Föstudagur 07.06.2013 - 11:53 - 3 ummæli

Þverpólitísk sátt um framfaramál

Á síðasta þingi lagði Guðbjartur Hannesson, þáverandi velferðarráðherra, fram  nýtt frumvarp um almannatryggingar. Frumvarpið byggir á vinnu starfshóps sem skipaður var hagsmunaaðilum og stjórnmálamönnum. Hópurinn vann frábært starf undir stjórn Árna Gunnarssonar, fyrrverandi alþingismanns. Í mörg ár hefur verið talað um að gera grundvallarbreytingar á almannatryggingakerfinu. Í gegnum tíðina hefur kerfið orðið æ flóknara þannig að þeir, sem eiga að njóta þess, hafa átt erfiðara með átta sig á því og  skilja hver réttur þeirra er.
Meginmarkmiðið nýja almannatryggingafrumvarpsins er  að einfalda löggjöfina, skýra betur réttindi lífeyrisþega og styrkja stöðu aldraðra. Verði frumvarpið að lögum er bætt úr margvíslegum réttindamálum ellilífeyrisþega. Einnig munu greiðslur almannatrygginga til ellilífeyrisþega hækka í kjölfarið.

Annar þverpólitískur starfshópur á vegum velferðarráðherra, undir forystu Lúðvíks Geirssonar fyrrverandi alþingismanns, lagði til haustið 2012 að tekið yrði upp nýtt og gjörbreytt húsnæðisbótakerfi sem tryggði öllum sama rétt til fjárhagsstuðnings hins opinbera, óháð búsetuformi. Tillögur vinnuhóps um húsnæðisbætur er áfangi í innleiðingu nýrrar húsnæðisstefnu og stærsta skrefið til að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera.
Meginmarkmiðið er að smíða stuðningskerfi til framtíðar sem ekki hvetur til skuldasöfnunar heimila og tryggja að  allir sitji við sama borð. Gert er ráð fyrir að húsnæðisbætur taki mið af fjölskyldustærð, óháð aldri fjölskyldumeðlima. Fyrstu skrefin að nýju kerfi voru tekin með fjárlögum 2013 en varða þarf í næstu fjárlögum fleiri áfanga kerfisbreytingarinnar.

 Forgangsmál á sumarþingi
Bæði málin voru undirbúin í sátt þingflokka og hagsmunaaðila. Þar sem starfshóparnir voru þverpólitískir bind ég miklar vonir við að ný ríkisstjórn muni vinna að framgangi þeirra strax á sumarþinginu. Upphafsorðin í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar ýta  enn frekar undir þær væntingar. Þar er talað um að hún muni leitast við að vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennir íslenskt samfélag, að framfarir og bætt lífskjör hafi einmitt byggst á samvinnu og Íslendingar leysi sameiginlega helstu verkefni þjóðfélagsins.

Þessi tvö mikilvægu framfaramál, nýtt og betra almannatryggingakerfi og nýtt og betra húsnæðisbótakerfi sem bæði voru unnin í þverpólitískri samvinnu, eru tilbúin og smellpassa inn í stefnuyfirlýsinguna.

 Vonandi liggur nýrri ríkisstjórn ekki meira á að afnema veiðileyfagjaldið, uppfylla sérhagsmuni eða lækka framlög þeirra til samfélagsins sem gnótt hafa handa á milli. Framar í forgangsröðinni verði að bæta kjör þeirra fjölmörgu sem eiga allt sitt undir góðum almannatryggingum og sanngjörnum almennum húsnæðisbótum.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Þorsteinn Jón Óskarsson

    Fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var að fjölga ráðherrum.

    Annað verk ríkisstjórnarinnar er að lækka skatta á auðfélögum og auðmönnum.

    Annað fer í einhverja af 20 nefndum ríkisstjórnar LÍÚ.

    Vonandi fer fólk sem kaus þessi ósköp að hugsa málið.

  • kristinn geir st. briem

    almanatryggingarkerfið þarf að einfalalda og það verða semflestir að koma að því er frumvarpið tilbúið. ? . það væri gott hefur nýi félagsmálarh. skoðun á því
    en um hsnæðiskerfið og tilögur sem ég hef heirt um þær líst mér lítið á skilst að sé í grunnin byggt á tilögum asi. á danska kerfinu það hjálpar mest þeim efnameiri en hinnir ega að far í einhverskonar styrktarkerfi sem á að fjármagna frá ríkinu en lyfeirisjóðirnir hiða gróðan ef þetta er svo góður bissnis afhverju fara ekki lífeyrissjóðirnir og bygga leiguhúsnæði fyrrir félagsmen sína og taka leiguna beint frá þeim heldur en að hafa ríkið sem millilið

  • Hægri stjónin er ríkisjötuafætur undir fölsku yfirskyni skattaafsláttar og skuldbreytinga. Jóhanna skilaði ekki svo góðu búi að við höfum efni á halda uppi forríkum pabbastrákum. Það vantaði önnur 4 ár til að koma ríkissjóði í það ástand að hægt væri að ræna hann innan frá. Nú verða þeir að láta almenning borga með lífskjararýrnun beint í vasa útgerðarinnar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur