Miðvikudagur 31.07.2013 - 15:43 - 8 ummæli

Ríkissjóður og vondir menn í útlöndum

Eftir hrun efnahags og samfélags haustið 2008 skuldar ríkissjóður um 1.500 milljarða. Vaxtagreiðslur af þessum skuldum eru um 90 milljarðar á ári. Ef við skulduðum ekkert ættum við semsagt 90 milljarða til viðbótar til að reka velferðarkerfið, menntakerfið og til að vinna að rannsóknum og þróun í átt að aukinni verðmætasköpun. Það er því augljóslega almenn aðgerð, aðgerð sem kemur öllum Íslendingum til góða, að stýra rekstrinum þannig að sem fyrst verði mögulegt að grynnka á skuldum og lækka vaxtagreiðslur. Ef aðstæður hér á landi eru metnar þannig að áhættusamt sé að lána Íslendingum verður vaxtakostnaðurinn meiri. Hvert prósentustig til hækkunar getur hlaupið á milljörðum í kostnaði bæði hjá ríkinu og þeim fyrirtækjum sem þurfa á erlendum lánum að halda. Þess vegna eigum við að taka alvarlega þau aðvörunarorð og það mat á stöðu landsins sem lánshæfismatsfyrirtæki setja fram. Við vorum á réttri leið þar til áform hægristjórnarinnar um nefndir og óvissu litu dagsins ljós. Stjórnvöld verða að svara gagnrýninni en ekki eyða kröftum sínum í að sannfæra okkur Íslendinga um að allir aðrir séu vitlausir og vondir við okkur en að þau séu að gera allt rétt. Það skiptir nefnilega miklu máli þegar mat annarra hefur áhrif á vaxtakjörin á erlendum lánum.

Afsláttur og niðurskurður

Það sýnir ekki mikinn skilning á stöðu ríkissjóðs að gefa útgerðum stórkostlegan afslátt af veiðigjaldi eða að gefa erlendum ferðamönnum afslátt á neysluskatti. Hægristjórnin afsalar ríkissjóði tekjum upp á um 12 milljarða króna á ári og boðar um leið niðurskurð í ríkisrekstri. Það er ekki trúverðugt eða líklegt til að auka skilning á erfiðum uppsögnum ríkisstarfsmanna eða frestun á mikilvægum verkefnum sem t.d. auka umferðaröryggi og skapa atvinnu eins og Norðfjarðargöng. Formaður fjárlaganefndar sagði í morgunþætti á Rás 2 í morgun þegar arðgreiðslur og ofurlaun í sjávarútvegi voru rædd, að við ættum að gleðjast yfir því að vel gengi í sjávarútvegi og að fyrirtækin gætu greitt góð laun. Hún minntist hins vegar ekki á hvernig sú staða er til komin. Fyrirtækin standa nú fyrst og fremst svona vel vegna falls krónunnar og ódýru sérleyfi sem veitir aðgang  að auðlindum þjóðarinnar. Almenningur tapaði hins vegar umtalsvert á falli krónunnar og það gerði ríkissjóður líka og samdráttur á þjónustu við almenning varð óhjákvæmilegur.

Nýr Landspítali

Formaður fjárlaganefndar sagði í sama útvarpsþætti að Íslendingar hefðu ekki efni á nýjum Landspítala. Hún líkti þar hátæknisjúkrahúsi  við steinsteypukubb. Greiningar hafa verið gerðar af innlendum og erlendum sérfræðingum á áhrifum bættrar aðstöðu með nýrri byggingu á rekstur og líðan bæði sjúklinga og starfsmanna. Kostnaður við að reka starfsemi spítalans á 17 stöðum í oft óhentugu húsnæði hafa líka verið gerðar. Greiningarnar sýna rekstrarsparnað við að byggja nýjan spítala. Vonandi skoðar niðurskurðarhópurinn stóru myndina og hefur í huga mikilvægi þess að  landsmenn eigi góðan spítala sem með bættum starfsaðstæðum laðar að fagfólk í þeim tilgangi að bæta líðan og lífsgæði sjúkra.

Forgangsmálin

Á meðan niðurskurðarhópur finnur leiðir til að skera niður fyrir afslætti til útgerðar og erlendra ferðamanna  verja aðrir stjórnarþingmenn og ráðherrar  kröftum sínum í að ræða um gallabuxur,  útihátíðir og vonda menn í útlöndum. Algjör óvissa er um stór mál og áhrif þeirra á ríkissjóð. Hætta er á að Ísland tapi þeim trúverðugleika sem áunnist hefur á síðastliðnum fjórum árum, eftir að landið stóð á barmi gjaldþrots og rúið trausti haustið 2008. Ef ekki á illa að fara verður að grípa strax í taumana.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Barnaleg er hún sérfræðingatrúin sem birtist í þssum skrefum.

    Algjörlega gagnrýnislaust er hér talað um „greiningar“ og sérfræðinga.

    Hvernig hafa sérfræðingar og greiningar reynst Íslendingum á síðustu árum?

    Hefur höfundur kynnt sér byggingaráætlanir og síðan raunverulegan kostnað á Íslandi síðustu áratugi?

    Þær áætlanir hafa undantekningarlaust reynst alveg út í bláinn. Yfirleitt hefur undirbúningsvinnan reynst hreinn skáldskapur.

    Barnaleg trú á excel-skjöl, greiningar og „ferli“ sæmir ekki fólki sem talið verður sæmilega upplýst.

  • Þetta er því miður rétt hjá Oddnýju. Ríkisstjórnin er að beina efnahagslífinu inn í blindgötu og stefnir í hættu þeirri sátt sem þó hefur náðst. Auðvitað nær ekki nokkurri átt að gefa LÍÚ afslátt á auðlindargjaldi og sanngjarn virðisauki á gistinætur er einfaldlega nauðsynlegur fyrir hag okkar allra sameiginlega. Sem betur fer komst Oddný á þing en það er fátt um sanngjarna og góða þingmenn um þessar mundir. Kær þjóð hefur kosið yfir sig skrumara og ósannindamenn. Við verðum bara að vona að þeir valdi ekki aftur óbætanlegu tjóni.

  • Formaður fjárlaganefndar byggir mál sitt á taumlausri flokkstrú og lokuðum augum fyrir tekjum af auðlindaskatti sem snarlega var kippt af útgerðinni.

  • Margret S.

    Lánshæfismat byggt á mati frá Standard & Poors er ekkert trúverðugt. Ekki miðað við það að þetta fyrirtæki gaf undirmálslánum í USa og fjármálafyrirtækjum sem fóru stuttu seinna á hausinn ávallt AAA++ einkunnir. Bandaríska ríkið er að stefna Standard & Poors vegna lánshæfismatseinkunna þeirra sem urðu til þess að bandarískir skattgreiðendur, ríkið, ásamt fjárfestum hafa tapað stjarnfræðilegum upphæðum. Það er vitað að Standard & Poors er að vinna fyrir vogunarsjóði sem vilja græða á skuldugum íslenskum almenningi, vilja fá íslenska okurvexti af bréfum og lánum sem þeir hafa hirt út úr föllnum fjármálafyrirtækjum fyrir smá brot af upphæðinni.

    Almenningur í landinu olli ekki fjármálahruninu, það voru fjármálafyrirtæki og auðjöfrar tengdir þeim. Hættum að hafa áhyggjur af þessu svokallaða „lánshæfismati“ frá tengdum aðilum í U.S.A. Þeir eru að vinna fyrir auðjöfra en hafa engan áhuga á lífskjörum almennings. Þeir hækka vextina bara ef þeim sýnist og bera fyrir sig „lánshæfismat“.

  • Jón Páll Garðarsson

    Vorum við ekki rænd nnan frá af eigin fólki en ekki af vondum útlendingum?
    Má einnig benda á að BNA eru afar illa stödd fjárhagslega og eiga að vera með mun verra lánshæfnismat en þau hafa í dag. Þau hafa beitt matsfyrirtækum gríðarlegum hótunum ef þau dirfast að hrófla við stöðu þeirra.

  • kristinn geir st. briem

    skuldir og vextir ríkisjóðs virðast fara eftir því hver seigir frá eru þettað allar skuldbindíngar ríkisins eða hreinar skuldir eins með vextina eru þettað útlánsvextir – innlánsvextir því einhverjar vaxtagreiðslur fáum við á móti skuldavöxtunnum. enn hvað um það . til þess að greiða niður lánn þar að eiða minna enn maður aflar hef svosem aldrei skilið þessa umræðu um auðlindarentuna, en hefði haldið að ef núverandi ríkistjórn hefði viljað hefðu þau getað feingið svipaða útkomu úr gjaldinu og fyrverandi stjórn vildi ná í snerist bara um formið . um landspítalan ætli það verði ekki sett á ný nemd sem ræður nýja verkfræðinga og arkitekta til að teikna nýjan spítala því það virðis helst vera þær stéttir sem virðast hafa hag af þessu hvað ætli sé búið að teikna marga spítala ætli það verð ekki einsog með flugstöð leifs eirikssonar fyrst var teinað svo vildu menn spara og minkuðu flugstöðina ánn þess að breita teikníngum síðan þegar hún var byggð reindist margfalt dyrari þegar upp var staðið heldur enn ef byggð hefði veru eftir upphaflegri teiknínguni nóg var um arkitegta og verkfræðinga að filgjast með þeiri byggíngu.er þeirar skoðunar að það eigi að byggja eins ódýrt og mögulegt er þá verða menn að byggja uppí loftið þá er núverandi lanspítalareitur ekki hentugur og mætti síðan selja reitin uppí kosnað eða setja upp stjórnsýsluna þar skilst að hún um alla borg meira eða minna í leiguhúsnæði. en annars ágætar hugleiðíngar

  • Ásmundur

    Það hefur frést að nú sé stefnt að því að lækka verðtryggðar skuldir einstaklinga um sem svarar hækkun neysluvísitölu 2007-2010, sem er yfir 30%.

    Heildarupphæð þessara lána mun vera 1200 milljarðar. Lækkun lána er því, ef þetta gengur eftir, 360 milljarðar.

    Nú telur framsóknarflokkurinn hæpið að við höfum efni á nýjum spítala upp á 60 milljarða. Hvernig eigum við þá að hafa efni á lækkun lána sem kostar sex sinnum meira?

    Það fé sem framsókn vill nota í lánalækkun væri að sjálfsögðu mun betur varið í að greiða niður skuldir ríkisins og byggja nýjan spítala.

    Það mætti íhuga að lækka skuldir þeirra sem keyptu sína fyrstu íbúð 2006-2008. Aðrir hafa einfaldlega hagnast á sínum fasteignakaupum þrátt fyrir hrunið.

    Það er auðvitað algjört glapræði að 80% lánalækkunarinnar gangi til þeirra 20% sem mestar hafa tekjur og geta auðveldlega greitt sínar skuldir sjálfir.

    Fólk sem kaus framsókn gerði sér greinilega enga grein fyrir að það tapar á lánalækkun ef það er ekki í hópi þeirra 20% sem skulda mest.

    Hlutur þeirra í kostnaðinum af lækkun lána í formi hærri skatta eða minni opinberrar þjónustu er meiri en lækkun þeirra eigin lána.

    Að ógleymdum efnahagslegum afleiðingum þessara aðgerða sem hæglega geta leitt til nýs hruns.

  • Ásmundur

    Rósa: „Hvernig hafa sérfræðingar og greiningar reynst Íslendingum á síðustu árum?“

    Reynslan af því að hafa ekki tekið mark á sérfræðingum hefur verið hrikaleg. Stjórnvöld voru margoft vöruð við yfirvofandi hruni, ef ekki væri gripið i taumana, á árunum fyrir 2008. Þau skelltu við skollaeyrum.

    Mistökin með íbúðalánasjóð, sem nú þegar hafa kostað okku nærri 100 milljarða og gætu kostað okkur um 300 milljarða áður en yfir lýkur, voru þvert gegn ráðleggingum sérfræðinga, sem vöruðu við stærstu mistökunum án árangurs.

    Það er því skelfilegt ef stjórnvöld ætla enn einu sinni að hunsa viðvaranir innlendra og erlendra sérfræðinga sem allir hafa varað við almennri lánalækkun.

    Ástæðan fyrir því að byggingarkostnaður fer oft langt fram úr fyrstu kostnaðaráætlun eru breytingar á framkvæmdinni sem tekin er ákvörðun um eftir að kostnaðaráætlun er gerð.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur