Föstudagur 26.08.2016 - 14:14 - 4 ummæli

Veiðar og velferð

Við Íslendingar erum ekki sammála um hvernig eigi að skipta arðinum sem auðlindirnar okkar skapa og endalausar deilur eru um málið ár eftir ár. Þó margt hafi tekist vel í sjávarútvegi hér á landi þá vantar enn réttlætistilfinninguna um að samfélagið allt njóti góðs af auðlindanýtingunni eins og best verður á kosið.

Kvótakerfi var sett á af umhverfisástæðum til að vernda nytjastofnana og framsal kvóta var heimilað af efnahagsástæðum. Það hefur leitt til gríðarlegrar hagræðingar í greininni. Sú aðgerð hefur hins vegar haft neikvæð samfélagsleg áhrif. Með sölu kvóta er mögulegt að kippa í einni svipan stórum stoðum undan heilu byggðarlögunum. Fólkið í sjávarbyggðunum hefur borið kostnaðinn af hagræðingunni en ágóðinn að mestu runnið til einkaaðila. Og fólki finnst það óréttlátt og deilurnar halda áfram.

Ef gjöld og skattar eru of há er það almennt talið hafa slæm og bjagandi áhrif á samfélög og efnahagslíf. Það er því viðfangsefni stjórnmálamanna að finna jafnvægi milli skattheimtu og þeirrar velferðarþjónustu og útgjalda sem þeim er ætlað að standa undir. Það er hins vegar ein tegund skatta sem hagfræðingar eru almennt sammála um að hafi ekki slæm eða bjagandi áhrif og það eru auðlindaskattar og auðlindagjöld. Það eigum við að sjálfsögðu að nýta okkur.

Réttlæti og gagnsæi

Gallinn getur verið sá að ef hið opinbera handvelur þá sem fá nýtingarréttinn, þá verða sífelldar deilur um það og einnig um auðlindagjöldin ef við stjórnmálamennirnir ákveðum þau. Þessi vandamál er hægt að leysa hér á landi með útboðum á aflaheimildum. Útboði sem tryggir fullt verð með reglum sem banna eignasöfnun á fárra hendur og tekur tillit til byggðasjónarmiða. Nýtingarrétturinn ákvarðast með útboðunum og markaðurinn ákvarðar verðið og enginn deilir um það.

Kvótaútboð eru þegar stunduð á Íslandi en þau eru alfarið í höndum einkaaðila. Nú geta þeir sem fá úthlutað kvóta stungið fullu verði í eigin vasa með því að selja og leigja kvóta til þriðja aðila. Sem dæmi má nefna að kvótalitlar útgerðir þurfa að greiða stærri útgerðum 200 krónur fyrir kílóið af þorski í veiðigjald á meðan ríkið innheimtir aðeins 13 krónur. Eina breytingin með útboði á aflaheimildum er því sú að þá mun þjóðin sjálf, eigandi auðlindarinnar, stunda frumútboð á heimildum og njóta arðsins.

Ef við gætum verið viss um að tekjurnar renni til uppbyggingar í sveitarfélögunum vítt og breitt um landið og til heilbrigðisþjónustu sem sárlega vantar fjármagn, mundi nást sú sátt sem nauðsynleg er um fiskveiðikerfið. Útgerðarmenn þyrftu þá ekki lengur að treysta á að stjórnmálamenn ákveði veiðigjald sem er þeim þóknanlegt og gætu treyst því að ekki sé verið að hygla einum umfram aðra. Fólkið í landinu fengi notið arðsins af auðlindinni til uppbyggingar í sveitarfélögunum og til almennrar velferðar. Það er réttlátt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

 • Ásmundur

  Sanngjarnt fiskveiðikerfii mun aldrei nást með sátt. Ég hélt að Samfylkingin hefði lært það á síðastra kjörtímabili. Það er engin sátt um núverandi kerfi svo að nýtt og betra kerfi í ósátt væri til mikilla bóta.

  Það er auðvelt að hækka mikið skatttekjur ríkissjóðs án þess að hækka skatta á almenning. Fleiri skattþrep á mjög háar tekjur og auðlegðarskattur auk eðlilegs auðlindarargjalds gæti gefið marga tugi ef ekki hundruð milljarða á ári.

  Ég furða mig á að Oddný nefni aðeins heilbrigðiskerfið auk sveitarfélaga í sambandi við aukin fjárframlög frá ríkinu. Allir innviðirnir eru fjársveltir með alvarlegum afleiðingum. Það þarf stóraukið fé til td heilbrigðismála, vegamála, lögreglu, menntamála og umhverfismála (ma vegna aukningar ferðamanna).

  Núverandi ríkisstjórn hefur svelt alla þessa málaflokka vegna þess að hún vill minnka ríkisafskipti og koma á sem mestri einkavæðingu. Þannig hefur td Landsspítalanum aðeins verið úthlutað fé til takmarkaðs fjölda lækninsaðgerða meðan einkaaðilar hafa ekki sætt neinum slíkum takmörkunum.

  Síðasta stjórn lyfti grettistaki í að rétta við hag þjóðarinnar eftir hrunið. Hún hafði einnig mikinn metnað varðandi önnur stór mál en mistókst vegna skorts á hugrekki. Hún vildi leysa málin í sátt.

  Eftir að núverandi ríkisstjórn hefur farið ránshendi um þjóðfélagið og fært hundruð milljarða frá hinum verr settu til hinna betur settu duga engin vettlingatök. Til að snúa þróuninni við þarf að fara fram með ákveðni og sannfæringu.

 • Rósmundur

  „Gallinn getur verið sá að ef hið opinbera handvelur þá sem fá nýtingarréttinn,..“

  Og síðan:

  „Útboði sem tryggir fullt verð með reglum sem banna eignasöfnun á fárra hendur og tekur tillit til byggðasjónarmiða.“

  Hverjir eiga að smíða reglurnar um bann við eignasöfnun og taka tillit til byggðasjónarmiða?

  Hið opinbera!

  Fólk sem hatar einkaframtak og markað á bara að segja það,

  Þetta stenst enga skoðun – pópúlismi og í besta falli heimska.

 • Þór Saari

  Þessi setning stingur í augun því hún er röng.
  „Við Íslendingar erum ekki sammála um hvernig eigi að skipta arðinum sem auðlindirnar okkar skapa og endalausar deilur eru um málið ár eftir ár.“
  Þeir einu sem eru ósammála um hvernig eigi að skipta arðinum að fiskinum í sjónum eru útgerðarmennirnir og það er ótækt að stilla því upp með þeim hætti sem Oddný gerir. Í þjóðaratkævðagreiðslunni 2012 voru 83% sammála um að auðlindir ættu aðvera í þjóðareigu. Samfó gerði betur ef þau tækju tillit til þeirrar niðurstöðu.

 • Sigurjón Þórðarson

  Formanni Samfylkingarinnar til fróðleiks, þá er minnt á bakgrunn kerfisins sem er að Hafrannsóknastofnun hafði lofað í mörg ár á áttunda áratugnum, að með vísindalegri stjórn veiðanna væri unnt að hámarka afrakstur fiskimiðanna, afli yrði hámark þess sem miðin gæfu af sér og yrði jafn og stöðugur. Í upphafi, þegar talað var fyrir vísindalegri stjórn veiða, var því lofað að jafnstöðuafli þorsks yrði 500 þús tonn á ári.

  Þegar útlendingar hurfu af miðunum 1976 var svo hægt að hefjast handa við að stjórna veiðunum og fiskifræðingar Hafró lögðu línuna: Draga úr veiðum á smáfiski svo hann fengi að vaxa og dafna og veiðast stærri.

  Þessi hugmyndafræði gekk ekki upp, fiskur fór að léttast og afli minnkaði. Þorskaflinn árið 1983 datt niður í 300 þús tonn, sem þótti þá algjört hrun í afla. Tækifærið var notað til að setja kvótakerfið á. Vísindamenn reyndu ekki að skýra hvers vegna þetta hafði gerst en börðu hausnum við steininn og héldu áfram að reyna að byggja upp þorskstofninn án árangurs. Nú er þorskafli um 244 þús. tonn, en var 300 þús tonn 1983 þegar menn héldu að stofninn væri hruninn og kerfið var sett á. Aflinn var 4-500 þús tonn í frjálsri sókn áður en landhelgin var færð út.

  Það er afar einkennilegt að sjá meðvirknina með misheppnaðri stjórnun en þorskaflinn er mörgum tugum þúsunda tonna minni en þegar kerfið var tekið upp og innan við helmingur af því sem kerfið átti upphaflega að skila árlega á land!

  Núverandi kvótakerfi hefur leitt til margvíslegs sóðaskapar og spillingar : brottkast, tegundasvik., unndanskot frá vigtun og byggðaröskunar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur