Sunnudagur 17.11.2013 - 17:55 - 1 ummæli

Ráðaleysi og óvissa

Ég hef vaxandi áhyggjur af ríkisfjármálunum. Markmiðið um hallalaus fjárlög fjarlægist æ meir eftir því sem stjórnarþingmenn gefa skýrar í skyn að þeir ætli ekki að styðja fjárlagafrumvarpið. Þeir gagnrýna helst tillögur um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu, skólakerfinu og sóknaráætlun landshluta. Ég tek undir með þeim hvað þessi mál varðar en til að leggja aukin framlög til þessara málaflokka þarf að auka tekjur ríkissjóðs. Það er augljóst mál en það vilja stjórnarliðar ekki gera. Og alls ekki auka skatttekjur af auðlindum eða innheimta aukinn neysluskatt af ferðamönnum þó það séu tekjur sem munu lítil eða engin áhrif hafa á framleiðslugetu eða eftirspurn.

Við þetta bætist að óljóst er hvort samtals 22 milljarðar króna skili sér eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Í fyrsta lagi er um að ræða breytingar á vaxtakjörum á Seðlabankabréfinu, sem á að skila 10,7 makr lægri vaxtagjöldum. Því hefur ekki verið svarað hvort það gengur yfirleitt eða hvort því fylgja aukaverkanir sem draga úr ávinningi. Í öðru lagi er boðuð 11,3 makr hækkun á bankaskatti sem fjármálafyrirtækji í slitameðferð eiga að greiða. Þar eru einnig tæknileg álitamál sem ekki hafa verið leyst og alls óljóst hvernig fara.

Helstu skilaboð í nýrri hagspá eru að við þurfum að auka framleiðslugetu þjóðarinnar og að viðskiptajöfnuðurinn er okkur óhagstæður. Þetta eru stórmál. Til að auka framleiðslugetu og ýta undir hagvöxt ættum við að stuðla enn frekar að nýsköpun og þróun og hlúa að skapandi greinum. Þar liggja vaxtamöguleikarnir og það er fjárfesting sem við greiðum með íslenskum krónum og nýtist vel. Ríkisstjórnin sker hins vegar þessa liði harkalega niður. Samtals eru framlög til rannsókna, þróunar og skapandi greina skorin niður um tæpa 2 milljarða króna á árinu 2014 og því til viðbótar er boðuð 25% lækkun á skattaafslætti til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsókna og þróunar. Þarna eru fjöldi starfa skorin niður og það bitnar helst á ungum vísindamönnum. Stefna ríkisstjórnarinnar fer í þveröfuga átt við það sem við þurfum að setja í forgang í atvinnumálum til að ýta undir hagvöxt og styrkja grunn hans til framtíðar.

Hálfur mánuður er í aðra umræðu fjárlaga en fjáraukalagafrumvarpið fyrir árið í ár er enn ekki komið fram! Ómögulegt er að gera tillögur um næsta ár án þess að vita hvaða ákvarðanir verða teknar á þessu ári með fjáraukalögum.

Mér sýnist ríkisstjórnin vera í miklum vanda og það erum við hin einnig ef góðar lausnir finnast ekki innan fárra daga.

Óvissan er óviðunandi og ráðaleysið er sláandi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • kristinn geir st. briem

    hef aldrei skilið hvað flokkar þurfa tala niður fjárlög seinustu stjórnar virðist altaf gerast eftir hverjar kosníngar fá réttar niðurstöður sem hentar þeim sjálfum hver tilgangurinn er skil ég ekki því þeir ætla að stjórna næstu 4.árinn og géta treist því að sú sem kemur þar á eftir mun senilega tala núverandi stjórn niður hafamenn virkilega gaman af þessu það virðist vera

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur