Fimmtudagur 19.01.2017 - 16:15 - Rita ummæli

Ferðamannaparadís

Allt sem skiptir máli fyrir þróun ferðaþjónustunnar hér á landi skiptir einnig máli fyrir Suðurland, enda vinsælustu ferðamannastaðirnir á því landssvæði. Ferðaþjónustan er á örfáum árum orðin ein af undirstöðu atvinnugreinum þjóðarinnar en enginn hefur almennilega haldið um stjórnartaumana og stýrt þróun hennar eða metið áhrif umfangs hennar, s.s. á aðrar atvinnugreinar, fasteignaverð og þenslu. Stjórnvöld hafa ekki sinnt því mikilvæga hlutverki að ákvarða hvernig hagkvæmast og best er að ferðaþjónustan þróist til framtíðar, meta kostnað af ágangi ferðamanna og hvað teljast megi æskilegt rekstrarumhverfi atvinnugreinar í miklum vexti. Ef ekki verður gripið strax um taumana er líklegt að orðspor Íslands sem ferðamannastaðar skaðist, ferðamönnum fækki og fjárfestingar í greininni beri sig ekki með slæmum fjárhagslegum afleiðingum.

Almenn rekstrarskilyrði

Við þurfum að stýra þróuninni og skapa ferðaþjónustunni almenn rekstrarskilyrði sem tryggja tekjur til viðhalds vega, í heilbrigðisþjónustu, sjúkraflutninga og löggæslu. Ferðamenn fá afslátt af virðisaukaskatti sem nemur a.m.k. 10 milljörðum króna á ári. Þessi upphæð ætti að renna til uppbyggingar sem nýtist greininni og um leið landsmönnum öllum. Aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili var algjörlega óásættanlegt. Sú nýja verður að grípa í taumana og víkja af þeirri braut að almenningur beri kostnaðinn af uppbyggingu nauðsynlegra innviða á sama tíma og ferðamennirnir fá afslátt.

Birtist fyrst í héraðsblaðinu Suðra 19. janúar 2017

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur