Laugardagur 23.08.2014 - 09:09 - 9 ummæli

Þau læra ekki

Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðismanna hóf feril sinn með því að fjölga ráðherrum og vill fjölga þeim enn frekar. Lekamál innanríkisráðuneytisins er nú beitt sem rökum fyrir því að endurreisa gamla dómsmálaráðuneytið og koma þar með núverandi innanríkisráðherra í varanlegt skjól. Áður höfðu þau klofið atvinnuvegaráðuneytið og velferðarráðuneytið í tvennt og fært umhverfis- og auðlindaráðuneytið í rassvasa landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Rökin fyrir þeim breytingum voru af skornum skammti. Mér skildist að þeim þætti mikilvægt að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi og landbúnaði hefðu greiðan aðgang að sínum eigin ráðherra. Það samband mætti ekki trufla með einhverju vafstri um samræmda atvinnustefnu, nýsköpun og áherslum um breytta samfélagsþróun. Enda eru þarna hagsmunaárekstrar því niðurgreiðslur til landbúnaðar og lág veiðigjöld minnka svigrúm ríkisins til að styrkja þróun og nýsköpun í öðrum atvinnugreinum. Breytingar er varða áherslur á málefni umhverfis- og auðlindaráðuneytis lýsa vel viðhorfum stjórnarliða til þeirra.

Bitur reynsla

Það virðist hafa gleymst að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir breytti lögum um Stjórnarráð Íslands að gefnu tilefni. Breytingarnar voru afleiðing og lærdómur biturrar reynslu. Fólkið í landinu hafði gengið í gegnum stórkostlegt hrun efnahags og samfélags og stjórnvöld vildu gera allt sem mögulegt var til að slíkt gerðist aldrei aftur. Ein af afdráttarlausum niðurstöðum Rannsóknarnefndar Alþingis var að styrkja þyrfti stjórnsýsluna og auka skilning á því hversu mikilvægt það er fyrir litla þjóð að stunda góða stjórnsýsluhætti og nýta fjármagn og mannauð til þess sem best. Vandað var til breytinga á lögum um Stjórnarráðið á síðasta kjörtímabili þar sem lagt var til að ráðuneytum yrði fækkað úr 12 í 8. Breytingarnar byggðu á niðurstöðum skýrslu starfshóps forsætisráðherra og voru viðbrögð við skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Nefndin lagði til að ráðuneytin yrðu færri og stærri.

Fagmennska og fjármagn

Rökin fyrir færri og stærri ráðuneytum eru fyrst og fremst fagleg en einnig fjárhagsleg því til lengri tíma skilar sú ráðstöfun fjárhagslegum ávinningi. Faglegu rökin eru þau helstu að með stærri ráðueytum fylgi eftirsóknarverð samlegðaráhrif á milli málaflokka. Þannig sé komið í veg fyrir óskýra verkaskiptingu og að sömu verk séu unnin mörgum sinnum í mismunandi ráðuneytum með tilheyrandi kostnaði. Ákvarðanir verði síður teknar með óformlegum hætti í stærri einingum, þar séu möguleikar á meiri sveigjanleika og getu til að takast á við breytingar. Nýsköpun og starfsþróun auk sérhæfingar séu einnig auðveldari og alþjóðlegt samstarf markvissara. Ráðuneytin yrðu þannig öflugari starfseiningar, þekking starfsfólks betur nýtt og samstarf á milli ráðuneyta aukið til muna. Smærri ráðuneyti með takmarkaðan mannafla standa veikari fyrir gagnvart hagsmunaaðilum sem skapar hættu sem við höfum slæma reynslu af og eigum að krefjast af stjórnvöldum að varast.

Lærdómur

Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðismanna stefnir í allt aðra átt og vill að ráðuneytin verði aftur lítil og veikburða. Þau láta eins og af því stafi engin hætta og að við þurfum ekki að læra af reynslunni sem hrunið kenndi okkur. Þau gera einnig lítið úr vandaðri stjórnsýslu með reglum, formlegum boðleiðum og skráningu upplýsinga. Það sýnir m.a. lekamálið okkur glögglega og einnig skætingur forsætisráðherra í bréfi til Umboðsmanns Alþingis þegar sá síðarnefndi spyr um siðareglur ríkisstjórnarinnar sem lögum samkvæmt eiga að vera til staðar. Ég hef áhyggjur af því að ríkisstjórn sem ekkert hefur lært af biturri reynslu hrunsins , sem fer fram með hroka gagnvart eftirliti og eyðileggur umbótastarf sé að leiða okkur í verulegar ógöngur. Efnahagsleg mistök sem þau hafa gert eða eru að leggja drög að og aðgerðarleysi í öðrum málum eru efni í fleiri greinar. Því fyrr sem þessi dáðlausa ríkisstjórn fer frá því minna tjón verður af hennar völdum. Því fyrr því betra.

(Kjallari í helgarblaði DV 22. ágúst 2014)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Þorsteinn Jón Óskarsson

    Afturhaldsflokkarnir sem eru við völd á Íslandi stefna að sjálfsögðu afturábak til ársins 2007 eða lengur ef þeir tóra út kjörtímabilið.

  • Haukur Hauksson

    Sammála þessu. Það er glapræði að fjölga ráðuneytunum aftur.
    Ég hélt að þetta væri ríkisstjórn hagræðingar og ábyrg í fjármálum.
    Fækkun ráðuneyta var eitt það fáa sem fyrr ríkisstjórn gerði rétt…. ásamt umsókn að ESB.

  • Haukur Kristinsson

    Lekamálið sýnir mætavel m.a. hversu harðsvíraðir og hrokafullir íhaldsmenn eru. Ekkert stolt, engin sjálfsvirðing, ekkert φιλότιμο.
    Engan lærdóm skal draga af lekamálinu, annan en þann að lygin sé gott og réttlætanlegt vopn stjórnmálamannsins. Því Leka-Hanna eða Lekanna, bæði laug, faldi og prettaði. Þetta eru ekki neinar fullyrðingar, heldur facts. Og Íhaldið viðurkennir það beint og óbeint, vill hinsvegar réttlæta lekann og hefur í þeim tilgangi sigað sínum mönnum í allar áttir, ekki síst Jóni litla Steinari, eftir að ríkissaksóknari gaf út kæru á hendur aðstoðarmanns ráðherra.
    Það er svo sannarlega tími til kominn að taka í hnakkadrambið á þessu arroganta liði, þar sem flestir ku vera miklir „trúmenn“ og guðhræddir mjög.

  • Mun áhrifaríkara væri að styrkja stjórnsýsluna með því að afleggja þessi bitlingastörf sem bera heitið stjórnir ríkisstofnana.
    Þar sem reyndar fyrverandi stjórnmálmenn eru áberandi með góð laun við að bera enga ábyrgð, sýna ekkert frumkvæði og hreint út sagt ráða engu.

  • kristinn geir st. briem

    um alt má deia. það hefur sínt sig að ráðuneitinn verða ekkert skilvirkara þó þau stækki. hitt er verra þegar flokkar eru altaf að hríngla í þeim þanig að sérhæfíng glatast.svo má rífast um hvað er ráðuneiti og hvað er ekki ráðuneiti skilst að í mörgum löndum evrópu séu fá ráðuneiti en margir ráðherrar í hverju ráðuneiti það skildi þó ekki vera margir smákóngar þar líka svipað og hér. þegar upp er staðið

  • Vilhjálmur Björn.

    ÞAU LÆRA EKKI:
    Var það ekki síðasta ríkistjórn sem afhenti örfáum ca. 95% af makrílkvótanum, nýrri fisktegund,sem synti óvænt inn í lanhelgina, án endurgjalds.
    Lög um stjórn fiskveiða, 116/2006
    1 gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.

    Stjórnarskráin 72.gr
    Eignaréttur er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli, og komi fullt verð fyrir.

    Ég spyr fá verðandi þingmenn ekki grundvallar kynningu á Stjórnarskránni áður en þeir setjast á þing, held að það verði ekki komist hjá því að þetta mál, fari á borð Hæstaréttar sem fyrst.

  • Pakkakíkir

    Glæpaverk síðustu ríkisstjórnar eru kyrfilega á minni lögð…..

  • Þetta er náttúrulega bara bilun.

  • Snorri Hansson

    Það er rétt hjá Pakkakíkir að: Glæpaverk síðustu ríkisstjórnar eru kyrfilega á minni lögð.
    En þegar það kemur í ljós að ráherrann er að abbast uppá lögreglustjórann um ransókn
    Í hennar ráðuneyti þá fer hún yfir markið.
    Hún á að segja af sér, að sjálfsögðu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur