Föstudagur 24.06.2016 - 12:48 - 22 ummæli

Brexit

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi eru stórtíðindi. Hún vekur upp áhyggjur af áhrifum popúlista og rasista í Evrópu og hún gengur þvert á ráðleggingar flestra sérfræðinga, atvinnulífs og forystumanna í breskum stjórnmálum. Breska þjóðin er klofin og mikið verk framundan hjá Bretum að vinna úr stöðunni og sætta fylkingar. Skotland og Norður Írland kusu með áframhaldandi aðild og óljóst hver viðbrögð þeirra verða.

En ekki síst verður þörf á að sætta á afstöðu kynslóðanna, unga fólksins og þeirra sem eldri eru. Ungt fólk vildi frekar vera áfram innan ESB, en verður nú ekki lengur hluti af hinu opna evrópska samfélagi. Það verður að gefa þeim von um að framtíð þeirra sé þrátt fyrir það björt og örugg.

Í hönd fer nú efnahagsleg óvissa sem enginn veit hvar endar. Fyrstu viðbrögð eru að markaðir falla, pundið veikist umtalsvert og forsætisráðherrann segir af sér. Bretland er enn ósjálfbært um orku og mun þurfa að tryggja sér gas og olíu, rétt eins og um miðja síðustu öld þegar tryggja þurfti aðgang að kolum og stáli. Þessi niðurstaða mun væntanlega breyta Evrópusambandinu og Evrópusamvinnu, og við Íslendingar verðum að fylgjast vel með og meta stöðuna hverju sinni með hagsmuni okkar að leiðarljósi.

Ein leið væri að hvetja til þess að Bretar verði innan EES eða EFTA. En ef til vill munum við nú heyja varnarbaráttu fyrir þá samninga, á meðan Bretar og Evrópusambandið semja um úrsögn.

Samfylkingin er alþjóðlegur og opinn flokkur og við viljum mikla samvinnu við aðrar þjóðir. Þessi niðurstaða breytir því ekki. Við viljum að þjóðin fái að ráða um aðild að ESB, en við höfum hvorki fengið að klára samninginn til að bera hann undir þjóðina, né fengið að kjósa um áframhald viðræðna. Stjórnmálamenn í Bretlandi voru ekki smeykir við að spyrja þjóðina. Sennilega hefur svokallaður „ómöguleiki“ ekki verið uppgötvaður í breskum stjórnmálum.

Tryggja þarf stöðugleika í Evrópu, og að þjóðernisrembingur nái ekki yfirhöndinni yfir friðarbandalaginu sem tryggt hefur góð lífskjör og öryggi borgara sinna allt frá síðari heimstyrjöld. Vonum að Bretland og Evrópusambandið finni leiðina áfram í sameiningu.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

 • „Breska þjóðin er klofin og mikið verk framundan hjá Bretum að vinna úr stöðunni og sætta fylkingar“

  Er ekki líka, eða jafnvel frekar, mikið verk að vinna fyrir ESB til þess að sameina og sannfæra evrópubúa um ágæti ESB?

  Fólki finnst Brussel rúlla áfram án þess að tillit sé tekið til minnihlutahópa sem eru fullir efasemda um stjórnarfarið í Brussel. Minnihluta sem fer vaxandu og er komin í meirihluta í UK eins og nú er ljóst.

  Og ekki nota svona orð um venjulegt fólt sem telur hátt á annan tug milljóna bara í Bretlandi: rasistar og populistar. Það er aldrei gott að alhæfa svona.

 • Eru sem sagt 17 milljónir manna í Bretlandi pópúlistar og rasistar?

  Þeim þykir ábyggilega forvitnilegt að frétta að íslenskur stjórnmálaforingi hafi þetta álit á þeim.

  Annars er athyglisvert að Samfylkingin er í sömu stöðu og Verkamannaflokkurinn.

  Þeim flokki stjórnar líka elíta miðaldra sósíalista.

  Þessi elíta sagði fólkinu í Bretlandi hvernig það ætti að kjósa en fólkið sagði nei.

  Það voru nefnilega venjulegir kjósendur Verkamannaflokksins, systurflokks Samfylkingarinnar í Bretlandi, sem réðu úrslitum í þessari atkvæðagreiðslu.

  Báðir þessir flokkar hafa glatað öllu sambandi við kjósendur sína.

 • Öfgakratar hika ekki við stóru orðin í garð samborgara. Ættu að skeina sér um kjaftinn..(Broskarl)

 • Þorsteinn Jón Óskarsson

  Það er ekki launungarmál að popúlistar og rasistar vaða uppi í Heiminum í dag. Það má að sjálfsögðu nefna. Við þurfum að vara okkur á þeim eins og aðrar þjóðir. Ég man nasista þýskaland og ég man nasista á Íslandi og það sem óhugnanlegast er að þeir birtast víða í okkar heimshluta í dag.

 • kristinn geir st. briem

  þettað minnir svolítið á þegr háskólafólkiðí rússlandi á tímum keissarans fóru útá land en bændurnir vildu ekki gera uppreissn, þá var niðursta mentafólkins að bændur væru heimskir af því þeir höfðu ekki sömu skoðanir og mentafólkið.leingi vel voru indíjánar taldir heimskari en annað fólk í bandaríkjunum. það breitist þegar börninn feingu að ganga í skóla skildi það sama hrjá samfylkínguna að álíta þá sem ekki eru samála henni heimska. eflaust eru lundúnarbúar gáfaðra en annað fólk á bretlandi að mati samfylkíngarina. en ég efast um að það sé satt. gétur verið ð samfylkíngin sé orðinn hópur mentamana sem hefur keimlikar skoðanir seu með eithvað sem kallað er mentahroki. hvort við eigum að fara inn í þattað samband hef ég ekki miklar skoðanir á en skildi nú ástandið breitast mikið her á landi skiptir máli hvaðan spillíngin kemur

 • Guðmundur Gunnarsson

  Oddný G. Harðardóttir formaður Samfylkingarinnar þarf að fara að átta sig á því að stjórnmálamenn og stjórnsýslan er til fyrir almenning og þjónar honum.
  Ekki öfugt.
  Ef stór hluti einhverrar heildar, þjóða eða einhverjum sórum minnihluta líkar ekki stjórnsýslan þá er borin von að breyta þjóðunum eða þessum, stóru minnihlutum. Hinsvegar er það verkefni stjórnsýslunnar að breyta sér og stefnu sinni í þágu umbjóðendanna og ná sáttum um stefnuna. Þessi athugasemd Oddnýjar um að bretar hafi verk að vinn að breyta þjóðinni er beinlýnis hrikaleg.
  Og þó ljóst sé að rasistar og populistar eigi vaxandi fylgi að fagna ætti formaðurinn að leita að ástæðunum fyrir því og bregðast við þeim í tað þess að tala niður til þeirra. Oddnýju sett niður við þessi ummæli sín.

  Hér er slóð að viðbrögtðu Greenspan til fróðleiks

  http://www.cnbc.com/2016/06/24/alan-greenspan-says-british-break-from-eu-is-just-the-tip-of-the-iceberg.html

 • Ragnhildur H.

  … ,,,,, þetta eru vonandi endalokin að upphafinu bæði þar og um alla Evrópu og það er vel !…Og vinsti flokkarnir her þurfa ath. sina eigin stöðu en ekki Bretlands og hætta sinni Niðurrifsstarfsemi ,og fara vinna fyrir land sitt og þjóð …..,það er það sem við blasir Oddny !

 • Pírapinn

  Bretar voru klofnir þar sem minnihlutinn kúgaði meirihlutann. Nú hefur meirihlutinn talað og því er tími sátta runnin upp. Allar alvöru lýðræðisþjóðir virða niðurstöðu meirihlutans og engin ástæða til annars en að ætla að það eigi líka við um Bretland.

 • Gudni Stefánsson

  ESB er skrifræðisbákn, en ekki lýðræðisleg stofnun. Þetta bákn vill breyta fólkinu með áróðri og reglum og fólk breytist. Það gleymir hvað lýðræði er, en hættir ekki að skynja, hafa tilfinningar, væntingar og markmið í sínu lífi.

  Þegar fólk fær ekki að hafa áhrif á umhverfi sitt af því það er ekki hlustað á það, kallað ónefnum þegar það viðrar skoðanir sínar og sagt að sérfræðingar viti þarfir þeirra betur en það sjálft er lýðræðið dáið. óánægja, totryggni og þras breiðist út. Það skapast tómarúm í pólitikinni sem piratar og aðrir óánægjuflokkar eru að byrja að fylla.

  Þetta tómarúm var einu sinni fullt af lifi, torg hins vinnandi manns sem jafnaðarmannaflokkar fylltu með öflugri starfsemi ásamt launþegahreyfingunni Það var stuðlað að almennri menntun i grundvallaratriðum lýðræðisins, bókmenntum og listum. Það var ekki heimtað stúdentspróf til að fá að taka þátt. I Svíþjóð voru reknir námsflokkar til að styðja við þessa þróun. Hér voru ýmiskonar áhugamannafélög. Manngildi var hugtak sem er gleymt í dag. Orðið lýðræðishalli hefði verið hlegið út af borðinu.

  Fólkið er búið að fá nóg. Nóg af skrifræðinu, nóg af lýðræðishalla, nóg af að vera uppnefnt af valdhöfum sínum. Það eru að vaxa fram hreyfingar núna með þessu fólki sem er uppnefnt eins og socialdemokratarnir forðum og þau taka líklega völdin.

  Í sovét var talað um glasnost
  Núna er það Brexit.

  Báknið er að falla þessa dagana. Samfylkingin gæti hjálpað, boðið inn venjulegu fólki sem einu sinni var grunnur jafnaðarstefnunnar. Samfylkingin gæti notað sína reynslu, kunnáttu og aðstöðu í baráttu þeirra og hjálpa þeim inn á þing. Það gæti leitt til að okkar glasnost verði ekki eins sársaukafullt og í Sovét. Það táknar að Alþingi hættir að vera vinnustaður og verður löggjafaþing. Það táknar að stjórnmál hætta að vera atvinnugrein og Alþingi verði torg hins vinnandi manns sem setur sér og okkur öllum lög og reglur. Það táknar það að byggja gott þjóðfélag verður markmið Samfylkingarinnar, en ekki þingseta sem atvinnugrein.

  Gamall draumur Birgittu Jónsdóttur mun rætast að hver þingmaður sitji bara eitt kjörtímabil.

 • Að venju hafa þeir stjórnmálamenn, sem lofuðu kjósendum öllu fögru ef þeir bara kysu þjóðina úr sambandinu, tilkynnt fólkinu að þeir ætli að svíkja þessi loforð. Þeir gera það meir að segja algerlega feimnislaust DAGINN eftir kosninguna!

  Er það ekki makalaust hversu siðblint, óheiðarlegt og lygið fólk fer og kemst áfram í pólitík?

 • ,,Tryggja þarf stöðugleika í Evrópu, og að þjóðernisrembingur nái ekki yfirhöndinni …“

  Þjóðernisrembingur?

  Við ættum ekki að níða ættjarðarást fólks.

 • Baldur Steingrimsson

  Thad er margt til i thessu hja Oddnyju.

  Mer skilst ad kosningabarattan i Bretlandi hafi verid mjog heiftudug og ovaegin. Skynsemisrok hafi att undir hogg ad saekja og stutt i populismann.

  Eg tel mikid svigrum fyrir jafnadarflokk sem bydur upp a hofsama midjupolitik og reynir ad hofda til rokhyggju folks og skynsemi.

  Midad vid margt sem madur ser fra Donald Trump verdur thad ad teljast lang i fra sjalfgefid ad timabil fridar, althjodasamvinnu og uppbyggingar haldi afram.

  Haettan af i lydskumi og populisma er raunveruleg.

 • Kristbjörn Árnason

  Ekki gengur að kenna þjóðaratkvæðagreiðslunni um þessa niðurstöðu. Sökin liggur auðvitað algjörlega hjá stjórnmálamönnum. Er segir auðvitað að nauðsynlegt sé að skapa einhverja umgjörð utan um slíkar atkvæðgreiðslur.

  Þ.e.a.s. að tryggt sé, að kjósendur fái réttar upplýsingar frá til þess kölluðum aðilum sem hafi slíkt verkefni að útskýra kosti og galla á almennu máli sem almenningur skilur.

  Við íslendingar þekkjum þessa upp á komu þegar kosið var um Icesave og lýðskrumarar ákváðu að nýta sér málið sér til framdráttar. Þ.á.m. forseti vor sem tryggði sér áframhaldandi setu á Bessastöðum með svona vinnubrögðum.

  Það er mikilvægt að þjóð eins og íslendingar fái tækifæri til þess að taka afstöðu til ýmissa mála með þjóðaratkvæðagreiðslu. Einnig er það mikilvægt að þjóðin fái möguleika á því að endurmeta stöðu þjóðarinnar í ýmsum samtökum eða í samningum sem ríkisstjórnir með naumum meirihluta hafa bundið þjóðina í.

  Dæmi um slíkt er auðvitað Nató og aðildin að EFTA og EES.

 • Þessi grein hjá nýkrýndum formanni samfylkingar er eitt allsherjar grín. Formaðurinn talar eins og þeir sem kusu gegn áframhaldandi veru í ESB séu einhverjir kjánar? Er ekki ástæðan fyrir úrsögn úr ESB einfaldlega sú að Bretum þykir efnahagsleg stöðnun hafa verið viðvarandi, og ESB hafa ekkert getað gert til að greiða úr þeim málum?

  Það er einfaldlega ekki rétt að Bretar séu ekki sjálfum sér nógir með orku, þeir fara langleiðina með að geta fullnægt sinni orkuþörf (hvað sem það svo hefur að gera með veruna í ESB????). Bretar framleiða gríðarlegt magn af olíu, kolum og gasi. Miklu meira en aðrar ESB þjóðir, sem eru algjörlega háðar innlfutningi á orku.

  Þessi málflutningur Oddnýjar ber eiginlega vott um fákunnáttu.

  Samfylkingarfólkið á RUV og víðar þreytist ekki að tala um hvernig meirihluti hafi viljað vera inni. Lundúnabúar, Norður Írar, Yfir meðallagagi hávaxnir……. Þessi tölfræði er eiginlega háflgert grín. Það var meirihluti sem kaus að fara út, enda var verið að kjósa um hvort ætti að vera í ESB eða utan.

  Þetta er auðvitað hálfgert reiðarslag fyrir samfylkinguna, þetta er það mál sem flokkurinn hérna á Íslandi hefur hangið í hvað lengst, gert samfylkinguna að eins máls flokki. Nú er þetta mál ekki lengur á dagskrá, og flokkurinn við það að þurrkast út.

  Ef Oddný Harðardóttir ætlar sér eitthvað annað en að vera sá formaður sem lagði Samfylkinguna formlega niður, þá þarf hún að taka upp eitthvað léttara hjal en þessa vitleysu um niðurstöðu kosninganna í Bretlandi, þær á að virða, ekki láta kjósa aftur og aftur, þar til niðurstaða sem þóknast Brussel er fengin.

 • „Ein leið væri að hvetja til þess að Bretar verði innan EES eða EFTA.“

  Sko.

  Bretland ER aðili að EES samningnum eins og öll ESB-ríkin, og Bretar hafa ekki tekið neina ákvörðun um að segja upp aðild sinni að honum. Það þarf því ekki að hvetja þá til að verða innan EES heldur er það beinlínis sjálfgefin niðurstaða þegar þeir ganga úr Evrópusambandinu.

  Það er eftirtektarvert að formaður þess stjórnmálaflokks á Íslandi sem mest allra hefur látið sig Evrópumálin varða, skuli fara svona gjörsamlega á mis við þessa einföldu staðreynd.

 • Ásmundur

  Það er rangt að Bretar haldi sjálfkrafa EES-samningi eftir úrgöngu úr ESB.

  Það er ekki einu sinni víst að þeir fengju slíkan samning ef þeir vildu. EES-samningur uppfyllir heldur ekki kröfur Breta vegna þess að hann setur engar hömlur á frelsi fólks innan EES til að flytja til Bretlands sem var eitt aðalkosningamálið.

  10-15% Breta aðhyllast hægri öfgastefnu. Þeir kusu með Brexit. Það er því ljóst að þessi hópur, sem hefur farið vaxandi undanfarin misseri, hefur ráðið úrslitum í kosningunum.

  Það var búist við að Brexit myndi jafnvel auka líkur á að aðrar þjóðir, einkum Danir og Hollendingar, myndu krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild. Raunin hefur orðið þveröfug. Stuðningur við aðild hefur stóraukist.

  Samstaðan i ESB hefur aukist vegna þess að menn sjá afleiðingarnar i Bretlandi.

 • Ásmundur.

  Geturðu vinsamlegast bent mér á heimildir fyrir þessu sem þú heldur fram? Það hefur nefninlega hvergi verið upplýst að Bretar hafi tekið neina ákvörðun um að ganga úr EES. Ef þér er kunnugt um slíka ákvörðun væri mjög gagnlegt og myndi þjóna hagsmunum upplýstrar umræðu ef þú gætir gert betur grein fyrir því hvaða ákvörðun það er og hvenær hún var tekin. Ef þú getur það ekki ertu því miður bara að blása heitu lofti.

  Þú gerir þér vonandi grein fyrir því að EES samningurinn er ekki aðeins samningur Íslands, Noregs, Lichtenstein við ESB heldur einnig við hvert og eitt þeirra ríkja sem voru í Evrópusambandinu þegar hann var gerður og þar á meðal Bretland. Sjá hér: https://www.utanrikisraduneyti.is/samningar/ees/EESSamningur/nr/1725

  Þar sem Bretland er sjálfstæður aðili að EES-samningnum rétt eins og Ísland, þá fellur undirritun samningsins fyrir hönd Bretlands alls ekki sjálfkrafa úr gildi þó svo að ríkið verði ekki lengur aðili að Evrópusambandinu. Í meginatriðum er um tvo mismunandi samninga að ræða og þó að Bretar segi öðrum þeirra upp þýðir það ekki að þeir hafi sagt upp hinum.

  Það er kannski auðveldara að skilja þetta út frá samlíkingu. Segjum sem svo að þú værir aðili að einum samningi um áskrift að Stöð 2 og öðrum samningi um áskrift að Morgunblaðinu. Ef þú segir svo upp samningnum um áskrift að Morgunblaðinu hefur það engin áhrif á samninginn um áskrift að Stöð 2 sem heldur áfram að vera í fullu gildi nema þú segir honum upp líka.

 • Ásmundur

  Guðmundur, EES-samningur er aðeins gerður við þjóðir sem eru ekki í ESB.

  http://kjarninn.is/skyring/2016-06-13-bretar-fa-engan-ees-samning/
  http://gudmundsson.blog.is/blog/bjorgvin_gudmundsson/entry/2175438/

  Ég heyrði auk þess einhvern háttsettan hjá ESB halda því fram að Bretar myndu ekki fá EES-samning. Það var fyrir atkvæðagreiðsluna.

 • Ásmundur.

  Skoðaðirðu heimildina sem ég vísaði til, þ.e.a.s. inngangsorð sjálfs EES-samningsins? Þar kemur skýrt fram að meðal þeirra sem eru aðilar að samningnum er „Hið sameinaða konungsríki Stóra-Bretlands og Norður-Írlands.“ Þar kemur ekkert fram um að sú aðild sé háð aðild að ESB, enda eru fjögur önnur ríki aðilar að samningnum sem ekki eru í ESB: Ísland, Noregur, og Lichtenstein, ásamt Sviss sem ákvað reyndar að fullgilda ekki samninginn og gerði þess í stað tvíhliða samning við ESB.

  Þessar „heimildir“ sem þú vísar til eru alls ekki neinar heimildir um neina opinbera ákvörðun Breta um að segja upp aðild sinni að EES samningnum, heldur eru þetta bara fréttaskrif og bloggfærsla. Það sem þar er skrifað ber það með sér að byggjast á sama misskilningnum og þú virðist vera haldinn, að Bretland sé ekki beinn aðili að EES-samningnum heldur óbeint í gegnum Evrópusambandið og aðild þess að EES sé því háð aðild að ESB. Þetta er eins og áður segir ekki rétt, því Bretland er þvert á móti beinn aðili að EES-samningnum með sjálfstæðum hætti. Svo er það að segjast hafa heyrt „einhvern háttsettan hjá ESB“ halda einhverju fram ekki nein sérstök heimild fyrir neinu, síst af öllu þegar það sem haldið er fram er í andstöðu við staðreyndir samkvæmt frumheimildum.

  Mikið væri það nú gagnlegra og markvissara ef umræða um mál sem þessi gæti farið fram á grundvelli staðreynda, fremur en órökstuddra fullyrðinga og sögusagna sem eru úr lausu lofti gripnar.

 • Ásmundur

  EES-þjóðirnar gera samning við ESB. Þegar ein þjóð gengur úr ESB er því engin slíkur samningur til staðar við hana.

  Mér þykir það með miklum ólíkindum ef þú telur þig vita betur en helstu forystumenn ESB. Auk þess sýnast mér rök þín ekki standast neina skoðun.

  Ég veit ekki til að um þetta sé neinn ágreiningur innan ESB eða við Breta. Ef þú veist um slíkan ágreining væri fróðlegt að fá hlekk á þær upplýsingar.

 • Ásmundur.

  Þú svaraðir ekki spurningunni um hvort þú hefðir raunverulega skoðað heimildina sem ég vísaði til þ.e. inngangsorð sjálfs EES-samningsins.

  Þú skoðaðir hana greinilega ekki því ef þú hefðir gert það þá myndirðu vita að sá samningur er ekki við ESB eingöngu, heldur einnig á milli þeirra ríkja sem saman mynda evrópska efnahagssvæðið, þar á meðal Bretlands.

  Það hversu takmarkaðir helstu forystumenn ESB og Breta skuli vera að gera sér ekki grein fyrir einföldum staðreyndum, er enginn mælikvarði á það hvort ég hafi rétt fyrir mér eða ekki. Þeir höfðu líka rangt fyrir sér um að EES-ríki ættu að bera fjárhagslega ábyrgð á innstæðutryggingakerfinu, sem ég hafði aftur á móti rétt fyrir mér að væri óheimilt.

  Ég lærði ungur að lesa og hef allar götur síðan verið nokkuð vel læs. Þess vegna vefst það ekkert fyrir mér að þegar ég sé nafn Bretlands á lista yfir aðila að tilteknum samningi, þá segir það mér að Bretland sé aðili að þeim samningi. Meira þarf ekki til heldur en sæmilega lestrarkunnáttu.

  En fyrst þú þykist vita þetta svona miklu betur, hvernig væri þá að þú myndir benda á hvar í EES samningnum stendur að aðild að honum sé háð aðild að ESB og hvernig standi þá á því að Ísland, Noregur og Lichtenstein geti verið aðilar að honum án þess að uppfylla það skilyrði? Fyrst þú þykist vita þetta svona vel þá skora ég á þig að sanna mál þitt.

 • Að sjálfsöðu las ég þetta. Bretland er aðili að EES-samningum sem ESB-ríki. Þess vegna fellur sú aðild niður þegar Bretland gengur úr ESB.

  Það sem virðist vera að þvælast fyrir þér er að EES-samningarnir eru ekki bara við ESB, þeir eru einnig við einstök ESB-ríki. Það er eðlilega túlkað þannig að eftir úrgöngu þjóðar úr ESB er enginn EES-samningur til staðar við hana enda er hún ekki lengur ESB-þjóð.

  Annars er óþarfi að vera að deila um það sem enginn ágreingur er um milli aðila málsins. Þú hefur allavega ekki getað sýnt fram á slíkan ágreining.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur