Fimmtudagur 07.08.2014 - 14:36 - 4 ummæli

Blekkingarleikur

Við afgreiðslu frumvarpa um skuldaniðurgreiðslu verðtryggðra fasteignalána á síðasta vorþingi voru gerðar breytingar á skattalögum. Ég nýtti það tækifæri til að leggja fram frekari breytingar á þeim lögum sem leitt hefðu til kærkominnar hækkunar á barnabótum til þeirra fjölskyldna sem lægstu launin hafa. Barnabótum hafði þá þegar verið úthlutað tvisvar sinnum á árinu og mér þótti ljóst að umtalsverðir fjármunir sætu eftir í ríkissjóði í lok árs ef ekkert yrði að gert.

Von

Ég stóð í þeirri trú að meirihluti alþingismanna myndi fagna þessum breytingartillögum og væru sammála mér um sanngirni þess að öll upphæðin sem þeir höfðu samþykkt til barnabóta, gengi að fullu til barnafjölskyldna. Ekki síst eftir að stjórnarþingmennirnir höfðu þá þegar samþykkt að veita tugum milljarða af ríkisfé til skuldaniðurgreiðslu fólks sem var ekki í nokkrum greiðsluvanda. Allar greiningar höfðu hins vegar sýnt svo ekki væri um villst að barnafjölskyldur, hvort sem þær skulduðu verðtryggð húsnæðislán eða væru á leigumarkaði, ættu við mikinn greiðsluvanda að stríða. Það væri sá hópur sem þyrfti fyrst og fremst á stuðningi að halda. Einnig taldi ég að skýrsla með upplýsingum um aukinn fjölda fátækra barna á Íslandi styrkti málflutning minn verulega. Tillögurnar voru hóflegar og gerðu ekki ráð fyrir að farið yrði út fyrir ramma fjárlaga þó aðstæður barnafjölskyldna gæfu sannarlega tilefni til þess.

Samkvæmt gildandi reglum byrja barnabætur að skerðast við 200 þúsund króna mánaðarlaun. Allar viðmiðunarupphæðir í skattalögunum voru ákveðnar haustið 2012 og þeim hafði ekki verið breytt síðan í samræmi við breytingar á launavísitölu, neysluvísitölu né að öðru leyti.

Ég vonaði líka að ríkisstjórnin stæði við loforð sín um að gæta sérstaklega að hag barna og því yrðu breytingartillögur samþykktar.

Vonbrigði

En það fór ekki svo. Það voru mér gríðarleg vonbrigði að líta á atkvæðaspjaldið við afgreiðslu breytingartillögu minnar og sjá að allir stjórnarþingmennirnir í salnum greiddu atkvæði gegn henni. Allir sem einn! Tillagan var felld með 36 atkvæðum stjórnarþingmanna, 21 þingmaður minni hlutans greiddi henni atkvæði sitt en einn sat hjá. Fimm þingmenn voru fjarverandi.

Við afgreiðslu fjárlagafrumvarps ársins 2014 lagði meirihluti fjárlaganefndar til niðurskurð barnabóta um 300 milljónir frá tillögu fjármálaráðherra, en hann hafði þá þegar lagt til lækkun á barnabótum frá fjárlögum 2013 um annað eins. Tillögum meirihluta fjárlaganefndar var harðlega mótmælt bæði innan þings og utan og þær voru loks dregnar til baka. Uppgjör á útgjöldum ríkissjóðs frá Fjársýslu ríkisins og nýjar tölur frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu gefa til kynna að í árslok muni mun meira en 300 milljónir af áætluðum barnabótum sitja eftir í ríkissjóði í árslok. Þar sem breytingar á viðmiðunartölum barnabóta í skattalögum voru ekki samþykktar ná tillögur formanns fjárlaganefndar og félaga hennar í fjárlaganefnd um frekari skerðingu fram að ganga og gott betur.

Þeim tóks að skerða hlut barnafólks bakdyramegin. Létu bara líta út fyrir að hægristjórnin ætlaði að verja hag barna. Stjórnarliðar hika ekki við að hygla vildarvinum ríkisstjórnarinnar með milljarða gjalda- og skattaafslætti en beita blekkingum til að skerða hlut þeirra sem verst standa. Finnst fólki þessi vinnubrögð virkilega ásættanleg?

(Kjallari DV 6. ágúst 2014)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

 • Haukur Hauksson

  Ef þú skoðar fjárlagafrumvarpið árið 2014 þá sérðu að hér eru að eiga sér stað gríðarlegar millifærslur og sannar það að þessi ríkisstjórn er langt frá því að vera „hægri“ stjórn.
  Það fer 3,2milljarðar í barnalífeyri, 4,2milljarðar í heimilisuppbót, 1,7milljarðar í ummönunargreiðslur, 347mkr í mæðra og feðralaun, 165mkr í barnalífeyri, 129mkr í maka og ummönunarbætur, 8,3 milljarðar í fæðingarorlof, 644mkr í foreldrar utan vinnumarkað, 10,2 milljarðar fara í barnabætur og 9,4 milljarðar í vaxtabætur.

  Þú segir „Þeim tóks að skerða hlut barnafólks bakdyramegin. Létu bara líta út fyrir að hægristjórnin ætlaði að verja hag barna“… og verður að gjöra svo vel að svara fyrir þessar dylgjur.

  Þetta er með ólíkindum og er ekki sæmandi fyrrverandi fjármálaráðherra og Garðsbúa.

 • Börn og bætur.

  Pottþétt blanda.

  Virkar alltaf og hinir borga atkvæðin.

 • kristinn geir st. briem

  einhvera hluta vegna gleimir haukur hauksson niðurgreidum námslánum. en um niðurgreiðlur frá ríkinu eru vegna þess að fyrirtæki géta eða vilja ekki borga mansæmandi laun. hagkerfið munar um þessa 38.165. veltu í þjóðfélaginu kemur því ekkert við hvort það er hægri eða vinstristjórn. því vinstristjórnir eru oft meira til hægri en svokallaðar hægristjórnir. um styrki til barnafólks fynst mér í lagi því þeir peníngar fara að mestu í aukna eiðlsusem er gott fyrir hagkerfið. sem er ekki víst að fari ef menn lækka efsta þrepinn í skattstiganum

 • Björgvin Þórhallsson

  Gott að Oddný stendur vaktina og bendir á aumingjaskap stjórnarþingmanna sem höggva þar sem hlífa skyldi. Og hugsiði ykkur: hún er í stjórnarandstöðu á meðan Vigdísi Hauks og Guðlaugi Þór er treyst fyrir völdum! Þetta er náttúrulega bara svartur húmor.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur