún.

Árið 2020 er því spáð að þunglyndi verði önnur mesta orsök örorku. Í dag eru 38 prósent þeirra sem eru öryrkjar í þeirri stöðu vegna geðraskana. „Tillagan gengur út á það að setja fjármagn í verkefnið núna en spara margfalt þegar fram líða stundir. Við setjum krónu í það núna, en spörum kannski tíu í framtíðinni. Með því að veita bestu mögulegu meðferð núna aukast líkur á að þessi börn geti blómstrað sem fullorðnir einstaklingar í samfélaginu.“

Meiri vandi meðal stúlkna

Þar sem verkefnið hefur verið í vinnslu frá 2008 eru sterkar vísbendingar um árangur komnar fram. Samkvæmt skimunarlistunum í Breiðholti jókst tilfinningavandi mikið á milli ára hjá nemendum í níunda bekk á árunum eftir hrun og má leiða líkur að því að það tengist. Í ljós kom að tilfinningavandi hefur aukist verulega, sér í lagi hafði algengi kvíða aukist meðal stúlkna eða úr 7,2 prósentum árið 2009 í 26,2 prósent árið 2012. Árið 2013 höfðu sömu tölur farið niður í 15,5 prósent sem Kristbjörg og Hákon segja gefa tilefni til bjartsýni. Skimun, aðgengi að fræðslu og meðferðarþjónustu dragi úr vanda þessara barna sem skili sér aftur til samfélagsins þegar þau vaxa og dafna með minni líkum á að vandinn flytjist á milli kynslóða. Þannig sé hægt að vinna að heilbrigðara samfélagi með bættri geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

(greinin er úr helgarblaði DV og birtist 19. sept. 2014 eftir Ástu Sigrúnu Magnúsdóttur blaðamann, astasigrun@dv.is).

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 10.9.2014 - 23:43 - FB ummæli ()

Uppistand á Alþingi

Eftir stefnuræðu og umræður kvöldsins velti ég vöngum yfir ýmsu. Ég hefði gjarnan viljað fá skýrari mynd af því hver stefnan er næsta árið með nokkuð vel útfærðum skýringum. Það hefði ég viljað heyra í stað þess að heyra hluti sem ég hef oft heyrt áður eins og það hversu lánsöm við séum að búa á þessu fallega landi þar sem allir eiga að geta haft það gott og skilgreiningar á þjóðrembu.

Ég myndi vilja heyra meira um ný og betri vinnubrögð á þinginu í stað þess að fólk haldi sig í gamalkunnum skotgröfum. Mér þóttu nýjir þingmenn skara nokkuð frammúr í því og á heildina litið fannst mér þingmenn Bjartrar framtíðar standa sig best í kvöld og flytja ræður sem ég nennti að hlusta á.

Það sem vakti mig þó mest til umhugsunar eftir kvöldið var uppistandið á Alþingi. Ég ætla að grípa boltann frá handboltakonunni og sálfræðingnum Hafrúnu Kristjánsdóttur sem benti á þetta á fésbókarsíðu sinni í kvöld:

Af hverju i ósköpunum er það bara i lagi að gera athugasemdir við holdafar SDG? Myndi fólk gera þetta ef SDG væri kona? Þvi skal þo haldið til haga að eg er langt fra þvi að vera stuðningsmaður kappans.

Ég er hjartanlega sammála henni og finnst það gamalreyndum þingmanni (Steingrími J. Sigfússyni) til minnkunar að sýna slíka framkomu í ræðustól Alþingis og við aðstæður þar sem mjög margir fylgjast með. Það er ekki hlutverk þingmanna að vera með uppistand á kostnað annarra heldur er það hlutverk þeirra að vera leiðtogar þjóðarinnar sem kaus þá og ganga á undan með góðu fordæmi. Svona framkoma mun ekki auka traust fólks á Alþingi og er ömurlegt fordæmi.

Það er hvergi viðeigandi að hæðast að holdafari fólks og það á enginn skilið slíka framkomu. Í umræðum bentu e-r aðilar á að það hefði verið SDG sem hefði sett þetta á dagskrá sjálfur með íslenska kúrnum. Ég er alveg ósammála því og man vel þegar hann var að kynna þá hugmynd. Hún var að mínu mati ágætis hugmynd til þess að vekja fólk til umhugsunar um þá stefnu að borða heilnæma fæðu og helst fæðu sem væri uppurin eins nálægt manni og kostur er. Slíkt er hagkvæmt, umhverfisvænt og atvinnuskapandi. Það er sérkennilegt að við séum stundum að borða ávexti eða grænmeti sem er búið að ferðast um hálfan hnöttinn áður en það birtist hér í stað þess að rækta það sjálf með alla okkar orku og skapa fólki atvinnutækifæri í leiðinni og auka viðskipti innan íslensks hagkerfis. Mér sem feminista þykir það líka áhugavert að velta fyrir mér því sem Hafrún bendir á að það sé ekki víst að fólk myndi leyfa sér að ganga jafnlangt í slíkum niðrandi ummælum ef SDG væri kona.

Þrátt fyrir að móðir náttúra hamist við að búa til nýtt Ísland með miklum látum þá virðumst við í mannheimum eiga eitthvað lengra í land með það. Því miður.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 8.9.2014 - 22:59 - FB ummæli ()

Hvað velur þú?

Á hverjum degi stöndum við frammi fyrir ótal valkostum. Við erum sífellt að taka ákvarðanir, allt frá mjög veigalitlum ákvörðunum til mjög afdrifaríkra ákvarðana. Við veljum hvort við ætlum að fá okkur banana eða súkkulaði og jafnvel hvort við ætlum að segja já eða nei við bónorði.

Stundum gleymum við hvað við höfum í raun mikla stjórn á eigin lífi. Lykillinn að farsæld okkar liggur í því hvað við veljum. Við ráðum hvaða hugsunum við veitum athygli, hvað við gerum og oft aðstæðum þeas. hvar við erum og með hverjum.

decision

“Watch your thoughts; they become words. Watch your words; they become actions. Watch your actions; they become habit. Watch your habits; they become character. Watch your character; it becomes your destiny.

― Lao Tzu

Velur þú að vakna snemma eða sofa út?

Velur þú að borða morgunmat eða sleppa honum?

Velur þú hollan mat að jafnaði eða óhollan?

Velur þú hreyfingu eða kyrrstöðu?

Velur þú vinnu sem þú elskar eða vinnu þar sem þú telur mínúturnar hvern dag?

Choose a job you love, and you will never have to work a day in your life.

– Confucius

Velur þú þér jákvætt eða neikvætt viðhorf hvern dag?

Velur þú þínar þarfir eða þarfir annarra?

Velur þú félagsskap eða einveru?

Velur þú eymd eða lærdóm þegar erfiðleikar steðja að?

“Problems are inevitable. Misery is a choice.”

― Ann Landers

Velur þú að taka ómaklegri gagnrýni sem árás á þig eða vísbendingu um að öðrum líði illa?

Velur þú von eða vonleysi?

Velur þú auðveldu leiðina eða þá erfiðu?

 

Þessi listi verður hvergi tæmdur og fá einföld svör að fá. Þetta hljómar samt allt svo einfalt. Bara velja rétt, fylgja listanum og lífið brosir við þér. Ef það væri þannig þá værum við sennilega öll hamingjusöm frá toppi til táar og að lifa hinu fullkomna lífi. Það er sennilega hægara sagt en gert. Sumum finnst erfitt þegar þessu er varpað svona fram því frelsinu og valinu fylgir líka ábyrgð sem þýðir að við berum ábyrgð á mörgu því sem misjafnt er í okkar lífi. Að þessu sögðu er mikilvægt að hafa í huga að aðstæður okkar eru ákaflega ólíkar. Ekkert okkar fæðist með sömu spilin á hendi og sumir hafa vissulega minna val en aðrir. Þrátt fyrir það geta allir skoðað sitt líf, næsta augnablik, næsta dag og velt því fyrir sér hvað þér geta valið um, hvað þeir vilja velja og hvort þeir séu að velja rétt. Því betur sem við veljum því betur mun okkur farnast og samfélaginu í heild sinni.

Veldu lífið í dag og lífið velur þig á morgun.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 12.8.2014 - 23:29 - FB ummæli ()

Augnablik

Sólsetur

Ertu stundum svo upptekin/nn af framtíðinni að þú missir af núinu? Ætli flestir kannist ekki við það?

Hvorki tíminn né lífið láta að sér hæða. Þau líða áfram eins og á sem rennur að ósi. Allir heimsins peningar geta ekki keypt tímann eða stjórnað honum. Augnablikin líða eitt af öðru og fyrr en varir eru augnablikin orðin að klukkustund, klukkustundirnar að dögum, dagarnir að vikum, vikurnar að mánuðum, mánuðirnir að árum og árin að áratugum. Þegar við erum börn finnst okkur tíminn svo lengi að líða en sem fullorðin þá verðum við sífellt meðvitaðri um hvað hann er af skornum skammti bæði í kapphlaupi okkar við hann dags daglega en líka þegar við áttum okkur á að einn daginn tæmist af tímaglasinu okkar. Einn daginn eru augnablikin orðin að áratugum og tíminn búinn.

Það er ekkert sjálfsagt í þessu lífi. Ekki einu sinni morgundagurinn. Þess vegna er svo mikilvægt að njóta augnabliksins því það kemur aldrei aftur. Sjáir þú falllegt sólsetur skaltu stökkva út úr bílnum og njóta þess því fimm mínútum síðar er það farið. Sértu í kringum fólk sem þú kannt að meta skaltu njóta samvista við það og vera á staðnum því nokkrum vikum síðar er það kannski ekki lengur til staðar. Framtíðin er eitthvað sem við getum teiknað upp í huganum en aldrei gert ráð fyrir. Ef þú ert svo upptekin/nn að byggja upp skýjaborgir framtíðarinnar að þú missir af núinu verður framtíðin eins og sandur sem rennur úr greipum þér því núið leiðir af sér framtíðina.

Besti tíminn til þess að njóta er í dag á þessu augnabliki. Því betur sem þú ferð með og nýtur þessa augnabliks því betur ferðu með klukkustundina, daginn, vikuna, mánuðinn, árið, áratuginn og líf þitt.

Fangaðu augnablikið og njóttu lífsins.

Flokkar: Lífið og tilveran

Föstudagur 8.8.2014 - 23:56 - FB ummæli ()

Vonarstræti

Ég sá kvikmyndina Vonarstræti í annað skipti í kvöld. Þvílíkt meistarastykki. Söguþráðurinn er svo margslunginn og svo er hún ákaflega vel leikin.

Það sem vakti mig til umhugsunar er að hvert og eitt okkar á sér sögu. Sögu vonar, vonleysis, ótta, hörmunga, gleði, öryggis, óöryggis, vonsku, velvildar, farsældar, vanmáttar og svona gæti ég lengi haldið áfram. Sögu sem er skrifuð hvern einasta dag. Enginn þekkir þína sögu nema þú. Sagan skýrir meðvitað og ómeðvitað margt af því sem við hugsum, gerum og finnum fyrir. Saga annarra skýrir margt sem við skiljum ekki. Íhugaðu það næst þegar þú sérð einhvern sem ber áberandi ör utan á sér og lítur út fyrir að hafa farið halloka í lífinu að þú veist í raun ekkert hvað viðkomandi hefur gengið í gegnum.

Það sem myndin sýnir líka er hvernig ytra sögusvið er ekki alltaf í takt við það sem er raunverulega í gangi. Maðurinn sem lítur út fyrir að vera sá varasami er kannski sá ljúfasti en sá sem er silkihúðaður „success“ er kannski sá ömurlegasti. Eftirsóknarverða lífið er kannski ekkert nema gerviveröld þegar betur að er gáð.

Einhvern tímann las ég að lífið væri smásaga svo best væri að reyna að gera hana góða (life is a short story so you better make it a good one). Við eigum öll okkar sögu og okkar vonarstræti. Sumt hefur verið hræðilegt, annað dásamlegt. Það er í okkar valdi að reyna að skrifa sem bestan kafla á hverjum degi. Við ráðum ekki öllu um hvað lendir á okkar blaðsíðum en við ráðum því hvernig við vinnum úr því. Sumt mun særa okkur svo djúpum sárum að ekki er hægt að græða þau. Aldrei. En, við getum lært að lifa með þeim og horfa á það ósærða sem við eigum og vera þakklát fyrir það að fá að vakna hvern dag og upplifa eitthvað nýtt. Erfiðu kaflarnir eru líka þeir sem kenna okkur mest. Aðrir eiga líka sína sögu. Okkar hlutverk er að reyna að skilja og hvetja þá til að skrifa sem besta sögu fyrir sig. Til dæmis að leyfa fólki að vera nákvæmlega eins og það vill. Það hvernig fólk lifir sínu lífi á sér skýringar. Það stóð hvergi að allir ættu að vera rauðhærðir eða allir ættu að vera gagnkynhneigðir. Enginn vonaðist eftir því að verða útigangsmaður en öllum langar að finna hamingjuna.

Ég ætla að fara í Gleðigönguna á morgun. Ég hvet þig lesandi góður til þess að skella þér líka, fagna litríkum margbreytileikanum og því að hver og einn fái að vera eins og hann er og skrifa sem besta sögu á sínu vonarstræti.

Flokkar: Lífið og tilveran

Fimmtudagur 7.8.2014 - 00:46 - FB ummæli ()

Hinn þögli meirihluti

Martin Luther King, Jr.

Þessi ummæli vöktu mig til umhugsunar um hinn þögla meirihluta. Hinn þögli meirihluti hefur að mínu mati mun meiri völd en við áttum okkur á. Hver er hinn þögli meirihluti? Það er fólkið sem situr á sér, bítur í varirnar, fólkið sem horfir á, gott fólk sem gerir ekki neitt þrátt fyrir að vita kannski innst inni að það ætti að bregðast við í hinum ýmsu aðstæðum í samfélaginu og heiminum sem ekki eru í lagi.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna þetta skuli vera svona. Ein skýring sem ég get komið með er að þarna sé á ferðinni svipað fyrirbæri og það sem kallað er í félagssálfræðinni ábyrgðarþynning (diffusion of responsibility) og ég fjallaði um í öðru samhengi hér. Það snýst um það að manneskja er ólíklegri til að taka ábyrgð þegar fleiri eru til staðar en þegar hún er ein. Hún gerir ráð fyrir að aðrir bregðist við og reynir að lesa í aðra í kringum sig hvort og hvernig eigi að bregðast við. Fleiri skýringar eru líklegar eins og að það geti verið óþægilegt að stíga fram og mótmæla sérstaklega þegar þeim sem er mótmælt eru valdamiklir einstaklingar eða mótmælin geta haft persónulegar afleiðingar fyrir þann sem viðhefur þau. Þá sé betra að sitja á sér, segja ekki neitt þrátt fyrir að vera með óbragð í munni. Það getur dregið úr fólki að sjá slæmar afleiðingar þeirra sem þorðu. Í því samhengi er mikilvægt að muna að það er ávallt fólkið og fjöldinn sem hefur hin raunverulegu völd. Ekki örfáir útvaldir. Ég velti því líka fyrir mér hvort það sé eðlilegt að gera ráð fyrir því að aðrir sjái um að breyta því sem þér finnst í ólagi á meðan þú situr þögull/þögul? Þarf ekki hver og einn að vera sú breyting sem hann/hún vill sjá til að heimurinn breytist?

Slæmu fréttirnar eru þær að mínu mati að því færri sem standa upp og mótmæla einhverju sem ekki er í lagi, því meiri líkur eru á því að vondir hlutir viðhafist, vaxi og verði jafnvel á endanum óviðráðanlegir. Benda má á það að helförin hófst með örfáum einstaklingum og öðrum sem tóku ekki afstöðu. Við sjáum einnig skelfileg dæmi á hverjum degi m.a. af Gaza á þessu augnabliki um hvernig voðaverk hefjast og viðgangast. Flest þekkjum við þetta einnig að e-u leyti í okkar eigin lífi. Tökum einelti sem dæmi. Þar er yfirleitt einn eða örfáir gerendur sem ráðast á þolandann, svo eru það þeir sem hjálpa til við ofbeldið, hinir þöglu áhorfendur og svo þeir sem reyna að stíga inn og vernda þolandann. Því fleiri sem geta stigið inn og því fyrr, því minni líkur á því að þolandinn sitji uppi með djúp svöðusár á sálinni til framtíðar.

Spurningin sem ég velti fyrir mér er þessi: Hvernig getum við fjölgað þeim sem eru tilbúnir að stíga fram, segja hug sinn þegar eitthvað er ekki í lagi og draga þannig úr vægi þess vonda? Hvernig getum við fækkað í þögla meirihlutanum? Ég tel að þetta eigi víða við. Ekki síst í stjórnmálum.

eineltishringurinn

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 3.6.2014 - 20:55 - FB ummæli ()

Ísland fyrir alla

Það hefur varla farið framhjá neinum að mikil umræða hefur skapast undanfarið um byggingu mosku, staðsetningu hennar og stöðu minnihlutahópa í okkar samfélagi. Það er margt í þessu sem hefur vakið mig til umhugsunar.

Ég tel að almennt séu Íslendingar frekar frjálslynd og umburðarlynd þjóð. Hins vegar má líklega í öllum samfélögum finna öfgahópa. Því miður hefur aðeins borið á þeim í umræðum síðastliðinna daga á báða bóga.

Mín skoðun á málinu er sú að við eigum að bjóða þá sem hingað koma velkomna innan þess ramma sem við mögulega getum annað þannig að fólk fái þann stuðning sem nauðsynlegur er. Við þurfum að hafa í huga hvernig við myndum vilja að tekið yrði á móti okkur yrðum við skyndilega landlaus. Vilji ákveðið samfélagsbrot byggja mosku tel ég það í góðu lagi og krydda okkar fjölbreytilega samfélag. Ég hef þó ekki alveg myndað mér skoðun á hvort endurskoða ætti lögin um að trúfélögum séu gefnar lóðir og það á auðvitað við um öll trúfélög. Ég skil líka alveg sjónarmiðið að slík bygging þarf að falla að því sem fyrir er þar sem hún er byggð. Hins vegar er ég hugsi yfir nánari útfærsluatriðum varðandi það hvernig við byggjum gott fjölmenningarsamfélag. Mögulega getum við staðið okkur betur þar. Hér á landi höfum við byggt upp ákveðinn samfélagssáttmála, stjórnarskrána okkar ásamt þeim lögum sem eru umgjörð samfélags okkar.

Þegar nýjir Íslendingar setjast hér að sem hafa annan bakgrunn en flestir hafa þeir einstaklingar oft annan menningararf og sína trú. Mér þykir mjög eðlilegt að fólk vilji heiðra þann arf og rækta eins og ég myndi sjálf gera flytti ég erlendis og þeir sem búið hafa erlendis eins og ég þekkja vel. Undir stóra samfélaginu eru ótal samfélagsbrot. Hvað gerum við þegar einhverjir í samfélagsbroti framkvæma hluti sem ríma ekki við stóra samfélagið eins og að grýta konur til dauða? Jú, þá hljóta þau lög sem við öll föllum undir að gilda til að taka á því. Tölfræðilega séð tel ég þó afar ólíklegt að slíkt myndi gerast hér. Stóra spurningin í mínum huga eru þó mörkin þarna á milli. Margir aðrir hafa reynt að svara þessari spurningu sbr. til dæmis miklar deilur um það hvort konur megi hylja sig eður ei. Ég er t.d. ekki fullviss um að stætt sé á því að banna konum að hylja sig sé það þeirra val.

Einnig vakna ýmsar spurningar um aðlögun. Jafnframt því sem eðlilegt og hollt er að fólk vilji halda í sinn bakgrunn er knýjandi þörf fyrir að aðlagast nýja samfélaginu til þess að geta verið virkir þátttakendur í því. Hversu lengi er t.d. eðlilegt að fólk fái túlkaþjónustu? Hversu mikla kröfu á að gera á fólk að læra íslensku? Samhliða því er ákaflega mikilvægt að foreldrar tali sitt móðurmál við börn sín þannig að uppruna tungumálið glatist ekki.

Ég tel að við getum á vissan hátt fagnað því að þessi umræða hafi farið af stað þó hún hafi eins og ég sé þetta slysast fram. Hún gefur okkur tækifæri til þess að ræða þessi mál og þróa samfélag okkar áfram, vonandi til betri vegar. Það er ekki gott að taka svona umræðu þrungna af tilfinningahita eða viðhorfum. Það þarf að kalla til sérfræðinga, afla gagna og taka hana með rökhyggju og skynsemi að leiðarljósi. Þannig gagnast umræðan öllum.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 24.4.2014 - 00:20 - FB ummæli ()

MacBook tölvan sem fuðraði upp

Þann 27. mars s.l. fjárfesti ég í langþráðri MacBook Air tölvu. Ég staðgreiddi 140 þúsund krónur og setti 19 þúsund á VISA kortið. Tölvuna keypti ég eftir vandlega íhugun þar sem gamli jálkurinn minn sem þessi pistill er skrifaður á er gömul Dell tölva. Sú var keypt 2007 og er enn að þjóna mér þrátt fyrir háan aldur og líklega um 18 ferðir á milli Íslands og Danmerkur og fjöldamargar ferðir innanlands. Enn skröltir sú gamla.

Þegar ég ætlaði að kveikja á My precious  þá var nýja tölvan bara frosin og ég náði engu sambandi við hana. Eftir miklar tilraunir tókst loks með herkjum að nánast handsnúa henni í gang. Að þessum byrjunarörðugleikum loknum virkaði hún bara vel. Þar til nokkrum dögum síðar að tæmdist á einni nóttu af rafhlöðunni. Þá fór ég með hana í búðina þar sem ég keypti hana. Þar litu starfsmennirnir aðeins á hana og áttu eitthvað við hana. Í leiðinni keypti ég flakkara og tösku fyrir dýrgripinn að andvirði um 20 þúsund króna í viðbót. Nú hélt ég að þessu væri lokið. Næst tók hún upp á því að skjárinn varð svartur og á hann komu furðulegar línur. Þá hugsaði ég með mér, nei þetta gengur ekki. Nú er þessi tölva búin að vera með meiri uppákomur en sú gamla s.l. 7 ár. Ég fór með tölvuna í búðina og elskulegir starfsmennirnir lofuðu að það yrði litið á hana með hraði og haft samband. Mér var boðin lánstölva á meðan gert yrði við nýju biluðu tölvuna mína sem ég afþakkaði.

Það var svo gert núna rétt fyrir páska. Ég fór enn eina ferðina í búðina. Skilaboðin sem ég fékk núna voru að það væri rétt hjá mér að tölvan hefði verið gölluð (og þetta væri nánast stjarnfræðilega útilokað og ég hefði átt að kaupa mér lottómiða sama dag því ég hefði örugglega unnið, svo ólíklegt átti það að vera að MacBook tölva bili). Hver voru svo viðbrögðin? Jú, mér var afhent óinnpökkuð tölva sem ég átti að taka með mér í venjulegum plastpoka og  tilkynnt að þetta væri nýja tölvan mín! Ég hváði við og sagði að þetta væri ekki ný tölva því hún væri ekki í neinum umbúðum. Þá voru skilaboðin þau að þetta væri stefna hjá Epli.is að við svona tilfelli fengi viðskiptavinurinn svokallaða útskiptitölvu. Þar sem ég væri komin með hleðslutæki og þess háttar aukabúnað átti ég að sætta mig við að fá tölvu sem var í engum umbúðum, með ekkert innsigli og gera mér hana að góðu fyrir þau 160 þúsund sem ég hef greitt þessu fyrirtæki fyrir nýja tölvu. Ég bauðst að sjálfsögðu til þess að skila kassanum og hleðslutækinu. Ég fékk fáleg svör þegar ég spurði hvernig þessi óinnpakkaða tölva hefði komið til landsins. Hvort svona skiptitölvur væru þá fluttar inn sérstaklega hrúgað óinnpökkuðum í gám. Þessari heimsókn lauk með engri tölvu.

Í dag fór ég svo aftur þar sem þá átti ég að fá að tala við einhvern sem réði meiru. Þar fékk ég sömu skilaboð og sama tilboðið um „nýju“ tölvuna í engum umbúðum og plastpoka. Ég afþakkaði enn á ný og spurði hvort ég gæti fengið endurgreitt. Þegar ég fékk ekki skýr svör við því sagðist ég myndi leita réttar míns.

Ef ég væri að reka þetta fyrirtæki þá hefði ég beðið viðkomandi viðskiptavin innilega afsökunar á þessum óþægindum og boðið jafnvel aðeins betri tölvu eða aukahluti í sárabætur. Það vita allir sem koma að rekstri að ánægður viðskiptavinur sem mætir sanngirni ber slíkt víða en slæmt orðspor er erfitt að laga.

Eftir þessa óskemmtilegu reynslu er ég mörg spurningamerki. Ég er búin að reiða fram 180 þúsund krónur til þessa fyrirtækis og það eina sem ég hef í höndunum er óopnaður flakkari, taska með engri tölvu, hleðslutæki og tómur kassi. Það er sem fína drauma MacBook Air tölvan hafi bara fuðrað upp því hún virðist ekki ætla að skila sér heim þrátt fyrir að ég sé búin að greiða hana að fullu.

Hver er minn réttur í svona máli? Get ég fengið endurgreitt að fullu? Hver er staðan varðandi skilarétt þegar engin leið var fyrir mig að vita að tölvan væri gölluð fyrr en hún er sett í gang og því búið að opna umbúðirnar. Á ég sem neytandi að sætta mig við það að kaupa glænýja vöru, greiða hana að fullu og vera svo boðið tölva í plastpoka sem lítur út eins og notuð án nokkurs innsiglis eða umbúða í stað þeirrar sem var gölluð? Fyrir mig sem neytanda er nákvæmlega engin trygging fyrir því að þetta sé ekki bara nákvæmlega sama tölvan eða tölva sem einhver annar viðskiptavinur skilaði.

Eru þetta eðlileg vinnubrögð og er þetta eitthvað sem þú lesandi góður værir sáttur með?

 

Flokkar: Lífið og tilveran

Miðvikudagur 2.4.2014 - 23:29 - FB ummæli ()

Bætt geðheilbrigði

Ég vil vekja athygli á þessari þingsályktunartillögu sem var lögð fram í gær af 17 þingmönnum fjögurra flokka. Fyrsti flutningsmaður er Karl Garðarsson þingmaður Framsóknar.

Tillagan lýsir jákvæðum vilja til þess að bæta geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra ásamt verulegri áherslu á forvarnir vegna geðraskana sem við vitum öll að hafa skelfileg áhrif á líf hvers þess sem þjáist, ástvini viðkomandi og samfélagið allt. Áhrif sem oft er hægt að afstýra eða hafa veruleg áhrif á með réttu inngripi í takt við bestu mögulegu þekkingu.

Lengi býr að fyrstu gerð. Það er besta fjárfesting hverrar þjóðar að fjárfesta í börnum og unglingum því þau eru framtíðin. Ótal rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þess og fjölmargir fræðimenn bent á þetta mikilvæga atriði. Mikið af þeim erfiðleikum og sársauka sem við berum sem fullorðin á rætur sínar að rekja áratugi aftur í tímann. Að því sögðu er einnig mikilvægt að ráðast í umbætur á geðheilbrigðiskerfi fullorðinna því fullorðnir eru í mörgum tilfellum foreldrar og órjúfanlegur hluti lífs barna sinna ásamt því sem við fullorðna fólkið snúum hjólum atvinnulífsins og berum uppi samfélagið í dag. Því betur sem okkur líður því betur gengur okkur sem heild. Með því að vinna á vanda fullorðinna bætum við stöðu okkar í dag en með því að vinna á vanda barna og unglinga höfum við gríðarleg áhrif á framtíðina.

Það er full ástæða til þess að færa þeim þingmönnum sem að þessari tillögu standa lof í lófa. Til hamingju við öll með þetta góða framfaraskref!

 

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur