Miðvikudagur 18.06.2014 - 10:07 - 2 ummæli

Krónan og krakkarnir

Ef gjaldeyrishöft yrðu losuð hér á landi snögglega er sennilegt að miklir fjármunir flyttust úr landi á stuttum tíma. Fyrstu afleiðingar þess kæmu fram í lítilli spurn eftir krónum, verðfalli krónunnar og hækkun á innfluttum vörum. Í kjölfarið fylgdi verðbólga, verðtryggð lán myndu hækka og kjör almennings versna. Skellinn tækju að mestu þeir sömu og tóku skell vegna efnahagshrunsins.

Slík skyndilosun gjaldeyrishaftanna yrði því nýtt áfall ofan á áfallið af hruninu og gæti gert að engu þær varnarráðstafanir sem gripið var til vegna þess. Sennilega yrði það áfall ofviða mörgum heimilum sem illa standa. Að vísu er líklegt að ástandið lagist smám saman á nokkrum árum en fórnarkostnaðurinn yrði mikill.

Ef losun gjaldeyrishafta er á hinn bóginn of hæg bitnar það einnig á kjörum almennings, einkum vegna brotthvarfs fyrirtækja sem myndu frekar kjósa að vaxa erlendis.

Þegar kostir og gallar aðferða við losun gjaldeyrishafta eru skoðaðir við núverandi aðstæður þarf að taka mið af samspili vaxta, verðbólgu og gengis og áhrifa þessara þátta á kjör fólksins í landinu. Þetta samspil sýna sviðsmyndir sem KPMG hefur sett fram á myndrænan hátt nýverið og finna má á heimasíðu fyrirtækisins.

Kostnaður vegna krónunnar

Það er kostnaðarsamt fyrir þjóðina að halda uppi minnsta gjaldmiðli í heimi. Enn hef ég ekki heyrt nein haldbær rök fyrir að halda því áfram. Einu rökin sem heyrst hafa eru þau að með krónunni sé hægt að rýra kjör launafólks án þess að semja við það sérstaklega. Það getur ekki talist vera kostur fyrir almenning en ágætt fyrir sum fyrirtæki og stjórnmálamenn sem falið geta mistök sín með slíkum aðgerðum.

Erfitt er að sjá fyrir sér heilbrigða þróun fjölbreytts atvinnulífs með alþjóðlegum tengingum, sem er eftirsótt fyrir kraftmikil ungmenni, í því umhverfi sem krónan skapar. Ómögulegt er að sjá slíka framtíðarsýn fyrir unga Íslendinga rætast með krónuna í höftum. Litlar líkur eru á öðru en að krónan verði til frambúðar í einhvers konar höftum og því ástandi fylgja slæmar aukaverkanir.

Hvert fara krakkarnir?

Þjóð sem sér fram á staðnað atvinnulíf og sem getur ekki skapað fjölbreytt og krefjandi verkefni fyrir unga fólkið er í miklum vanda. Með krónuna sem gjaldmiðil og í höftum er líklegt að það fari eins fyrir unga fólkinu og fyrirtækjunum. Þau munu kjósa að vaxa í öðrum löndum. Það er framtíðarsýn sem ekki má una við.

Til þess að breyta þessari mynd sótti ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur um aðild að Evrópusambandinu fyrir Íslands hönd, eftir ályktun Alþingis. Sú umsókn stendur enn. Ef þar nást ásættanlegir samningar sem þjóðin samþykkir, og með þátttöku í ERM II fastgengissamstarfi og síðan upptöku evru, mun myndin breytast. Þar eru möguleikar sem nýst gætu til kjarabóta fyrir fólkið í landinu.

Samspil vaxta, verðbólgu og gengis yrði með öðrum hætti með evru en krónu. Vaxtarskilyrði fyrirtækja, ekki síst í nýjum atvinnugreinum, og framtíðarmöguleikar ungmenna hér á landi færu batnandi. Líkur ykjust á því að þau vilji vera og vaxa hér á Íslandi.

Gagnlegt væri að fá greiningu þessarar sviðsmyndar og stilla henni upp með myndrænum hætti við hlið sviðsmynda KPMG um losun gjaldeyrishafta.

Til þess að halda þessum möguleika opnum þurfum við að klára aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið og bera niðurstöðuna undir þjóðina. Annað er óásættanlegt.

Kjallari DV 17. júní 2014

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

 • Kristbjörn Árnason

  Í vetur sem leið, mjóaði munu

  Núverandi stjórnvöld höfðu ákveðið að skella í lás. Þ.e.a.s. að loka öllum dyrum og eða hliðum að umheiminum en það tókst að koma í veg fyrir þann gjörning.

  Þannig væri komið til móts við öflugustu hagsmunasamtökin í landinu eins og LÍÚ, Bændasamtökin og samtök atvinnurekenda ásamt fjármagnseig-endum sem eru að mestu sömu aðilarnir ef einhverjir skyldu ekki hafa vitað það.

  Þannig átti að skapa ástand fyrri tíðar á Íslandi, almenningur átti þannig í raun að verða fjötraður í það helsi sem þessir aðilar töldu nauðsynlegt, til að ráða við þær lagfæringar sem þessir aðilar telja nauðsynlegt að gert verði í efnahagsmálum þjóðarinnar. Er snérist um algjörlega frjálst flæði fjármagns milli Íslands og annarra landa.

  Öll árin í tíð vinstri stjórnarinnar kröfðust samtök atvinnurekenda og fjármagn-eigendur með þeim að ríkissjóður yrði stórkostlega skuldsettur til þess að gamlar skuldsettar vinnuvélar hefðu nægjanleg verkefni. Þeim var sama um starfsfólkið.

  Sameiginlega voru gerðar stöðugar kröfur um að gjaldeyrishöftin yrðu afnuminn með einskonar leiftursókn og frjálsu flæði fjármagns yrði komið á að nýju. Til landsins voru fluttir í stórum stíl stífpressaðir áróðurmeistarar frjálshyggjunnar er áttu að sannfæra landann um þær villur sem þjóðin var sögð rata.

  Nokkru eftir stjórnarskiptin kom í ljós frábær árangur alþýðustjórnarinna í efnahagsmálum ef miðað er við þá aðkomu sú stjórn kom að eftir hrunið. Núverandi stjórnvöld hafa ekki gert neinar ráðstafanir í efnahagsmálum nema að lækka veiðgjöld af útgerðinni og að lækka skatta af stóreignafólki.

  En þær aðgerðir hafa ekki haft nein áhrif enn sem komið er.

  Því er þetta álit KPMG mikilvæg sýn á þá leið sem fjármagnseigendur hafa barist fyrir:

  „Ef gjaldeyrishöft yrðu losuð hér á landi snögglega er sennilegt að miklir fjármunir flyttust úr landi á stuttum tíma. Fyrstu afleiðingar þess kæmu fram í lítilli spurn eftir krónum, verðfalli krónunnar og hækkun á innfluttum vörum. Í kjölfarið fylgdi verðbólga, verðtryggð lán myndu hækka og kjör almennings versna. Skellinn tækju að mestu þeir sömu og tóku skell vegna efnahagshrunsins.

  Slík skyndilosun gjaldeyrishaftanna yrði því nýtt áfall ofan á áfallið af hruninu og gæti gert að engu þær varnarráðstafanir sem gripið var til vegna þess. Sennilega yrði það áfall ofviða mörgum heimilum sem illa standa. Að vísu er líklegt að ástandið lagist smám saman á nokkrum árum en fórnarkostnaðurinn yrði mikill.

  Ef losun gjaldeyrishafta er á hinn bóginn of hæg bitnar það einnig á kjörum almennings, einkum vegna brotthvarfs fyrirtækja sem myndu frekar kjósa að vaxa erlendis.

  Þegar kostir og gallar aðferða við losun gjaldeyrishafta eru skoðaðir við núverandi aðstæður þarf að taka mið af samspili vaxta, verðbólgu og gengis og áhrifa þessara þátta á kjör fólksins í landinu. Þetta samspil sýna sviðsmyndir sem KPMG hefur sett fram á myndrænan hátt nýverið og finna má á heimasíðu fyrirtækisins.

 • „Getum við tryggt frjálst flæði fisks en ekki fjármagns?“ Spurði þingmaður forsætisráðherra á þingi síðla vetrar sem svaraði „..að viðskipti með krónuna yrðu hugsanlega háð takmörkunum..“ og bætti svo við einhverri frekari vitleysu.

  En peningar eru ávísun á verðmæti og fiskur er verðmæti. Þegar peningar hætta að flæða frjálst hlýtur hið sama að lokum að gerast með fisk ef ekki eru uppfyllt skilyrðin um fjórfrelsi EES samningsins.

  Þeir sem horfast í augu við það hljóta að undirbúa sig undir uppsögn EES samningsins eins og mál horfa nú við og hafa gert frá hruni. Það gerði Bjartur í Sumarhúsum í svipaðri stöðu. Hann hélt lengra inn í óbyggðirnar og fórnaði um leið unga fólkinu í líki Ástu Sóllilju.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur