Þriðjudagur 16.08.2016 - 10:56 - 10 ummæli

Hvers vegna var kjörtímabilið stytt?

Við leggjum nú af stað inn í síðustu daga þessa kjörtímabils töluvert fyrr en áætlað var. Ástæðan er sú fordæmalausa staða sem upp kom í kjölfar þess að Panamaskjölunum var lekið og í ljós kom að fjöldi Íslendinga, og þar á meðal æðstu embættismenn, höfðu nýtt sér skattaskjól sem notuð eru til að koma peningum undan sameiginlegum sjóðum landsmanna. Það var þjóðinni áfall að forsætisráðherra landsins skyldi vera flæktur í málið, og viðtalið fræga og fréttirnar í kjölfarið voru óbærilega vandræðalegar og þjóðin skammaðist sín fyrir umræður á erlendum fréttastöðum um spillta ráðherra á Íslandi. Fjármálaráðherra og innanríkisráðherra þurftu síðan að útskýra hvers vegna þeirra nöfn voru líka í skjölunum.

Það var tilfinning fólks um svik og spillingu sem kallaði fram fjölmennustu mótmæli í sögu Íslands. Krafan var kosningar strax!

Málamiðlun

Forsætisráðherrann sagði af sér og núverandi forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra báðu þjóðina að sætta sig við að kláruð yrðu ákveðin mál fyrir kosningar en kjörtímabilið yrði stytt um eitt þing. Þegar spurt var um kjördag var svarið: Það fer eftir því hvernig stjórnarandstaðan hagar sér.

Þetta svar er og hefur ekki verið boðlegt og ríkisstjórninni til minnkunar. En þrátt fyrir þessa hótun og þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ekki fengist til að segja kjósendum hvenær yrði kosið fyrr en nú fimm mánuðum síðar, vann stjórnarandstaðan þétt við þeirra hlið hér á Alþingi síðastliðið vor við að klára mikilvæg mál. Það samstarf gekk vel og er vert að rifja það upp nú þegar við höldum inn í þetta stutta sumarþing.

Ríkisstjórnin rúin trausti

Sannleikurinn er sá að það ríkir megn óánægja með sitjandi ríkisstjórn á fleiri en einu sviði. Heilbrigðisþjónustan líður fyrir fjárskort og það gerir menntakerfið líka. Kjör aldraðra og öryrkja hafa dregist aftur úr lágmarkslaunum. Grunur hefur vaknað um vond vinnubrögð, svo sem í Borgunarmálinu og sala ríkiseigna tortryggð. Farið var í leiðréttingu á húsnæðislánum sem gagnaðist ríkum allra best. Þunginn í ferðamannastraumnum eykst sífellt án þess að gripið sé til neinna aðgerða. Og ríkissjóður hefur orðið að tugum milljarða króna undanfarin þrjú ár vegna lækkaðra veiðigjalda og skatta á þá sem mest eiga. Allt þetta bitnar á venjulegu fólki sem er á lágum eða meðallaunum. Og það er engin þolinmæði lengur fyrir slíkum vinnubrögðum.

Von um betri ríkisstjórn

Það er þó ekki allt kolsvart og staða ríkisfjármála er að mörgu leyti góð, og með réttum áherslum og góðri forgangsröðun verður hægt að byggja upp opinberu þjónustuna og styrkja innviði landsins. Nú er líka góð von um að ný ríkisstjórn taki við stjórnartaumunum eftir kosningar.

Það kemur satt að segja á óvart að sjá kosningaloforð stjórnarflokkanna sem birtast í áætlun þeirra í ríkisfjármálum til næstu fimm ára. Fyrirfram hefði maður búist við digrum loforðapakka með hinum ýmsu uppbyggingarverkefnum, en flokkarnir hafa ákveðið að sýna sitt rétta andlit og gera ekki ráð fyrir meiri peningum inn í heilbrigðiskerfið eða til háskólanna, ekkert meira í vaxta- og barnabætur og nánast ekkert í uppbyggingu vegakerfisins. Og þegar spurt er hvernig skuli þá byggja upp Ísland er svar þeirra einfalt: einkarekstur. Einkarekin sjúkrahús, heilsugæsla, skólar, vegir og flugvöllur.

Ríkisstjórnin mun ekki klára kjörtímabil sitt vegna þess hún er rúin trausti.

Áherslur jafnaðarmanna

Kosið verður að nýju 29. október. Við í Samfylkingunni tölum fyrir hugsjónum jafnaðarstefnunnar og nýrri stjórnarskrá. Fyrir öflugu velferðarsamfélagi, réttlátari skiptingu þjóðarkökunnar, jafnrétti til náms, gæða heilbrigðisþjónustu sem allir geta notið og mannsæmandi kjörum á öllum stigum lífsins.

Það er góður möguleiki á að betri ríkisstjórn taki við eftir nokkrar vikur. Og það er afar gleðilegt.

Ræða flutt á Alþingi 17. ágúst 2016

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • „Það er góður möguleiki á að betri ríkisstjórn taki við eftir nokkrar vikur. Og það er afar gleðilegt“, segir formaður Samfylkingar. Það liggur auðvitað fyrir að ný ríkisstjórn tekur við eftir næstu kosningar en hvort sú óskhyggja formannsins rætist að ný ríkisstjórn verði mynduð af vinstri flokkunum er sannarlega ekki í hendi. Tvennt kemur til. Núverandi ríkisstjórn hefur náð umtalsverðum árangri; staða ríkissjóðs sjaldan verið betri, kaupmáttur aukist, skuldastaða heimilanna lagast verulega, umtalsverð aukning á framlögum til félags og heilbrigðismála, uppsveifla í atvinnulífi landsmanna og atvinnuleysi vart mælanlegt. Í stuttu máli gróandi þjóðlíf og bjartsýni ríkjandi. Svo hitt að sporin hræða. Kjörtímabil vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur 2009-13 einkenndist af deilum, upplausnarástandi og bræðravígum. Núverandi meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur er myndaður af vinstri flokkunum með fulltingi Pírata og verður ekki hrakið, að undir þeirra stjórn er Reykjavík eitt verst rekna sveitarfélag landsins.

  • Held að Framsókn ætti að kanna þátt Sjálfstæðisflokksins í þessu öllu. Það er alveg vita meðal Sjálstæðismanna að formaður Framsóknar hefur langt því frá hentað þeim. Þeir vissu sem var að meiri möguleiki fyrir þá að fá helstu ráðherraembætti með nýjum kostningum og Sigmund Davíð út úr myndinni. Framsókn hefði aldrei tekið í mál að losa sig við hann.

    Afhverju voru þeir svona snöggir að samþykkja nýjar kostningar? af hverju stóðu þeir ekki með Sigmundi? af hverju hafa þeir ekki gagnrýnt RUV?

    Framsókn hefur algerlega staðið í vegi fyrir svo mörgu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur viljað koma í gegn. Búvörusamningarnir sem Framsókn gerði í skjóli myrkurs var sennilega dropinn fyrir þá. Þrugl um afnám verðtryggingar á kjörtímabilinu var annað sem Sjálfstæðismenn ætla sér aldrei að samþykkja.
    Ekki að nokkrum öðrum hafi dottið í hug að framsókn myndi nokkru sinni standa við það frekar en svo margt annað sem þeir lofa en svíkja svo um leið og þeir komast á þing.

    Næsta ríkisstjórn verður EKKI með Samfylkingunni innanborðs svo mikið er víst. Þeir svikapésar sem þar ráða ríkjum hafa fengið sinn séns og klúðrað honum. Ef Steingrímur J kynni að skammast sín hætti hann þingmennsku. Það er eini sénsinn fyrir VG að koma manni að í næstu ríkisstjórn sem verður mynduð af Sjálfstæðismönnum og Pírötum.

  • Ásmundur

    Það er verulega fyndið þegar sjálfstæðismenn þakka sér fjölgun erlendra ferðmanna og lækkun olíuverðs sem eru ástæður þess hve efnahagsástandið er þrátt fyrir allt gott hér.

    Átakið „Inpired by Íceland“ var verk fyrri ríkisstjórnar en Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert gert í þessum efnum. Stöðugt gengi er vegna lækkaðs olíuverðs og vegna gjaldeyrishafta sem verður aflétt innan tíðar.

    Sjálfstæðismenn hafa einbeitt sér að því að færa fé frá þeim sem verr standa til hinna sem betur mega sín. Skattalækkanir hafa komið hinum tekjuháu langbest. Jafnvel „skuldaleiðréttingin“ var því marki brennd enda runnu 62% upphæðarinnar til þess helmings þjóðarinnar sem hæstar hafði tekjur. Hækkun vsk á matvörur kom verst niður á þeim tekjulægri.

    Ríkasta fólk landsins, útgerðarmenn, fengu milljarða frá ríkinu í formi lækkaðs veiðigjalds og aðeins þeir best settu meðal ellilífeyrisþega og öryrkja fengu hækkun í formi grunnlífeyris ellilauna sem þeir verra settu höfðu fyrir.

    Þrátt fyrir gott efnahagsástand hafa innviðirnir verið svo vanræktir að líkt er við hrun. Það er sama hvar borið er niður; heilbrigðismál, menntamál, vegamál, aðstaða ferðamanna, svo að dæmi séu tekin.

    Fyrir utan eignatilfærslu frá hinum verr settu til hinna betur settu hefur einkennt þessa rískisstjórn vilji til að einkavæða ríkisstofnanir gegn vilja þjóðarinnar svo að skjólstæðingar þeirra geti mjólkað almenning enn betur. Í þeim tilgangi hefur LSH verið sveltur á meðan einkarekin heilsuþjónusta hefur ekki sætt takmörkunum.

    Píratar munu ekki starfa með Sjálftæðisflokknum eftir kosningar . Birgitta Jónsdóttir, sem varð hæst í prófkjöri Pírata, sér enga möguleika á því. Frjálshyggjumenn fóru hallloka í prófkjöri Pírata sem gerir samstarf við Sjálfstæðisflokk afar ólíklegt,

  • Þorsteinn Jón Óskarsson

    Sem betur fér er von til þess að við taki ríkisstjórn í vetur sem stuðlar að því að landsmenn hafi jafnari möguleika á að njóta landsins gæða. Vinnum saman að því markmiði.

  • @ Þorsteinn Jón

    Getur þú nefnt einhvern flokk eða einstaklinga sem þú telur að hafi manndóm til að vinna að almannaheill? Sagan og fortíðin segir okkur svart á hvítu að engin þeirra flokka sem hér hafa verið við stjórn hafa haft styrkleika eða manndóm til að standa við gfin loforð. Um leið og á þing er komið, er þetta fólk allt jafn kjarklaust og ónútt. Sammála Kára Stefánssyni – ónýtt drasl þetta fólk allt saman.

  • Ásmundur

    Allir stjórnarandstöðuflokkarnir vilja auka jöfnuð í þjóðfélaginu meðan stjórnarflokkarnir vilja auka ójöfnuðinn ef marka má gjörðir þeirra.

    Góður árangur ríkisstjórnar Jóhönnu vakti athygli um allan heim þó að margir Íslendingar hafi ekki verið hrifnir. Vissulega mistókst henni sumt en ekki skorti viljann. Með þjóðina við gjaldþrot færðist ríkisstjórnin etv of mikið í fang.

    Í ríkisstjórnartíð Jóhönnu jókst jöfnuður á Íslandi mikið skv mælingum á sama tíma og ójöfnuðurinn jókst í öðrum löndum. Erlendum sérfræðingum fannst það afrek á sama tíma og mikill efnahagsbati átti sér stað.

  • Ragnhildur H.

    ja mikill er lasleiki þinn Ásmundur ! …en svo mikið er vist að landsmenn munu ekki óska eftir Samfylkingunni i Rikisstjón aftur i bráð !

  • Ásmundur

    Ragnhildur H., hefurðu engin rök gegn málflutningi mínum?

    Hefurðu ekkert annað til málanna að leggja en að niðurlægja sjálfa þig með því að segja að ég sé mjög geðveikur? Slík svör eru oftast vísbending um að „sá geðveiki“ hafi lög að mæla .

    Ég hef ekki nefnt Samfylkinguna hér en úr því að þú virðist vera með hana á heilanum þá verður hún mjög líklega í næstu ríkisstjórn. Ég býst þó varla við að kjósa hana.

    Skoðanakönnun hefur sýnt að Jóhanna er talin hafa staðið sig best allra forsætisráðherra síðustu áratugina. Samfylkingin verður því vel séð í næstu ríkisstjórn.

  • Ragnhildur H.

    Eg hef ekki nefnt geðveiki einu orði ..talaði um lasleika ,hann getur verið margvislegur ? En þú ert buin að útskyra málið ,,takk …

  • Ásmundur

    Ef þú lest lasleika úr orðum, þar sem ekki er fjallað um sjúkdóma þess sem skrifar, kemur aðeins geðveiki til greina. Er það ekki ljóst?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur