Laugardagur 23.05.2015 - 17:04 - 7 ummæli

Gott tilboð

Stefna Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum hefur fengið byr undir báða vængi undanfarið eða eftir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði fram frumvarp um makrílkvóta. Við í Samfylkingunni höfum bent á það árum saman að við úthlutun veiðileyfa eigi lögmál markaðarins að ráða og kostir þess fái að njóta sín við nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar. Við höfum talað fyrir tilboðum og tilboðsmörkuðum sem beinast liggur við að nota þegar að kvótum nýrrar fiskveiðitegundar er útdeilt. Við teljum reyndar að sátt náist aldrei um upphæð veiðigjalds yfir höfuð fyrr en það verði ákvarðað á markaðslegum forsendum.

Kostir tilboðsleiðar
Einn af kostum tilboðsleiðar er að leigugjaldið sem greitt er fyrir aflahlutdeildir sveiflast sjálfkrafa með arðsemi veiða og dregur úr líkum á pólitískum inngripum um ákvörðun leiguverðs. Þannig byggist upphæðin ekki á matskenndum ákvörðunum og eigendur auðlindarinnar, fólkið í landinu, geta treyst því að ekki sé verið að hygla einum umfram annan. Útgerðin ákvarðar sjálf það gjald sem hún telur sér fært að greiða fyrir aðgengi að auðlindinni með tilboðum á markaði og það kemur líka í veg fyrir brask með kvótann. Einnig styrkir tilboðsleiðin rekstrarumhverfi sjávarútvegsins til lengri tíma vegna þess að duttlungar stjórnmálamanna ráða ekki með ófyrirséðum breytingum á milli kjörtímabila.

Svigrúmið innan kerfisins verður meira með tilboðsmörkuðum og nýliðun möguleg, sem veitir best reknu fyrirtækjunum aukin tækifæri hvort sem þau eru gömul eða ný. Í útfærslu tilboðsleiðar er auðvelt að taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða. Reynsla af tilboðsleið til úthlutunar auðlinda er víðtæk um allan heim og auðvelt væri að leita í smiðju nágrannaþjóða eftir góðum fyrirmyndum. Ef rétt er á málum haldið leiðréttir tilboðsleiðin óréttlætið sem felst í því að ávinningurinn af hagræðingunni innan útgerðarinnar renni í vasa fárra en íbúar sjávarbyggða beri kostnaðinn.

Góðar fyrirmyndir
Fiskmarkaðir á Íslandi eru góðar fyrirmyndir þar sem markaðslausnir ráða. Þar kaupa fiskvinnslur án kvóta fisk daglega á tilboðsmarkaði.  Þessi fyrirtæki hafa enga aðra rekstrartryggingu en þá að tilboðsmarkaðurinn verði starfandi á morgun. Aldrei er deilt um fiskverð á fiskmarkaði enda hafa bæði kaupandi og seljandi boðið verðið sem samið var um. Allar fiskvinnslur landsins hafa jafnan aðgang að fiskmörkuðum. Nýliðun í fiskvinnslu er því miklu auðveldari en í útgerðinni.

Fleiri góð dæmi má nefna. Loftslagsheimildir eru boðnar út og flugfélögin okkar, álverin og fleiri verksmiðjur gera tilboð í loftslagsheimildir á evrópskum markaði en tekjurnar renna í ríkissjóð. Við notum útboð til að velja á milli símafyrirtækja þegar úthluta þarf tíðnisviðum fyrir fjarskipti og þegar ríkið felur einkaaðilum verkefni í samgöngum gera menn tilboð í sérleyfin. Þegar við kaupum okkur þak yfir höfuðið gerum við tilboð á markaði sem stýrt er af fasteignasalanum. Það er því góð og víðtæk reynsla af tilboðsleiðinni í ýmsum myndum og hún á mjög vel við þegar úthluta á takmörkuðum gæðum s.s. náttúruauðlindum.

Brýnasta verkefnið
Jafnaðarmenn vilja að tryggt sé að arður af sameiginlegum auðlindum skiptist á réttlátan hátt á milli fólksins í landinu og þeirra sem nýta auðlindirnar. Á sama hátt þarf að tryggja réttláta skiptingu á þjóðarauðlindum milli kynslóða. Það þýðir að nýting auðlinda, hvort sem er til lands eða sjávar, þarf að vera í samræmi við skilyrði sjálfbærrar þróunar. Brýnasta verkefnið í auðlindamálum hér á landi er að fylgja eftir afgerandi niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu um efnisatriði nýrrar stjórnarskrár frá því í október 2012. Þar lýstu stuðningi sínum 84.760 kjósendur eða 83% þeirra sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni, við ákvæði um ævarandi þjóðareign á náttúruauðlindum. Þar er áskilið að nýtingarétti verði aðeins úthlutað á jafnræðisgrundvelli til hóflegs tíma, gegn fullu gjaldi og með gagnsæjum og hlutlægum hætti.

Á vefnum thjodareign.is hafa þegar að þessi grein er skrifuð um 35.000 manns skrifað undir áskorun til forseta Íslands um að hann vísi í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra. Beðið er eftir viðbrögðum við þessum skýru skilaboðum fólksins í landinu til stjórnvalda um auðlindarákvæði í stjórnarskrá.

Þessi grein birtist í helgarblaði DV 21. maí 2015

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

 • Garðar Garðarsson

  Sammála Oddnýu að öllu leyti.

 • Kári Jónsson

  Sammála Oddnýju hvet til þess að þegar umræðan um makrílinn kemur aftur í þingsalinn, að það komi fram tillaga um að greidd verði atkvæði um auðlindar-ákvæðið 34.grein í nýrri- stjórnarskrá, þannig getur almenningur séð með eigin augum og heyrt með sínum eigin eyrum, hverjir það eru sem eru að vinna fyrir þjóðina og hverjir eru að vinna gegn þjóðinni.
  Minni á að það er búið að breyta orðalagi í þessu mikilvæga ákvæði, það er búið að taka út FULLT VERÐ og setja í staðinn EÐLILEGT VERÐ, þessu verður að breyta AFTUR í FULLT VERÐ, því eðlilegt verð er svo kafloðið að það er einfaldlega ekki marktækt. Bestu þakkir fyrir góða grein Oddný.

 • kristinn geir st. briem

  hverjar eru gallar uppoð, kanski að oddný telji þá líka upp það er ekki til réttlæti í fiskveiðimálum bara mismikið ránglæti

 • Allan kvótann inn í nýjan auðlindasjóð hvaða nafni sem hann nefnist

 • Fákeppni getur ráðið verði. Útgerðin getur talað sig saman og ráðið verðinu hverju sinni.

 • Það væri enginn makrílkvóti til að rífast um ef við værum í ESB
  við þyrftum jafnvel yfirhöfuð ekkert að hugsa um kvóta
  embættismenn í Brussel sæu um þetta allt
  brauðmolar frá Brussel
  í boði ESB

 • Jafnaðrmenn styðja frjáls viðskipti einmitt af því að þeir eru jafnaðarmenn. Það þarf þó að seja markaðinum leikreglur sem hægt er að uppfæra reglulega eftir því sem misnotkunar gætir. Þess vegna er málið hápólitískt og einokunarsinnar Sjálfstæðisfokksins eru farnir að líkjast SÍS þjónkun Framsóknarflokksins. Það er enginn eðlismunur á þessum flokkum nema nafnið og uppruninn. Framsóknarflokkurinn á sér merkilegan husjónarlegan bakgrunn í jafnaðarmennsku samvinnuhreifingar 19.aldar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur