Sunnudagur 13.11.2011 - 13:14 - Lokað fyrir ummæli

Frá ójöfnuði til jafnaðar

Eins og öllum lesendum er kunnugt var samdráttur á Íslandi verulegur eftir efnahagshrunið. Með aðgerðum stjórnvalda voru áhrif kreppunnar milduð með minni niðurskurði á velferðarstofnanir en aðra þjónustu ríkisins og einnig voru tilfærslur til heimila og bótagreiðslur eftir hrun  umtalsvert hærra hlutfall af vergri landsframleiðslu en í svokölluðu góðæri.  Þar kemur tvennt til. Bæði drógust  tilfærslur og bótagreiðslur ekki saman í sömu hlutföllum og landsframleiðsla og einnig eru bætur hærri nú en fyrir hrun.

Fjárhæðum er skipt með allt öðrum hætti en áður og megináherslan á að auka jöfnuð og verja þá tekjulægstu.

Mér finnst mikilvægt að minna á að þó erfiðleikar of margra heimila séu verulegir þá hefur þróunin frá árinu 2004 verðið sú að hlutfall aldraðra í miklum erfiðleikum með að ná endum saman lækkaði verulega árið 2010 en heimila almennt fór úr 9% árið 2004 í 13% 2010. Ástandið fer hægt batnandi frá hruni en það er áhyggjuefni að um helmingur heimila segi að þau eigi í erfiðleikum með að ná endum saman í samanburði við þriðjung heimila í góðærinu svokallaða og við því þarf að bregðast.

Þessar staðreyndir er nauðsynlegt að skoða þegar metnar eru aðgerðir stjórnvalda eftir hrun. Þriðjungur heimila var í erfiðleikum að ná endum saman árið 2008 þegar þunga höggið kom. Það fólk varð verst úti við hrunið. Þó enginn mannlegur máttur, ekki einu sinni Samfylkingarinnar, hefði getað komið í veg fyrir að allur almenningur finndi á eigin skinni fyrir slæmum afleiðingum efnahagshrunsins, skiptu áherslur vinstristjórnarinnar miklu máli. Þær voru og eru þær að aðstoða þá sem verst eru staddir og dreifa byrðum í átt til jöfnuðar og réttlætis. 

Tekjuskattsbreytingar stjórnvalda hafa skilað tilætluðum árangri. Kjaraskerðing varð í öllum tekjuhópum við hrunið, hlutfallslega minnst hjá láglaunahópum en mest hjá þeim tekjuhæstu. Um 60% launþega greiða lægri skatta eftir skattkerfisbreytingarnar stjórnvalda en 40% launþega, þeir sem hafa hæstu tekjurnar, hlutfallslega hærri skatta.

Ójöfnuður jókst verulega á árunum fyrir hrun en nú hefur jöfnuður aukist sem er mjög jákvætt því viðurkenndar rannsóknir sýna nefnilega að með því að auka jöfnuð fylgi í kjölfarið betri félagsleg og andleg vellíðan allra í samfélaginu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur