Fimmtudagur 18.06.2015 - 11:06 - Rita ummæli

Baráttan fyrir réttlæti

Á þessu ári minnumst við mikilvægs áfanga í kvenréttindabaráttunni þegar konur fengu í fyrsta sinn kosningarétt fyrir 100 árum. Þó kosningaréttur kvenna hafi verið mikilvægur þá var baráttan fyrir bættum kjörum verkalýðsins, almannatryggingum, læknaþjónustu, mannsæmandi húsnæði og almennum mannréttindum einnig stórt mál á svipuðum tíma. Sú barátta má ekki heldur ekki gleymast. Stundum látum við eins og réttindi almennings og velferð hafi dottið af himnum ofan. Svo er sannarlega ekki. Baráttan var hörð en árangur náðist sem við verðum að sjá til að glatist ekki.

Baráttan fyrir jöfnum tækifærum kvenna og karla, sömu launum fyrir sömu vinnu, baráttan gegn misskiptingu auðs og misbeitingu valds, baráttan fyrir bættum aðbúnaði og lífskjörum láglaunafólks, aldraðra og fatlaðra er í mínum huga allt ein og sama baráttan. Ég trúi því að þannig verði samfélag okkar betra og mannúðlegra en til þess að svo megi verða þurfum við að vinna fleiri sigra. Við skulum samt halda upp á og minna okkur reglulega á hvern áfangasigur sem vinnst.

Konur fá kosningarétt
Það var sannarlega stór dagur í sögu jafnréttis kynjanna þegar að konur fengu kosningarétt, en það var einnig stór dagur í sögu stéttabaráttu, því rýmkaður kosningaréttur náði þá einnig til vinnuhjúa. Kosningaréttur kvenna var takmarkaður og miðaðist við fertugsaldur, á meðan kosningaaldur karla miðaðist við 25 ár. Fátækt almúgafólk sem var talið „standa í skuld við hreppinn“ eins og það var kallað, var áfram án kosningaréttar. Sú skuld var yfirleitt þannig til komin að fjölskyldur höfðu neyðst til að leita aðstoðar við framfærslu barna eða greiðslu húsaleigu. Á þessum tíma fyrri heimsstyrjaldar voru margar vinnufúsar hendur án atvinnu og sú vinna sem bauðst var stopul og erfið. Fyrst og fremst bjó þetta fátæka fólk sem var lengst án kosningaréttar við kröpp kjör, hungur, vosbúð og sjúkdóma.

Kosningaréttur kvenna árið 1915 var sannarlega mikilvægur sigur en samt náði kosningaréttur aðeins til 45% þjóðarinnar eftir þessa breytingu. Kosningaaldur kvenna og karla var jafnaður 1920 og það var ekki fyrr en árið 1933 sem svokallaðir þurfamenn fengu fullan kosningarétt.

Kvenréttindabarátta
En stærsti vandinn sem við var að etja var baráttan við hugarfarið. Það var hreint ekki vel séð að konur væru að blanda sér í stjórnmál yfirleitt og ef þær gerðust svo djarfar áttu þær að sinn málefnum fjölskyldna. Stjórnmálakonur og ekki síst kvenfélögin unnu framan af síðustu öld merkt starf á sviði velferðar- og menntamála.

Það hefur kostað átök og baráttu að standa jafnfætis körlum við landstjórn og rekstur sveitarfélaga og þeirri baráttu er ekki lokið. Það þekki ég af eigin reynslu. Við kosningarnar árið 2009 náðu konur því að verða 40% Alþingismanna, kona varð forsætisráðherra í fyrsta sinn og konur skipuðu helming ríkisstjórnar í fyrsta sinn. Og í fyrsta sinn varð kona fjármálaráðherra á Íslandi. Mér finnst mikilsvert að stjórnvöld festi jafnræði með kynjunum í sessi með því að tryggja jafnan fjölda karla og kvenna við ríkisstjórnarborðið eins og var í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Það þurfti sérstakan kvennalista til að koma fyrstu konunni á þing og það þurfti sérstakan kvennalista til að fjölga konum á þingi eftir það. Og það þurfti hrun efnahags- og samfélags til að kona yrði forsætisráðherra.

Okkur miðar áfram í jafnréttisbaráttunni en við erum ekki komin alla leið. Við skulum því halda áfram að skapa börnum góðar fyrirmyndir, bæði karl- og kvenkyns sem kenna þeim að það er réttlátt að jafnræði með kynjum ríki á öllum sviðum.

(Þessi grein birtist fyrr á þessu ári á vefmiðlinum grindavik.net þar sem höfundur er fastur penni og í 1. maí blaði Samfylkingarinnar á Suðurlandi)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur