Miðvikudagur 18.09.2013 - 13:58 - Rita ummæli

Mikilvæg en flókin viðfangsefni

Í sérstakri umræðu á Alþingi þriðjudaginn 17. september sl. vakti Steingrímur J. Sigfússon athygli á stórum og mikilvægum málum. Hann varpaði fram spurningum til fjármála- og efnahagsráðherra um stöðu vinnu við endurskoðun áætlunar um afnám gjaldeyrishafta, samráð við stjórnarandstöðuna í þeim efnum og aðkomu Seðlabankans og nefndar um fjármálastöðugleika. Einnig var í umræðunni komið inn á uppgjör gömlu bankanna, hæfi nefndarmanna sem eru starfandi í fjármálafyrirtækjum á markaði og svigrúm við uppgjör bankanna.

Óvissan

Ég tók þátt í umræðunni og benti á að málefnin tengjast öll með einum eða öðrum hætti en það sem er sammerkt með þeim er að um þau ríkir mikil óvissa. Og óvissan er okkur kostnaðarsöm. Á meðan óvissan ríkir halda menn að sér höndum og bíða. Þess vegna er svo mikilvægt að ríkisstjórnin svari með skýrum hætti hverju þau ætla að breyta frá áætlun fyrri stjórnvalda og leggi fram plan sem er líklegt til að virka. Skýr svör fengust því miður ekki frá fjármála- og efnahagsráðherra í þessari umræðu.

Kostnaður til lengri tíma

Sennilega er losun gjaldeyrishafa eitt mikilvægasta og flóknasta viðfangsefnið í íslenskum efnahagsmálum um þessar mundir. Höftin reyndust nauðsynleg til að ná stöðugleika eftir bankahrunið í framhaldi af því fjármálaáfalli sem það leiddi af sér. Það er líka nauðsynlegt að afnema þau eins fljótt og hægt er. Það er ekki aðeins vegna þess að alþjóðlegir samningar gera ráð fyrir því heldur vegna þess að þau hafa í för með sér kostnað sem verður til lengdar meiri en ávinningurinn og versnandi lífskjör.

Stefna í gjaldeyris- og gengismálum

En hvað gerist þegar höftin hafa verið afnumin og veruleikinn án hafta blasir við? Mun íslenska krónan nýtast okkur án þess að hún verði í einhvers konar höftum til framtíðar?

Mér finnst mikilvægt að kannað verði betur hvernig losun hafta tengist vali á stefnu í gjaldeyris- og gengismálum og hvort kostir í þeim efnum geri losun haftanna auðveldari. Einnig ættum við að nýta okkur þá möguleika sem kunna að skapast í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar, í gegnum aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Utanríkisráðherra hefur að vísu tilkynnt að gert hafi verið hlé á viðræðunum. Alþingi hefur samt ekki enn falið ríkisstjórninni að slíta umsóknarferlinu og því er enn von til þess að sú skynsamlega niðurstaða náist að umsóknarferlið allt verði klárað og niðurstaðan borin undir þjóðina.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur