Mánudagur 04.11.2013 - 10:12 - 2 ummæli

Brothættar byggðir undir hnífinn

Undanfarin ár hefur umræða um byggðamál verið með öðrum og skýrari hætti en áður. Eftirtektarverð er vinna Byggðastofnunar um  byggðir sem skera sig úr hvað varðar mikla fólksfækkun, erfitt atvinnuástand og óhagstæða aldursþróun undangengin ár. Sú vinna hefur ekki fengið mikla athygli utan byggðanna sem um ræðir en er sannarlega athyglinnar virði. Unnið hefur verið með íbúum Raufarhafnar, Bíldudals, Skaftárhrepps og Breiðdalshrepps.

Í þessari nýstárlegu nálgun felast sértækar aðgerðir og vinna með íbúum þar sem hin almennu stuðningsúrræði á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og byggðaaðgerða duga ekki ein til.

Verkefninu hefur verið fylgt úr hlaði með fjölsóttum íbúafundum um framtíðarsýn byggðanna, styrkleika og tækifæri. Þó aðferðin sé miðuð við brothættar byggðir snertir hún stefnumótun í byggðamálum í heild. Má þar nefnda stefnu í fjarskiptamálum, samgönguáætlun, jöfnun húshitunar á köldum svæðum, dreifnám og menntastefnu og yfirfærslu málaflokka frá ríki til sveitarfélaga.

Byggðastofnun var tryggt fé, 50 milljónir króna, á fjárlögum yfirstandandi árs til að vinna samkvæmt þessari nýju aðferð. Sú fjárveiting, ásamt sóknaráætlunum landshlutanna með 400 milljónum króna, sýnir ótvíræðan  vilja ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur til að vinna að bættum búsetuskilyrðum í brothættum byggðum þrátt fyrir þröngan fjárhag ríkisins.

Þau slæmu tíðindi eru hins vegar boðuð með fjárlagafrumvarpinu að ný ríkisstjórn hefur slegið þessa mikilvægu vinnu Byggðastofnunar af ásamt sóknaráætlun landshluta í heild sinni. Auk þess hefur hægristjórnin hætt við byggingu húnsæðis fyrir þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri í Skaftárhreppi sem hefja átti á þessu ári. Þekkingarsetrið er vel undirbúið samstarfsverkefni sem heimamenn höfðu bundið miklar vonir við og samtök sveitarfélaga á Suðurlandi sett ofarlega á forgangslista í sóknaráætlun landshlutans. Eftir standa byggðirnar vonsviknar.

Enn er ekki útilokað  að stjórnarliðar sjái að sér við vinnslu fjárlagafrumvarpsins á Alþingi  og taki upp   stefnu fyrri ríkisstjórnar í byggðamálum. Slík stefnubreyting bæri vott um raunsæi og skynsemi og blési krafti í byggðirnar út um landið sem eiga undir högg að sækja.

(Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 4. nóvember 2013)

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • kristinn geir st. briem

    það er altaf gamann að eiða peníng enn afla. nú virðisr vera með núveran ríkistjórn halda áfram sömu vinnu og sú senasta ég ræð hugsunarhættinum í stað þess að reina ná breiðri sátt um helstu mál til framtíðar sem mun taka lángan timma að ná t.d. sjúkrahús . skóla . atvinulíf. að það fari alt á haus bara við það að skipt er um ríkistjórn stað þess að það vaggi aðeins þá er kominn áhveðinn stöðugleiki í þjóðfélagið. tökum vandamálinn í dag í stað þess að ræða við verkalýðshreifíngu og atvinnulíf áður fjárlagagerðinn var áhveðinn . þá væri kjarasamníngar ekki í uppnámi eins og virðist vera og fjárlögin varla pappírsins virði hugsa að það verði að skrifa þau uppá nýtt þegar kjarasamníngum líkur. siðann kemur stórar afborganir lána sem seinasta ríkistjórn frestaði að gánga frá heldur frestaði.menn verða að birja strax (sem er víst orðið teigjanlegt hugtak)áhveða hvernig eigi að bregðast við það er ekki endalaust hægt að fresta hlutunum

  • Halldór Guðmundsson

    Ekki lýst mér á framtíð sjávarbyggða á Íslandi, ef hugmyndir Sjávarútvegsráðherra sem hann var að úttala sig um, að setja makrílinn í kvóta á næsta ári, og afhenda hann án endurgjalds og með frjálsu framsali, þannig að þessar örfáu útgerðir sem fá kvótann geta selt hann frá sér fyrir mikla fjámuni hundruði miljóna daginn eftir, hrægammasjóðirnir gætu án efa komið sér inn bakdyramegin, þar eru fjármunir sem erfitt er að koma í vinnu.
    Nú er spurt ætlar Sjávarútvegsráðherra að kalla yfir sig styrjöld við þjóðina, meðan þeir bástöddustu eiga ekki fyrir mánaðar skaptinum af lyfjunum sem þeir þurfa á að halda,og miljarða vantar í Landspítalann.
    Nú verður Hæstiréttur að skoða hvort þetta samræmis eignaréttarákvæði Stjórnarskrárinnar.
    Nú er þeirra Marðar og Ólínu sárt saknað.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur