Fimmtudagur 11.02.2016 - 11:32 - 6 ummæli

Mikilvægt að flokkurinn fari sterkur og samhentur inn í kosningaveturinn

Blaðið Reykjanes bað mig að svara nokkrum spurningum. Hér eru spurningarnar og svörin.

Hver verða helstu átakamálin á Alþingi í vetur?

Ég held að það verði nokkur mál sem muni bera hæst á vorþinginu. Þetta eru bæði mál sem beðið hefur verið eftir allt kjörtímabilið eins og húsnæðismálin og stjórnarskrárbreytingarnar en einnig önnur stór mál sem liggur á að þingiðtaki afstöðu til, svo sem um sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkum, uppbyggingu hjúkrunarheimila og einföldun á kerfi almannatrygginga. Það sem helst gæti komið í veg fyrir góða afgreiðslu þessara mála er ágreiningur innan stjórnarflokkanna. Samfylkingin mun t.d. styðja þau húsnæðismál sem leggja til umtalsverða fjölgun lítilla og meðalstórra íbúða og á hækkun  húsnæðisbóta. Ástandið er þannig núna að ungt fólk getur í raun hvorki keypt né leigt. Stjórnvöld verða að koma að lausn þess vanda. Það þarf að gera ýmsar tæknilegar breytingar á húsnæðisfrumvörpunum eins og þau liggja fyrir þinginu núna en sennilega munu þau ekki fá framgang þar vegna andstöðu Sjálfstæðismanna við þau. Sama má segja um eignarhluti ríkisins í bönkunum. Þar er bullandi ágreiningur á milli stjórnarflokkanna.

Mikill ágreiningur er á Alþingi  um brennivín í búðir sem Sjálfstæðismenn leggja ofuráherslu á þó nánast enginn nema þeir séu að kalla eftir þeirri breytingu. Það mál gæti valdið því að brýn mál frá öðrum þingmönnum komist ekki á dagskrá.

Skoðanakannanir sýna að Samfylkingin nýtur ekki mikils trausts meðal kjósenda. Hver er skýringin?

Á síðasta kjörtímabili tókst ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir á við fordæmalausan efnahagsvanda sem krafðist aðgerða sem ekki voru líklegar til vinsælda. Svo virðist sem sumir séu búnir að gleyma hve slæm staðan var. Viðfangsefnið var að koma í veg fyrir gjaldþrot ríkissjóðs og stöðva skuldasöfnun með hallarekstri. Og það tóks á aðeins fjórum árum að loka 216 milljarða króna fjárlagagati. Það vekur aðdáun í nágrannaríkjum en minni hér heima. Það var einnig hávær krafa í samfélaginu um róttækar breytingar og nýtt Ísland. Við fórum af heilum hug út í margar lagabreytingar og breytingar á stjórnarskrá sem mættu sterkum úrtöluröddum og ég vil segja hreinum skemmarverkum þar sem allt var gert til að tefja fyrir brýnum breytingum. Við náðum auðvitað ekki að ljúka öllu á einu kjörtímabili við þessar slæmu aðstæður. Nú er enn verið að tefja það að tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá verði að veruleika. Og hverjir eru það sem það gera? Það eru núverandi ríkissjónarflokkar sem eru enn við sama heygarðshornið.

Það er rétt að okkur skortir tiltrú nú um stundir en við munum öðlast hana að nýju og vinna traust kjósenda. Við verðum aftur öflugur jafnaðarmannaflokkur með afl til að leiða breytingar þannig að niðurstaðan verði eftirsóknarvert velferðarsamfélag fyrir alla.

Samkvæmt skoðanakönnunum eru Píratar með yfir 40% fylgi. Hver er þín skýring á þessu ótrúlega góðu gengi Pírata?

Ég kem ekki auga á neina augljósa skýringu. Þeir tala vissulega fyrir beinu og auknu lýðræði og opinni stjórnsýslu. En það gerum við líka. Píratar virðast vera ósamstæður hópur með ólíkar skoðanir og svo virðist sem margir geti fundið sér skjól undir þeirri regnhlíf. Þeir eru einnig flokkur án fortíðar og hafa ekki þurft að taka sér stöðu í erfiðum máum. Þingmönnum þeirra leyfist að greiða atkvæði þvers og kruss í sumum málum svo dæmi séu tekin en ef ágreiningur um afgreiðslu mála kemur upp hjá hinum flokkunum þá er það stór mál bæði innan flokks og utan. Þau fá mikla athygli og njóta meira umburðarlyndis en aðrir flokkar gera.

Ert þú fylgjandi viðskiptabanni okkar á Rússa?

Ákvörðun um viðskiptabann er ekki tekin í tómarúmi heldur varðar hún utanríkisstefnu landsins. Saga Evrópu ætti að kenna okkur eitt og annað um það hvernig ekki á að leysa úr ágreiningi ríkja. Við munum þá sögu sem betur fer og höfum undirritað sáttmála og samstarf við önnur lönd til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Þess vegna erum við í Nató og þess vegna gengumst við undir Helsinki sáttmálann 1976, sem segir að óheimilt sé að breyta landamærum fullvalda ríkis nema með fullu samkomulagi beggja ríkja. Rússar komust upp með að innlima einhliða hluta af Georgíu án þess að það yrði stöðvað og nú var röðin komin að Úkraínu. Rök Rússa eru þau sömu og Hitlers þegar hann tók Súdetaland af Tékkum. Hvað gæti komið næst? Og í hvaða stöðu yrðum við á alþjóðavettvangi sem smáríki ef stórveldi ásældist okkar svæði? Við verðum að horfa á stóra samhengið í þessu máli og standa vörð um fullveldi ríkja. Viðskiptabannið við Rússa snýst um svo mikið annað en peninga og viðskipti með fisk. Þar með er ég ekki að segja að stjórnvöld í Úkraínu séu til fyrirmyndar, en það er bara annað mál.

Er eðlilegt að ríkisbanki eins og Landsbankinn geti verið alfarið sjálfstæður í öllum sínum aðgerðum? Þarf ekki Alþingi að hafa stjórnina á bankanum?

Það getur varla verið þannig að alþingismenn eða ráðherrar stýri bönkum frá degi til dags. Við þurfum skýra eigendastefnu, skýrari en sú sem er í gildi af hálfu ríkisins og á hluthafafundum geta eigendur haft áhrif á stefnu bankans. Við þurfum eigendastefnu sem leyfir ekki að eignir bankans séu seldar til einhvers valins hóps í lokuðu söluferli. Það er ekkert annað en spillingargildra og elur á tortryggni. Borgunar málið er skýrt dæmi um það hvernig hlutirnir eiga ekki að vera.

Staðan sem nú er komin upp þegar ríkið á sjálft stærsta hluta bankakerfisins gefur okkur gullið tækifæri til að ákveða hvernig bankakerfi við viljum hafa. Ég vil að við svörum lykilspurningum í þessari stöðu svo sem: Hvaða krafa verður gerð um eigið fé til íslenskra banka? Viljum við dreift eignarhald? Viljum við frekari aðskilnað viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi? Er mögulegt að aðskilja þá starfsemi í okkar litla landi? Viljum við svokallaða samfélagsbanka og hvernig eru þeir öðruvísi en hinir? Og síðast en ekki síst – hversu stórt á bankakerfið að vera? Við ættum að gefa okkur tíma til að ákveða hvernig við viljum sjá bankakerfið okkar til framtíðar og draga lærdóm af fyrri sölu og einkavæðingu áður en við rjúkum til við að selja banka. Sporin hræða. Okkur liggur ekkert á.

Ert þú sammála Kára Stefánssyni að auka þurfi framlag til heilbrigðismála um 50 milljarða? Er það framkvæmanlegt öðruvísi en skera verulega niður í mennta-og félagsmálum?

Já ég er sammála Kára að setja markið hátt þegar að kemur að heilbrigðismálunum og hef barist fyrir því að við setjum aukna fjármuni til heilbrigðiskerfisins. Okkur í Samfylkingunni er það mikið í mun að gefið sé til baka í heilbrigðiskerfið eftir endurreisnina. Heilbrigðiskerfið fór laskað inn í hrunið og nokkuð augljóst að þegar hagur ríkisins batnaði þyrfi að bæta þessa meginstoð velferðarkerfisins. Sanngjarnara tekjuskattskerfi og tekjur af auðlindum okkar myndu duga til þeirrar uppbyggingar. Hægristjórnin hefur gert miklar á breytingar skattheimtu sem gagnast fyrst og fremst þeim sem best standa. Það hefði átt að nota þá fjármuni í velferðarkerfið frekar en að rétta milljarðana til ríka fólksins.

Staða margra eldri borgara er mjög erfið. Núverandi ríkisstjórn heldur því fram að aldrei hafi verið eins vel gert fyrir þennan hóp heldur en núna. Ert þú sammála?

Nei ég er aldeilis ekki sammála því. Mesta breytingin til batnaðar á þessari öld var með tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur þegar að hún sem félagsmálaráðherra lagði til  hækkun upp á 9,6% og til viðbótar 19,9% hækkun á sérstakri framfærsluuppbót sem tók gildi 1. janúar 2009. Sú hækkun stóð í gegnum kreppuna með þeim sem minnst höfðu handa á milli og fengu bara greiðslur frá Tryggingastofnun en áttu ekki möguleika á öðrum tekjum. Á árinu 2016 munu greiðslur frá Tryggingastofnun hækka minna en lægstu laun og það gerðu þær líka í fyrra. Hér að neðan er tafla sem sýnir muninn á lægstu launum og greiðslum frá Tryggingastofnun til þeirra sem hafa engar aðrar tekjur á árunum 2015 og 2016. Við skulum ekki gleyma því að fáir eru á lægstu launatöxtunum og vinna sig hratt upp í betri kjör. Það geta aldraðir og öryrkjar hins vegar ekki.

Samanburður á lágmarkslaunum og kjörum aldraðra og öryrkja 
Samtals 2015 Samtals 2016 Alls 2015 og 2016
Lágmarkslaun VR og Flóabandalag      2.960.000      3.180.000              6.140.000
Greiðslur TR einhleypings með heimilisuppbót      2.700.840      2.962.824              5.663.664
Greiðslur TR einstaklingur sem býr með öðrum      2.327.544      2.553.312              4.880.856
Munur á ársgreiðslum
Lágmarkslaun og TR greiðslur til einhleypings með heimilisuppbót         259.160         217.176                 476.336
Lágmarkslaun og TR greiðslur til einstaklings sem býr með öðrum         632.456         626.688             1.259.144

Munurinn er sláandi eða tæp hálf milljón uppsafnað hjá öldruðum og öryrkjum sem búa einir en tæplega 1,3 milljónir hjá sambýlingum. Það er þjóðarskömm að halda þessum hópum fátækustum allra á landinu og fátækt fólk munar um þessar fjárhæðir. Þetta gerir hægristjórnin á meðan að gjalda- og skattalækkanir renna til þeirra sem búa við allsnægtir.

Athygli vekur að ekki er gert ráð fyrir neinum nýjum hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum næstu árin þrátt fyrir mikla þörf. Nú eruð Þið sjö þingmennirnir hér frá Suðurnesjum. Eru þið nógu dugleg að vinna saman að mynda þrýstihóp?

Það er rétt að það blasir við alvarleg staða í málefnum aldraðra á Suðurnesjum. Þingmenn svæðisins leggjast ekki nógu fast á árarnar saman. Allra best væri að sveitarstjórnarmenn og allir þingmenn svæðisins sameinuðust um að koma þessum málum í lag. Hér eru lengstu biðlistar á landinu eftir hjúkrunarrýmum. Öldruðum fjölgar sem betur fer hratt en við því þarf að bregðast. Vinstri stjórnin gerði áætlun og vann eftir henni í miðri kreppunni, eins og Suðurnesjamenn hljóta að muna og við í Samfylkingunni höfum kallað eftir stefnumótun hægri stjórnarinnar í þessum málum og höldum því áfram. Það verður að gera raunhæfar áætlanir um málefni aldraðra þar sem fjármunir fylgja tímasettum aðgerðum.

Framundan eru forsetakosningar. Hvernig forseta viltu sjá í embættinu, pólitískan eins og núverandi eða forseta sem er sameiningartákn sem blandar sér ekki í pólitísku átökin?

Mér finnst að forsetinn eigi að vera sameiningartákn og boðberi menningar og friðar. En fyrst og fremst vil ég sjá breytingar á stjórnarskrá sem færa málsskotsréttinn til þjóðarinnar sjálfrar, en ekki á eina hönd nánast konunglegs yfirvalds eins og nú er. Mér þætti það góð ásýnd fyrir lýðveldið Ísland ef kona og móðir ungra barna yrði forsetinn okkar. Kona sem sameinaði og sætti þjóðina. Ég er ekki með neina ákveðna konu í huga. Þetta er bara draumur minn um ásýnd Bessastaða og ímynd fyrir nýja Ísland.

Það heyrist að nauðsynlegt sé fyrir Samfylkinguna að skipta um forystu. Ert þú að hugleiða að bjóða þig fram til formennsku í Samfylkingunni? 

Ég viðurkenni að ýmsir hafa haft samband við mig og beðið mig um að bjóða mig fram til formanns Samfylkingarinnar. En ég segi nú bara eins og maðurinn: „þeir eru þó mun fleiri sem hafa ekki haft samband.“  En grínlaust þá hef ég ekki verið að íhuga neitt slíkt. Mér finnst krafan um flýtingu landsfundar eðlileg viðbrögð við stöðu flokksins og þegar fjölmiðlar leita eftir álíti Samfylkingarfólks þá væri best að það varðaði stefnu og áherslur jafnaðarmanna við landsstjórnina en ekki bara  forystukreppu. Það er mikilvægt að flokkurinn fari sterkur og samhentur inn í kosningaveturinn með vel útfærða stefnu jafnaðarmanna og nái þannig eyrum almenningins sem skýrasti valkosturinn fyrir íslenska jafnaðarmenn. Þeir eru miklu fleiri en 9% kjósenda og Samfylkingin verður að svara þeirra kalli.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Garðar Garðarsson

    Oddný G. Harðar. er hörku flottur stjórnmálamaður með hjartað á réttum stað, og yrði góður kostur sem formaður Samfylkingar.

  • Ertu ekki að grínast?

    Tölur um atvinnuleysi minnkuðu vegna þess að fólki var sparkað af atvinnuleysisbótum. Og bæjarfélög tóku við …

    Tölur um skuldastöðu heimila skánaði með gjaldþroti þúsunda heimila, afleiðing 110% leiðinnar? Og bæjarfélög tóku við …

    Leiðir núverandi ríkisstjórnar voru ekki betri og að ef mig minnir rétt að þá átti að innheimta kostnað af þeirri aðgerð með sérstökum bankaskatti.
    En var svo gert með þeim hætti að vaxtabætur lækkuðu til jafns við leiðréttingu.

    En ekkert heyrðist í „Sam“fylkingu“ um það mál.

  • Ekki vissi ég að húmoristar væru til innan Samfylkingarinnar.

    Þessi grein er stórkosrlega fyndin.

  • Samspil/linng og blekking fjórflokksins er með fullu lokið.

    Össur réði Árna Matt, vegna ….

  • Sverrir Hjaltason

    Samfylkingin geldur óheilinda nokkurra þingmanna sem unnið hafa leynt og ljóst gegn formanninnum síðan hann var kjörinn. Vonandi hefur það fólk vit á að draga sig í hlé og gefa nýju fólki færi á að bjóða sig fram til þingsetu þannig að stuðningsfólk Samfylkingarinnar geti kosið flokkinn í næstu þingkosningum.

  • Fjölskylda, faðir og móðir með börn á framfæri fær ekki leyfi frá hinu opinbera að taka börn í fóstur, vegna fjárhagslegra örðuleika.

    Ríkisstjórn ber að gegna sömu lögum um réttarfar og almenningur, auk þess þeim ber að gæta að hagsmunum almennings samkvæmt stjórnarskrá.

    Hver eru viðurlög ólýðræðislegra ákvarðanna þingmanna/ráðherra að hundsa lög og stjórnarskrá landsins?

    Hvernig ætlar þú Oddný G Harðardóttir að að víkja þér undir slíkum spurningum undan þér í fyrirhugðum formannskosningum?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur