Miðvikudagur 12.06.2013 - 17:47 - 3 ummæli

Forgangsröðun hægristjórnarinnar

Allra fyrsta mál hægristjórnarinnar var að leggja það til að virðisaukaskattur á hotel- og gistiþjónustu verði áfram með sömu undanþágu frá almennaþrepinu og virðisaukaskattur á matvæli. Forgangsmálið eftir allar yfirlýsingarnar um verri stöðu ríkissjóðs en reiknað var með og kosningaloforð um almenna niðurfellingu skulda er að halda neyslusköttum sem greiddir eru að mestu af erlendum ferðamönnum með sömu undanþágu og íslenskur almenningur fær vegna kaupa á nauðsynjavörum.

Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir tekjutapi upp á um 500 milljónir í ár og síðan árlega 1.500 milljónir miðað við óbreyttan fjölda gistirýma en eins og fram hefur komið í fréttum undanfarið er gert ráð fyrir byggingu hótela víða um land til að mæta gífulegri fjölgun ferðamanna, þannig að tekjutapið er sennilega vanmetið.

Eftir hrun efnahags og samfélags haustið 2008 var ljóst að mikill kostnaður hafði fallið á ríkissjóð og tekjustofnar hans höfðu veikst verulega. Við vorum reyndar á barmi gjaldþrots og grípa þurfti til róttækra aðgerða til að forða velferðakerfinu frá óbærulegu tjóni og ríkissjóði frá óviðráðanlegri skuldasöfnun. Ásamt breytingum á skattkerfi var bæði rekstur stjórnsýslustofnanna dregin saman og velferðarþjónusta skorin niður. Margar sársaukafullar ákvarðanir voru teknar hvað það varðaði sem koma niður á fólkinu í landinu, þeim sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda þó hagur þeirra verst settu hefði verin varinn.

Öllum steinum var velt við í þessari fordæmalausu stöðu og þar var virðisaukaskatturinn ekki undanþeginn. Ein af stóru aðgerðunum sem gripið var til var að hækka almenna skattþrepið í 25,5%. Undanþágu vegna matvæla í lægri skattþrepi eða 7% var haldið óbreyttri og einnig var ákveðið hlífa öllum liðum ferðaþjónustunnar við skattahækkunum í ljósi þeirrar óvissu sem ríkti um stöðu hennar á heimsvísu eftir að kreppan hófst. Þessari óvissu var framlengt með gosinu í Eyjafjallajökli árið 2010 og aftur með gosinu í Grímsvötnum árið 2011.

Nú hefur framgangur greinarinnar hinsvegar sýnt að óvissan er að baki, skattaumgjörðin í heild þannig að samkeppnisstaðan er enn góð þrátt fyrir hækkunina og ekki rík ástæða til að hótelþjónusta njóti sömu undanþágu frá almennu virðisaukaskattsþrepi og matvæli og nauðsynjavörur til almennings.

Þegar ríkisbúsakurinn er í vanda af þeirri stærðargráðu sem hagstjórnarmisstök fyrri ríkisstjórna sjálfstæðisflokks og framsóknarflokks komu honum í, þá er útilokað annað en að endurmeta alla tekjustofna og útgjöld. Í þröngri stöðu var valin sú leið að hækka virðisaukaskatt á hótel- og gistiþjónustu frekar en að skera enn meira niður í velferðarkerfinu.

Slök stjórnun ríkisfjármála
Þegar hagur vænkast hins vegar og hægt er að gefa til baka kemur forgangsröðun stjórnvalda í ljós. Hægristjórnin sýnir forgangsröðunina með skýrum hætti þegar allra fyrsta mál hennar er að draga til baka fyrirhugaða hækkun á neysluskatti sem erlendir ferðamenn greiða að mestu.

Þetta er gert jafnvel þó erlendum ferðamönnum hafi fjölgað gífurlega hér á landi og langt umfram bjartsýnustu spár. Fjölgun sem reyndar skapar mörg kostnaðarsöm óleyst vandamál.

Í því ljósi mætti draga þá ályktun að staða ríkissjóðs væri afskaplega góð og þá hljóti næstu mál að vera frekari breytingar svo sem í formi aukinna framlaga til heilbrigðisstofnana, menntastofnanna og til bættra almannatrygginga. En svo er ekki.

Hvaða heilbrigðisstofnun þarf ekki á frekari fjármunum að halda til að mæta betur sjúkum og öldruðum? Hvaða framhaldsskóli landsins þarf ekki á frekari fjármunum að halda til að mæta betur þörfum nemenda sinna og starfsfólks? Í mínum huga ætti við batnandi efnahag frekar að gefa þessum stofnunum til baka en hætta við hækkun virðisaukaskatts á hótelþjónustu með 1.500 milljón króna tekjutapi. Til að setja þá upphæð í samhengi þá dugar hún bæði fyrir rekstri Heilbrigðisstofnunarinnar á Patreksfirði og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða eða fyrir rekstri Flensborgarskóla ásamt rekstri Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Ástæða er til að hafa áhyggjur af slakri stjórnun hægristjórnarinnar á ríkisfjármálum. Styrk og skynsamleg stýring þess málaflokks skiptir hag fólksins í landinu afar miklu máli.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • „Slök stjórnun ríkisfjármála“!

    Heyr á endemi!

  • kristinn geir st. briem

    hef aldrei skilið þettað margskiptan virðisaukaskatt finnst að það eigi að vera einnprósentutala ef á siða að styrkja eithvað á það að vera gegnum skattkerfið því rilið á ekki að græða á samræmíngu virðisaukaskatts ef á að hjálpa barnafólki eða örirkjum á það að fara í gegnum bætur og skattaafslætti en ekki í í að lækka virðisaukaskatt á blejur skil ekki þessa forgangsröðun því ef þettað er svo slæmt má bara senda ávísun til baka en hafa virðisaukan 25.5% eða láta ferðamannin fá endurgreit við brottför.það hefði nú mátt sleppa ymsu hjá seinustu ríkistjórn ðg látið þá peninga í heilbrigðiskerfið en svona er forgangröðunin það er ekki altaf skinsemin sem ræður heldur ég gét það var athyglisvert að hlusta á árna pál í hvöld á inninum

  • Ég hefði betur kosið elskan en framsóknarbullurnar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur