Laugardagur 22.06.2013 - 12:53 - 2 ummæli

Jafnlaunaátak og kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð

Launamisrétti kynjanna má ekki viðgangast. Með því skrefi sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur steig í þá átt að útrýma launamuninum með jafnlaunaátaki þokast málið í rétta átt. Á kvennafrídaginn síðastliðið haust var lagður grunnur að átakinu og markmiðið er að undirbúa næstu gerð kjarasamninga. Ákveðið var síðan að byrja á kvennastéttum innan heilbrigðiskerfisins en átakinu er ætlað að taka á launamun innan stétta en einnig á milli stétta. Tæknileg mál eins og skráning í mannauðskerfi þurfa einnig að fylgja í átakinu og greining á því hvað óútskýrður launamunur er eða öllu heldur hvað eru sanngjarnar skýringar. Kyn er ekki ein af þeim breytum sem eiga að koma til greina í þeim skýringum. Það er ótrúlegt að við skulum enn þurfa að berjast fyrir því að svo sé ekki og setja í gang sérstakt átak til að útrýma kynbundnum launamun.

Á krepputímum þurfum við að gæta sérstaklega að okkur því að þekkt er að þá er hætta á því að kynbundinn launamunur aukist, að fjármunir til kvennastarfa séu skornir niður á vegum ríkisins en atvinnuátak sett af stað sem nýtist frekar körlum.

Ellilífeyrir kvenna ber einnig mark áratugalangrar kynjamismununar í íslensku samfélagi. Ólaunuð vinna kvenna inni á heimilum ásamt kynbundnum launamun hafa leitt til þess að gjá er á milli lífeyrisgreiðslna karla og kvenna. Vinna þarf í brúargerð yfir þá gjá.

Ég vona að áfram verði haldið með jafnlaunaátakið þó að ný ríkisstjórn sé tekin við. Það sama á við um áherslu fyrri ríkisstjórnar á kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð sem er öflugt hagstjórnartæki ef vel er á haldið og mun skila auknu jafnrétti til framtíðar. Þó að nauðsynlegt sé að fara í sérstakt jafnlaunaátak til að rétta kúrsinn er lausnin til framtíðar að efla kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð þar sem markmiðið er að tvinna saman jafnrétti og efnahagslega velferð, tvinna saman jafnréttisstefnuna og þjóðhagsstefnuna og taka meðvitaðar ákvarðanir í ríkisfjármálum til að auka jafnrétti og útrýma kynbundnum launamun.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Í opinberri stjórnsýslu er konurnar í láglauna störfunum. Ritarar, símadömur, skrifstofu „konur“, bókarar , skjalaverði osl. – bara nefndu það.

    Einstæðar konur sem starfa í þessum störfum hjá hinu opinbera hafa varla til hnífs og skeiðar . Við erum orðnar alveg hundleiðar á þessu röfli ykkar um jafnlaunastefnu þetta og jafnlaunastefnu hitt. Ykkur væri nær að hundskast til að skoða laun þessara kvenna og skammast ykkar.

  • Bjarnveig

    Þið höfðuð 4 ár til að gera eitthvað í þessu og Jóhanna hafði áður haft mörg ár til að leiðrétta þetta innan ríkisstjórna.
    Afhverju gerðuð þið ekki eitthvað róttækt í málinu meðan þið höfðuð öll völd til þess.
    Þessi hræsni með heilbrigðisstéttirnar er bara yfirvarp vegna afleiks Guðbjarts í launamálum forstjóra Landspítalans.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur