Sunnudagur 23.10.2016 - 14:24 - 1 ummæli

Ábyrg stefna og útfærðar leiðir Samfylkingarinnar

Eftir kosningar verða kaflaskil og tækifæri til að gera breytingar sem skipta máli fyrir almenning í landinu. Kjósendur ráða ferðinni og niðurstaðan verður vonandi hagfelld þeim flokkum sem vilja sjá umbætur strax.

Samfylkingin er málsvari barnafjölskyldna. Við viljum að þær fái betri stuðning með því að lengja fæðingarorlofið og hækka barnabæturnar. Við þurfum öll að búa einhvers staðar og Samfylknigin hefur útfært leið til þess að styðja við leigjendur og ungt fólk sem vill komast á húsnæðismarkaðinn með 5.000 leiguíbúðum á næstu fjórum árum og forskoti á fasteignamarkaði með fyrirframgreiddum vaxtabótum.

Að lækka vexti er eitt stærsta hagsmunamál fjölskyldna og nýr gjaldmiðill er valkostur sem verður að bjóðast Íslendingum. Samfylkingin vill að þjóðin fái að kjósa um áframhald viðræðna við Evrópusambandið.

Samfylkingin leggur ríka áherslu á að auka jöfnuð með réttlátari skiptingu auðsins sem auðlindir okkar gefa og við höfum útfært leiðir til þess. Við viljum bjóða út kvótann og afnema undanþágur ferðamanna frá almenna virðisaukaskattþrepinu. Við erum sannarlega rík af auðlindum, en verðum að fá fleiri krónur fyrir hvern ferðamann, fyrir hvern veiddan fisk og hvert selt megawatt.

Stóru málin

Við leggjum áherslu á velferð, með húsnæðisöryggi, gott heilbrigðiskerfi, góðri menntun og atvinnumarkaði sem býður um upp á áhugaverð og vel launuð störf. Við leggjum mikla áherslu á jafnrétti kynjanna, mannréttindi minnihlutahópa og flóttafólks, á nýja stjórnarskrá og að Ísland leggi sig raunverulega fram í baráttunni gegn hlýnun jarðar.

Við eigum að virða alþjóðaskuldbindingar í loftslagsmálum og stíga ákveðin skref í átt að því að gera Ísland kolefnishlutlaust á næstu áratugum. Mikilvægasta skrefið í þá átt er að vinna áætlun fyrir orkuskipti og hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis. Súrnun sjávar er vaxandi vandamál og getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir vistkerfi Íslands. Við eigum að standa okkur miklu betur í stærsta sameiginlega verkefni mannkyns sem er að stöðva hlýnun jarðar.

Verkalýðshreyfingin og jafnaðarmannaflokkurinn

Vinnumarkaðurinn hefur verið uppnámi allt kjörtímabilið. Ástæðan er sú að stjórnvöld hafa ekki unnið með aðilum vinnumarkaðarins að sameiginlegri lausn. Þessi tregða stjórnvalda er ástæða þess að samstaða næst ekki og stöðugleikanum er ógnað. Samfylkingin mun vinna með verkalýðshreyfingunni að kjarabótum. Samhljómur er með málflutningi Samfylkingarinnar og verkalýðshreyfingarinnar um gjaldfrjálsra heilbrigðisþjónustu, betri stuðningi við barnafjölskyldur, nýjum húsnæðislausnum og nýjum gjaldmiðli. Að þessu verður umbótastjórn að vinna. Félagslegur stöðugleiki verður að vera til staðar svo hægt sé að viðhalda þeim efnahagslega stöðugleika, sem fyrir ótrúlegt harðfylgi náðist á fjórum árum eftir hrun.

Kjósum Samfylkinguna

Baráttan gegn aukinni misskiptingu og fyrir endurreisn heilbrigðiskerfisins þolir enga bið. Samfylkingin er með útfærðar lausnir og dýrmæta reynslu eftir að hafa tekið til eftir hrunið. Við getum lagt þá reynslu og okkar leiðir inn í umbótastjórn með ýmsum hætti, en mikilvægast er að breytingar eigi sér stað strax eftir næstu helgi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur