Laugardagur 23.11.2013 - 18:10 - 3 ummæli

Stóru orðin

Þingmenn Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna fóru mikinn á síðasta kjörtímabili og fussuðu og sveijuðu í umræðum um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum. Nú þegar þau eru komin til valda skera þau niður öll atvinnuskapandi verkefni í Suðurkjördæmi. Oftast nota þau falsrök að fjárfestingaráætlun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hafi ekki verið fjármögnuð. Þá er mikilvægt að rifja upp þá staðreynd að endurbætur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og bygging verknámshúss við Fjölbrautaskóla Suðurlands voru ekki í þeirri fjárfestingaráætlun. Undirbúningur þeirra nauðsynlegu verka hafði staðið yfir lengi og fjármunir veittir til þeirra á síðustu árum. Þegar búið var að skera þau verk niður þá er engu líkara en að ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðismanna hafi hugsað: „Hvaða fleiri atvinnuskapandi verkefni getum við skorið niður í Suðurkjördæmi?“

Fleira undir hnífinn

Og þau fundu fleiri. Uppbygging ferðamannastaða er skorin niður um tvo þriðju þrátt fyrir að fjöldi ferðamanna um kjördæmið hrópi á aukin framlög. Framlög til nýsköpunar og skapandigreina eru harkalega skorin niður þó í þeim búi hagvöxturinn til framtíðar og þau nauðsynleg vaxtarbroddum samfélaganna í Suðurkjördæmi. Meira að segja Þekkingarsetrið á Kirkjubæjarklaustri er látið fjúka þó öllum sé kunnug brothætt staða Skaftárhrepps. Sunnlendingar geta auðvitað ekki setið þegjandi undir þessari aðför og gera það ekki.

Sunnlendingar láta í sér heyra

Stjórn Bárunnar, stéttafélags mótmælti harðlega á dögunum niðurskurði á atvinnuskapandi verkefnum á Suðurlandi sem fram koma í framlögðu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þar segir enn fremur: „Ljóst er að á sama tíma og atvinnulíf á Suðurlandi á undir högg að sækja þá kemur þessi niðurskurður sér sérstaklega illa fyrir fyrirtæki, stofnanir og launafólk á svæðinu. Skornar eru niður milli 400 og 500 milljónir í hin ýmsu verkefni sem til atvinnumála teljast og ættu að öllu eðlilegu að stuðla að atvinnuaukningu og styrkingu atvinnulífs á Suðurlandi.“ Stjórnin vekur einnig athygli á því að á meðal ráðherra eru þingmenn kjördæmisins og segir: „Stjórn Bárunnar krefst þess að þessir sömu fulltrúar fólksins og harðast gagnrýndu aðra fyrir kosningar noti völd sín og áhrif til að standa við orð sín og afstýra þeirri ógæfu sem við Sunnlendingum blasir.“

Hagur Suðurkjördæmis

Berjast þarf fyrir því að áður en fjárlög verða samþykkt verði hagur Suðurkjördæmis réttur. Það mun ég gera í fjárlaganefnd og á Alþingi. Það hafa sveitarfélög einnig gert með heimsókn til fjárlaganefndar, ályktunum og fundahöldum. Við hljótum að krefjast þess að ráðherrar og stjórnarþingmenn standi við stóru orðin.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Það er ekki verkefni stjórnmálamanna að „skapa atvinnu“… stjórnmálamenn eiga að lækka skatta og skapa gott umhverfi fyrir atvinnusköpun þá mun atvinna skapast.
    Þegar ríkið skapar atvinnu þá þarf það fyrsta að taka pening frá einstaklingum og veita þvi í verkefni.

    Þetta er ein staðreynd sem stjórnmálamenn einfaldlega skilja ekki…. sérstaklega ekki vinstri þenkjandi fólk.

  • Einkennilegt að fólk trúi ennþá að það sé ekki hlutverk ríkis að skapa atvinnu. Sérstaklega í ljósi þess að þar sem ríkisrekstur er mestur er hagvöxtur mestur og fólki vegnar best

  • Það er frekar þannig að fólk hefur alltaf trúað því að ríkið á að skapa atvinnu… sem er fjarstæða.
    En svo er enginn fylgni á milli ríkisrekstur og hagvöxt… þvert á móti.

    Svoietríkin var eingöngu með ríkistrekstur. Voru þeir í blússandi siglingu og lífskjör góð?

    Þetta er ótrúleg ummæli hjá þér Heiða.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur