Föstudagur 18.03.2016 - 15:38 - 1 ummæli

Rukkað fyrir heilsu

Þegar við Íslendingar veikjumst þurfum við að borga fyrir læknisþjónustuna, lyf, þjálfun og hjálpartæki. Upphæðirnar eru orðnar svo háar að flestir Íslendingar þekkja einhvern sem hefur frestað því að fara til læknis eða sparað við sig þjálfun sem flýtir fyrir bata. Augljóslega leiðir slíkt til aukins kostnaðar í samfélaginu þar sem fullir kraftar fólks fá ekki notið sín. Þetta er grafalvarlegt mál og við eigum ekki að sætta okkur við þessa stöðu. Alls eru íslenskir sjúklingar að greiða rúma 30 milljarða úr eigin vasa fyrir heilbrigðisþjónustu til viðbótar við skattgreiðslur. Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta ætti að vera aðalsmerki íslenska velferðarkerfisins.

Krafan um endurreisn

Nú hafa um 85.000 manns krafist þess með undirskrift sinni að heilbrigðiskerfinu verði raðað framar af stjórnvöldum og auknu fjármagni varið til heilbrigðismála. Þessu svarar heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin með því að tilkynna útboð á þremur heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Einkarekstur er svar þeirra við vandanum.

Markmiðið ætti að vera að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu, að þangað leiti allir fyrst nema í bráðatilvikum. Hugmynd stjórnvalda um aukinn einkarekstur byggir meðal annars á því að fólk geti valið sér heilsugæslustöð og að þær fái greitt eftir fjölda sjúklinga. Þó heilbrigðisráðherra hafi sagt að hann vilji ekki að rekstraraðilar greiði sér arð geta þau orð ekki komið í veg fyrir arðgreiðslurnar.

Hagnaðarvon

Það er ekkert í lögum sem bannar arðgreiðslur í einkarekstri í heilbrigðiskerfinu. Með lagabreytingum þarf að koma í veg fyrir að skattfé almennings, sem ætlað er til  heilbrigðisþjónustu, renni í arðgreiðslur til eigenda einkafélaga. Félaga,sem hafa með samningi við ráðherra  tekið að sér að veita nauðsynlega grunnþjónustu við velferð og heilsu landsmanna.

Þegar að teknar eru stefnumarkandi ákvarðanir svo sem um einkarekstur á grunnþjónustu fyrir almenning, er rétt að ráðherra hafi skýrt umboð lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar til þess.  Að óbreyttum lögum um sjúkratryggingar getur ráðherra tekið slíkar stefnumótandi ákvarðanir fyrir heilbrigðiskerfið án þess að  bera þær undir þingið. Og það er hann að gera þessa dagana.

Markaðslögmálin

Það er ekkert í lögum sem setur ráðherra skorður við að fjölga einkareknum heilugæslustöðvum. Almenningur hefur krafist  þess að auknum fjármunum verði varið til heilbrigðismála. Gæta þarf þess að þeir fjármunir nýtist sem allra best.  Reynsla annarra hefur sýnt  að einkarekstur í heilbrigðiskerfi eykur frekar heildarkostnað kerfisins, fremur en að rekstrarformið dragi úr kostnaði.

Hægrimenn telja að markaðslögmálin eigi að gilda og að með þeim megi bæta heilbrigðisþjónustuna og draga úr kostnaði. Markaðurinn sem um ræðir er væntanlega samansafn veikra Íslendinga og hann vilja hægrimenn að einkaaðilar nýti sér til hagsbóta. En getur það orðið til hagsbóta fyrir sjúklingana og heilbrigðiskerfi sem á að vera aðgengilegt öllum óháð efnahag?  Það fæ ég ekki séð enda leikurinn ójafn sjúklingum í óhag.

Lagaumbætur

Nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar undir forystu Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur hafa lagt fram frumvarp sem breytir lögum um sjúkratryggingar. Breytingin sem vonandi fær brautargengi, felst í því að Alþingi sem veitir ráðherra leyfi til að gera samninga við einkaaðila í heilbrigðiskerfinu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og óheimilt verði að greiða arð út úr rekstrinum.

Nú þegar hafa verið gerðir þjónustusamningar um einstök verk innan heilbrigðiskerfisins en einkarekstur getur aldrei komið í staðinn fyrir trausta opinbera heilbrigðisþjónustu sem rekin er af myndarbrag. Aldrei má vafi leika á því hvort hagsmunir sjúklinga eða rekstraraðila heilbrigðisstofnana skuli vega  þyngra. Þess vegna vill þjóðin reka sína heilbrigðisþjónustu sjálf.

Kjallari DV 18. mars 2016

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • sæmundur

    er Domus Medica ekki einkarekið og Orkuhúsið ?
    Hvorutveggja búið að vera starfandi mjög lengi

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur