Mánudagur 26.09.2011 - 19:53 - Lokað fyrir ummæli

Vald fjölmiðla

Rætt er um í fjölmiðlum að mikil átök verði á Austurvelli 1. október og þar muni mótmæli beinast að stjórnmálamönnum. Sameiginlegi óvinurinn er fundinn, það eru stjórnmálamenn svona yfirleitt sem beina skal spjótum að. „Sjáið þið bara hvernig þeir láta, tala um sauðnaut í málþófi um stjórnsýslubætur!“ segja menn. Að stjórnmálamenn hrópi og kalli um minnstu mál og öllu sé haldið í átakaferli.

Hverjir eru það sem hrópa og kalla? Hverjir voru það sem töluðu um sauðnaut og héldu uppi málþófi um þjóðþrifamál? Það voru einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar. Nokkrir fulltrúar þeirra flokka sem setið höfðu lengi á valdastólum og lögðu grunninn að efnahagshruninu, sýna „umbótavilja“ sinn með þessum hætti.

Málþóf er ósiður hér á landi sem nauðsynlegt er að uppræta en ég harðneita því að stjórnmálamenn séu allir sem einn hinn sameiginlegi óvinur þjóðarinnar. Við verjum flest öllum okkar stundum við að finna leiðir til að spyrna þjóðinni upp úr kreppunni og til að hér megi leggja grunn að betra þjóðfélagi. Krafan sem virðist vera gerð nú, þremur árum eftir hrun efnahagslífs og samfélags, er að hér komi aftur ástand ársins 2007. Sú krafa er fullkomlega óraunhæf enda var það ástand byggt á froðu sem blásin var burtu haustið 2008.

Alhygli fjölmiðla er aðallega á þeim sem þæfa, hrópa og kalla. Á meðan hefur góður  árangur náðst við erfiðar aðstæður í glímunni við efnahagshrunið. Fremst í forgangi allra aðgerða er velferð þjóðarinnar og kjör þeirra sem minnst höfðu fyrir. Þó ekki sé endanlega búið að greiða úr vandanum sem hrunið olli hefur margt áunnist sem ekki fær athygli fjölmiðla, a.m.k. ekki í líkingu við þá athygli sem upphrópanir einstaka stjórnarandstæðinga fá.

Hrunið var hræðilegt og óréttlátt en það gaf okkur hins vegar tilefni til að hanna forgangsröðun okkar að nýju og skerpa þá sýn sem við höfum á gott samfélag. Mín von er sú að sá stjórnarmeirihluti sem nú er til staðar fái stuðning til að klára ætlunarverk sitt, sem er að leiða þjóðina út úr miklum vanda og byggja upp samfélag réttlætis og jöfnuðar.

Flokkar: Óflokkað

»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur