Fimmtudagur 16.05.2013 - 22:50 - 8 ummæli

Fær nýtt og réttlátara almannatryggingakerfi framgang?

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, lagði fram á síðasta þingi nýtt frumvarp um almannatryggingar. Meginmarkmiðið er að einfalda löggjöfina, skýra betur réttindi lífeyrisþega og styrkja stöðu aldraðra. Einnig munu greiðslur almannatrygginga til ellilífeyrisþega hækka í kjölfar breytinganna.

Róttækar breytingar
Með frumvarpinu er brotið blað þar sem að róttækar breytingar eru lagðar til. Þær eru fjölmargar en þær stærstu eru í samræmi við meginmarkmiðið og snúa að margvíslegum réttindamálum ellilífeyrisþega sem munu styrkja stöðu þeirra og einfalda kerfið. Meðal breytinganna er eftirfarandi:

  • Bótaflokkarnir ellilífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót sameinaðir.
  • Dregið úr tekjutengingum og frítekjumörk afnumin.
  • Ekki verður lengur horft til þess hvaðan tekjurnar koma, heldur lækkar lífeyrir um 45% af tekjum, hvort sem það eru atvinnutekjur, lífeyrissjóðstekjur eða fjármagnstekjur.
  • Ellilífeyrisþegar sem fá greidda uppbót vegna framfærslu munu ekki sæta því að uppbótin lækki um krónu á móti krónu fái þeir einhverjar tekjur. Samkvæmt frumvarpinu verður dregið úr þessum áhrifum tekna í áföngum og fer í 45% á þremur árum.
  • Skýrt er kveðið á um markmið og tilgang laganna.
  • Mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur greiddar eftir á, líkt og almennt gildir um launagreiðslur á vinnumarkaði.
  • Framsetningin er öll bætt og einfölduð, ítarlega er kveðið á um málsmeðferð og stjórnsýslu og áhersla lögð á leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu stjórnvalda.

Forgangsröðun nýrrar ríkisstjórnar
Í gegnum tíðina hefur almannatryggingakerfið orðið æ flóknara þannig að þeir sem eiga að njóta þess eiga erfitt með að skilja hver réttur þeirra er. Starfshópurinn sem skipaður var hagsmunaaðilum og stjórnmálamönnum vann mjög gott starf undir stjórn Árna Gunnarssonar, fyrrverandi alþingismanns, við að undirbyggja frumvarpið. Vegna umfangs verksins náðist ekki að gera frumvarpið að lögum en það er tilbúið, fyrsta umræða fór fram við síðustu þinglok og umsagnir komnar í hús. Ekkert er því að vanbúnaði að gera frumvarpið að lögum á næsta sumarþingi ef vilji nýs þings stendur til þess. Um er að ræða mikla og löngu tímabæra kjarabót fyrir eldri borgara þessa lands. Þar sem starfshópurinn sem vann grunninn að frumvarpinu er þverpólitískur bind ég vonir við að ný ríkisstjórn muni vinna að framgangi málsins strax á sumarþinginu.

Vonandi liggur nýrri ríkisstjórn ekki meira á að afnema veiðileyfagjaldið, sem er hlutdeild þjóðarinnar í umtalsverðum arði sem sérleyfi að auðlindinni skilar. Framar í forgangsröðinni hjá nýrri ríkisstjórn verður vonandi að bæta kjör þeirra sem eiga allt sitt undir góðum almannatryggingum.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Nú eruð þið hætt og ekki ykkar að forgangsraða….!

  • Kristján Elís

    Er þetta röng forgangsröðun, Dagga??

  • Ragnhildur H.Jóhannesdóttir

    Nú er ykkar timi liðin ,Stopp !!

  • Hvernig stóð á því að 2011 var lífeyrisþegum ekki endurgreitt það sem þið hirtuð af þeim? Er ekki soldið seint að væla um þetta núna þegar þið eruð frá völdum þá getið þið lagað allt… þjófnaðurinn ykkar bæði hjá ríki og borg af örorkuþegum er til skammar.

  • Hækkunin gæti numið 2-3 milljörðum króna á næsta ári og komið í 9-10 milljarða árið 2017. Á þessu fimm ára tímabili yrði útgjaldaaukningin um 23,3 milljarðar króna á þessum fimm árum.

  • kristinn geir st. briem

    það veitir ekki af að einfalda tryggíngakerfið hvort þettað að ofantöldu skiptir mikklu í því smbandi veit ég ekki en einhverju. man þá tíð þegar ég varð öryrki fór fyrst til tryggíngarstofnunnar og spurði hvað ég feingi þar svarið var hvað færðu hjá verkalýðfélaginu ég fór til vekalýðfélagsins og spurði sömu spurníngar og fékk þau svör hvað færu hjá tryggíngastofnun hvað átti ég að gera þegar bent er hvert á annað. skilst að það séu fáir sem skilji þettað kerfi til fulls. svo það er gott að menn geti einfaldað þettað kerfi því fæstir örirkjar eru lögmen

  • Sæl Oddný
    Eftir setningu laganna 2009 gerðist það að ef lífeyrisþegi átti 4 milljónir eða meira í banka þá var tekjutryggingin skert eða afnumin. Þetta leiddi til þess að lífeyrisþegar þurftu að taka peningana sína af sinni kennitölu, kaupa skuldabréf á kennitölu einhvers annars, eða að stofna einkahlutafélög. Mig langar til að spyrja þig Oddný hvort þetta verði enn svona eftir að lögin sem þú talar um, verða samþykkt.

    Ég veit ýmis dæmi um að börn keyptu ríkistryggð skuldabréf á sinni kennitölu fyrir aldraða foreldra sína og að þeir sem hlotið höfðu skaðabætur vegna slysa neyddust til að stofna einkahlutafélög.Það er ansi hart að lífeyrisþegar þurfi að fela löglega fengið fé svo að ríkið læsi ekki klónum í það og komi þeim í fátækragildru smá saman.

    Sem dæmi: Eldir borgari í meðal ævitekjum selur íbúð sína eða hús og flytur í minna.Hann ætlar að nota mismuninn til að sjá fyrir sér í ellinni, því venjulegt fólk lifir ekki af eftirlaununum sem það fær.Ellilífeyrir hans var verulega skertur vegna þessa.
    Annað dæmi er fólk sem hlotið hafði skaðabætur vegna varanlegrar örorku. Slysaskaðabætur voru reiknaðar þannig út að fólk fékk eingreiðslu bóta frá tryggingafélagi sem var höfuðstóll. Þennan höfuðstól átti fólk að ávaxta með eigi minna er 4.5% vöxtum.Síðan átti fólkið að fá örorkubætur og tekjutryggingu frá TR til 67 ára aldurs.Með setningu laganna 2009 braut ríkið þennan lífstíðar kjarasamning sem venjan hafði verið í áratugi að var hafður í heiðri gagnvart, í flestum tilfellum ungu fólki, sem átti jafnvel ekkert þegar það slasaðist.Nota Bene: Höfuðstólinn í öllum bótauppgjörum var lækkaður verulega vegna þess að fólkið átti að fá ofangreindar bætur frá TR. Svo voru lögin sett og tóku TR bæturnar af fólkinu. Sem sé: TR bæturnar voru teknar tvisvar sinnum af fólkinu.
    Ég velti fyrir mér hvað öðru fólki en lífeyrisþegum þætti ef farið væri inn á þeirra bankareikninga og sagt: Þú átt nóg af peningum í banka svo þú færð engin laun fyrir vinnu þína.
    Ríkið stjórnar fjármálum lífeyrisþega.

  • Guðný Ármannsdóttir

    Forstýrur, listamenn og allskonar fræðingar eru eflaust sátt með sitt, og þeir sem vinna svart. En verkafólki öryrkjum, sjúkum og öldruðum var bara gefinn puttinn og geta étið það sem úti frýs 🙁

    Ég er komin yfir fimmtugt og hafði alla ævi vonast eftir vinstri stjórn. Ég varð vægast sagt fyrir miklum vonbrigðum. Það er engin einföldun í lyfjalögunum og þau eiga eftir að valda sykursjúkri dóttur minni miklum skaða og verða fyrrverandi ríkisstjórn til ævarandi skammar.

    Ég er bara bullandi reið. Ég studdi stjórnina allt til enda og bjóst alltaf við að árangurinn skilaði sér til okkar aumingjanna á síðustu metrunum, en nei, Þið enduðuð ferilinn á að stofna lífi og heilsu dóttur minnar í voða. Já ég er brjáluð.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur