Fimmtudagur 07.07.2016 - 19:49 - 4 ummæli

Skattsvik og þrælahald

Fyrirsögnin er ógeðfelld en þetta eru samt orðin sem lýsa best því sem verkalýðsfélög víða um land horfa upp á. Í verktakabransanum eru til fyrirtæki sem vilja hlunnfara erlenda starfsmenn með því að greiða þeim laun sem ná ekki lágmarkslaunum hér á landi.  Í ferðaþjónustunni ríkir eins konar gullgrafaraæði þar sem það sama fyrirfinnst. Reynt er að hafa laun af fólki og svört atvinnustarfsemi viðgengst. Þó flestir fari sem betur fer eftir lögum ber þetta okkur ekki fagurt vitni. Það ætti enginn að hylma yfir með þeim svíkja undan skatti eða hafa umsamin laun af fólki. Það eru ekki aðeins erlendir starfsmenn sem verða fyrir barðinu á þeim sem vilja skyndigróða og brjóta lögin. Mörg dæmi er um að illa sé komið fram við ungt fólk sem starfar í veitingahúsum eða hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Dæmi eru til að mynda um að starfsmenn fái engin útgreidd laun og séu titlaðir lærlingar þó enginn sé kennarinn eða skólinn.

Til að uppræta þessa skömm og lögleysu þarf eftirfarandi að gerast:

 • Félög atvinnurekenda og verkalýðsfélög taki höndum saman við eftirlit með launagreiðslum.
 • Aðalverktakar beri ábyrgð á því að undirverktakar fari  að íslenskum lögum og launasamningum.
 • Efla þarf eftirlit Ríkisskattsstjóra.
 • Beita á sektum og leyfissviptingum ef fyrirtæki fara ekki eftir samningum um lágmarkslaun og aðbúnað starfsfólks.

Jafnaðarmenn geta ekki setið þöglir hjá og látið verkalýðsfélög ein um að benda á skattsvik og bera ábyrgð á að uppræta það sem kalla má með réttu  þrælahald hér á landi. Við í Samfylkingunni munum ekki þegja yfir slíku eða samþykkja með fjársvelti eftirlitsstofnana eins og nú er gert. Við munum einnig beita okkur fyrir lagasetningu sem skýrir ábyrgðarsvið þeirra sem um ræðir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

 • kristinn geir st. briem

  afherju eyyum við að hafa áhyggur af þessu lífyrisjóðir fjárfesta grimt í félögum sem brjóta kjarasamnínga væri nú ekki nær að verkalíðsfélöginn tækju fyrst til hjá sér

 • Ásmundur

  Það er mikilvægt að haga málum þannig að fólk og fyrirtæki sjái sér ekki hag í að svíkja undan skatti.

  Um leið og menn gera sér grein fyrir að menn komast upp með skattsvik aukast þau gífurlega vegna þess að menn vilja sitja við sama borð og aðrir í stað þess að greiða samneysluna fyrir þá.

  Það er því mikilvægt að hafa öflugt skattaeftirlit og háar sektir við brotum.
  Ef við gætum okkar ekki verður hér grískt ástand sem nánast ómögulegt er að losna undan vegna þess að nánast allir sem geta eru flæktir í málið.

  Það hefur sýnt sig að fjármagn til skattrannsóknarstjóra skilar sér margfalt tilbaka. Það skaut því skökku við þegar ríkisstjórnin stórminnkaði fjárframlög til embættisins. Eftir á ætti það þó ekki að koma á óvart þar sem báðir flokksformennirnir reyndust vera tortólingar.

  Með betri skattheimtu og hærri sköttum á auðmenn er hægt að bæta verulega heilbriðgðiskerfi, menntakerfið, vegamálin ofl án þess að auka álögur á almenning.

  Áherslan ætti helst að vera þar sem eftir mestu er að slægjast, þeas hjá stórfyrirtækjum og auðmönnum.

 • Þorsteinn Jón Óskarsson

  Þakka þér fyrir Oddný að vekja máls á þessu. Það verður í mörg horn að líta hjá Jafnaðarmönnum þegar þing kemur saman og að loknum kosningum. Það nýjasta er að ríkisstjórn hinna ríku hefur nú fengið tiltal frá alþjóðasamfélaginu fyrir að standa sig ekki í baráttunni gegn nútíma þrælahaldi. Gangi þér vel í baráttunni.

 • Sigmundur Grétarsson

  Já Oddný ástandið er ekki gott . Ég fæ ekki skilið hversvegna það er hægt að stofna fyrirtæki og fá VSK númer án þess að leggja ekki fram tryggingu. Svo hlýtur að vera hægt að setja svipuð lög og eru á Norðurlöndunum og Þýskalandi um fyrækjarekstur og innheimtu vörslu skatta. Það tók nú ekki nema fjórar til fimm vikur fyrir Þýskaþingið að breyta lögum um innflytjendur eftir það sem geriðst í Köln um áramótin síðustu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur