Laugardagur 22.11.2014 - 10:39 - 13 ummæli

Ill meðferð

Það er mikilvægt að mæta vanda þeirra sem keyptu íbúð á allra versta tíma þegar verð húsnæðis var sem hæst og vextir í hæstum hæðum. Þetta var kosningaloforð Samfylkingarinnar og einnig var ætlunin að koma til móts við lánsveðshópinn og leigendur með sanngjörnum hætti. Ég get illa sætt mig við óréttlætið sem fylgir efndum á stóra kosningarloforði Framsóknar. Tæpur þriðjungur heimila í landinu fær niðurgreiðslu húsnæðislána, jafnvel þau sem hagnast hafa ágætlega á húsnæðiskaupum sínum, en önnur heimili skilin eftir sem sum eru í miklum vanda.

Meðferð hægristjórnarinnar á almanna fé er óásættanleg. Vel stæðu fólki eru færðir milljarðar rétt si svona á meðan að heilbrigðis- og menntakerfið er í vanda og aðrir innviðir samfélagsins í slæmu ástandi, einkum vegir og ferðamannastaðir. Með skuldaniðurgreiðslunni færir hægristjórnin þeim heimilum sem hafa meira en eina milljón og þrjúhundruðþúsund krónur í laun á mánuði 20 milljarða svo dæmi sé tekið. Fyrir 20 milljarða má reka allt framhaldsskólakerfið í eitt ár og rekstur allra heilbrigðisstofnana landsins kostar 17 milljarða á ári.

Úr ríkissjóði
Forsætisráðherra hélt því fram bæði fyrir og eftir kostnaður að kosningaloforð Framsóknarflokksins myndi ekki lenda á ríkinu. Hann sagði í viðtali í Bítinu á Bylgjunni 19. mars 2013: „Jájá. Við höfum nú talað mjög skýrt í því, held ég að mér sé óhætt að segja, að þessi kostnaður ætti ekki að lenda á ríkinu vegna þess að það væri framkvæmanlegt að gera það öðru vísi, það væri sanngjarnt að gera það öðru vísi og eðlilegt.“ Og í kastljósi 11. september 2013: „Menn þurfa ekki að … svo sem að hafa áhyggjur af því í neinu þessara tilvika að kostnaðurinn eigi að lenda á ríkinu.“

En nú er hann að lenda á ríkinu og bæta á við 16 milljörðum króna í ár vegna þess að ríkissjóður „stendur svo vel“ og gott sé að spara vexti sem annars þyrfti að greiða síðar. Um leið og fjármunum úr ríkissjóði er veitt til margra sem ekki þurfa á þeim að halda segja stjórnarþingmenn að ekki séu til peningar í heilbrigðiskerfið eða vegakerfið og boða fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum og svo krefjast þau enn aukinnar greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðiskerfinu. Þau stuðla með gjörðum sínum að misskiptingu í landinu með margvíslegum hætti, líka með skuldaniðurgreiðslunni. Kostnaðurinn sem aukinn ójöfnuður hefur í för með sér, er mun meiri en sparnaðurinn af því að flýta áætlunum um kosningaloforð Framsóknar. Sá kostnaður lendir á þeim sem síst skyldi. Það sem verra er þá mun aðgerðin sjálf valda verðbólgu og lánin munu hækka aftur sem henni nemur.

Hrossakaup
Kostnaðurinn sem þessi ómarkvissa aðgerð veldur mun ekki bara lenda á þeim sem fá niðurgreiðslu lána heldur á öllum, bæði fátækum og ríkum, sjúkum og frískum. Ég gæti sagt að ég sé undrandi á því að Sjálfstæðismenn hafi fallist á að fara svona illa með fjármuni ríkisins, því það var allt annað hljóð í þeim fyrir kosningar. En þeir hafa áður sýnt að þeir séu til í ýmislegt þegar að kemur að hrossakaupum. Þessi umdeilda aðgerð er orðin staðreynd og ákvörðunin ósanngjarna ekki aftur tekin. Niðurstaðan er ill meðferð á almannafé.

Kjallari í DV 21.11.2014

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • kristinn geir st. briem

    skil ekki þetað orð “ menn hafi hagnast á húsnæðiskaupum sínum “ þó húsnæði hækar í verði er gróðinn ekki í hendi nema menn selji .
    keipti hlutfé í kaupþýngi seldi hlutin á 900.kr. hluturinn fór hæðst í um 1.500.kr. þá er það spurnínginn tapaði ég 600. kr af því ég beið ekki eftir því að hlutabréfinn hækkuðu og seldi síðan á hæðsta verði

  • Guðný Ármannsdóttir

    Æ, Oddný. Það var fyrirsjáanlegt strax árið 2008 í hvað stefndi á leigumarkaði. Þið höfðuð 5 ár til að gera eitthvað í því en gerðuð ekkert. Með tæpar 300.000 á mánuði þótti ykkur ég of tekjuhá til að fá húsaleigubætur þrátt fyrir að borga 140.000 á mánuði í húsaleigu. Á sama tíma létuð þið mig borga með sköttunum mínum hátekjufólki sérstakar vaxtabætur, já þær koma úr sama vasa og skuldalækkunin.

    Þið fenguð 5 ár. Ekkert.

    Þegar ég kaus ykkur var ég svo viss um að þið mynduð reyna að standa vörð um kjör okkar fátæklinganna. Ég treysti því algerlega og varð fyrir þvílíkt sárum vonbrigðum. Já, já, ég veit alveg að þið afsakið ykkur með því að hér varð hrun. En þið höfðuð samt efni á að byggja tónlistarhöll sem ég hef aldrei efni á að fara í, Glerhöll Náttúrufræðistofnunnar, Hús Vatnajökulsþjóðgarðs, Hús íslenskra fræða, Stofna ýmsar stofur og nefndir til að raða vildarmönnum á jötuna…

    Ég kaus Samfylkinguna frá stofnun og talaði máli hennar. Ég mun aldrei ALDREI nokkurntímann kjósa hana aftur, Aldrei.

    Ég veit að þessi orð mín munu fara inn um annað hjá þér og út um hitt. Samfylkingin nefnilega hlustar ekki á kjósendur sína heldur segir þeim bara hvað þeim á að finnast.

  • Haukur Hauksson

    Þetta er ekki hægristjórn.
    Að þjónýta skuldir sumra er sósíalísk aðgerð.
    Það er vinstri stjórn við stjórnvölin í dag.

  • TAKK Guðný Ármannsdóttir.

    Tek heilshugar undir allt sem þú segir.

    Líkt og þú mun ég aldrei kjósa Samfylkinguna aftur.

  • Ásmundur

    Tek undir skrif Oddnýjar.

    Sorglegt að sjá hvernig lækkun á lánum þeirra sem högnuðust á lánunum og þeirra sem auðveldlega geta greitt þau er varpað á skattgreiðendur framtíðarinnar. Enn einu sinni er verið að lifa um efni fram og fé sóað eins og enginn sé morgundagurinn.

    Síðasta stjórn vann markvisst að því að bæta kjör hinna verr settu og náði svo góðum árangri að athygli vakti um allan heim. Árangurinn mældist ekki síst í því að ójöfnuður minnkaði hér á landi eftir hrun á sama tíma og hann jókst í samburðarlöndunum.

    Ef fyrri stjórn hefði haldið áfram væri nú búið að lækka lán þeirra sem illa stóðu og urðu fyrir forsendubresti, kjör leigjenda hefðu batnað mikið með tilkomu húsbæðisbóta sem voru samþykktar á síðasta kjörtímabili. Einnig væri búið að ganga frá lausn á vanda tengdum lánsveðum.

    Öll þessi framfarskref ofl voru hins vegar stöðvuð þegar ný ríkisisstjórn tók við.

  • Ragnhildur H.

    Það er von að ykkur liði illa .þegar hlutirnir eru að ske og loforðin að verða að veruleika hja Núverandi Rikisstjórn ! Bara eitt gott ráð Oddny ,,þið ættuð bara að tala sem minnst svo fólk se ekki sifellt að hnjóða i ykkur fyrir“ frækna framistöðu “ á siðasta kjörtimabil !…það myndi letta andrúmsloftið ,heilmikið fyrir land og þjóð og ekki veitir af .og hætta eilifum áróðri og orðaskaki ,sem aðeins synir afbryði og minnimáttarkend eins og hja ungling á gelgjunni ….gleðileg jól !

  • Sigurður

    Þið höfðuð nægan tíma Oddný, en gerðuð ekki neitt.

    Heimilin voru blóðmjólkuð um hverja einustu krónu sem hægt var að ná af þeim, á meðan þið börðust gegn þjóðinni í að moka hundruðum milljarða króna úr ríkissjóði í vasa grilljarðamæringa.

  • Ásmundur

    Auðvitað eru menn fúlir yfir því að andvirði nýs spítala skuli hent út um gluggann. Áætlaður byggingarkostnaður spítalans er 60 milljarðar. Kostnaður vegna skuldalækkunarinnar er 80 milljarðar.

    Mismunurinn, 20 milljarðar, hefði meira en nægt til að lækka lán þeirra sem urðu fyrir forsendubresti eða gátu ekki auðveldlega greitt sín lán sjálfir.

    Auðvitað eru þeir fúlir sem fá engar greiðslur úr ríkissjóði þrátt fyrir mikla erfiðleika og þurfa auk þess að taka þátt í að fjármagna lánalækkunina til hinna betur settu á komandi árum.

    Auðvitað eru menn fúlir yfir því að heilbrigðis- og menntakerfið skuli búa við fjársvelti og að kostnaður almennings fari hækkandi á sama tíma og verið er að sólunda tugum milljarða í vitleysu.

    Mest eru menn þó fúlir yfir því að svona geti gerst. Nágrannaþjóðir okkar bruna fram úr okkur í lífskjörum enda mundi þeim aldrei detta slík fjarstæða í hug.

  • Sigurður

    Ásmundur,
    Allt efni og tæki í nýjan Landspítala þarf að kaupa með erlendum gjaldeyri.

    Það væri auðveldara að reyna að borga hann með snjó og sandi en íslensku krónunum sem fara í þessar leiðréttingar á lánunum.

  • Sigurður

    Hins vegar sóaði síðasta ríkisstjórn dýrmætum gjaldeyri í byggingu tónlistarhúss, sem kannski hefði verið skynsamlegra að nýta í nýjan Landspítala.

    En það er náttúrlega bara spurning um forgangsröðun.

    Oddný og félaga langaði meir í glerhöll í fjöruna en nýjan spítala.

  • Ásmundur

    Sigurður, skuldalækkunin mun valda mikilli gjaldeyriseyðslu.

    Þó að menn fái ekki peningana í hendur, eykur lækkunin veðhæfni fasteigna. Þess vegna nunu margir slá lán til að kaupa nýjan bíl eða annað dýrt frá útlöndum.

    Ef við gefum okkur að aðeins helmingur lækkunarinnar fari í gjaldeyri þá er það trúlega meira en nýr spítali útheimtir í gjaldeyri. Auk þess mun kostnaður vegna spítala dreifast á fáein ár og að einhverju leyti vera fjármagnaður með erlendum lánum.

    Ákvörðun um byggingu Hörpu var tekin í tíð Sjálfstæðisflokksins þegar Þorgerður Katrín var menntamálaráðherra. Þegar hrunið varð, var búið að steypa húsið upp og eyða í það um tíu milljörðum.

    Valið stóð því um að loka húsinu og ganga frá lóð fyrir milljarða öllum til ama næstu árin, jafna það við jörðu fyrir milljarða til viðbótar við þá tíu milljarðar sem búið var að leggja í það, eða ljúka byggingunni.

    Kostnaðurinn við tvo fyrri kostina var of mikill til að hægt væri að réttlæta þá. Gengisþróun krónunnar sýndi að gjaldeyrir var ekki vandamál.

  • Sigurður

    Ásmundur,
    Það hefur margsinnis komið fram í fréttum undanfarið að venjulegt fólk á meðallaunum stenst ekki greiðslumat fyrir nokkrum sköpuðum hlut í dag.

    Greiðslumat er skylda á öllum lánum yfir miljón.

    Þannig að það skiptir engu máli hvert veðrýmið er á meðan það fær engin lán hvort eð er.

    Það skiptir skattgreiðendur engu máli hvenær var ákveðið að byggja glerhöllina, og það skiptir skattgreiðendur engu máli hvað var búið að setja mikla peninga í glerið.

    Það var allt á vegum einkaaðila, borgað (tapað) af einkaaðilum.

    Kostaði skattgreiðendur ekki krónu.

    Þessi glerhöll kostaði skattgreiðendur nákvæmlega ekki neitt fyrr en síðasta ríkisstjórn ákvað að ríkisvæða verkefnið, og sóa í það verðmætum gjaldeyri sem auðveldlega hefði mátt nota í spítalann.

    Bara spurning um forgangsröð, Oddný og Co völdu glerið fram yfir heilbrigðiskerfið.

  • Ásmundur

    Langflestir þeirra sem fengu lækkun standast greiðslumat enda skulda þeir tiltölulega lítið. Bankarnir eru meira en viljugir til að lána þeim enda lifa þeir á að lána út fé.

    Auk þess fær meiriihlutinn minna en milljón í lækkun og þarf því ekki greiðslumat.

    Það er rétt að þeir tíu milljarðar sem fóru í Hörpu fyrir hrun voru ekki á kostnað ríkis og borgar. En þau eignuðust bygginguna eftir hrun og hefðu því tapað þessum verðmætum ef húsið hefði verið jafnað við jörðu.

    Það var Þorgerður Katrín & Co sem valdi Hörpu fram yfir heilbrigðiskerfið. Oddný & Co hefðu aldrei valið Hörpu nema vegna þess að hún var langt á veg komin þegar kom til kasta þeirra.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur