Föstudagur 06.02.2015 - 22:13 - Rita ummæli

Framtíð norðurslóða

Mikilvægi samstarfs Grænlands, Íslands og Færeyja hefur sennilega aldrei verið meira í 30 ára sögu Vestnorrænaráðsins en um þessar mundir. Ráðið er skipað þingmönnum landanna þriggja og undanfarin ár hefur það lagt áherslu á að styrkja stöðu Vestur-Norðurlanda á norðurslóðum og verja sameiginlega hagsmuni gagnvart þeim áskorunum sem þar blasa við. Á ársfundi ráðsins í Gjógv í Færeyjum árið 2012 samþykkti ráðið ályktun um að styrkja enn samstarf um málefni norðurslóða og skilgreina ítarlega þau svið þar sem hagsmunir landanna fara saman.

Á þemaráðstefnu ráðsins í janúar 2014 kynnti Egill Þór Níelsson, fræðimaður við Heimskautastofnun Kína, skýrslu sem hann hafði unnið fyrir ráðið. Í skýrslunni er fjallað um stöðu Vestur-Norðurlanda á norðurslóðum með sérstakri áherslu á efnahagslega hagsmuni þeirra. Meginverkefnið fyrir fundi ráðsins í ágúst á þessu ári verður að vinna úr skýrslunni. Ekki aðeins þarf að ræða á hvaða sviðum sé unnt að auka samstarf og hvar helstu hindranir eða hagsmunaárekstrar eru á milli landanna, heldur þarf að huga að mikilvægum umhverfissjónarmiðum. Skýrsluhöfundur bendir á marga samstarfsmöguleika sem nauðsynlegt er að hugsa til framtíðar s.s. á sviði sjávarútvegs, fjárfestinga, vöruskipta, samgangna, heilbrigðis- og menntamála, leitar- og björgunarstarfa, olíu- og gasvinnslu, vatnsafls- og jarðhitavinnslu, ferðaþjónustu, rannsókna og menningarmála.

Næstu skref

Þau samstarfssvið sem mest hefur verið rætt um hingað til og augljóslega virðist grundvöllur fyrir, eru á sviði flutninga með skipum og flugvélum bæði á milli landanna þriggja og annarra fjarlægari landa ásamt markaðsetningu á alþjóðavettvangi í sjávarútvegi og í ferðamannaiðnaði. Samstarf í heilbrigðismálum er nokkuð nú þegar en þarf að styrkja frekar líkt og í menntamálum. Mikið hefur einnig verið rætt um sameiginlega miðstöð leitar og björgunar og nauðsyn hennar með auknum flutningum um norðurslóðir.

Fyrirtæki sem sýna áhuga á viðskiptum sem byggja á samstarfi landanna þurfa á skýrum leikreglum að halda. Þess vegna þurfa löndin þrjú að leggja áherslu á að koma sér saman um þær leikreglur og vinna markvisst að því að sameina kosti þeirra samninga sem fyrir eru á milli Íslands og Færeyja annars vegar og Íslands og Grænlands hins vegar og liðka fyrir viðskiptum sem allir geta hagnast af. Vestnorrænaráðið er sá samstarfsvettvangur sem ætti að sjá til þess að slíkur rammi verði tilbúinn fyrir öll löndin þrjú sem fyrst.

Stefna Íslands

Alþingi samþykkti þingsályktun um stefnu í málefnum norðurslóða í mars 2011. Með henni er gert ráð fyrir auknu samstarfi við Færeyjar og Grænland og auknu pólitísku vægi landanna þriggja á norðurslóðum. Einnig er stefnt að því að byggja upp viðskiptasamstarf ríkja á norðurslóðum og auðvelda Íslendingum að keppa um atvinnutækifæri sem verða til í kjölfar aukinna efnahagsumsvifa á svæðinu. Hér þarf þó að fara gætilega því aukin umsvif geta dregið dilk á eftir sér. Því þarf að tryggja að byggt verði á hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna við úrlausn álitaefna, að réttindi frumbyggja verði varin, unnið verði gegn loftlagsbreytingum, stuðlað að sjálfbærri nýtingu auðlinda, ábyrgri umgengni um viðkvæm vistkerfi og verndun lífríkis.

Nú eru margir sem líta til norðurslóða. Ýmsir hugsa sér gott til glóðarinnar og vilja græða á stöðunni. Það er afar mikilvægt að Grænland, Ísland og Færeyjar bindist enn sterkari böndum og verji sameiginlega hagsmuni sína. Í því sambandi er lykilatriði að umræða og þekking á norðurslóðum verði aukin meðal íbúa landanna þriggja og að við á Vestur-Norðurlöndum látum ekki aðra um að ákveða framtíð okkar. Það skulum við gera sjálf.

Kjallari DV 6. febrúar 2015

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur