Miðvikudagur 05.04.2017 - 14:16 - Rita ummæli

Svikin kosningaloforð

Ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnar Bjarna Benenediktssonar er svik við kjósendur og almenning í landinu. Hún er svik við ungt fólk jafnt sem aldraða. Áætlunin er í engu samræmi við kosningaloforð. Viðreisn og Björt framtíð sem vildu mála sig upp þegar að þeim fannst við eiga sem jafnaðarmenn í kosningabaráttunni, hafa fallist á allar áherslur Sjálfstæðismanna.

Hvar er uppbygginguna að finna í þessari áætlun í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, almennri velferð og samgöngum?

Hvar er hina skynsamlegu sveiflujöfnun að finna?

Hvar er að finna aðgerðirnar sem stuðla eiga að efnahagslegum stöðugleika?

Hvar eru aðgerðirnar sem eiga að stuðla að félagslegum stöðugleika og friði á vinnumarkaði?

Svörin við öllum þessum spurningum er: Hvergi.

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar skilar þar auðu enda stóð aldrei annað til á þeim bænum. Skattar eru meira að segja lækkaðir á tíma hagvaxtar og þenslu. Kannast einhver við það úr fortíðinni? Virðisaukaskattur var lækkaður á árinu 2007 úr 14% í 7%. Það voru hagstjórnarmistök í bullandi góðærinu og nú á að leika svipaðan leik með lækkun á almenna virðisaukaskattsþrepinu 1. janúar 2019.

Fúsk í fjármálum
Fjármálaáætlunin er byggð á fjármálastefnunni sem enn er ekki afgreidd en umræður hafa verið um í þinginu að undanförnu. Í stefnunni er ekki skapað svigrúm fyrir aukin útgjöld ef hagspár reynast óraunsæjar og samdráttur verður í hagkerfinu á árunum fram til ársins 2022. Í samræmi við stefnuna er engin áform í áætluninni um að auka tekjur af efnaðasta fólki landsins og af þeim fyrirtækjum sem nýta sameiginlegar auðlindir okkar í sjávarútvegi, orkuframleiðslu eða stóriðju. Það eru sérstök vonbrigði og ekkert annað en fúsk, að í engu sé brugðist við skýrum athugasemdum fjármálaráðs og Seðlabankans um fjármálastefnuna. Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við að ekki sé tekið mið af hagsveifluleiðréttingu þegar að afkomumarkmiðin eru ákveðin. Væri það gert er ljóst að áætlaður afgangur af opinberum fjármálum ætti að vera meiri en stefnan og þar með fjármálaáætlunin gera ráð fyrir.

Af umsögn fjármálaráðs má ráða að afla þurfi aukinna tekna svo að velferðarkerfið verði ekki fórnarlamb niðurskurðar ef aðstæður breytast í hagkerfinu og að stjórnvöld geti lent í spennitreyju fjármálastefnunnar.

Norræn velferð
Forsætisráðherra sagði kátur á dögunum að þegar að ríkisstjórnin væri búin að lækka virðisaukaskattinn í 22,5% 1. janúar 2019, þá væri almennaþrepið hér orðið það lægsta á Norðurlöndunum. Áður en við segjum Jibbí! og Húrra! við þessu, skulum við fá svör við því hvort þjónustustig velferðarþjónustunnar verði þá líka hér það lægsta á Norðurlöndunum.

Nær væri að stefna að því að ná þeim góða félagslega jöfnuði sem einkennir Norðurlöndin, sem þar er greitt fyrir með stigvaxandi tekjuskatti og öfluðu virðisaukaskattskerfi. Norðurlöndin eru einu samfélögin sem staðist hafa ágang frjálshyggjunnar enda hafa jafnaðarmenn þar oftast verið við stjórnvölin og hægrimenn ekki gert breytingar á skattkerfi eða velferð þá sjaldan að þeir hafa náð völdum. Við ættum að stefna þangað í átt að auknum jöfnuði og réttlæti. Fjármálastefna og fjármálaáætlun ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar fer með íslenskt samfélag í þver öfuga átt og svíkur fólkið í landinu sem bjóst við öðru eftir fagurgala í aðdraganda kosninga.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur