Sunnudagur 07.05.2017 - 17:14 - Rita ummæli

Skjól fyrir einkarekstur

Nú hefur komið í ljós að landlæknir og heilbrigðisráðherra eru ekki sammála um túlkun laga um sjúkratryggingar. Þetta kemur skýrt fram með yfirlýsingu frá landlækni frá 19. apríl sl. og birt er á heimasíðu embættisins. Heilbrigðisráðherra virðist telja að einkareknar heilbrigðisstofnanir þurfi ekki sérstakt leyfi ráðherra til að reka sérhæfða heilbrigðisþjónustu eða sjúkrahúsþjónustu, heldur nægi einungis staðfesting frá Embætti landlæknis um að þær uppfylli faglegar kröfur. Þær geta síðan fjármagnað rekstur sinn með samningi Sjúkratrygginga Íslands og Læknafélags Reykjavíkur.

Með þessari fráleitu túlkun heilbrigðisráðherra hafa stjórnvöld enga stjórn á því hvert opinbert fjármagn rennur eða hvaða rekstrarform verða ríkjandi í íslensku heilbrigðiskerfi. Hér er einfaldlega lúffað fyrir villtustu draumum frjálshyggjumanna en almannahagur fyrir borð borinn.

Til að bregðast við þessari slæmu stöðu hefur Samfylkingin flutt frumvarp um breytingar á lögum um sjúkratryggingar. Tillaga okkar er um að ráðherra geti ekki gert þjónustusamninga við einkaaðila í heilbrigðiskerfinu nema með samþykki Alþingis að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og að arðgreiðslur af heilbrigðisþjónustu verði óheimilar. Frumvarpið var líka lagt fram á síðasta kjörtímabili en fékkst ekki samþykkt og hefur nú verið í meðferð velferðarnefndar frá því febrúar. Þessi tillaga Samfylkingarinnar hefur fengið mjög jákvæðar umsagnir, enda í samræmi við vilja meginþorra almennings.

Gætum að grunnstoðunum

Hugmyndum um gróða og markað hefur verið þröngvað inn í umræðuna um viðkvæma stöðu heilbrigðiskerfisins. Þeir sem vilja selja ríkinu heilbrigðisþjónustu hafa ráðið för með því að skilgreina þarfirnar og útfærsluna sjálfir og er í raun leyft að skammta sér almannafé.

Ekkert kallar á aukinn einkarekstur nema frjálshyggjustefna núverandi ríkisstjórnar með heilbrigðisráðherra í broddi fylkingar, sem leyfir einkavæðingunni að blómstra í hans skjóli. Við hin þurfum að gæta að og verja grunnstoðir velferðarkerfisins kröftuglega nú þegar að hugmyndir um aukinn einkarekstur vaða uppi. Einkarekstur getur ekki komið í staðinn fyrir trausta opinbera heilbrigðisþjónustu sem er öllum aðgengileg og rekin er af myndarbrag. Aldrei má minnsti vafi leika á því hvort hagsmunir sjúklinga eða rekstraraðila heilbrigðisstofnana vegi þyngra.

Grein um sama efni birtist í Fréttablaðinu 24. apríl 2017

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur