Miðvikudagur 18.11.2015 - 09:39 - 11 ummæli

Heilsugæsla boðin út

Þessa dagana er verið að leggja loka hönd á undirbúning fyrir einkarekstur heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Innan tíðar verður undirbúningi fyrir útboð lokið og hafist verður handa við að hrinda í framkvæmd stefnumáli Sjálfstæðisflokksins um aukinn einkarekstur og einkavæðingu opinberrar þjónustu. Í þessum efnum gera frjálshyggjumenn engan greinamun á rekstri heilbrigðisþjónustu eða fjármálastofnanna svo dæmi séu tekin.

Heilbrigðisráðherra hefur fengið frið í þessum undirbúningi frá Framsóknarflokknum sem virðist leggja blessun sína yfir athæfið. Allar kannanir hafa sýnst svo ekki verður um villst að almenningur í landinu vill að ríki eða sveitarfélög reki heilbrigðisþjónustuna. Nú verður almenningur, ekki síður en þeir þingmenn sem eru á móti slíkum markaðsáherslum í velferðarkerfinu, að rísa upp og mótmæla. Baráttan snýst um heilbrigðiskerfið okkar, sem við eigum öll saman og höfum byggt upp á löngum tíma.

Skortur á umræðu

En hvers vegna fer þessi undirbúningur á útvistun heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu til einkaaðila svona leynt? Hvar er opinbera umræðan um þetta stóra skref í átt að einkavæðingu heilbrigðiskerfisins? Í læknasamningunum síðustu var gert samkomulag um að starfshópur skoðaði fleiri rekstrarform í heilbrigðisþjónustunni. Hugmyndum um gróða, markað, kostnað og gjöld var þá þröngvað inn í umræðuna um viðkvæma stöðu heilbrigðisstofnana. Þeir sem vilja selja ríkinu þjónustuna og græða á henni um leið, virðast fá frítt spil til að skilgreina þarfirnar og útfærsluna.

Klappað og klárt

Á fundi fjárlaganefndar á dögunum kom fram að allt væri að verða klappað og klárt til að láta til skarar skríða. Lög um sjúkratryggingar leyfa að ráðherra geri samning um rekstur í heilbrigðiskerfinu án atbeina Alþingis. Það er því mögulegt að setja stóran hluta heilbrigðiskerfisins í einkarekstur án þess að kjörnir fulltrúar fólksins í landinu fái að koma að þeirri ákvörðun og án þess að almenningur hafi nokkuð um það að segja. Þetta getur heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins gert en þó ekki án stuðnings Framsóknarflokksins. Þessir gamalkunnu helmingaskiptaflokkar hafa því samið sín á milli um að setja heilsugælustöðvarnar í einkarekstur þrátt fyrir skýran vilja almenningins um að reksturinn eigi að vera hjá ríki eða sveitarfélögum.

Traustur rekstur

Lausn vandans í heilbrigðiskerfinu felst fyrst og fremst í því að ríkið styrki raunverulega rekstur sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, geri þeim kleift að halda góðum mannauði og að mæta þörfum sjúklinga um land allt. Það á að vera forgangsverkefni. Heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir tilheyra grunnstoðum velferðarkerfisins og að þeim eiga allir að hafa jafnan aðgang án tillits til efnahags. Að þessu þurfum við að gæta nú þegar að hugmyndir um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu vaða uppi.

Það hafa verið gerðir þjónustusamningar um einstök verk innan heilbrigðiskerfisins í gegnum tíðina en nú á sýnilega að ganga enn lengra. Einkarekstur getur ekki komið í staðinn fyrir trausta opinbera heilbrigðisþjónustu sem rekin er af myndarbrag. Aldrei má vafi leika á því hvort hagsmunir sjúklinga eða rekstraraðila heilbrigðisstofnana vegi þyngra. Þess vegna vill þjóðin reka sína heilbrigðisþjónustu sjálf.

Kjallari DV 17. nóvember 2015

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

 • Haukur Hauksson

  Það er mjög jákvætt að við erum að fara norrænu leiðina í heilsugæslunni. Það boðar gott að líta til norrænu velferðarsamfélögin þegar kemur að heilbrigðisþjónustu enda er hún betri þar en hér á landi auk þess vilja heilbrigðisstarfólk frekar vinna í t.d Svíþjóð heldur en á Íslandi.

  „Oddur Steinarsson segir reynslu Svía af einkarekstri í heilsugæslu hafa gefist vel.“

  „Oddur er framkvæmdastjóri slíkrar heilsugæslustofu í Gautaborg og segir árangurinn af samkeppni í heilsugæslu í Svíþjóð hafi gefist mjög vel“

  „Sænska kerfið gengur ekki út á að búa til annað kerfi til hliðar við það opinbera, heldur að styrkja opinbera kerfið með samkeppni og fjölbreyttari rekstrarformum. Við viljum ekki tvískipt kerfi, heldur á opinbera kerfið að vera í lagi. Þetta snýst ekki um einkarekstur, heldur verktöku.““

  http://www.vb.is/frettir/samkeppni-styrkir-opinbera-heilbrigdiskerfid/96783/

  Gæti verið að fylgistap Samfylkingarinnar er því að kenna að hún vill aldrei skoða nýjar lausnir?

 • Já…væri alveg rosalegt ef af þessu yrði og fólk gæti leitað heimilislæknis þegar á þarf að halda í raun og veru…en ekki eftir 3 mánuði…kannski…eins og staðan er í dag!!

 • Þetta hefur verið markmið sjálftökuflokksinns að rústa heilbrigðiskerfinu innan frá til að geta komið því í hendur vina sinna. Ekkert að því að einkaaðilar sjái um ákveðna þætti kérfisinns, svo lengi sem sjúklingurinn þarf ekki að borga, kérfið á að vera frítt. Heilbrigðiskérfið á ekki að snúast um að gera fólk ríkt…

 • Gott mál.

  Heilsugæslukerfið á hinum Norðurlöndunum er mun betra en hér.

  Það er því ánægjulegt að loks sé stefni sömu átt og nágrannaríkin.

  Þetta er allt á réttri leið.

  Skrýtið að „jafnaðarmannaflokkur“ vilji viðhalda ónýtu kerfi.

  Íhaldssemin er svo ofboðsleg að hér má aldrei neinu breyta.

  Staðnað fólk ætti að láta samfélagið í friði og leyfa því að þróast.

 • Heiða María Sigurðardóttir

  „Já…væri alveg rosalegt ef af þessu yrði og fólk gæti leitað heimilislæknis þegar á þarf að halda í raun og veru…en ekki eftir 3 mánuði…kannski…eins og staðan er í dag!!“

  Hvort heldurðu að þetta sé af því að:
  a) Ríkisrekstur er ömurlegur og einkarekstur er frábær
  EÐA
  b) Reksturinn er fjársveltur og yrði svona eða verri ef einkaaðilar hefðu úr jafn miklu fé að moða

  Ég ætla að velja b.

 • Góð grein Oddný og takk fyrir að setja málið á dagskrá. Ég og sjálfsagt margir höfðum ekki hugmynd um þessar áætlanir. Allir vita að þetta hefur verið draumur pilsfaldakapitalistanna lengi og núna á að nota tækifærið eftir að skepnan hefur verið svelt.
  Því miður fara svona áætlanir oft í vaskinn og afeinkavæðing verður verkefni seinni ríkisstjórna svo það er full ástæða til að grannskoða þessar áætlanir til að forða okkur frá miklum kostnaði seinna meir.

 • Úrsúla Jünemann

  Allir einkaframkvæmdir eru til þess að græða á folkinu. Grunnþjónusta eins og heilsugæslan á alls ekki að vera í einkaframkvæmd!

 • Magnús Björgvinsson

  Held að það sé ekki rétt sem kemur fram hér að ofan að heilsugæsla á Norðurlöndum sé almennt einkarekin! Það eru vissulega til staðar þar eins og annarstaðar! En svona miðað við hvernig heilsugæslan er rekin hér í dag. Þ.e. það sem ég hef séð þá get ég ekki séð að það verði mikil breyting nema að það verði sturtað miklum peningum inn í kerfið. Því hver væri að taka á sig ábyrgð af þessu rekstri ef það væri ekki hagnaðar von. Þá sé ég fyrir mér að hugsanlega verði hér hækkun á komugjöldum í framtíðinni nú eða fjárframlögum með þessum samningum frá ríkinu. Því á þeim heilsugæslum sem ég þekki til á eru jú bara 2 læknaritarar eða fólk í afgreiðslu. Hjúkrunafræðingar og kannski sálfræðingur í hlutastarfi. Og því vantar mig að sjá hvar fólk ætlar að sækja hagnaðinn úr svona rekstri. Nema að þeir sem nýta þjónustuna verði látnir borga beint eða óbeint. Kannski ekki fyrsta árið en síðan kemur það inn smátt og smátt. Og þegar þetta er komið í gang er ekki hægt að snúa við ef þróunin verðu óhagstæð.

 • Kjartan Jónsson

  Nú skal tekið næsta skrefið í því að heilbrygðiskerfið verði bara fyrir hina efnameiri. Þeir eru nú búnir að undirbúa það vel og lengi með því að fjársvelta kerfið og rústa því innanfrá og græðgisvæddir læknar og fjármálaspekúlantar eru orðnir óþreyjufullir á hliðarlínunni.

 • Vilhjálmur Ari Arason

  Kemur þetta Samfylkingunni virkilega á óvart og sem hefur ekki viljað hlusta á hrópin um hjálp sl. áratug. Að minnsta kosti hef ég ekki orðið var við neinn stuðning við heilsugæsluna eða gæðþróun innan hennar meðan ég var þar við vinnu sem klínískur dósent og óteljandi greinaskrif. Ekki eitt einasta orð eða stuðningur og nú breyttir tímar. Samfylkingin fékk þó svo sannarlega tækifærið meðan viðvörunarljósin blikkuðu. Standið nú amk. í lappirnar með þjóðinni fyrir Betri spítala á betri stað og sannið í verki samtal við þjóðina.

 • Því miður er þessi pistill skrifaður af mikilli vanþekkingu um heilbrigðiskerfi nágrannalandanna, sem eru fyrirmynd um uppbyggingu og skipulagi heilbrigðisþjónustu.
  Á Íslandi er fólk orðið „brennt“ af svokallaðri einkavæðingu. Þegar ríkisbankarnir voru einkavæddir hér áratugum eftir að þetta var gert í öllum löndum sem við viljum líkja okkur við var þetta fengið í hendur á hagsmunaaðilum og það eitraði hagkerfið og olli hruni. Í raun voru gömu ríkisbankarnir svo óralangt frá því að vera einhverjar fyrirmyndarstofnanir og hef ekki heyrt neinn með viti halda því fram. Mistökin um einkavæðingu bankanna hér er tekið sem varanleg sönnun þess að öll einkvæðing eða breyting í rekstrarformi sé af hinu illa og þessi hjarðhugsun virðist nú hrjá marga Íslendinga.

  Við getum tekið dæmi af velheppnaðum einkarekstri í íslenska heilbrigðiskerfinu sem dæmi Læknavaktina, það eru 2 heilsugæslustöðvar reknar með þessu rekstrarformi í Reykjavík, SÁÁ og ótal fleirra.
  Norska fastlegekerfið er einnig dæmi um ákaflega vel heppnaða einkavæðingu sem er að nálgast 15 árið. Á 8 ára valdatíma síðustu vinstristjórnar með stjórn m.a. systurflokka VG og Samfylkingar og Framsóknarflokks. Þar skáru menn niður skrifræðið í heilsugæslunni. Lögðu niður deildarstjóra, framkvæmdastjóra og notuðu það fé til að borga þeim sem meðhöndla fólk og auka og bæta þjónustuna. Það að fólk fær viðunandi meðferð í heilsugæslunni hindrar að fólk leitar í dýrari og sérhæfðari hluta heilbrigðisþjónustunnar. Menn komust að því að með að minnka skrifræði þá bættist þjónusta og ánægja sjúklinga stórjókst og þetta er ákaflega vel sannað enda voru gerðar viðamiklar rannsóknir á þessu. Raunar ráðlegg ég pistlahöfundi að hafa samband við formann jafnaðarmanna í Noregi og spyrja ráða.
  Heilsugæslan á Íslandi hefur verið vanrækt í meira en 2 áratugi og á tímum síðustu vinstristjórnar drógust útgjöld til heilbrigðismála mikið saman. Íslensk heilsugæsla er í raun í útrýmingarhættu vegna lélegrar og algjört hrun heilsugæslunnar blasir við gerir það að verkum að menn missa algjörlega stýringu á kostnaði á heilbrigðisþjónustunni þegar flæði sjúklinga fer yfir í dýrari og sérhæfðari þjónustu heilbrigðiskerfisins.
  Það eru stjórnmálamenn (og þá sem kjósa þá) sem ákveða komugjöld og sjúklingakostnað en ekki rekstrarformið sem sumir virðast jafnvel halda og blanda þessu saman.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur