Fimmtudagur 17.10.2013 - 15:08 - 2 ummæli

Greinin mín í Viðskiptablaðinu fyrir viku:

Orð og athafnir

Forsætisráðherra hefur nú flutt stefnuræðu sína og fjármála- og efnahagsráðherra mælt fyrir fjárlagafrumvarpi 2014. Fjárlagafrumvarpið er helsta stefnuplagg ríkisstjórnarinnar. Þar eru kosningaloforðin sett í samhengi, áherslurnar raungerðar og forgangsröðun lítur dagsins ljós.

Mikilvægi fjárfestinga

Þegar stefnuræða forsætisráðherra er rýnd og borin saman við þær áherslur sem birtast í fjárlagafrumvarpinu vantar áberandi oft upp á samræmið. Forsætisráðherra segir t.d. í ræðu sinni: „Til að fjölga störfum og bæta kjör verður fjárfesting að aukast til mikilla muna á Íslandi.“

Þetta er rétt hjá ráðherranum, en fjárfestar halda nú að sér höndum vegna þeirrar óvissu sem ríkisstjórn hans hefur skapað með miklum loforðum um alheimsmet um skuldaniðurfellingar til tæplega helmings heimila í landinu. Við slíkar aðstæður bíða þeir átekta, þeir sem ætla út í fjárfestingar sem gætu fjölgað störfum og bætt kjör. Óvissunni er haldið enn, því ekki er minnst á heimsmetið í fjárlagafrumvarpinu og engar tillögur um heimildir hvað það varðar settar fram. Óvissan er kostnaðarsöm fyrir öll heimili í landinu.

Opinberar fjárfestingar skipta máli til að bæta innviði samfélagsins, skapa störf og ýta undir hagvöxt.  Þrátt fyrir orð forsætisráðherra um mikilvægi fjárfestinga og uppbyggingu innviða eru flest fjárfestingarverkefni sem undirbúin hafa verið á vegum ríkisins slegin út af borðinu. Bráðnauðsynleg verk eru þar á meðal, s.s. við heilbrigðisstofnanir á Suður- og Vesturlandi og bygging nýs Landspítala er ekki áformuð samkvæmt frumvarpinu.

Menntamál

Ásamt því að hætta við byggingu á verknámshúsi við FSu eru framlög til framhaldsskólanna skorin niður, framlag til að greiða fyrir aðgengi ungs fólks í framhaldsskóla og til að stuðla að fjölbreyttara námsframboði er skorið niður og Þróunarsjóður fyrir starfsnám er lagður af.

Samt sagði forsætisráðherra í stefnuræðu sinni að á sviði menntamála verði lögð áhersla á að fjölga fólki með menntun í tækni- og iðngreinum.

Talað er fjálglega um mikilvægi hagvaxtar til framtíðar en litið fram hjá því að ef auka á þann hagvöxt sem hver einstaklingur skapar, er nauðsynlegt að  raða menntun framar og tryggja gott aðgengi að námi á framhaldsskólastigi um allt land. Í fjárlagafrumvarpinu er hvergi að finna þær áherslur heldur þvert á móti.

Byggðamál

Forsætisráðherra sagði orðrétt í stefnuræðu sinni: „Til að hægt verði að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem birtast okkur í öllum landshlutum er mikilvægt að styrkja innviði um allt land. Heilbrigðisþjónustu, skólahald og aðra opinbera þjónustu“. Þetta eru falleg orð en stuðningur við þennan fína ásetning vantar í fjárlagafrumvarpið.   Hætt er við fjárfestingar í einu viðkvæmasta sveitarfélagi landsins og áætlun um uppbyggingu innviða á friðlýstum svæðum eru tekin niður þrátt fyrir að ör  fjölgun ferðamanna kalli á slíkar framkvæmdir.

Sóknaráætlun landshluta er slegin af en því fylgir jafnframt að ákvörðun um þróun byggða er færð frá sveitarfélögum. Flutningsjöfnun er tekin aftur og framlag til húshitunar á köldum svæðum er lækkað umtalsvert. Hafinn er á nýju niðurskurður í rekstri heilbrigðisstofnanna þó fyrri ríkisstjórn hafi ekki gert slíka kröfu í fjárlögum 2013 enda ekki talið að heilbrigðiskerfið þyldi frekari niðurskurð. Góð heilbrigðisþjónusta er ein af grundvallar búsetuskilyrðum á landsbyggðinni.

Atvinnumál

Í atvinnumálum er sama upp á teningnum. Forsætisráðherra segir að stuðningur við nýsköpun og skapandi greinar verði aukinn en fjárlagafrumvarpið sýnir aðra stefnu. Skattaafsláttur til nýsköpunarfyrirtækja er lækkaður um 25%. Áform um verulega hækkun til Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknarsjóðs eru slegin af, en sjóðirnir skornir niður og markáætlun á sviði vísinda og tækni lækkuð um helming. Framlög til Kvikmyndamiðstöðvar eru skert verulega, sem og ýmsir aðrir sjóðir sem styðja skapandi greinar. Fjárveitingar til græna hagkerfisins eru strokaðar út, framlag í Húsafriðunarsjóð lækkað um 82% og til uppbyggingar ferðamannastaða um þriðjung. Þá er framlag til atvinnuuppbyggingar og fjölgun vistvænna starfa er slegið af.

Það er sitt hvað orð og athafnir og munurinn er áberandi mikill á orðum forsætisráðherra í stefnuræðunni og þeim athöfnum sem fjármála- og efnahagsráðherra boðar með fjárlagafrumvarpinu. Gera verður þó ráð fyrir að það sé fjárlagafrumvarpið sem taka eigi mark á enda samþykkt í ríkisstjórn. Því er ljóst að horfið verður frá atvinnustefnu þar sem sprotar og skapandigreinar eru studd til vaxtar, byggðastefnu þar sem sveitarfélög hafa meira um forgangsröðun fjárfestinga og uppbyggingu innviða að segja, velferðarstefnu með bættri heilbrigðisþjónustu og  menntastefnu með áherslu á tækni- og iðngreinar. Ástæða er til að haga áhyggjur af því að stefnubreytingin hafi slæm áhrif á þróun hagvaxtar og hagsældar á kjörtímabilinu sem hefði annars átt að vera uppvaxtartímabil í kjölfar endurreisnar efnahags og samfélags eftir hrun.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Þorsteinn Jón Óskarsson

    Réttmætar athugasemdir.

  • Heimsmet í engu meðal sætabrauðsdrengja og silfurskeiðunga ríkisstjórninni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur