Miðvikudagur 16.12.2015 - 11:28 - 4 ummæli

Ísköld lagahyggja

Hægristjórnin vill ekki hækka lífeyrir eldriborgara og öryrkja afturvirkt í takt við lægstu laun. Þau líta þannig á að „bætur almannatrygginga eigi einungis að hækka árlega í fjárlögum og þá frá 1. janúar ár hvert en ekki á miðju ári þótt gerðir hafi verið kjarasamningar í millitíðinni“ eins og segir í nýlegu minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til fjárlaganefndar.

Þau virðast líta þannig á að samkvæmt lögum eigi að skilja eftir einn hóp í samfélaginu og halda honum á verri kjörum en þeir njóta sem eru á lægstu umsömdu laununum. Með minnisblöðum til fjárlaganefndar er reynt að gera sem mest úr hækkunum á elli- og örorkulífeyri frá næstu áramótum. En það er sama hvernig þau fara með prósentutölur, uppsafnað þetta eða hitt, milljarðar lagðir saman og ruglað til með fjölgun eldriborgara. Niðurstaðan verður alltaf sú sama: Kjör aldraðra og öryrkja, sem hafa ekki laun annars staðar frá, verða verri en allra annarra, bæði á árinu 2015 og 2016.

Sanngjörn tillaga felld

Stjórnarliðar felldu við aðra umræðu fjáraukalaga tillögu minnihluta fjárlaganefndar Alþingis um að lífeyrir hækki frá 1. maí 2015. Í tillögunni var miðað við samninga sem VR og Flóabandalagið gerði við sína viðsemjendur. Lægstu laun hækka samkvæmt þeim samningum í fjórum skrefum til ársins 2018 í 300.000 kr. mánaðarlaun. Þann 1. maí 2015 hækkuðu lægstu launin í 255.000 kr á mánuði og frá 1. maí 2016 verða þau komin í 270.000 kr á mánuði.

Landsamband eldriborgara miða við aðra samninga í sínum útreikningi og segja að hækkunin frá 1. maí eigi að vera 14,5% en ekki 10,9% eins og tillaga minnihlutans. Þrátt fyrir það eru þessi lágu laun mun hærri en þau sem öldruðum og öryrkjum er boðið samkvæmt ákvörðunum hægristjórnarinnar sem stefnir að því að lífeyrir með heimilisuppbót fyrir fólk sem býr eitt verði um 247.000 krónur á árinu 2016.

Andi laganna

Lög um almannatryggingar voru sett til að verja kjör eldri borgara og öryrkja. Þau voru sett til þess að fólk héldi reisn sinni og gæti lifað mannsæmandi lífi. Lögin voru ekki sett til þess að tryggja að aldraðir og þeir sem eru óvinnufærir vegna örorku væru allra fátækasta fólk samfélagsins.

Fordæmi er frá kjarasamningunum árið 2011 en þá voru lægstu laun einnig hækkuð umfram önnur. Eldriborgarar og öryrkjar nutu þeirra hækkana þá og fengu þær um mitt ár eins og aðrir. Það var réttlátt og í anda laga um almannatryggingar. Sömu leið ætti að fara nú. En hægristjórnin sýnir hvorki samkennd né mannúð og skilur ekki réttlætissjónarmiðin. Hún skilur bara ískaldan lagatextann og ber hann fyrir sig þrátt fyrir að fordæmi séu til um annað.

Kjallari DV 16. desember 2015

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

 • Það er þá ágætt að spyrja á móti af hverju var ekki farið að lögum… og stjórnarskrá þegar lífeyrir almennra sjóða var skertur?

  Opinberu sjóðirnir brutu þá lög og stjórnarskrá og hafa gert síðan.

  Stærsti hluti vandans í dag er skerðing almennra sjóða sem að ríkinu er síðan ekki heimilt að auka.

 • Já, þetta er helvíti skítt hjá þeim, en ég gerði mér svosem engar væntingar til þeirra enda buðu þeir sig ekki fram undir jafnaðarstefnu. Ég varð fyrir miklu, miklu meii vonbrigðum með ykkur sem kallið ykkur jafnaðarmenn þegar þið hækkuðuð lyfjakostnaðinn huge hjá fólki með lífshættulega sjúkdóma.

 • Margret S

  Stóð Vinstri stjórnin sig vel gagnvart bótaþegum árin 2009-2013? Eg tek undir með Óskari hér. Almennir lífeyrissjóðir hafa lækkað lífeyri og skert vegna hundruða milljarða taps vegna fjárfestinga sem þurrkuðust út í hruninu. Opinberir sjóðir gerðu það ekki. Misréttið í kerfinu er hróplega ranglátt. Vitlaust gefið.

 • Margrét.

  Ég er að vísa aftur til heimahúsanna máli til Umboðsmanns Alþingis (sem neitaði málinu í vor) um það að taka á stjórnarskrárbrotum opinberra sjóða.
  Þeir 100-125 milljarðar sem að þar uppá vantar verða að öðrum kosti greiddir af almennum launþegum.

  Gangi Umbi ekki eftir því verður málið kært til lögreglu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur