Föstudagur 23.01.2015 - 11:47 - Rita ummæli

Bensínlaust Ísland

Olíunotkun á mann hér á landi er um tvö tonn á ári. Það er nokkuð mikið miðað við að húshitun með olíu heyrir að mestu sögunni til. Við erum stolt af þeirri sérstöðu Íslands að orka til raforkuvinnslu og húshitunar hér á landi er talin nánast að öllu leiti endurnýjanleg, þ.e. úr jarðvarma og vatnsafli. Við megum sannarlega vera ánægð með þá stöðu en þrátt fyrir hana er staða Íslands hvað varðar útblástur gróðurhúsalofttegunda ekki nægilega góð. Ástæðan er einkum að við erum mjög háð samgöngum og nær allir flutningar í lofti, um land eða sjó eru knúnir með brennslu olíu og olíuafurða. Við búum í strjálbýlu landi og þurfum að flytja afurðir og hráefni langa vegalengdir bæði í viðskiptum milli landshluta og til annarra landa. Ein brýnasta áskorun 21. aldar er að þjóðir verði færar um að afla og nýta orku þannig að markmiðum sjálfbærrar þróunar sé náð. Hér á landi eigum við góða möguleika á að gera betur á því sviði með því að nota innlenda orku í samgöngum sem veldur engum útblæstri eða mengun.

Orkuskipti í samgöngum

Stýrihópur um mótun heildstæðrar orkustefnu skilaði skýrslu árið 2011. Eitt af meginmarkmiðum orkustefnunnar var að finna leiðir til að draga úr notkun olíu. Olíunotkun okkar skiptist þannig að um 61% er nýtt í samgöngum og 29% við fiskveiðar. Innflutningur á olíu vegur þungt í efnahagsreikningi ríkisins enda um 12% af öllum vöruinnflutningi til landsins. Áhrifin eru því veruleg á viðskipta- og gjaldeyrisjöfnuð.. Það myndi muna miklu ef af orkuskiptum í samgöngum gæti orðið.

Á síðasta kjörtímabili átti sér stað víðtæk stefnumörkun í orkumálum. Hópar störfuðu ekki aðeins um samningu orkustefnu fyrir Ísland heldur einnig um orkuskipti í samgöngum, jöfnun húshitunar og auðlindastefnunefnd skilaði af sér sínum tillögum. Rammaáætlun um vernd og nýtingu orkusvæða var samþykkt og einnig ný náttúruverndarlög. Allt eru þetta plögg sem mynda grunn fyrir umræðu og ákvarðanir um markmið og leiðir í orkumálum þjóðarinnar og möguleika á að nálgast enn frekar markmiðin um sjálfbæra þróun. Við búum einnig að góðri reynslu af orkuskiptum við húshitun sem nýta mætti við framkvæmd orkuskipta í samgöngum.

Fleiri rafbílar

Bílaframleiðendur hafa flestir ákveðið að veðja á rafbíla og bíla sem nota bæði rafmagn og olíu. Þróun í framleiðslu slíkra bíla hefur verið hröð undanfarið. Sú þróun hentar okkur mjög vel því við eigum nóg af rafmagni til að fjölga rafbílum á götum landsins. Aðeins þyrfti um eina TWstund á ári af raforku til að knýja allan bílaflota Íslendinga. Það jafngildir um 6% aukningu núverandi orkuvinnslu. Að öllum líkindum þyrfti lítið sem ekkert að virkja til viðbótar þar sem mestur hluti hleðslunnar færi fram á nóttinni þegar almenn raforkunotkun er í lágmarki. Rafbílar stuðla því að betri nýtingu fyrirliggjandi raforkukerfis.

Sameiginlegt átak

Til að vinna að orkuskiptum í samgöngum þarf sameiginlegt átak ríkis, sveitarfélaga, fólksins í landinu og fyrirtækja. Fyrir slíku átaki eru bæði efnahagsleg rök og umhverfisrök en þjóðaröryggissjónarmið eiga þar einnig við.

Ég lagði það til sem fjármálaráðherra árið 2012 að virðisaukaskattur á rafbíla yrði afnuminn. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2015 var ákveðið að viðhalda þeirri ákvörðun en sjálfsagt er að leita að öðrum leiðum til að ýta undir þróunina. Norsk stjórnvöld hafa einnig beitt efnahagslegum hvötum til að auka hlutdeild rafbíla á norskum vegum og leita mætti eftir samstarfi við Norðmenn um málið.

Til þess að orkuskiptin geti orðið að veruleika þurfa stjórnvöld að beita sér fyrir málinu og fá orkufyrirtækin í samstarf um að setja kerfisbundið niður hleðslustaði fyrir bílana. Það verður að vera auðvelt og eftirsóknarvert fyrir fólk að skipta yfir í rafbíla en efnahagslegur ávinningur ásamt þeim umhverfislega ætti að vera öllum ljós.

Kjallagrein í DV 20. janúar 2014

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur