Sunnudagur 24.01.2016 - 22:19 - 2 ummæli

Af hverju ertu í stjórnmálum?

Ungir jafnaðarmenn spurðu okkur í þingflokki Samfylkingarinnar hvers vegna við værum í stjórnmálum. Ég svaraði að ég væri þar fyrst og fremst fyrir barnabörnin mín. Ég vildi að þau byggju við jafnrétti, jöfnuð og í góðu samfélagi fyrir alla.

Þetta var mitt 15 sekúndna svar. IMG_0158 Þarf nokkuð að segja meira?

Ég ætla ekki að sitja aðgerðarlaus hjá á meðan stelpur hafa ekki sömu tækifæri og strákar og að kynjunum bjóðist ekki sömu laun fyrir sömu vinnu á fullorðinsárum. Ég get ekki hugsað mér að ömmustelpan mín eigi ekki sömu möguleika og ömmudrengirnir. Ég get ekki hugsað mér að hún muni rekast upp undir glerþökin, þau sömu og amma hennar rakst undir fyrir tugum ára. Ég vil að þau sitji við sama borð jafnréttis og réttlætis.

Ég ætla ekki að sitja aðgerðarlaus hjá á meðan að börn búa við fátækt á Íslandi eða geti ekki tekið þátt í frístundastarfi vegna fjárskorts foreldranna. Ég vil að með skattgreiðslum þar sem hver greiðir sinn sanngjarna hlut eftir getu, verði staða barnafjölskyldna jöfnuð líkt og almennileg velferðarsamfélög gera. Með barnabótum sem munar um fyrir öll börn. Og ég ætla ekki heldur að sitja aðgerðarlaus hjá og horfa á unga foreldra glíma við vanda vegna þess bils sem er á milli leiksskóla og fæðingarorlofs.

Sjónarhorn barna

Með því að horfa á heiminn út frá sjónarhorni barna náum við öllu sem skiptir máli. Fremst skoðum um við nærsamfélagið sem barnið býr í. Hvernig fjárhagsstaða heimilisins er og félagsleg staða. Kynbundið ofbeldi sem þrífst innan veggja sumra heimila bitnar ekki síst á börnum sem verða vitni að því þegar móður þeirra er misþyrmt. Ég mun ekki sitja aðgerðarlaus hjá á meðan að lögreglu þessa lands er ekki gert kleift að sinna málum barna hratt og vel í samstarfi við félagsþjónustu sveitarfélaga. Börnin þurfa að geta treyst á örygga og meðvitaða lögreglu sem ekki er undirmönnuð eða svo önnum kafin við annað að þau verði að bíða, með slæmum aukaverkunum sem kunna að vara allt lífið.

Út frá sjónarhóli barna er staða móðurinnar afar mikilvæg. Ef konurnar eru heilbrigðar og hafa gengið í góða skóla gerist það í öllum löndum heims að fjölskyldur dafna. Ef konur búa við öryggi og eiga sömu tækifæri í lífinu og karlar dafna fjölskyldur þeirra. Og ef fjölskyldur dafna fylgja samfélögin á eftir og heilu þjóðirnar. Kynjamisrétti er brot á mannréttindum. Svo einfalt er það. Enginn getur sætt sig við mannréttindabrot eða setið aðgerðarlaus hjá.

Ef við getum tryggt fullt jafnræði karla og kvenna og jafna stöðu kynjanna á öllum sviðum, erum við að þar með að skapa góðar aðstæður og góðar fyrirmyndir fyrir öll börn. Bæði stúlkur og drengi. Þannig breytum við heiminum.

Greinin er einnig í nýársblaði Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi 2016

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

 • Sigurður

  …..og náttúrlega til þess að byggja tónlistarhús í fjörunni, jafnvel þótt það þurfi að leggja niður Landspítalann á meðan.

 • Íslenskir sem erlendir þingmenn/konur virðast einhvernveginn gefa skít í börnin sín og barnabörn.

  Grunnlög þau, eiðsvarnir að verja …
  verja þeir höndum, tíma sínum til að berja …
  réttlætið, sem þeir í eiðnum verja til að sverja …
  sást í sviknum héra, syndandi og hverfa …

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur