Þriðjudagur 17.05.2016 - 10:24 - 5 ummæli

Forysta jafnaðarmanna

Það er alvarlegt mál fyrir íslenskt samfélag þegar að Samfylkingin jafnaðarmannaflokkur Íslands, sem ætti að vera stærsti stjórnmálaflokkurinn hér á landi, mælist samkvæmt könnunum undir 10%. Samfylkingin hefur ákveðið að blása til formannskosninga og kosningu í önnur forystuhlutverk í byrjun júní. Þannig verði ný forysta með skýrt umboð til að undirbúa kosningar með samþykktir landsfundar í farteskinu. Ég vil leggja mig alla fram við að bæta íslenskt samfélag. Þess vegna hef ég ákveðið að gefa kost á mér til formanns Samfylkingarinnar.

Verkefni okkar er að styrkja stöðu ungs fólks, barnafjölskyldna, aldraðra, fatlaðra og öryrkja. Ójöfnuð sem birtist í óréttlátri skattastefnu og aukinni gjaldtöku í heilbrigðis- og menntakerfinu þarf að stöðva strax. Til þess þarf samstillt átak jafnaðarmanna og verkalýðshreyfingarinnar.

Ég vil vinna af krafti að því að heilbrigðisþjónusta verði ókeypis, að sett verði ný stjórnarskrá, að arðurinn af auðlindum skili sér til okkar allra og lífvænlegu umhverfi til komandi kynslóða. Til þess þarf sterka Samfylkingu.

Ríki og sveitarfélög

Húsnæðimálin brenna á ungu fólki og vandinn verður ekki leystur nema með aðkomu stjórnvalda. Þar skiptir mestu húsnæðisstuðningur sem munar um fyrir þá sem minnst hafa handa á milli og að sá stuðningur sé jafnt við þá sem vilja eiga, leiga eða velja að vera í félagslegu húsnæðiskerfi. Framboð á góðu húsnæði verður að auka verulega.

Ég vil að félagsþjónusta og heilsugæsla verði samstillt á einni hendi sveitarfélaga. Það er bæði betra fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda og fyrir okkar sameiginlegu sjóði.

Barnafjölskyldur eiga að fá sambærilegan stuðning og á hinum Norðurlöndunum og lengja á fæðingarorlofið í eitt ár. Gott aðgengi að menntun fyrir alla er grundvallaratriði. Samofin Byggðastefna og menntastefna varðar hagsmuni fólks út um allt land.

Lýðræði og auðlindir

Ný stjórnarskrá verður helsta mál næsta kjörtímabils. Það á að klára ferlið sem lagt var upp með á síðasta kjörtímabili og leggja nýja fullbúna stjórnarskrá fyrir þjóðina.

Auðlindirnar skipta miklu. Það á að gera skýra kröfu um beinar tekjur af öllum takmörkuðum auðlindum. Í  sjávarútvegi með útboði á veiðiheimildum og að sama skapi skili orkufyrirtækin arði. Ferðaþjónusta í almennu virðisaukaskattþrepi gæfi tekjur til að efla innviði sem láta nú undan álagi eins og vegi, löggæslu og læknisþjónustu. Hlutdeild sveitarfélaga í tekjum ríkisins af auðlindum er sjálfsögð krafa.

Fjármálakerfið á að skera upp og tryggja aðhald og samkeppni á þeim mörkuðum. Við eigum að tryggja gott fjármálakerfi sem þjónar fólki og fyrirtækjum. Það tækifæri má ekki fram hjá okkur fara.

Jöfnuður og réttlæti

Ég er sannfærð um að þegar að baráttumálin snúast um jafnrétti og réttlæti er auðvelt að stækka hópinn og fá hugsjónaeldinn til að brenna í hjörtum jafnaðarmanna. Um leið og við leggjum áherslu á öflugt atvinnulíf og sanngjörn viðskipti er velferðin ávallt í öndvegi.

Baráttan fyrir jöfnum tækifærum allra barna og jafnrétti kynjanna, baráttan gegn misskiptingu auðs og misbeitingu valds, baráttan fyrir bættum kjörum láglauna fólks, aldraðra, fatlaðra og öryrkja er í mínum huga allt ein og sama baráttan.  Barátta jafnaðarmanna fyrir betra samfélagi.

Formannskjör í Samfylkingunni fer fram með rafrænum hætti 28. maí til hádegis 3. júní. Nánari upplýsingar eru á síðunni samfylking.is.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Einar Steingrímsson

    Ef afstaða ykkar er sú að Samfylkingin eigi að vera stærsti flokkurinn, og að það sé alvarlegt fyrir samfélagið að þið séuð í meiriháttar krísu með ykkur sjálf, þá er kannski skiljanlegt að fylgið sé ekki meira.

  • Haukur Kristinsson

    Á engan hátt alvarlegt mál fyrir samfélagið að flokkur sem vill kenna sig við jafnaðarmennsku, hinsvegar undir forystu (soft) hægri manna eins og Árna Páls, Katrínar Júlíusar og Valgerðar Bjarna, mælist með lítið sem ekkert fylgi. Hann má leggja upp laupana. Burt frá miðjunni, miðjumoðinu.

  • Garðar Garðarsson

    Ef forysta Samfylkingar talar skýrt fyrir jafnaðarstefnu flokksins og lætur verkin tala með hagsmuni almennings að leiðarljósi þá mun fylgi flokksins rísa hátt. Stór hluti þjóðarinnar eru jafnaðarmenn í hjarta sínu.

  • Þorsteinn Jón Óskarsson

    Þakka góðan pistil.

  • Sigurður

    Samfylkingin bara VERÐUR að þurrkast út.

    Falskari flokkur er ekki til í landinu, og ekkert er fjær sanni en að hann sé jafnaðarmannaflokkur.

    Enginn flokkur hefur lagt eins mikið á sig við auðvaldsdekrið, þar sem heilli þjóð var fórnað á altari banka og erlendra vogunarsjóða.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur