Kjallari DV í dag:
Fyrstu verk ríkisstjórnarinnar hafa vakið athygli. Í forgangi var að gefa erlendum ferðamönnum afslátt á neyslusköttum og útgerðarmönnum afslátt af veiðigjaldi. Í sömu andrá kvörtuðu þau undan slæmri stöðu ríkissjóðs og boðuðu niðurskurð. Það sýnir ekki mikinn skilning á stöðu ríkisfjármála að afsala ríkissjóði milljarða króna tekjum og boða um leið niðurskurð í ríkisrekstri til að bæta slæma stöðu. Það er ekki trúverðugt eða líklegt til að auka skilning á fækkun starfa á ríkisstofnunum, skertri þjónustu við þá sem reiða sig á velferðarkerfið eða frestun á mikilvægum atvinnuskapandi verkefnum.
Veiðigjald
Þegar stjórnarliðar verja afsláttinn á veiðigjaldinu fullyrða þau að þetta hafi þurft að gera til að létta óhóflegum gjöldum af litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Sú fullyrðing er röng. Minnihluti þingsins gerði tillögu ( http://www.althingi.is/altext/142/s/0060.html )á sumarþingi sem leitt hefði til þess að 324 litlar útgerðir greiddu ekkert sérstakt veiðigjald og 102 aðeins hálft gjald á meðan stóru útgerðirnar greiddu áfram fullt gjald. Þessari leið höfnuðu stjórnarþingmenn og stærsti hluti afsláttarins kom í hlut stóru útgerðarfyrirtækjanna. Fyrirtækja sem standa afarvel og skila miklum arði til handhafa sérleyfanna.
Óréttlætið í þessari aðgerð stjórnvalda er mikið vegna þess að útgerðarfyrirtækin skila svo miklum arði til eigenda sinna fyrst og fremst vegna falls krónunnar og ódýru sérleyfi sem veitir aðgang að auðlindum þjóðarinnar. Þetta hefur ekki farið fram hjá almenningi. Þeim sama og tapaði umtalsvert á falli krónunnar og það gerði ríkissjóður einnig og samdráttur á þjónustu við almenning varð óhjákvæmilegur.
Hlutdeild sveitarfélaga
Í stað afsláttar á veiðigjaldinu til útgerðarmanna hefði verið nær að veita sjávarútvegssveitarfélögum sanngjarna hlutdeild í því. Sveitarfélögin hafa borið kostnað af framsali og hagræðingu í sjávarútvegi. Útgerðin og þjóðfélagið í heild hafa hagnast af hagkvæmum sjávarútvegi en sjávarbyggðirnar greiða fyrir hagræðinguna með fækkun starfa og fækkun íbúa í kjölfarið. Kvótakerfið með framsalsrétti hefur þannig í för með sér kostnað sem fallið hefur á sjávarbyggðir landsins í formi atvinnuröskunar og tekjumissis. Með hlutdeild í sérstaka veiðigjaldinu fengju sveitarfélögin stuðning við uppbygginu innviða, atvinnuþróun og fjölgun starfa bæði í afleiddum greinum sjávarútvegs og á öðrum sviðum.
Ferðaþjónusta
Fjölgun erlenda ferðamanna hér á landi er fagnað einkum vegna þeirra gjaldeyristekna sem þeir skila en um leið er kvartað undan ágangi á viðkvæmum svæðum, að erfiðleikar fylgi því að taka á móti miklum fjölda og skorti á uppbyggingu innviða við ferðamannastaði. Samt gefa stjórnvöld sama afslátt á hótelgistingu frá almennu þrepi virðisaukaskatts og gefinn er á matvæli. Stjórnvöld ræða gjaldtöku við ferðamannastaði en líta fram hjá einföldum leiðum í gegnum neysluskatta og afnámi afsláttar. Athyglisvert er að í skýrslu Ferðamálastofu um fjármögnun uppbyggingar og viðhald ferðamannastaða er dregið fram að frá árinu 2004 hafa tekjur til ríkisins af hverjum ferðamanni lækkað um 40%. Þetta er sláandi mikil lækkun og nauðsynlegt er að finna skýringar á þessu. Skoða þarf allt umhverfi ferðaþjónustunnar vandlega með framtíðar stefnumótun í huga. Best er að gera breytingar í uppsveiflu og þá stefnu hafði fyrri ríkisstjórn markað en núverandi hafnað. Markmiðið til framtíðar fyrir ferðaþjónustuna hlýtur að vera að atvinnugreinin styrkist, skapi verðmæt störf og skili um leið góðum tekjum til samfélagsins.
Niðurskurður
Fulltrúar stjórnarliða í hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar hafa verið fyrirferðarmiklir í fjölmiðlum og undarlegustu hugmyndir verið hafðar eftir þeim. Þau hafa talað um niðurskurð, m.a. til menningarmála, hjá ríkisútvarpinu og einnig hjá eftirlitsstofnunum sem verja eiga hag almennings og voru fjársveltar í hinu svokallaða góðæri. Fyrir hrun þótti eftirlitsstarfsemi frekar aum starfsemi og skapaði ýmiskonar vesen fyrir þá sem eftirlitið átti að beinast að. Því var starfsemin veikt með slæmum afleiðingum fyrir almenning. Og nú á að endurtaka leikinn.
Við bindum vonir við ríkisstjórnina og niðurskurðarhópinn.
Gengur ekki að reka ríkið með 30 – 40 milljarða halla á ári eins og sósíalistastjórnin gerði.
Þeir sem eru því meðmæltir vilja skuldsetja börnin sín.
Hér þarf sparnað og kerfisbreytingu.
Ekki batnat staða ríkissjóðs við dekur yfirstéttardrengjanna Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar við sína nánustu auðmenn.