Þriðjudagur 01.03.2016 - 11:06 - 4 ummæli

Leikur eða dauðans alvara

Það gengur á ýmsu hjá stjórnmálaflokkunum þessa dagana. Skoðanakannanir sýna mikla breytingu hjá flestum flokkum frá kosningum. Stjórnarflokkarnir tapa en Framsókn þó meira en Sjálfstæðisflokkur. Píratar eru í hæstu hæðum, Björt framtíð tapar miklu, Vinstri grænir standa um það bil í stað og Samfylkingin er samkvæmt könnunum ekki sá stóri jafnaðarmannaflokkur sem hún var stofnuð til að vera. Vangaveltur um af hverju þetta rót stjórnmálanna eigi sér stað nú um stundir er vinsæll samkvæmisleikur. En í þeim leik er mikilvægt að það gleymist ekki um hvað stjórnmálin snúast og hvað er þar mest um vert.

Það má ekki slaka á í baráttunni gegn misskiptingu auðs og misbeitingu valds eða baráttunni fyrir bættum kjörum láglaunafólks, aldraðra og öryrkja hvað þá baráttunni fyrir jöfnum tækifærum karla og kvenna eða sömu launum fyrir sömu vinnu. Við megum ekki gleyma okkur í skemmtilegu samkvæmisleikjunum og slaka á nauðsynlegu aðhaldi við stjórnvöld.

Ákall um endurreisn

Rúmlega 80.000 manns hafa krafist þess með undirskrift sinni að auknum fjármunum verði varið til heilbrigðismála. Stjórnvöld svara því kalli með því að bjóða út þrjár heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu! Heilbrigðisráðherra segir það vera í þágu sjúklinga en telur ekki ástæðu til að ræða málið á Alþingi. Fyrirspurn formanns velferðarnefndar, Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur sem hún beindi til ráðherrans í nóvember sl. hefur til að mynda ekki verið svarað. Svíar hafa slæma reynslu af auknum einkarekstri í heilbrigðisþjónustunni þar á bæ, samkvæmt greiningu sænsku ríkisendurskoðunarinnar. Við eigum ekki að flytja inn þeirra mistök heldur læra af þeim.

Rekstur heilbrigðiskerfisins er ekki einkamál heilbrigðisráðherra og ríkissjórnarinnar. Stjórnvöld eiga að svara kalli fólksins í landinu um aukið fjármagn til heilbrigðismála því þörfin er sannarlega fyrir hendi. Rekstrarform breytir engu þar um. Einkarekstur gefur hins vegar færi á því að greiddur sé út arður, s.s. í formi hærri launa til rekstraraðila. Bann við beinum arðgreiðslum er því aðeins sýndarleikur til að slá á efasemdir um að hagur sjúklinga gangi framar rekstrarhagnaði.

Aðgerðarleysi

Engin ríkisstjórn undanfarin 20 ár hefur lagt fram jafn fá stjórnarfrumvörp og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Aðgerðarleysið er þó stórkostlegast í málefnum sem varða ferðaþjónustuna og móttöku erlendra ferðamanna. Erlendir ferðamenn, sem verða vel á aðra milljón talsins í ár, valda miklu álagi á samgöngukerfið okkar, ferðamannastaði, löggæsluna og heilbrigðiskerfið. Þeim vanda sem álagið skapar er ekki hægt að mæta með samblandi af fumi og úrræðaleysi. Það verður aðeins til þess að auka líkurnar á því að ferðamenn hætti að sækja okkur heim og fjárfestingar í ferðaþjónustunni nýtist ekki sem skyldi með tilheyrandi tjóni í kjölfarið. Hér er kallað á styrka stjórnun og örugga fjármögnun en hvorugt er fyrir hendi.

Bankasala eður ei

Ríkisstjórnin vill selja hlut ríkisins í bönkunum og gerir ráð fyrir fjármunum í ríkissjóð vegna þess í fjárlögum 2016. Samfylkingin hefur varað sterklega við því að það sé gert núna þegar ríkið er með mikinn meiri hluta kerfisins í sínum höndum og góður möguleiki á að endurskipuleggja fjármálakerfið. Nú er tækifæri til að raða kerfinu saman upp á nýtt og ákveða hvernig það geti best þjónað fólkinu í landinu. Við þurfum fyrst að svara grundvallarspurningum eins og þessum: Hvaða kröfu eigum við að gera um eigið fé íslenskra banka? Hvað á kerfið að vera stórt? Eigum við að skilja á milli viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi? Og ef við ætlum að selja hvernig viljum við að eignarhaldið verði?

Alþingi hefur samþykkt rannsókn á einkavæðingu bankanna en hún er ekki enn hafin. Niðurstöðum rannsóknarinnar er m.a. ætlað að auðvelda mótun viðmiða fyrir sölu eignarhluta ef arbært þyki að ríkið selji eingarhluti sína í bönkunum.

Lærum af reynslunni og gleymum því ekki að það skiptir máli hverjir stjórna.

Kjallari DV 1. mars 2016

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

 • thorhildur lilja thorkelsdottir

  Það eru ekki kjosendur sem hafa gleymt, um hvað stjornmal eiga að snuast.
  Það eru stjornmalamennirnir sem hafa misst mynnið.

 • Þorsteinn Jón Óskarsson

  Pólitíkusar sem nú vaða áfram á báðum buxunum forðast að nefna pólitískar stefnur og markmið eins og heitan eldinn. Velja skal einstaklinga upp á Bandarískan máta. Sem sagt „köttinn í sekknum.“

 • Já, „Lærum af reynslunni og gleymum því ekki að það skiptir máli hverjir stjórna.“ Kjósum aldrei aftur Sjálfstæðisflokkinn eða Framsókn. Eða VG eða Samfylkinguna (eða Bjarta Framtíð). Lærum af reynslunni af að treysta þessum flokkum til að þjóna hagsmunum almennings. Endalaus þjónkun við bankaauðvaldið sem arðrænir almenning, útgerðina sem fékk að eiga kvótann áfram, og við valdaklíkurnar sem VG og Samfó tóku að sér að drepa stjórnarskrána fyrir.

  Lærum af reynslunni.

 • Ingi Gunnar Jóhannsson

  Það eru 63 einstaklingar sem eiga að vera í fullri vinnu hjá almenningi við að gera við og lagfæra allt sem Oddný er að telja upp og benda á að þurfi að lagfæra.

  Miðað við afköstin gætu þetta verið sex einstaklingar.

  Hvernig væri að koma sér að verki, þingmenn?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur