Miðvikudagur 01.10.2014 - 18:27 - 1 ummæli

Lokað og læst

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er fyrirhugað að takmarka innritun í framhaldsskóla á árinu 2015 þannig að ársnemendum fækki um 916. Þetta er tæpleg 5% fækkun ársnemenda sem eru nemendur í fullu námi. Einstaklingarnir eru enn fleiri. Til að setja þessa fjöldatakmörkun í samhengi er þetta álíka og að neita öllum nemendum Fjölbrautaskóla Suðurnesja um skólavist og segja upp 90-100 starfsmönnum í kjölfarið. Þessi fyrirhugaða fækkun framhaldsskólanemenda sem kynnt er í fjárlagafrumvarpinu mun dreifast um allt land og það mun að sjálfsögðu fækkun starfsmanna einnig gera. Þetta mun fyrst og fremst bitna á nemendum sem eru eldri en 25 ára, en nú eru þeir um 4.000 eða tæplega 17% af heildinni. Meðalaldur nemenda á verknámsbrautum er rúmlega 25 ár.

Brottfall
Það helsta sem aðgreinir okkar framhaldsskólakerfi frá nágrannalöndunum er að nám í framhaldsskóla er lengra hér á landi og brottfall er hér meira. Um 98% grunnskólanemenda fara í framhaldsskóla en hætta of mörg námi án þess að ljúka prófi. Íslenskir framhaldsskólar hafa verið óþreytandi í baráttunni gegn þeim vanda sem brottfallið er. Sá möguleiki að koma aftur í skóla með auknum þroska og reynslu hefur staðið brottfallsnemendum til boða. Það að geta lokið námi þótt seint sé, skiptir miklu máli fyrir einstaklingana og framtíðarmöguleika þeirra en einnig fyrir menntunarstig þjóðarinnar sem aftur hefur jákvæð áhrif á hagvöxt og almenna hagsæld. Enn er ekki búið að stytta námstíma í framhaldsskóla þó áform séu þar um en nú á hins vegar að takmarka sveigjanleika kerfisins sem hefur verið þess helsti kostur hingað til.

Menntastefna
Meðalaldur er hæstur í verknámsskólum og skólum sem sinna fjarkennslu og meðalaldur í skólum sem starfa á landsbyggðinni er hærri en skólanna á höfuðborgarsvæðinu. Hér er tafla með nokkrum dæmum um áhrif menntastefnu ríkisstjórnarinnar:
Skóli                                           Hlutfall nemenda 25 ára og eldri* Fækkun ársnemenda 2015**
Tækniskólinn                                         42,2%                                                     5,3%
Fjölbrautaskólinn í Ármúla                      32,90%                                                  12,20%
Menntaskólinn á Tröllaskaga                 19,90%                                                   17%
Framhaldsskóli Norðurlands vestra        17,20%                                                  11,70%
Fjölbrautaskóli Snæfellinga                    13,9%                                                    18,4%
Menntaskólinn á Egilsstöðum                10,20%                                                  15,70%
                                                  * Tölur frá menntamálaráðuneyti. ** Tölur úr fjárlagafrumvarpi 2015

Hæst er hlutfall eldri nemenda í Tækniskólanum. Þar verður nemendum fækkað um 95 eða um 5,3%. Fjölbrautaskólinn í Ármúla hefur bæði sinnt eldri nemendum af höfuðborgarsvæðinu og einnig utan af landi með fjarkennslu. Þar fækkar nemendum um 12,2%. Á töflunni má sjá áhrif á fjóra skóla á landsbyggðinni. Skólarnir þyrftu í raun enn meira fjármagn, ættu þeir að mæta menntunarþörfinni í nærsamfélaginu og vera færir um að standa undir nægilega fjölbreyttu námsframboði. Með áformum ríkisstjórnarinnar um fjöldatakmarkanir mun rekstrarstaða framhaldsskóla úti á landi versna til muna og námsframboð mun þar væntanlega einnig verða einhæfara.

Byggðastefna
Rannsóknir sýna að gott aðgengi að námi skiptir miklu máli ef hækka á menntunarstig þjóðar. Menntamálaráðherra ferðast nú um landið og heldur erindi um mikilvægi læsis og menntunar fyrir hagvöxt og hagsæld í landinu. Á sama tíma skerðir hann aðgengi að menntun sem mun koma harðast niður á ungu fólki á landsbyggðinni. Þeim er boðið í staðinn að flytja búferlum og fara í einkaskóla á Suðurnesjum eða í Borgarfirði með ærnum tilkostnaði. Enginn vafi er á að með þessari ráðstöfun mun opinberum störfum á landsbyggðinni fækka enn frekar. Byggðastefna ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er í skötulíki og ómögulegt er að átta sig á hvort ráðherrarnir eru að koma eða fara í þeim efnum.

Kjallari DV 30. september 2014

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Erla Ó. Melsteð

    Sæl

    Þið þurfið að gera allt til að koma í veg fyrir að þetta gangi í gegn, þetta er afturför um tugi ára og ljótt mannréttindabrot og líka gjörsamlega fáránlegt að ætla að færa menntun aftur um tugi ára.

    Maður fær stóran hnút og skilur ekki svona vitleysisgang, hvað er hægt að gera til að stöðva þetta!

    með barátuu kveðju

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur