Laugardagur 14.05.2016 - 21:32 - 7 ummæli

Slóð peninganna

Íslendingar eiga heimsmet í að nýta sér erlend skattaskjól samkvæmt Panamaskjölunum. Sú uppljóstrun hefur kallað skömm yfir alla þjóðina. Sama hvað hver segir þá er eitt á hreinu. Skattaskjól eru fyrst og fremst notuð til að fela eignir og komast undan skattgreiðslum. Íslendingar sem nota skattaskjól gera það til að komast hjá því að greiða skatta af tekjum og eignum og vilja láta aðra bera sinn hlut í ríkisrekstrinum, s.s. að halda hér uppi heilbrigðisþjónustu og menntakerfi. Einkenni aflandsfélaga í skattaskjólum eru skattleysi eða lágir skattar, leynd og ógagnsæi.

Afskriftir og aflandsfélög

Meðal eigenda aflandsfélaga eru aðilar sem hafa fengið háar fjárhæðir afskrifaðar í kjölfar falls bankanna haustið 2008. Dæmi eru einnig um að kröfur í þrotabú bankanna hafi verið vistaðar í aflandsfélögum. Háar fjárhæðir hafa komið til landsins í gegnum gjaldeyrisútboð Seðlabankans og eigendur fengið þar verulega ábót. Um þau viðskipti ríkir trúnaður sem aðeins opinber rannsókn getur aflétt. Ef þessir hópar yrðu bornir saman, þ.e. þeir sem fengu háar fjárhæðir afskrifaðar hjá bönkunum, kröfur aflandsfélaga í þrotabú bankanna og þátttaka í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans, fengjust svör við því hvort um sömu aðila sé að ræða í einhverjum tilvikum.

Réttlæti og niðurstaða

Eðli málsins samkvæmt þá eru allir sem eiga eða hafa átt aflandsfélög í skattaskjólum tortryggðir vegna þess að tilgangurinn er leynd og skjól. Þá getur einnig verið að í einhverjum tilvikum sé ekki hægt að skýra eignamyndun aflandsfélaga með heiðarlegum viðskiptum. Svo virðist sem stofnuð hafi verið eignarhaldsfélög hér á landi gagngert til að skuldsetja þau. Lánsféð hafi síðan verið fært til aflandsfélaga án þess að um nokkur viðskipti hafi í raun verið að ræða og jafnvel reynt að hylja slóðina með flóknum millifærslum. Það er mögulegt að rekja þessi viðskipti með opinberri rannsókn.

Þessi mál verður að upplýsa. Íslensk þjóð getur ekki unað því að fólk í forréttindaaðstöðu gerist eins konar yfirstétt í landinu á grundvelli auðgunarbrota. Aldrei getur orðið sátt og friður í samfélaginu nema sannleikurinn komi í ljós. Panamaskjölin hafa aukið möguleikana á því að upplýsa þessi mál og það er mikilvægt að íslensk stjórnvöld nýti sér þá möguleika.

Birt í Morgunblaðinu 14. maí 2016

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

 • Kærar þakkir fyrir góða grein.

  Sú spurning hlýtur að vakna hvers vegna ákveðið var að Seðlabanki færði mönnum leið til að þvætta peninga og koma þeim inn í íslenskt hagkerfi með 20% ávöxtun.

  Ég hefði kosið að höfundur tjáði sig um þessa ákvörðun með skýrari hætti.

  Yfir allan vafa er hafið að þeir sem rændu þjóðarbúið og ábyrgð báru á hruni fjármálakerfisins hafa með því að nýta sér þessa „leið“ Seðlabankans komið illa fengnu fé í umferð hér á landi.

  Það stendur m.a. í Panama-skjölunum.

  Með slíku peningaþvætti á afbragðskjörum hefur allur markaður verið skekktur ekki sist húsnæðismarkaður sem svo aftur bitnar á ungu fólki.

  Ég leyfi mér að kalla eftir því að frambjóðandi til forystu í einum af stjórnmálaflokkum landsins tjái sig skýrar um „fjárfestingarleið“ Seðlabankans og það ríkisrekna peningaþvætti sem fram hefur farið.

  Og um leið finnst mér við hæfi að frambjóðandinn tjái sig um hvar ábyrgðin að þessu galna ástandi liggur.

 • Gudni Stefánsson

  EES samingurinn um frjálst flæði fjármagns gerir ráð fyrir að eign í skattaskjólum sé lögmæt í aðildarlandi.

  Mætti hugsa sér að endurskoða aðild okkar að EES samningnum?

  Eg fagna þessari grein. Þetta er fyrsta grein sem ég les eftir abyrgan stjórnmálamann sem lyftir þessu máli upp á yfirborðið. Ég hlakka til að sjá frumvarp um rannsókn á þessu máli. Það er í anda þeirra jafnaðarstefnu sem ég aðhyllist.

  Það er einnig í anda sömu stefnu að hafa eftirlit með fjármagnsflutningum til og frá landinu. Við slíkt eftirlit er íslenska krónan besta tæki sem völ er á. Það skapast eftirlitsstöð þar sem henni er skipt.

  Hún er til margra hluta nytsamleg sú gamla. Það er ekki skrýtið að auðmenn séu á móti henni.

 • Ásmundur

  Fyrir hrun sáu auðmenn sér leik á borði og komu eigum sínum í skattaskjól erlendis áður en gengi krónunnar hrundi.

  Helmingslækkun á gengi þýddi að eignirnar tvöfölduðust í krónum talið. Þegar eignirnar voru aftur fluttar til landsins bættust við 20% svo að 100 milljónir fyrir hrun voru orðnar að 240 milljónum eða þar um bil þegar þær komu aftur til landsins..

  Áður en hægt var að afnema gjaldeyrishöft var nauðsynlegt að minnka snjóhengjuna svokölluðu. Þess vegna var gripið til þess ráðs að verðlauna menn með afsláttargengi fyrir að koma með gjaldeyri til landsins. Þetta þjónaði sínum tilgangi en jók um leið á óréttlætið.

  Þetta er gott dæmi um hvernig krónan þjónar auðmönnum á kostnað almennings. Annað dæmi er miklu hærri vextir hér en annars staðar. Með frjálst flæði fjármagns innan EES er nauðsynlegt að hafa mun hærri vexti hér en í evrulöndum vegna þess að krónan nýtur eðlilega ekki sama trausts og evran,

  Þannig er augljóst hvers vegna auðmenn og flokkar þeirra vilja halda í krónuna.

 • Sæl Oddný,

  meðal stærstu mistaka vinstristjórnarinnar var að samþykkja sérstaka afslætti til félaga sem keyptu krónur í skiptum fyrir gjaldeyri í útboðum Seðlabankans. Seðlabankinn þurfti heimildir til þess og þá heimild veitti Alþingi meðal annars þegar gjaldeyrishöftin voru lögfest haustið 2011.

  Þú varst fjarverandi atkvæðagreiðsluna. Ég reyndi að hringja í alla þingmenn Samfylkingarinnar og nokkra þingmenn VG til að hvetja þá til að kjósa ekki með þessum afslætti. Því miður tókst það ekki.

  Þennan afslátt töldu þingmenn nauðsynlegan til að fá gjaldeyri til landsins til að leysa út snjóhengjuna svokölluðu.

  Ég sendi þér, ásamt öllum þingmönnum, einfalda samantekt á áhrifum fjárfestingaleiðarinnar, vorið 2011, nokkrum mánuðum áður en lögin voru samþykkt. Þar skrifaði ég meðal annars:

  [Þeir sem eiga gjaldeyri erlendis] „..munu nú geta komið með [gjaldeyri] á miklu hagstæaðra gengi en aðrir – á sannkölluðu tombóluverði“

  „Á sama tíma og allur almenningur og fyrirtæki [þurfa að skila gjaldeyri] til Íslands, geta auðugir fjármagnseigendur fljótlega geta keypt krónur á enn hagstæðara verði. Með þessum hætti er verðmætum þjóðarbúsins sópað í fang þeirra“.

  „Gjaldeyrishöftin, eins og þau eru útfærð af Seðlabankanum og samþykkt af Árna Páli Árnasyni efnahags- og viðskiptaráðherra, eru því fyrst og fremst velferðarkerfi fyrir fjármagnseigendur“.

  Í nóvember 2011 sendi ég þingmönnum stuttu samantekt á áhrifum fjárfestingaleiðarinnar og sagði meðal annars:

  „Afleiðing fjárfestingaleiðar Seðlabanka Íslands er:
  að fjárfestum er mismunað,
  að vextir hækka, [2016: raunstýrivextir eru yfir 4%!]
  að verðbólga eykst, [2016: verðbólga er lág vegna hárra vaxta og lægra olíverðs]
  aukinn almennur ójöfnuður,
  að heilbrigðri samkeppni er fórnað,
  skortur á samkeppni skerðir lífskjör,
  að ofgnótt fjármagns hverfur ekki heldur skiptir það einungis um hendur,
  að á meðan eitt vandamál er leyst þá eru miklu fleiri búin til í staðinn.

  Það er því ljóst að útfærsla Seðlabanka Íslands á fjárfestingaleiðinni er ekki góð og mun ekki ná markmiðum Seðlabankans um að losa um aflandskrónueign óþolinmóðra fjárfesta án þess að valda skaða sem teljast í hugum flestra enn meira böl en gjaldeyrishöft.“

  Afsláttur er afsláttur og það fæst ekkert meira með honum heldur minna!

  Þetta sést vel í árshlutareikningum Magma Energy sem keypti hlut í HS Orku. Í fyrstu áætlar Magma Energy að 8,62% hlutur kosti 20,2 milljónir dollara en vegna þess að Magma Energy fékk krónur með afslætti þá kostaði hluturinn aðeins 17,0 milljónir dollara. Þarna komu 2,2 milljónum dollara minna til landsins! Þetta er örugglega ekki eina skiptið þar sem við töpuðum á þessum ívilninum sem vinstri stjórnin samþykkti!

  Svo þarf auðvitað að svara þeirri spurningu hvort ekki hefði tekist að selja HS Orku á fullu verði? Þurfti að veita þennan afslátt?

  Oddný, þú lagðir fram frumvarp um sölu á eignarhlut í Landsbankanum og í þeirri umræðu sem var meðal annars sagt að selja ætti Landsbankann til aðila sem gætu keypt krónur af Landsbankanum, þeas. á afslætti! Ég sendi umsögn um málið til Alþingis og var boðaður á fund hjá Fjárlaganend til að greina betur frá umsögninni. Í nefndaráliti sagði:

  „Fram kom hjá einum umsagnaraðila að ef eigendum aflandskróna verður heimilt að taka þátt í útboði vegna sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum getur það leitt til ójafnræðis vegna afsláttar sem þessir aðilar njóta í fjárfestingum sínum hérlendis. Meiri hlutinn tekur undir þessa athugasemd og varar við því að sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum verði fjármögnuð með þeim hætti“

  Ekkert varð af sölu bankanna á þessum tíma og var það vegna þessa?

  Afslættir til fjárfesta eru angi af brauðmolakenningunni(Trickle down theory) sem OECD segir að virki ekki í raunveruleikanum. Hvers vegna trúði vinstri stjórnin á að brauðmolakenningin myndi virka í þetta skipti?

  Guðrún Johnsen skrifaði nýlega grein í Kjarnann(http://kjarninn.is/skodun/2016-04-26-rudningsahrif-aflandsfelaga/) þar sem hún gagnrýnir þessa meðvirkni með aflandsfélögum.

  Af ofansögðu er ljóst að vinstristjórnin, þú þeirra á meðal, samþykktir afslætti til félaga í skattaskjólum með bæði augun opin og getur ekki skýlt þig á bak við það að hafa ekkert vitað.

  Samfylkingin sem hefði auðveldlega getað átt frumkvæðið í umræðunni um Panamaskjölin skortir traust og trúverðugleika.

  Þegar ég reyndi að ræða þetta innan Samfylkingarinnar(2010 til 2013) þá var þetta kallað „Marínó Njálsson hagfræði“, mér var sagt að höfða mál gegn ríkisstjórninni og ganga í annan flokk. Málefnaleg umræða gat ekki og virtist ekki eiga að geta átt sér stað. Munt þú breyta innra starfi Samfylkingarinnar svo almennar og eðlilegar umræður muni geta átt sér stað?

  Hvernig munt þú sem formaður Samfylkingarinnar og leiðtogi í stjórn eða stjórnarandstöðu koma í veg fyrir svona alvarleg mistök gerist aftur? Hvernig ætlarðu að ná frumkvæðinu aftur?

 • Sigurður

  Eva Joly, sem þið réðuð til starfa sem ráðgjafa sagði strax á degi eitt að það væri alveg augljóst mál að þjóðin hefði verið rænd, og þýfið lægi á erlendum leynireikningum meðan stormurinn gengi yfir.

  Þessa peninga þyrfti að endurheimta, pappírsslóðin væri þarna.

  Það tæki tíma og yrði dýrt, en myndi skila gríðarlegu fé til baka.

  Til hvaða aðgerða gripuð þið til að endurheimta það fé sem menn stálu hér með (nú sannaðri og dæmdri) glæpastarfsemi fyrir hrun?

  Var það eitthvað reynt?

  Erlendir dómstólar gera vanalega allar eignir svona manna upptækar, og þeir eiga ekki krónu þegar þeir losna aftur út.

  Á Íslandi, ekki bara halda þeir þýfinu.
  Nei þeir fara aldrei í fangelsi, heldur á notalegt sveitahótel með tölvu og nettengingu þar sem þeir halda áfram vjðskiptum með fé sem er nýbúið að dæma þá fyrir að stela??

  Kemur aldrei einn einasti dagur þar sem þið veltið fyrir ykkur afhverju þið eruð svo gjörsamlega rúin trausti, og eftirspurnin eftir ykkur engin í dag?

  Svona í alvöru talað?

 • Þorsteinn Jón Óskarsson

  Þakka góða grein Oddný. Sannarlega erfitt að laga alla lagabálka sem samþykktir hafa verið af fulltrúum fjármálaglæpamanna á Alþingi nær allan lýðveldistímann. Stjórn sem þjónaði ekki auðvaldinu nægði ekki eitt kjörtímabil til þess. Vonandi tekst næsta Alþingi að ná tökum á þeim er rændu Íslensku þjóðina dýrmætum gjaldeyri og setja fyrirbyggjandi lög.

 • Þorsteinn Óskarsson

  Nú á yfirstéttin 810 milljarðar í skattaskjólum og stjórnvöld eru að velta því fyrir sér hvernig hægt er að skattleggja almenning um 10 milljarða til vegaframkvæmda!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur