Sunnudagur 20.12.2015 - 12:21 - Rita ummæli

Ábyrgð og skömm

Jón Ólafsson skrifar góðan pistil í Stundina um siðleysi í skjóli lagaheimilda. Þar er hann að ræða brottvísun flóttafólks úr landi og langveiks barns með enga raunhæfa batamöguleika í heimalandi sínu. Mér finnst að spegla megi pistilinn yfir á fleiri nýleg mál, t.d. ákvörðun hægristjórnarinnar að halda kjörum aldraðra og öryrkja sem enga tekjumöguleika hafa á vinnumarkaði, undir lágmarkslaunum í landinu.

Jón segir: „Yfirvöld hafa vissulega lagaheimildir til að koma fram eins og þau hafa gert, en það þýðir ekki að þeim beri skylda til að gera það eða geti ekki gert annað. Lagaheimildir gera þeim þetta mögulegt. Um leið og við erum farin að trúa því að lagaheimildirnar séu þröskuldur sem kerfið komist ekki yfir og kaupum þá röksemd að í einstökum tilfellum sé ekkert hægt að gera, fólk verði að snúa sér að því að berjast fyrir breyttri löggjöf, vilji það breyta einhverju, þá höfum við samþykkt siðleysi.“

Rétt og fallegt

Eftir ötula baráttu Suðurnesjamannsins Hermanns Ragnarssonar sameinuðust alþingismenn um að veita nokkrum flóttamönnunum frá Albaníu ríkisborgararétt hér á landi og fundu þannig leið framhjá lögunum. En lagahyggjan var látin ráða þegar kom að kjörum aldraðra og öryrkja. Lögin um almannatryggingar setja viðmið um hvernig gæta skuli að kjörum þeirra en þau segja ekki að þegar aðstæður í samfélaginu séu þannig að lægstu laun hækka hlutfallslega meira en önnur, eigi aldraðir og öryrkjar ekki að njóta þeirra kjara. Það er sérstök ákvörðun hægristjórnarinnar sem vísar í lagatextann máli sínu til stuðnings. Lagaheimildirnar voru ekki það sem kom í veg fyrir að aldraðir og öryrkjar fengju afturvirka hækkun á árinu 2015 eins og allir aðrir í samfélaginu, heldur voru þær tækið sem notað var til þess að þau fengju hana ekki.

Mér finnst að í báðum þessum málum getum við skammast yfir ráðherrum og hægristjórninni en eins og Jón Ólafsson orðar svo ágætlega niðurlag pistils síns: „Hin erfiða staðreynd málsins er hins vegar sú að við eigum þetta öll – ábyrgðina og skömmina yfir því að geta ekki tekið rétt og fallega á málum fólks.“

Ég hef áður fjallað um ískalda lagahyggju og slóðin er hér: http://blog.pressan.is/oddnyh/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur