Föstudagur 24.04.2015 - 14:19 - 2 ummæli

Ósætti á vinnumarkaði

Það dylst engum að alvarleg staða er komin upp á vinnumarkaði. Æ fleiri félög boða verkföll sem munu hafa víðtæk áhrif. Nú þegar hefur alvarlegt ástand skapast í heilbrigðiskerfinu, einkum á Landspítalanum þó aðrar stofnanir fari ekki varhluta af vandanum. Fagmenn í heilbrigðisstéttum hafa lýst yfir áhyggjum af verkföllunum og bent á að það sé sérstaklega slæmt að þau komi í kjölfar læknaverkfalls sem enn hefur ekki verið unnið úr.

Launafólk kallar eftir bættum kjörum og réttlæti og neitar að taka eitt ábyrð á stöðugleikanum í hagkerfinu sem fjármála- og efnahagsráðherra er svo tíðrætt um. Það er eðlilegt því ábyrgðin á ástandinu er fyrst og fremst ríkisstjórnarinnar sem hefur ýtt undir ójöfnuð og misskiptingu með verkum sínum undanfarin tvö ár. Auðvitað vill launafólk ekki taka á sig byrðar þegar ríkisstjórnin hefur slag í slag sýnt algjört skilningsleysi á kjörum venjulegs fólks.

Svikin loforð
Nokkur dæmi um aðgerðir hægristjórnarinnar skera sig úr og hafa magnað enn frekar reiði launafólks sem hefur átt í erfiðleikum með að lifa af launum sínum. Fyrst skal nefna kosningaloforð Framsóknarmanna um niðurfellingu skulda með milljörðum frá hrægammasjóðum, sem reyndist vera 80 milljarðar af skattfé úr ríkissjóði. Áætlað er að því almannafé sé skipt á þann hátt að þau 30% sem best eru sett fái 50 milljarða á meðan jafnstór hópur tekjulægsta fólksins fái 5 milljarða! Ekkert er gert fyrir leigendur.

Í ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016-2019 er það eitt sagt um húsnæðisfrumvörp húsnæðismálaráðherrans sem beðið hefur verið eftir „að unnið sé að þeim“ en að ekkert verði að samþykkt þeirra ef kjarasamningar skila kjörum sem ógna þessum margumtalaða stöðugleika sem ríkisstjórnin telur að launafólk eitt eigi að skapa með lágum launum.

Ríkir greiða minna
Afnám auðlegðarskatts sem gaf um 10 milljarða króna í ríkissjóð árlega er sannarlega umdeilt. Sá skattur er eignaskattur og ýmsir gallar á honum sem auðveldlega hefði mátt sníða af. Það að fella skattinn með öllu niður og lækka þannig skatta á ríkasta fólk landsins en hækka gjöld á sama tíma á veikt fólk sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda, skerða kjör langtímaatvinnulausra til að spara ríkissjóði útgjöld og setja fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum er óásættanlegt.

Arður af auðlindum
Hægristjórnin lækkaði veiðigjöld sem útgerðin greiðir fyrir það sérleyfi að nýta auðlind þjóðarinnar. Arðurinn við einstök rekstrarskilyrði fyrirtækjanna rennur því að stærri hluta til eigenda útgerða en þjóðin fær minna, t.d. til að styrkja heilbrigðiskerfið eða lækka tryggingargjaldið sem öll fyrirtæki í landinu greiða. Steininn tók úr þegar að ríkisstjórnin lagði fram frumvarp á dögunum um að færa útgerðum makrílkvóta á silfurfati en gera enga tilraun til að meta auðlindina til fjár og tryggja þjóðinni sanngjarnan hlut.

Lausnir á vanda
Til að leysa vandann verða launagreiðendur með ríkisstjórnina í fararbroddi að skilja hvers vegna fólk er ósátt. Krafan snýst um réttlæti. Ég tel að auk kjarabóta til almenns launafólks gætu breytingar á skattkerfinu verið til bóta sem festu þrepaskiptingu þess í sessi og það tvíþætta hlutverk að vera tekjustofn fyrir ríkissjóð og stuðla jafnframt að jöfnun í samfélaginu. Tryggja þarf sanngjarnt framlag tekjuhærri hópa og stóreignafólks í gegnum skattkerfið en létta byrði þeirra sem minna hafa. Einnig legðist með sáttargjörð hækkun barnabóta, virkt húsnæðisbótakerfi og hækkun persónuafsláttar sem eru öflugustu tekjujöfnunartæki hins opinbera. Ég tel að ef stjórnvöld gripu einnig tækifærið sem þau hafa nú til að fara nýjar leiðir í fiskveiðistjórnun hefði það góð áhrif í leitinni að sátt um kjör og velferð. Þau gætu sett leikreglur um makríl sem gefur þjóðinni sanngjarnan arð til að styrkja velferðarkerfið í stað þess að gefa hann til fárra útgerða og festa í gamla kvótakerfinu sem deilt hefur verið um árum saman.

Kjallaragrein í DV 24. apríl 2015

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

 • Sigurđur

  Lýđskrumiđ heldur áfram.

  Þú sagđir sjálf fyrir síđustu kosningar ađ þađ kæmi ekki til greina ađ framlengja auđlegđarskattinn, ekkert um lagfæringa heldur eingöngu ađ þú myndir beita þér fyrir því ađ hann yrđi ekki framlengdur.

  Síđan var þađ Guđbjartur Hannesson heilbrigđisráđherra sem gerđi leynisamning viđ þáverandi forstjóra LSH um hálfa miljón í launahækkun á mánuđi.

  Allt varđ brjálađ á spítalanum þegar komst upp um þessa launahækkun og bođuđu stéttarfélög heilbrigđisstarfsfólk kröfur upp á samskonar launahækkanir handa sínu fólki.

  Þetta er sprengjan sem setti boltann af stađ.

  Síđan þegar læknar međ miljón á mánuđ fóru í verkfall voruđ þiđ gjammandi í öllum fjölmiđlum landsina sem og úr ræđustól Alþingis ađ ríkiđ ætti umsvifalaust ađ hækka launin um tugi prósenta, hundruđI þúsunda á mánuđi!

  Svo stígiđ þiđ fram núna og hneykslist á ástandinu sem skapast þegar allir hinir koma á eftir og vilja þađ sama?

  Spurning ađ líta sér nær og rifja upp hvar þessi órói byrjađi.

 • kristinn geir st. briem

  átta mig ekki á þessum umræðum um lög á vinnudeilur ef menn vilja ljúka þessu verða menn að tala við sína menn . sem eru samtök atvinulífsins, sem hegða sér eins og s.a, forðum í þýskalandi. hin leiðin er verkban sem er líka í lagi en að setja lög á verkföll er aumíngjaskapur.siðan verða menn að standa við samnínga til að byggja upp traust. óska þóruni til hamíngju með nýja starfið. er hún þá hætt í samfylkínguni til að gæta hlutleisis.?.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur