Þriðjudagur 01.09.2015 - 10:56 - 3 ummæli

Erindi jafnaðarmanna

Jöfnuður, jafnrétti og samhjálp eru grunngildi jafnaðarstefnunnar og einnig þau gildi sem mynda undirstöður velferðarkerfisins. Almannatryggingar, heilsugæsla, húsnæðismál, skattar og menntastefna eiga að mynda eina samofna heild sem stuðlar að hagsæld og farsælu mannlífi. Jafnaðarstefnan leggur áherslu á að þessi heildarmynd sé skýr og að allir hlutar hennar sinni vel því hlutverki að skapa réttlátt og gott samfélag fyrir alla. Þegar jafnaðarmenn meta stöðuna í íslensku samfélagi um þessar mundir, blasir við að erindi þeirra er ærið.

Stoðir velferðarkerfisins gliðna nú þegar að almannatryggingar ná ekki lágmarkslaunum og einstæðir foreldrar og öryrkjar eiga í fjárhagslegum erfiðleikum, þegar æ fleiri börn búa við fátækt, þegar greiðsluþátttaka einstaklinga í heilbrigðisþjónustu er of mikil, ungt fólk getur ekki komið sér þaki yfir höfuðið eða leigt á eðlilegum kjörum, sköttum er létt af þeim ríkustu, fjöldatakmarkanir eru í framhaldsskólum og kostnaður vegna menntunar eykst. Við slíkar aðstæður verða jafnaðarmenn að láta hendur standa fram úr ermum!

Almannatryggingar Lög um almannatryggingar gera ráð fyrir að bætur hækki með ákvörðun í fjárlögum, miðað við vísitölu eða almennar kjarabætur. Þrátt fyrir þessi lagaákvæði hlýtur það að vera skýlaus krafa að bætur almannatrygginga hækki í takt við lágmarkslaun þegar þau hækka hlutfallslega meira en aðrir launataxtar. Það er óásættanlegt að þeir sem þurfa að reiða sig á bætur almannatrygginga verði að lifa á launum sem eru lægri en lægsti launataxti gefur á vinnumarkaði og fái auk þess hækkun bótanna mun seinna en aðrir.

Heilsugæsla Þeir sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda hér á landi greiða sjálfir yfir borðið samtals um 30 milljarða króna á ári sem er hlutfallslega mun meira en nokkur önnur Norðurlandaþjóð. Heilbrigðiskerfið þarfnast styrkingar en ekki á kostnað sjúklinga. Við viljum traust opinbert heilbrigðiskerfi. Lausn vandans í heilbrigðiskerfinu felst fyrst og fremst í því að ríkið styrki raunverulega rekstur sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, geri þeim kleift að halda góðum mannauði og að mæta þörfum sjúklinga um land allt. Það á að vera forgangsverkefni.

Húsnæðismál Afar slæmt ástand er á húsnæðismarkaði og harðast kemur það niður á ungu fólki og leigendum. Húsnæðisráðherrann boðar breytingar til batnaðar en þær hafa látið á sér standa. Meðal aðgerða sem grípa þarf til við lausn vandans eru nýjar húsnæðisbætur sem tryggja leigjendum sambærilegan stuðning og veittur er þeim sem búa í eigin húsnæði og finna leiðir til að halda aftur af hækkunum á leiguverði. Gera fólki sem kaupir íbúð eða búseturétt í fyrsta sinn og tekjulágu fólki kleift að fjármagna kaupin. Breyta reglum til að auðvelda sveitarfélögum kaup á félagslegum íbúðum og vinna að samkomulagi við sveitarfélögin og aðila vinnumarkaðarins um veitingu stofnstyrkja til leigufélaga sem skuldbinda sig til langtímareksturs á leiguhúsnæði. Við núverandi ástand má ekki una lengur.

Skattar Ríkissjórnin lofaði einfaldara skattkerfi. Í því fólust engin loforð um réttlátara skattkerfi enda hafa nýlegar aðgerðir þeirra létt sköttum af ríkasta fólkinu í landinu. Skattar gegna ekki aðeins því hlutverki að afla ríkissjóði tekna heldur einnig því mikilvæga hlutverki að stuðla að jöfnuði í samfélaginu. Þrepaskiptur tekjuskattur skilar báðum hlutverkunum. Góðar barnabætur jafna auk þess stöðu barnafólks.

Menntastefna Aldurstengdar fjöldatakmarkanir í framhaldsskóla tóku gildi um áramótin. Þá var fólki 25 ára og eldri, vísað í bóknám í einkaskóla með ærnum tilkostnaði sem verður til þess að færri munu afla sér menntunar. Það er óhagstætt bæði fyrir einstaklingana og samfélagið. Snúa verður af þeirri braut og auðvelda aðgengi að námi hvar sem er á landinu óháð aldri og efnahag nemenda.

Jafnaðarmenn þurfa að tala hátt og skýrt og vinna markvist að því að auka tiltrú þjóðarinnar á jafnaðarstefnunni. Undir merkjum hennar fáum við afl til að tryggja aukna hagsæld, réttlæti og farsælt mannlíf.

Kjallari DV 1. september 2015

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • kristinn geir st. briem

    en eru ekki sumir jafnari en aðrir félagi napoleon.
    hvernig á að fjármagna húsnæðiskerfið.?.
    hvar á að koma nýju sjúkrahúsi fyrir í uppsveplunni.
    það þarf að efla jafnaðarstefnuna. eflaust rétt gangi ykkur vel.

  • Þegar ég kaus ykkur 2009 var ég alveg sannfærð um að þið mynduð nýta eignir íbúðalánasjóðs og bankanna (ríkið átti þá bankana) til að koma á fót nýju verkamannaíbúðakerfi. Það var fyrirsjáanlegt strax þá að þess þyrfti, en -Nei.

    Þið hækkuðuð álögur á sjúklinga, krabbameinsveika, sykursjúka… (já, já, ég veit alveg að hér varð hrun og allt það) Á sama tíma settuð þið Hörpuna, glerhöll Náttúrufræðistofnunar og fleiri gæluverkefni í forgang.

    Þið hundsið gersamlega láglaunaþrælinn sem vinnur tvöfalda vinnu án þess að það dugi til. Ég var láglunaþræll í 40 ár áður en ég lenti á örorku. Það kom mér á óvart að ég hef það mun skárra fjárhagslega sem öryrki.

    Þið eruð enginn jafnaðarmannaflokkur nema síður sé. Þið eruð bara hagsmunagæsluhópur listamanna og BHM. Og það er öllu verkafólki löngu orðið það ljóst.

    Ég kaus ykkur frá upphafi en ég mun Aldrei, Aldrei nokkurn tíman kjósa ykkur aftur. Aldrei. Ykkar tími er liðinn. Samfylkingin er dauð. Ætli Harpan sé ekki bara legsteinninn ykkar. Minnig ykkar mun eingöngu lifa þar. Sérstaklega þegar reikningar fyrir rekstrarkostnaði berast.

  • PS:
    Ég var hörð Samfylkingarkona

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur