Fimmtudagur 22.09.2016 - 13:24 - 8 ummæli

Besta heilbrigðisþjónusta í heimi.

Samfylkingin tekur undir ákall 87.000 Íslendinga um að stórauka framlög til heilbrigðisþjónustunnar. Það er óásættanlegt að spítalar séu sveltir, á meðan efnahagur er á uppleið. Veikir Íslendingar og fjölskyldur þeirra, eiga að hafa forgang. Við eigum öll að geta gengið að öflugri opinberri heilbrigðisþjónustu um allt land. Og hún á að vera ókeypis.

Já, við höfum efni á þessu. Við erum rík af auðlindum. Það er ekki eftir neinu að bíða.

En meira fjármagn dugar ekki eitt og sér til að bæta opinberu þjónustuna. Við verðum að hlusta á okkar færasta fólk og breyta heilbrigðisþjónustunni svo peningarnir nýtist betur. Mesta þörfin er í opinberu þjónustunni og þangað viljum við beina kröftum okkar. Við viljum að nýr Landspítali rísi sem fyrst og að heilsugæslan geti tekið á móti öllum sem þurfa aðstoð hratt og örugglega, líka þeim sem þurfa á sálfræðiþjóðnustu að halda.

Lækna á sjúkrahúsin

Landlæknir hefur bent á nauðsyn þess að ráða lækna í full störf á Landspítalanum. Því erum við sammála en í dag eru margir læknar í hlutastarfi, sem ógnar öryggi sjúklinga og gerir rekstur spítalans óhagkvæman. Skýrsla McKinsey um stöðu Landspítalans, sem kom út í síðustu viku, tekur í sama streng. Þar kemur fram að 30% lækna Landspítala eru í hlutastarfi en eingöngu 3 – 7% lækna á sjúkrahúsunum sem voru til samanburðar. Ef yfirlæknar eru undanskyldir er hlutfallið á Landspítalanum þannig að um helmingur lækna er í hlutastafi.

Skýrari markmið

Skýrslan sýnir auk þess fram á alvarleg áhrif sem einkarekstur getur haft, ef ekki er vel haldið utan hann. Hálskirtlatökur eru t.d. óeðlilega algengar á Íslandi. Og reyndin er að við tökum hálskirtlana úr gríðarlegum fjölda barna. Það gengur þvert á bestu ráðleggingar og þróunina í öðrum ríkjum og skapar auk þess óþarfa áhættu. En mjaðmaskiptaaðgerðir eru hins vegar allt of fáar í samanburði við önnur Evrópuríki. Svo virðist sem að flóknar og lífsnauðsynlegar aðgerðir séu síður í forgangi. Við verjum peningunum frekar í það sem er einfalt og ódýrt.

Órjúfanleg bönd

En Landspítalinn er ekki eyland heldur hluti af heilu heilbrigðiskerfi um allt land og svo að þjóðarsjúkrahúsið geti sinnt sínum skyldum þarf önnur þjónusta að vera góð. Stóru sjúkrahúsin, sjúkraflutningar, minni heilbrigðisstofnanir, hjúkrunarheimilin og heimaþjónustan. Allt tengist þetta órjúfanlegum böndum.

Verkefnið er því stærra en eingöngu að auka fjármagnið, en það sem ég get gert sem stjórnmálamaður er að setja nægt fjármagn inn í heilbrigðisþjónustuna og gefa okkar færustu sérfræðingum og stofnunum tækifæri til að þróa bestu heilbrigðisþjónustu í heimi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

 • Gledst yfir baráttuviljanum vid ad stydja endurreisn heilbrigdiskerfisins. Ad mörgu er ad huga, sakna þó framtídarsýn. Td drífa sig ad byggja vidbyggingu fyrir tugi milljarda sem ekki munu skila sér tilbaka í þjódfélagid med auknu leguplássi. Mikid verid skrifad um klúdursleg vinnubrögd þessa verkefnis.
  Eins og sakir standa eru deildur hálf lokadar vegna manneklu. Amk mun vidbyggingin ekki fá mig til ad íhuga heimkomu.
  Nú þegar heilbrigdismálin eru loksins ordid eitt adal kosningarefnid þá á ad nyta þad til ad styrkja heilbrigdiskerfid til framtidar – ekki skyndilausnir takk!

 • Það sem bannað hefur verið að ræða á RÚV en stór hluti þjóarinnar vill, ekki síst fyrir kosningar og RÚV passar nú rækilega upp á.

  „Það einkennilegasta við umræðuna um heilbrigðismálin, einkavæðingu og byggingaráformin nú t.d. við Nýjan Landspítala á Hringbraut er ÞÖGNIN hjá stærstu fjölmiðlunum ekki síst RÚV, ríkisfjölmiðli allra landsmanna. Sammerkt stærstu mistökum aldarinnar í heilbrigðisstjórnun að mínu mati og þar sem hagsmunir fjárfesta, Reykjavíkurborgar sjálfrar og verktaka að byggja nú sem mest úr steypu, járni og gleri í stað uppbyggingu mannauðs, heilbrigðisstarfsmanna sem ættu að vera til þjónustu reiðubúnir fyrir alla. Þróunar til sem bestrar heilbrigðisþjónustu fyrir alla þá sem þurfa á t.d. nauðsynlegri sjúkrahúsvist að halda eða bara góðri heilsu sem lengst með góðri heilsugæslu. Úrræðum fyrir aldraða með legurýmum fyrir alla þá sem á þurfa að halda, í stað yfirfullrar bráðamóttöku og þar sem gamla fólkið og aðrir finna sig jafnvel óvelkomið. Aðflæðis- og fráflæðisvandi þar sem sjúklingurinn kemst ekki strönd né lönd og daglega er í fréttum. Ekki einu sinni að hleypa umræðu hjá 80% þjóðarinnar að byggja mætti nýtt og mikið hagkvæmara sjúkrahús á betri stað en nú er ákveðið á gömlu og þröngri Hringbrautarlóðinni með bútasaum og endalausuviðhaldi eldri bygginga. Framkvæmd sem gæti skapað tugi milljarða króna í hagkvæmari rekstri og margir hafa bent meðal annars SBSBS.“
  http://blog.pressan.is/vilhjalmurari/2015/12/12/ruv-myrin-og-thjodfelagsumraedan/

 • Hvað kostar slíkt?

  Ath 87.000 voru ekki undirskriftir eftir kennitölum (líkt og t.d. þær 70.000 er bárust með flugvöllinn) heldur netföng.
  Ekkert hefti neinn að gefa upp hvaða nafn sem er svo lengi sem að netfangið hafi ekki þegar verið komið.

 • Best í heimi, er þetta ekki aulalegt.

 • Ásmundur

  Eftir öll „heimsmet“ SDG, sem aðeins hafa orðið honum til háðungar, finnst mér afar misráðið af Samfylkingunni að taka upp sama talsmáta.

  Það er líka mjög ótrúverðugt með heilbrigðiskerfið nánast i rúst að stefna á heimsmet. Minni skref vektu meira traust.

  Hlutur sjúklinga í kostnaði við heilbrigðisþjónustu er allt of hár. Nú er nýbúið að hækka hann enn meira hjá flestum enda taka þeir á sig minni kostnað þeirra sem áður greiddu mest.

  Hins vegar held ég að það sé mikið óráð að fella hlut sjúklinga alveg niður. Það er þó rétt að hafa reglur sveiganlegar þannig að tekið sé tillit til tekna sjúklinga.

  Ætlar Samfylkingin að einblína á heilbrigðiskerfið? Hvað með aðra innviði eins og menntamál, vegamál, lögreglu ofl?

 • Sigurður

  En það var ekki óásættanlegt að svelta Landspítalann meðan þið byggðuð snobbhúsið í fjörunni?

  Hvað varð annars af fyrningarleiðinni? Var hún kannski bara fyrir kosningaloforðin…

  Forgangsröðun ykkar í ríkisstjórn var vægast sagt stórundarleg.

 • Þorsteinn Jón Óskarsson

  Styð það að heilbrigðiskerfinu verð komið í það horf sem best gerist á Norðurlöndum ásamt öllum þeim góðu málum sem þú ert að berjast fyrir svo sem eðlilegan arð af náttúruauðlindum og sanngjarnt skattakerfi og alls þess sem hægt er að bæta í landinu okkar fyrir þann arð. Þakka þér Oddný málefnalega og rökfasta baráttu.

 • Valgeir Matthías Pálsson

  Besta heilbrigðiskerfi í heimi? Stutta svarið er NEI!

  Ömurlegasta heilbrigðiskerfi sem til er á jarðar kringlunni. Allavega er það upplifun mín og margra annarra sem ég þekki.

  Fólk fær ekki heilbrigðisþjónustu hér á landi. Fólk er sárþjáð heima hjá sér svo dögum, vikum, mánuðum og árum skiptir

  Ég segi fyrir mig. Ég veigra mér fyrir að nota þjónustu LSH í dag vegna þess m.a. að mér mætir bara starfsfólk sem er með hroka og yfirgang t.d. á deildum eins og bráðamóttöku slysadeildar og fleiri deildum. Þetta er ömurlegt en svona er lífið á LSH.

  Staðreyndirnar tala sínu máli. McKinsey skýrslan hefur talað og þar kemur íslenskt heilbrigðiskerfi ekki vel út. Það segja skýrsluhöfundar í það minnsta.

  Ömurlegt heilbrigðiskerfi þar sem mörgum er vísað frá sökum þess m.a. að þeir hafa átt við einhverja fyrri sögu um veikindi.

  Það er staðreynd að mörgum einstaklingum sem hafa t.d. átt við þunglyndi eða annað að þeim sé vísað frá. Það er slæmt en svona virkar kerfið á LSH.

  Eitt sinn greindur með veikindi – Ávalt með veikindin innan LSH eins lengi og þú lifir.

  Þetta er ömurlegt heilbrigðiskerfi og æji ég veit það ekki. Þetta er í raun mannréttindabrot hvernig komið er fram við fólk á Íslandi hér.

  Stjórnarskrárbrot.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur