Þriðjudagur 19.07.2016 - 12:54 - 3 ummæli

Ríkisstjórn á fyrirvara

Það kom mér á óvart að lesa það í stuttri grein í Fréttablaðinu eftir félags- og húsnæðismálaráðherra að hún hefði samþykkt fimm ára fjármálaáætlun ríkisins með fyrirvara þegar að áætlunin var til afgreiðslu á ríkisstjórnarfundi. Þetta er sannarlega stórfrétt. Fyrirvarinn kom ekki fram þegar að mælt var fyrir áætluninni á Alþingi og ekki heldur við umræður í fjárlaganefnd um málið. Þvert á móti lagði meirihluti fjárlaganefndar til með framsóknarþingmann í forystu, að fjármálaáætlunin yrði samþykkt óbreytt.

Ráðherra tekur undir gagnrýni mína, ASÍ og fleiri á lækkun vaxtabóta og barnabóta. Hvoru tveggja mun koma illa við ungar barnafjölskyldur verði stefnan látin standa óbreytt og auka ójöfnuð hér á landi.

Alvarlegir fyrirvarar
Félags- og húsnæðismálaráðherra segir að hún hafi gert alvarlega fyrirvara við afgreiðslu fimm ára áætlunar ríkisstjórnarinnar. Fjármálaáætlunin er hins vegar grunnur fjárlagafrumvarps sem er helsta stefnuplagg stjórnvalda. Fyrirvarinn er því sannarlega alvarlegur, ekki síst fyrir samstarf stjórnarflokkanna.

Reyndar gerði fjármála- og efnahagsráðherra eins konar fyrirvara við fjármálaáætlunina í viðtölum í fjölmiðlum síðustu daga. Þar sagðist hann meðal annars vilja að Landspítalinn fengi umtalsverði hærri fjárveitingar til rekstrar en nú er og þar með mælti hann gegn eigin fjármálaáætlun.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa þessu til viðbótar gagnrýnt búvörusamningana ákaft síðustu daga og samkvæmt því virðist ekki vera meirihluti á þingi fyrir samningum sem bæði forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra hafa nú þegar skrifað undir.

Ríkisstjórn ríka fólksins er því stýrt með alls konar fyrirvörum síðustu lífdagana. Það er ekki trúverðugt eða merki um stefnufestu og vönduð vinnubrögð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Þorsteinn Jón Óskarsson

    Vanlíðan meðal fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna á eftir að koma betur í ljós en mun engu breyta. Flokkseigendafélög B og D munu sjá til þess.

  • Gunnbjörn

    Er þetta nokkuð óeðlilegt svona rétt fyrir kosningar. Stjórnin lifir það er ekkert skárra sem getur tekið við. Það sáum við með Jóhönnu stjórninni og núverandi stjórnarandstaða er ansi fátækleg

  • Og þú átt að heita leiðtogi stjórnarandstöðunnar?

    Þú átt langt í land.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur